Úrlausnir

Ákvörðun um niðurfellingu máls

9.6.2011

Ákvörðun

Þann 10. maí 2011 tók stjórn Persónuverndar ákvörðun í máli nr. 2011/73:

1.
Kvörtun

Hinn 21. janúar 2011 barst Persónuvernd kvörtun H varðandi varðveislu persónuupplýsinga um gjaldþrot hans hjá Tekjubókhaldi ríksisins.  Í kvörtuninni sagði m.a.:

„Kvartað er yfir að upplýsingar um gjaldþrot séu geymdar í opinberum gagnagrunni, Tekjubókhaldi ríkisins, löngu eftir að Persónuvernd gerir einkaaðilum, Creditinfo, að fjarlæga þessar sömu upplýsingar þegar fjögur ár eru liðin frá lokum þrotabús.

[...] ...skiptalok voru 30. mars 2004 og í samræmi við það eyddi Creditinfo öllum færslum á mína kennitölu þann 30. mars árið 2008. Frá þeim degi hefur engar merkingar verið að finna í bönkum eða annars staðar í íslensku viðskiptalífi um gjaldþrot mitt frá 22. janúar 2003. [...]


Ég tel að skráning tekjubókhaldsins á þessum upplýsingum um mig þjóni ekki þeim tilgangi sem tekjubókhald ríkisins var sett á fót til að þjóna, sem sé skráningu og utanumhaldi tekna ríkisins.


Ég starfa nú sem sérfræðingur [...] hjá [...] Vegna starfs míns hef ég aðgang að tekjubóhaldi ríkisins. Það hefur jafnframt samstarfsfólk mitt við stofnunina. Þessi merking við kennitölu mína í tekjubókhaldinu er óásættanleg fyrir mig og stuðlar að því að skaða stöðu mína meðal samstarfsfólks míns. Tilganginn er erfitt að sjá.


Ég óska hér með eftir að Persónuvernd úrskurði um að þessar færslur verði fjarlægðar úr tekjubókhaldi ríkisins.“



2.
Skýringar og viðbrögð
ábyrgðaraðila

Með bréfi, dags. 25. janúar 2011, var Fjársýslu ríkisins tilkynnt um kvörtunina og gefið færi á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum. Persónuvernd óskaði m.a. eftir upplýsingum um það hvers vegna umræddar upplýsingar væru enn skráðar hjá Tekjubókhaldi ríksisins. Fjársýsla ríkisins svaraði með bréfi, dags. 9. febrúar 2011. Þar segir m.a.:

„TBR er hið almenna innheimtukerfi ríksisins frá árinu 2000. Fjársýsla ríkisins hefur umsjón með rekstri kerfisins og er með fullan aðgang að því. Öll innheimtuembætti ríkissjóðs nota kerfið, þ.e. sýslumenn og Tollstjóri. Auk þess nota nokkrar A-hluta stofnanir kerfið. Embætti ríkisskattstjóra, Yfirskattanefndar og Skattrannsóknarstjóra ríkisins hafa aðgerða- og skoðunaraðgang að kerfinu. Ríkisendurskoðun, tekju- og skattskrifstofa fjármálaráðuneytis og efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra hafa skoðunaraðgang að kerfinu.

Í stað þess að starfsmenn hjá öllum innheimtumönnum ríkissjóðs lesi Lögbirtingablaðið og geri síðan viðeigandi ráðstafanir í Vanskilakerfi TBR ákvað fjármálaráðuneytið í samvinnu við dómsmálaráðuneytið í kringum árið 2000 að TBR-kerfið fengi rafrænt upplýsingar um ýmsar lyktir í gjaldþrota-, nauðungarsölu- og greiðslustöðvunarmálum frá Héraðsdómi. Hér er um að ræða svipaðar upplýsingar og Creditinfo hefur fengið, en eitthvað takmarkaðri. Upplýsingarnar eru sendar daglega til TBR.


Starfsmenn hafa mismikinn aðgang að einstökum hlutum TBR-kerfanna, en þau eru: Álagningar-, Viðskiptamanna-, Innheimtu-, Greiðslu-, Bankagreiðslu-, Stýringa-, Vanskila- og Bókhaldskerfi. Starfsmönnum ber að hafa í heiðri ákvæði um þagnarskyldu samanber 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.


Í TBR eru kennitölumerkingar, sem snerta gjalþrotamál, hreinsaðar út úr stöðu- og hreyfingayfirlitum gjaldenda einu sinni á ári með runuvinnslu þegar fjögur ár eru liðin frá skiptalokum. Þá eru merkingarnar ekki sýnilega fyrir hinn almenna notenda. Gert er ráð fyrir að hreinsað verði út úr kerfinu þrisvar sinnum á ári. Á hinn bóginn eru kennitölumerkingarnar geymdar áfram í söguskrá. Umkvörtun H snýr að þeirri skrá. Reglur um líftíma kennitölumerkinga í söguskrá eru í vinnslu í samráði við Tollstjóra og fjármálaráðuneytið.


Kennitölumerkingar vegna fjárnáms eru hreinsaðar út úr stöðu- og hreyfingamyndum af innheimtumönnum eftir vinnslulistum sem embættin fá senda.


Innheimtumenn fá ábendingar um stöðu ýmissa merkinga í kerfinu sem ekki eiga við lengur og hreinsa þær út úr stöðu- hreyfingamyndun gjaldenda.


Staðið hefur verið til að eyða öllum merkingu í söguskrá hjá gjaldendum sem eru ekki með gjaldfallnar skuldir. Hins vegar höfum við verið í umræðu við innheimtumenn um þróun á sérstöku áhættugreiningakerfi eins og þekkist víða erlendis. Meðal annars af því hve skammt á veg sú vinna er komin hafa reglur um líftíma kennitölumerkinga í söguskránni ekki verið en
danleg ákveðnar. Stefnt er að því að hafa reglurnar tilbúnar í október nk. og að viðeigandi ráðstöfunum verði lokið fyrir næstu mánaðarmót.“

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2011, óskaði Persónuvernd eftir upplýsingum um það hver afstaða Fjársýslu ríkisins væri til þess að umræddum upplýsingum um gjaldþrot kvartanda yrði eytt í samræmi við 2. mgr. 26. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Þann 23. mars sl. barst Persónuvernd tölvubréf frá G hjá Fjársýslu ríkisins (FJS). Með því fylgdi afrit skeytis GÁ  hjá  FJS (til G) þar sem segir m.a.: „Þá er búið að eyða öllu út af [kvartanda]. Bæði úr Dómstólamyndinni og Gjaldandi - Kennitölumerkingar“ . Með bréfi 27. apríl var þetta staðfest formlega:

„Í bréfi Persónuverndar, dags. 28. febrúar sl. er óskað eftir afstöðu Fjársýslu ríkisins til eyðingar upplýsinga í TBR um gjaldþrot [kvartanda]. Fjársýslan ákvað í samræmi við 2. mgr. 26. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga að eyða upplýsingum um gjaldþrot [kvartanda]. Hinn 22. mars sl. var vanskilamerkingum vegna gjaldþrots [kvartanda] eytt út úr TBR og Persónuvernd gert kunnugt um það daginn eftir með rafpósti.

3.
Ákvörðun Persónuverndar

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirka vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Ágreiningur um vinnslu slíkra upplýsinga fellur undir Persónuvernd, sbr. 37. gr. laga nr. 77/2000.

Í 26. gr. laga nr. 77/2000 segir að ábyrgðaraðili skuli eyða persónuupplýsingum þegar ekki sé lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær. Ákvæði 26. gr. tekur til upplýsinga sem hvorki eru rangar né villandi. Ákvæði 26. gr. er að nokkru efnislega skylt 5. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna, en samkvæmt því ákvæði á ekki að varðveita persónuupplýsingar í því formi að unnt sé að bera kennsl á hinn skráða aðila lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu. Ef ákvæði annarra laga standa því ekki í vegi getur skráður aðili, í samræmi við framangreint, farið þess á leit að upplýsingum um hann verði eytt eða notkun þeirra bönnuð. Það er háð því að slíkt teljist réttlætanlegt út frá heildstæðu hagsmunamati.

Samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga nr. 77/2000 getur Persónuvernd, bæði í einstökum tilvikum eða með setningu almennra reglna, bannað notkun upplýsinga eða mælt fyrir um eyðingu þeirra. Í máli þessu liggur hins vegar fyrir að af hálfu ábyrgðaraðila, Fjársýslu ríkisins, hefur þegar verið tekin ákvörðun um að verða við beiðni hins skráða um eyðingu í samræmi við 2. mgr. 26. gr. laganna. Er því ekki til staðar ágreiningur um það atriði. Þykja því ekki efni til frekari umfjöllunar um málið og verður það fellt niður.



Var efnið hjálplegt? Nei