Úrlausnir

Opnun bréfs, ljósritun og Fésbókarfærsla

1.6.2011

Persónuvernd hefur vísað frá kvörtun konu yfir að bréf sem henni var sent hafi verið opnað, ljósritað og skrifuð Fésbókarfærsla um efni þess.

Var málinu vísað frá á grundvelli eftirfarandi:
a)    Að það væri ekki á forræði Persónuverndar að skera úr um það hvort brotið hafi verið gegn hegningarlögum með röskun á bréfleynd.  
b)    Að ekki hafi verið um rafræna vinnslu að ræða þegar skjalið var ljósritað því vélin var ekki af stafrænni gerð.
c)    Að Fésbókarfærslan tengdist tjáningarfrelsi og ágreiningsefni þar að lútandi féllu utan valdsviðs Persónuverndar.

Vegna einkalífssjónarmiða er ákvörðunin ekki birt í heild; hlutar úr málavaxtalýsingu hafa verið fjarlægðir.




Úrskurður

 

Þann 10. maí 2011 kvað stjórn Persónuverndar upp eftirfarandi úrskurð í máli nr. 2011/354:

 

I.

Tildrög máls og bréfaskipti

 

1.

Þann 9. mars 2011 barst Persónuvernd kvörtun B, dags. 5. mars s.á., af tilefni þess að móðir hennar, H, opnaði bréf sem henni var sent í lokuðu umslagi, nánar tiltekið var um að ræða reikningsyfirlit frá Landsbankanum. Það hafi hún ljósritað og lesið ásamt annarri dóttur sinni, móður og systur. Þá var einnig kvartað yfir því að H birti upplýsingar úr fyrrgreindu ársyfirliti á Fésbókarsíðu sinni. Í kvörtuninni sagði m.a.:

 

„Undirrituð deilir póstkassa með þeirri sem kvartað er yfir en við höfum sama lögheimili þó svo að undirrituð búi í herbergi sem leigt er út af húsfélaginu, [...].

Undirrituð fékk ekki ársyfirlitið sitt frá [...]bankanum eins og vanalega en fékk afspurn af því í lok febrúar, frá dóttur þeirrar sem kvartað er yfir, að hún hefði tekið upp ársyfirlitið og lesið það gaumgæfilega ásamt dóttur sinni.

Degi, eða tveimur dögum síðar, birtir sú sem kvartað er yfir, þær upplýsingar eða fullyrðingar sem hún les út úr umræddu yfirliti, á fésbókarsíðu sinni. Undirrituð og sú sem kvartað er yfir eiga marga sameiginlega vini á fésbókinni sem kunna að lesa umræddar fullyrðingar, sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum og fela í sér meiðandi ummæli í garð umræddrar og kærasta hennar.

Þennan sama dag, fær undirrituð aðgang að umræddu ársyfirliti, sem sú sem kvartað er yfir, hafði afritað og afhent móður sinni. Á afritinu eru ýmsir færsluliðir undirritaðir og augljós rithönd þeirrar sem kvartað er yfir [...].“

 

Með kvörtuninni fylgdi einnig afrit af bankayfirliti kvartanda ásamt skjáskoti af framangreindri stöðuuppfærslu H á Fésbókinni.

 

2.

Með bréfi, dags. 16. mars 2011, tilkynnti Persónuvernd H um málið og bauð henni að koma fram með andmæli sín. Frestur til að svara var veittur til 30. mars 2011. Þann 29. mars 2011 barst Persónuvernd svarbréf H, dags. 25. mars s.á. Þar segir m.a.:

„Dóttir mín [kvartandi] hefur lengst af búið hjá mér eftir að við faðir hennar skildum [...] Ég hef hingað til ekki látið hana borga neitt heim og tilkynnt henni formlega að ég vilji m.a. styrkja hana til náms með þessum hætti. [...] Ég hef alltaf séð um hennar fjármál, m.a. gert skattskýrsluna hennar á hverju einasta ári, einnig í fyrra. Vissulega varð [kvartandi] 18 ára og þar með fjárráða árið [...] en hingað til hefur hún leitað til mín með sín fjármál og beðið mig að gera skattskýrsluna fyrir sig og hef ég gert það, nú síðast í fyrra að hennar ósk. Ég hafði einnig reiknað með að gera skattskýrsluna hennar í ár samkvæmt venju enda hafði ég ekki fengið nein önnur fyrirmæli frá [kvartanda] þar til nú í marsmánuði. [...]

Í febrúar sl. var svo farið að styttast í gerð skattframtala. Þá ákvað ég í tengslum við tiltekt heima að fara í gegnum þennan rekka og sortera pappíra og reikninga svo allt væri til reiðu við framtalsgerðina þegar til kæmi. Þar sem ég var að sortera og flokka, en til þess þurfti ég jú að skoða pappírana, þá sá ég m.a. umrætt yfirlit og á því nokkrar mjög háar úttektir eða millifærslur sem ekki voru í neinu samræmi við hefðbundna eyðslu [kvartanda] sem ég hafði séð m.a. í tengslum við vinnu mína við skattframtöl hennar í gegnum árin. Eins og sést væntanlega á yfirlitinu sem [kvartandi] tiltekur sem fylgiskjal með kvörtun sinni þá er um mjög háar upphæðir að ræða. Ég tók einnig eftir að þessar háu upphæðir runnu allar til núverandi kærasta hennar enda var fullt nafn hans skráð skýrt og greinilega á yfirlitið við færslurnar eins og væntanlega sést. Mér einfaldlega brá mjög mikið þegar ég sá þetta því að þessar færslur voru ekki heldur í neinu samræmi við þær upplýsingar sem [kvartandi] hafði sjálf nýlega gefið um kostnað varðandi viðgerð o.fl. á bifreið hans. Ég taldi því rétt að fara betur yfir þessar færslur til að ganga úr skugga um að þetta væri rétt athugað hjá mér og þess vegna tók ég afrit frekar en að krota á sjálft frumritið. Hin dóttir mín, yngri systir [kvartanda], kom svo heim á meðan á þessu stóð og þá sýndi ég henni yfirlitið þar sem ég var að vona að hún hefði betri upplýsingar sem gætu þá skýrt þetta enda eru þær systur allnánar. Því miður þá reyndist svo ekki vera sem jók enn á áhyggjur mínar.

Ástæðan fyrir þessum miklu áhyggjum mínum er sú að [...]. Ég tók  tók því þá ákvörðun að ræða við móður mína um þetta mál og sýna henni afritið af yfirlitinu þar sem hún hefur sinnt ömmubarni sínu mjög mikið alla tíð og [...] Ég skildi ljóritið eftir heima hjá ömmu hennar svo hún gæti hugsað þetta mál betur og hvað við gætum gert til að standa vörð um hag [kvartanda]. Systir mín [...] sá svo þetta yfirlit hjá henni þar sem hún var líka mjög áhyggjufull.  [...]

Þegar allt framangreint lá ljóst fyrir og áhyggjur mínar virtust á rökum reistar eftir að ég hafði séð umrætt yfirlit þá reyndi ég ítrekað m.a. með aðstoð systur hennar, móður minnar og systur minnar að ræða þetta við dóttur mína og benda henni á að fara varlega enda höfum við allar miklar áhyggjur af henni. Hún vildi alls ekki hlusta á nein varnaðarorð og skellti algjörlega við skollaeyrum. Var svo komið að þetta var farið að valda mér ekki bara miklum áhyggjum heldur einnig hugarangri. Í örvæntingu minni í að reyna ná til hennar á einhvern hátt og sem síðasta von um að hún hugsaði málið þá setti ég á facbook síðu mína færslu þar sem ég set fram eins og hugleiðingu dæmi þar sem ekki koma fram nein nöfn og bæði getur verið um að ræða stúlkuna eða piltinn. [...] Þótt ég teldi sjálf að þessi færsla væri ekki persónurekjanleg, þá um leið og ég frétti að [kvartandi] teldi að þessi færsla gæti verið persónurekjanleg þá fjarlægði ég ummælin af síðunni. “

 

Með tölvubréfi, dags. 30. mars 2011, var kvartanda kynnt svarbréf móður sinnar. Þá var henni boðið að koma á framfæri frekari athugasemdum ef talin væri þörf á, með sérstöku tilliti til ákvæða 3. og 5. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Svarbréf kvartanda barst 6. apríl 2011 en þar segir m.a.:

„Samband okkar mæðgnanna hefur verið stirt svo mánuðum skiptir og ég hef því eytt litlum sem engum tíma í íbúð móður minnar. Þvert á móti hef ég forðast það í lengstu lög  og ekki hefur það hvarflað að mér undanfarna mánuði að taka upp persónulegan póst og láta hann liggja fyrir allra augum í búð hennar.  Á þessum tíma hefur okkur lent ítrekað saman vegna afskipta móður minnar af fjármálum mínum.

Ég hef ítrekað gert henni það ljóst að þau mál séu mín einkamál sem komi henni ekki við og að ég vilji ekki ræða þau við hana. Henni var því fullljóst, þegar hún ákvað að lesa yfirlitið mitt frá [...]bankanum, að ég vildi alls ekki að hún læsi það. Hún hafði hvorki fyrir því að afla samþykkis míns til að fá að lesa það né mátti ætla að ég hefði veitt samþykki mitt.

[...] Sannleikurinn er sá að ég og kærastinn minn rekum  og eigum saman bíl sem er skráður á okkur bæði. Hvernig við kjósum að skipta þeim kostnaði er okkar einkamál.

[...] Ég er sjálfráða einstaklingur sem á rétt að að taka ákvarðanir í fjármálum óháð því hvað móður minni kann að finnast.  Mér þótti á mér brotið, þegar hún las ársyfirlitið mitt með meðfylgjandi afritun og dreifingu og vil einfaldlega að lagt sé mat á réttarstöðu mína og lögmæti þessa.“

Með bréfi, dags. 19. apríl 2011, óskaði Persónuvernd eftir upplýsingum frá H um gerð þeirrar ljósritunarvélar sem notuð var við afritunina. Var sérstaklega óskað upplýsinga um hvort að umrædd vél væri stafræn eða ekki þar sem slíkt gæti skipt máli um hvort málið heyrði undir gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.  Svarbréf barst þann 27. apríl 2011. Þar segir m.a.:

„Undirritaðri hefur nú borist bréf yðar, dagsett 19.4. sl. þar sem óskað er eftir upplýsingum um gerð þeirrar ljósritunarvélar sem notuð var við afritunina. Er sérstaklega óskað eftir upplýsingum um hvort umrædd vél sé stafræn eða ekki. Umrædd vél er ekki stafræn heldur gamaldags einföld ljósritunarvél sem einungis ljósritar eitt afrit á pappír og skapar ekki stafræna skrá. B hefur þegar undir höndum það eintak sem varð til við ljósritunina.[...]“

 

II.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um lögmæti þess þegar H opnaði bréf sem [bankinn] sendi B. Einnig er deilt um hvort H hafi mátt taka ljósrit af bréfinu og sýna það öðrum.  Loks lýtur það að því hvort H hafi með ólöglegum hætti gert persónuupplýsingar um B opinberar á Netinu, n.t.t. með stöðuuppfærslu á Fésbókarsíðu sinni.

1.

Opnun umslags

Kvörtun B lýtur í fyrsta lagi að því að móðir hennar, H, hafi opnað bréf sem henni var sent í lokuðu umslagi. Um var að ræða reikningsyfirlit frá [...]bankanum. Í ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eru m.a. ákvæði um viðurlög við því að skýra frá einkamálefnum og raska bréfaleynd.  Samkvæmt 228. gr. þeirra, með áorðnum breytingum, varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári  ef maður hnýsist í bréf, skjöl, dagbækur eða önnur slík gögn sem hafa að geyma upplýsingar um einkamálefni manna og hann hefur komist yfir gögnin með brögðum,  opnað bréf, farið í læsta hirslu eða beitt annarri áþekkri aðferð. Þá segir í 229. gr. sömu laga að hver sá sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Í. 242. gr. laganna er afmarkað hvaða brot sæta saksókn, hvaða brot sæta ákæru ef sá krefst þess, sem misgert var við og hvenær sá einn sem misgert er við getur höfðað mál út af broti. Það á m.a. við um brot gegn 228. og 229. gr. laganna. Það er hins vegar ekki á forræði Persónuverndar að fjalla um slík mál eða skera úr um það hvort brotið hafi verið gegn almennum hegningarlögum. Það er hlutverk dómstóla.

Með vísun til framangreinds er vísað frá þeim þætti kvörtunar B er lýtur að röskun á bréfleynd í ljósi ákvæða almennra hegningarlaga.

 

2.

Ljósritun bankayfirlits

Kvörtunin lýtur í öðru lagi að því að H ljósritaði bankayfirlit kvartanda og sýndi það öðrum. Hér þarf að meta hvort um hafi verið að ræða vinnslu persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Óumdeilt er að á bankayfirlitinu komu fram upplýsingar um fjárhagsstöðu, nafn, kennitölu og heimilisfang kvartanda. Í 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 segir að persónuupplýsingar séu sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til hans. Því telst umrætt yfirlit hafa að geyma persónuupplýsingar í skilningi laganna.

Gildissvið laganna nær ekki til allrar meðferðar á slíkum upplýsingum. Þau ná í fyrsta lagi til handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga ef þær eru eða eiga að verða hluti af skrá. Ekki liggur fyrir að að svo hafi verið. Lögin gilda í öðru lagi um sérhverja rafræna vinnslu slíkra upplýsinga. Til að vinnsla teljist hafa verið rafræn í þessum skilningi nægir ekki að rafmagni hafi verið beitt heldur þarf hún að hafa verið stafræn, þ.e. hafa að einhverju leyti verið unnin með tölvutækni. Samkvæmt svari H tók hún umrætt afrit af bankayfirliti kvartanda á vél sem ekki er stafrænnar gerð. Telst því ekki hafa verið um að ræða rafræna vinnslu í skilningi laganna og fellur umrædd ljósritun því ekki undir valdsvið Persónuverndar.

Með vísun til framangreinds er vísað frá þeim þætti kvörtunar B er lýtur að því þegar H ljósritaði bankayfirlit B og sýndi það öðrum.

 

3.

Upplýsingar birtar á Fésbók

Kvörtun B lýtur í þriðja lagi að því að móðir hennar, H, hafi birt upplýsingar um sig á Fésbókinni. Um það hvort um opinbera birtingu upplýsinganna hafi verið að ræða skiptir máli að H er með lokaða Fésbókarsíðu, þ.e. eingöngu vinir hennar hafa aðgang að henni. Hún á 124 vini á síðunni en samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Facebook er meðalfjöldi vina hjá notendum um 130. Má því ætla að stöðuuppfærslur hennar séu þess eðlis að eingöngu þeir sem hún hefur samþykkt að veita aðgang að Fésbókarsíðu sinni sjái þær og þær séu ætlaðar til persónulegra nota en ekki opinberra. Þá skiptir máli að í umræddri stöðuuppfærslu kom hvorki nafn kvartanda né kærasta hennar fram.

Þrátt fyrir framangreint, og að mál þetta varði vinnslu persónuupplýsinga, lýtur þessi hluti þess að því hvort H hafi, með tjáningu sinni í orði og verki, þegar hún birti umrædda stöðuuppfærslu á Fésbókarsíðu sinni, farið út fyrir ramma 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi. Hlutverk Persónuverndar er að hafa eftirlit með framkvæmd laga nr. 77/2000 en þau eru hins vegar byggð á því meginviðhorfi, sbr. ákvæði 5. gr., að það sé hlutverk dómstóla en ekki Persónuverndar að skera úr slíkum vafatilvikum.  Verður þessum þætti málsins því vísað frá.

 

N i ð u r s t a ð a

Vísað er frá kvörtun B yfir því þegar H afritaði bankayfirlit B og sýndi það öðrum, þar sem ekki telst hafa verið um rafræna vinnslu að ræða. Þá er vísað frá ágreiningi um stöðuuppfærslu H á Fésbókarsíðu og því álitaefni hvort sú aðgerð H að opna bréf til B hafi brotið gegn 228. gr og 229. gr. hegningarlaga enda er það hlutverk dómstóla að skera úr slíkum málum.




Var efnið hjálplegt? Nei