Úrlausnir

Undirskriftasöfnun á Kjosum.is

24.5.2011

Persónuvernd hefur tekið ákvörðun í máli manns sem taldi sig vera á lista undirskriftarsöfnunar á kjosum.is. Taldi stofnunin að dráttur á svari til málshefjanda um hvort hann væri á listanum stríddi gegn 14. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 77/2000.

Ákvörðun


Hinn 10. maí 2011 tók Persónuvernd svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2011/369:

I.
Bréfaskipti

Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta af tilefni erindis J(hér eftir nefndur „málshefjandi“) sem henni barst í tölvubréfi hinn 3. apríl 2011 varðandi undirskriftasöfnun á vefsíðunni kjosum.is með kröfu um að forseti Íslands nýtti málskotsrétt sinn samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar og synjaði lögum nr. 13/2011 staðfestingar þannig að skorið yrði úr um gildi þeirra í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í erindi kvartanda er vísað til þess að hann hafi sent aðstandendum undirskriftasöfnunarinnar, þ.e. samtökunum Samstaða þjóðar gegn Icesave, erindi þar sem hann hafi farið fram á að vita hvort kennitala hans væri á undirskriftalistanum. Þá segir að ekki hafi borist svar og fer hann því fram á að Persónuvernd hlutist til um að aðstandendur söfnunarinnar veiti honum þær upplýsingar.

Áður en Persónuvernd barst framangreint erindi hafði henni borist afrit af tölvubréfi málshefjanda til áðurnefndra samtaka, sendu 13. mars 2011. Þar var um að ræða ítrekun á framangreindri beiðni sem send var í tölvubréfi hinn 17. febrúar s.á. Þar var jafnframt tekið fram að ef kennitalan væri á listanum óskaði hann þess að hún yrði fjarlægð áður en undirskriftirnar yrðu afhentar forseta Íslands. Einnig sendi kvartandi samtökunum afrit af ökuskírteini sínu í tölvubréfi hinn 21. febrúar 2011, því til staðfestingar að hann væri sá sem hann segðist vera.

Að fengnu erindi málshefjanda, dags. 3. apríl 2011, sendi Persónuvernd bréf, dags. 11. s.m., til A sem komið hefur fram sem einn af forsvarsmönnum umræddrar undirskriftasöfnunar, m.a. á fundi í Persónuvernd hinn 18. febrúar sl. Með vísan til þess minnti stofnunin hann á 18. gr. laga nr. 77/2000 þar sem mælir fyrir um rétt hins skráða til að fá vitneskju um vinnslu persónuupplýsinga um sig.

Þess var óskað að A upplýsti Persónuvernd um það fyrir 19. apríl 2011 hvort orðið hefði verið við beiðni málshefjanda um vitneskju um það hvort kennitala hans væri á umræddum undirskriftalista. Ekki barst svar og var því erindi Persónuverndar ítrekað með bréfi, dags. 27. s.m.

Hinn 2. maí barst svar frá A. Þar segir:

„Því miður hefur [J] ekki verið svarað. Stafar það af tímaskorti ábyrgðarmanns síðunnar og vanefndum þess aðila sem ætlaði að sjá um það verk fyrir undirritaðan.

Öllum fyrirspurnum verður svarað og hefur vinna hafist við það að nýju. Ég áætla að öllum hafi verið svarað eigi síðar en 16. maí næstkomandi. Áfram verður tekið við beiðnum um uppflettingar þar til Persónuvernd hefur lokið meðferð sinni á þeim málum sem stofnuninni hafa borist vegna undirskriftasöfnunarinnar, en eftir það verður gagnagrunni eytt.“


II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

2.
Í 18. gr. laga nr. 77/2000 er að finna ákvæði um rétt hins skráða til að fá vitneskju um vinnslu persónuupplýsinga um sig frá ábyrgðaraðila, þ.e. þeim sem ákveður tilgang vinnslu persónuuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna, sbr. 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Líta verður svo á að samtökin Samstaða þjóðar gegn Icesave hafi stöðu slíks aðila vegna vinnslu persónuupplýsinga í þágu umræddrar undirskriftasöfnunar.

Um framangreindan upplýsingarétt segir í 1. mgr. 18. gr.:

„Hinn skráði á rétt á að fá frá ábyrgðaraðila vitneskju um:
hvaða upplýsingar um hann er eða hefur verið unnið með;
tilgang vinnslunnar;
hver fær, hefur fengið eða mun fá upplýsingar um hann;
hvaðan upplýsingarnar koma;
hvaða öryggisráðstafanir eru viðhafðar við vinnslu, enda skerði það ekki öryggi vinnslunnar.“

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 77/2000 skal erindi samkvæmt framangreindu afgreitt svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan eins mánaðar frá mótttöku þess. Þó má, samkvæmt 2. mgr. sömu greinar, afgreiða erindi síðar ef annað er ómögulegt af sérstökum ástæðum. Þá skal hins vegar gefa hlutaðeigandi skriflegar skýringar á ástæðum tafarinnar innan mánaðarfreststs og gefa skriflegar skýringar á ástæðum tafarinnar og hvenær svars sé að vænta.

Í athugasemdum við 2. mgr. 14. gr. í greinargerð með því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, segir að það hvað teljist sérstakar ástæður verði meta hverju sinni og ráðist m.a. af því hvaða réttindi það eru sem viðkomandi vill nýta sér og hversu umfangsmikil þau séu. Algengasta skýring þess að ábyrgðaraðili geti ekki fullnægt skyldu sinni í tæka tíð sé væntanlega takmörkuð afkastageta hans. Slíkt geti í vissum tilvikum verið ásættanleg skýring. Af athugasendum verður ráðið að það eigi þó einkum við þegar það kostar nokkra vinnu að taka saman upplýsingar handa hinum skráða.

Ekki verður séð að hér eigi við ástæður sem falli undir 14. gr. ákvæðisins. Af því leiðir jafnframt að samtökin Samstaða þjóðar gegn Icesave eiga þegar að hafa upplýst J um hvort kennitala hans sé á umræddum undirskriftalista.

Fyrir liggur að samtökin hyggjast svara öllum fyrirliggjandi beiðnum þar að lútandi fyrir 16. maí nk. Með vísan til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 77/2000 er lagt fyrir samtökin að gera Persónuvernd, í síðasta lagi fyrir þann dag, skriflega grein fyrir hvernig beiðnum hafi verið svarað. Þá er lagt fyrir samtökin að upplýsa sérstaklega um svar til málshefjanda innan sama frests.


Á k v ö r ð u n a r o r ð:

Dráttur samtakanna Samstaða þjóðar gegn Icesave á að svara J um hvort kennitala hans hafi verið skráð á undirskriftalista á vefsíðunni kjosum.is stríðir gegn 1. mgr. 14. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Samtökin skulu eigi síðar en hinn 16. maí nk. gera Persónuvernd skriflega grein fyrir hvernig beiðnum þar að lútandi hafi verið svarað. Þá skal innan sama frests upplýst sérstaklega um svar til J.



Var efnið hjálplegt? Nei