Úrskurður v. Guðfræðingatal - mál nr. 2003/103
Persónuvernd barst kvörtun vegna birtingar myndar og upplýsinga um kvartanda í Guðfræðingatali 1847–2002.
Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að ritstjóra og ritnefnd Guðfræðingatals 1847–2002 hafi verið heimilt að birta þar mynd af kvartanda auk upplýsinga um brautskráningu, prestsvígslu, skipun í embætti og ættir. Hins vegar hafi verið óheimilt að birta þar upplýsingar um einkunnir kvartanda svo og að auðkenna upplýsingar um A þar með tveimur stjörnum (**).
Hinn 19. maí 2003 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2003/103:
Með bréfi, dags. 3. febrúar sl., óskaði A eftir afstöðu Persónuverndar til þess hvort brotið hefði verið gegn lögum með birtingu myndar og upplýsinga um A í Guðfræðingatali 1847–2002. Með bréfi, dags. 21. s.m., bauð Persónuvernd Sigurði Jónssyni formanni ritnefndar guðfræðingatalsins, og Gunnlaugi Haraldssyni, ritstjóra þess, að tjá sig um erindið. Barst Persónuvernd síðan svarbréf þeirra, dags. 26. s.m. Með bréfi, dags. 7. mars sl., bauð Persónuvernd A að tjá sig um efni þeirra. Barst Persónuvernd svarbréf hennar, dags. 20. s.m. Taldi Persónuvernd nánari upplýsinga og gagna vera þörf og óskaði þeirra með bréfum til A, Sigurðar Jónssonar og Gunnlaugs Hraldssonar, dags. 11. apríl sl. Svaraði Sigurður með bréfi, dags. 15. s.m., Gunnlaugur með bréfi, dags. s.d., og A með bréfi, dags. 24. s.m.
Forsaga málsins er sú að sumarið 1999 barst A bréf frá ritnefnd Guðfræðingatals 1847–2002. Með bréfinu fylgdu eyðublöð sem beðið var um að fyllt yrðu út með persónulegum upplýsingum sem birta átti í ritinu. A tilkynnti formanni ritnefndar, Sigurði Jónssyni, það símleiðis að vilji sinn væri að upplýsingar um sig birtust ekki í ritinu. Kvaðst hann myndu athuga málið. Með bréfum til Sigurðar, dags. 8. júlí og 12. desember 1999, ítrekaði A afstöðu sína. Í síðara bréfinu segir: "Þar sem ég hef ekki heyrt frá þér, skil ég það sem samþykki, sbr. máltækið: "Þögn er sama sem samþykki", þ.e. að ég verði ekki með í væntanlegu guðfræðingatali." Einnig kom A afstöðu sinni á framfæri við ritstjóra, Gunnlaug Haraldsson, með tölvupósti hinn 19. desember 2000, en þar segir: "Hér með ítreka ég að ég hef ekki áhuga á að vera með í þessu Guðfræðingatali eins og ég hef tjáð formanni ritnefndar Guðfræðingatals bæði símleiðis og skriflega. Ég treysti að það standi." Áður hafði Gunnlaugur sent A próförk af æviágripi til yfirlestrar og gefið til kynna að þannig yrði ágripið prentað nema mótmæli kæmu fram. Próförkin var send A aftur til yfirlestrar á vordögum árið 2002, en A sendi hana ekki til baka. Þrátt fyrir áðurnefnd mótmæli var ævigripið birt óbreytt í guðfræðingatalinu, sem gefið var út á aðventu 2002. Æviágripið samdi Gunnlaugur sjálfur og notaði til þess eftirfarandi heimildir: Þjóðskrá, íbúatöl og dánarskrár Hagstofu Íslands; Lögfræðingatal 1736-1992; Árbók Háskóla Íslands 1976-1979, en þar voru upplýsingar um brautskráningu A og einkunn; upplýsingar frá Biskupsstofu, þ.e. um prestsvígslu og skipun í embætti; og Hreiðarsstaðakotsætt, I. bindi, þar sem var að finna ættfræðiupplýsingar um A og mynd.
Bréfaskipti
Sjónarmið málsaðila
Í bréfi A til Persónuverndar, dags. 3. febrúar sl., segir:
Forsaga:
Sumarið 1999 fékk ég bréf ásamt eyðublöðum frá Ritnefnd Guðfræðingatals [1847–2002] sem sagði að ég ætti að fylla vegna væntanlegs guðfræðingatals.
Ég hringdi í sr. Sigurð Jónsson, formann nefndarinnar og sagði að ég hefði ekki áhuga á að vera í guðfræðingatalinu. Hann sagðist ætla að athuga það.
Þar sem ég hafði ekki heyrt aftur frá sr. Sigurði skrifaði ég honum um þetta efni 8. júlí 1999.
Ég sendi Sigurði aftur bréf 12. des. 1999 um þetta efni þar sem ég hafði ekkert heyrt í honum.Ég sendi e-mail til Gunnlaugs Haraldssonar ritstjóra og höfundar æviágripa þar sem ég ítrekaði og bað um að réttur minn um að vera ekki með yrði virtur.
Hvað er málið?
Nýlega kom út Guðfræðingatal gefið út af Prestafélagi Íslands í tveimur bindum. Ritstjóri og höfundur æviágripa þess er Gunnlaugur Haraldsson. Þrátt fyrir ofangreindar óskir mínar var ég með í Guðfræðingatalinu....
Nú leyfi ég mér hér með að spyrja ykkur hvort þau vinnubrögð nefndarinnar hafi verið lögbrot þ.e. að birta mynd og upplýsingar um mig gegn vilja mínum. Ég tel mig ekki hafa neina skuldbindingu gagnvart þeim sem vilja gefa út guðfræðingatal þótt ég sé guðfræðingur.
Með bréfi, dags. 21. febrúar sl., bauð Persónuvernd Sigurði Jónssyni, formanni ritnefndar Guðfræðingatals 1847–2002, og Gunnlaugu Haraldssyni, ritstjóra þess, að tjá sig um ofanrakið erindi A. Sigurður og Gunnlaugur svöruðu með bréfum, dags. 26. s.m. Í bréfi Sigurðar segir:
Mig rekur minni til þess að A hefði samband við mig bæði bréflega og símleiðir, eins og A nefnir réttilega í bréfi sínu. Enda þótt ég færi ekki með hlutverk ritstjóra Guðfræðingatals sagðist ég mundu kanna málið, eins og A nefnir einnig, en lét í ljós þá skoðun ritnefndar að fráleitt væri að gefa út stéttartal íslenskra guðfræðinga án þess að öllum væri til skila haldið úr þeim hópi. Í símtali okkar nefndi ég við A að eðlilegt væri að A sneri sér beint til ritstjóra Guðfræðingatals, Gunnlaugs Haraldssonar, sem hefði með höndum öflun og skráningu persónuupplýsinga um ritið, enda var hann sérstaklega ráðinn til verksins af forleggjara Guðfræðingatals samkvæmt útgáfusamningi, og ábyrgist því æviskrárþátt þess að fullu og öllu.
Hlutur minn í að kanna málið fólst í því að ég hafði símasamband við Persónuvernd, og spurðist fyrir um hvort heimilt væri að birta persónuupplýsingar af því tagi sem almennt hefði tíðkast í stéttatölum, án samþykkis viðkomandi. Var mér tjáð að ekki væri óheimilt að birta lýðfræðilegar upplýsingar um fólk, enda þótt það legðist sjálft gegn því…
Ég hafði ekki frekara samband við A vegna málsins, þar sem ég hafði vísað A á að setja sig í samband við Gunnlaug Haraldsson ritstjóra eins og áður getur. Þótti mér fara best á því að þau hefðu með sér milliliðalaus samskipti um málið.
Í bréfi Gunnlaugs Hraldssonar um erindi A segir m.a.:
Sem ritstjóri [Guðfræðingatals 1847–2002] og höfundur æviágripa ber ég fulla ábyrgð á meðferð upplýsinga um guðfræðinga, framsetningu efnis og frágangi æviskráa. Þetta er kynnt nánar í inngangskafla mínum að ritinu (bls. 11-19), þar sem m.a. er getið þeirra meginreglna sem ritnefndin setti sér um aðgengi fólks að æviskrárhluta ritsins. Segir þar m.a.:
Við upphaf verks tók ritnefndin afstöðu til þess hvernig fara skyldi með æviágrip þeirra einstaklinga, sem hugsanlega myndu ekki sinna beiðni um upplýsingar eða jafnvel óska eftir að sín yrði ekki getið í ritinu. Ákveðið var að slíkum tilvikum yrði mætt með því að birta einungis lágmarksupplýsingar um uppruna, menntun, störf og fjölskylduhagi viðkomandi, og einungis að því marki sem þær væru aðgengilegar í opinberum gögnum og útgefnum ritum. Slík æviágrip skyldu auðkennd með stjörnu (*) við nafn viðkomanda svo auðsætt væri lesendum að þær samantektir væru unnar af ritstjóra og ekki yfirfarnar af þeim sem í hlut ættu. Sömuleiðis skyldu æviágrip þeirra sem höfnuðu aðild að ritinu sérmerkt með tveimur stjörnum (**). Að öðru leyti var ritstjóra gert skylt að fylgja þeim meginreglum sem gilda skyldu um frágang æviágripa þannig að sem fyllsta samræmi næðist í einstökum efnisþáttum. Sérbeiðnum um meðferð og frágang upplýsinga skyldi þó reynt að mæta eftir því sem kostur væri.
Þessum vinnureglum reyndi ég sem ritstjóri að fylgja í hvívetna, en tekið skal fram að þær voru settar og samþykktar að minni áeggjan. Til þess liggja þær meginástæður. að við samantekt stéttatala berast ætíð ekki umbeðnar upplýsingar frá nokkrum hluta þess hóps sem leitað er til. Vil ég í þessu samhengi nefna dæmi af þeim ritum, sem ég er höfundur að og þekki til:
...
Afstaða ritnefnda allra þessara stéttatala var sú sama og ritnefndar Guðfræðingatals, þ.e. að safna saman tiltækum opinberum upplýsingum um þá sem ekki svöruðu kalli, einkum af þeirri ástæðu að fjarvist einstaklinga myndi rýra mjög upplýsingagildi viðkomandi stéttartals. Um þetta efni var t.d. gerð sú ráðstöfun við samantekt lækna á Íslandi, að ritnefndin leitaði með formlegum hætti heimildar landlæknis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis um öflun upplýsinga í skjalasöfnum viðkomandi embætta. Sömuleiðis var af því tilefni leitað umsagnar Tölvunefndar og segir m.a. eftirfarandi í bréfi hennar til undirritaðs, dagsettu 4. ágúst 1999:...
.. Við upplýsingaöflun vegna Guðfræðingatals 1847-2002 bárust ekki svör frá sjö guðfræðingum (erlendir guðfræðingar undanskildir) þrátt fyrir ítrekanir símleiðis og bréflega. Þeir sem ekki sendu inn upplýsingar voru: … Hin þrjú síðastnefndu (…, … og A) höfnuðu því bréflega og/eða símleiðis að eiga nokkra aðild að ritinu. Beiðni sinni kom A á framfæri við formann ritnefndar og ritstjóra (GH), eins og A réttilega tilgreinir í bréfi sínu. Fjöldi annarra guðfræðinga færði fram séróskir (bréflega og/eða símleiðis) varðandi aðskiljanlegustu efnisatriði eða framsetningu þeirra, s.s. um heiti sveitarfélaga, einkunnir, framsetningu á æviferli og félagsstörfum, upplýsingum um barnsmæður/-feður, fyrri hjúskap, börn o.fl. Þessar beiðnir voru ekki teknar sérstaklega fyrir á fundum ritstjóra og ritnefndar, þótt margar þeirra hafi komið þar til umræðu. Um afgreiðslu einstakra séróska var því engin bókun gerð, enda var mér sem ritstjóra í þessu efni sem öðru eðlilega sýnt það traust að leita farsællrar niðurstöðu. Og í öllum tilvikum lagði ég mig fram um að mæta óskum fólks eftir því sem framast gat talist raunhæft. Það er að vísu vandaverk, þegar sumir sem leggja til upplýsingar vilja um leið vera ritstjórar verksins! Má sem dæmi nefna, að undantekningarlaust voru felldar niður upplýsingar um einkunnir (gömul arfleifð frá eldri Guðfræðingatölum) og hliðrað til með uppruna barna guðfræðinga utan hjónabands, þegar þess var óskað eindregið. Í nokkrum öðrum tilvikum neyddist ritstjóri til að hafna tilmælum fólks og kom þeim boðum á framfæri með nýrri próförk ásamt athugasemdum og rökstuðningi.
Í samræmi við þær framangreindu vinnureglur, sem mér voru settar sem ritstjóra, tók ég saman knappar æviskrár þeirra sjö guðfræðinga sem engar upplýsingar veittu og áður eru nefndir. Eru þau æviágrip sérstaklega auðkennd (* og **)…Eins og áður segir einskorðaði ég þessar samantektir við þær lágmarksupplýsingar sem fyrir liggja í (a) opinberum gögnum (s.s. kirkjubókum, þjóðskrá, manntölum, dánarskrám etc.), (b) prentuðum ritum (s.s. árbókum H.Í. og framhaldsskóla, ættfræðiritum etc.) og (c) skýrslum Biskupsstofu um störf þjóna Þjóðkirkjunnar (vígslur, setningar/skipanir í embætti etc.).
...Upplýsingar þær sem birtar eru…um A eru dregnar saman úr þeim gögnum, sem nefnd voru hér að framan. Um er að ræða eftirtaldar heimildir: Þjóðskrá, Íbúatöl og Dánarskrár Hagstofu Íslands (ýmis ár); Lögfræðingatal 1736-1992…; Árbók Háskóla Íslands 1976-1979 (Rvík 1981), … (brautskráning/einkunn); upplýsingar frá Biskupsstofu (vígsla og skipun í embætti); Hreiðarsstaðakotsætt [. . .], Rvík 1988, I. bindi … (ættfræðiupplýsingar og mynd)…"
Með bréfi, dags. 7. mars sl., bauð Persónuvernd A að tjá sig um efni ofanrakinna bréfa Sigurðar Jónssonar og Gunnlaugs Haraldssonar, dags. 26. febrúar sl. A svaraði með bréfi, dags. 20. mars sl. Þar segir:
Mér er boðið að tjá mig um efni nefndra bréfa sem ég geri á eftirfarandi hátt.
Bréf formanns ritnefndar Guðfræðingatals, Sigurðar Jónssonar:
Eftir að ég hafði hringt 7. júní 1999 og tjáð Sigurði að ég hefði ekki áhuga á að vera með í væntanlegu Guðfræðingatali, beið ég eftir svari frá honum þar sem hann sagðist ætla að athuga þessa afstöðu mína nánar. Ég kannast því ekki við að hann hafi nefnt við mig að eðlilegt væri að ég sneri mér beint til ritstjóra Guðfræðingatals, Gunnlaugs Haraldssonar enda skrifaði ég honum eftir símtalið tvö bréf, annað dagsett 8. júlí 1999 og hitt 12. desember 1999 sem styðja mál mitt og fylgja hér með afrit af þeim bréfum.
Sigurður segir einnig í bréfi sínu: "Ég hafði ekki frekara samband við A vegna málsins…" en þessi orð hljóða eins og hann hafi aldrei haft samband við mig að eigin frumkvæði. Hið rétta er að hann hafði aldrei neitt samband við mig, þótt ég hefði bæði hringt í hann og sent honum bréf.Bréf ritstjóra Guðfræðingatals, Gunnlaugs Haraldssonar:
Hvaðan sækir ritnefndin vald sitt og ákveður vísvitandi að ég skuli vera í Guðfræðingatalinu gegn mínum vilja? Hvar fær ritnefndin vald sitt til að setja vinnureglur sem skylda mig til að vera með í talinu þó að nefndin viti að þetta sé gegn vilja mínum? Ritstjórinn segist í öllum tilvikum hafa lagt sig fram um að mæta óskum fólks eftir því sem framast gat talist raunhæft en hunsar síðan algjörlega þá sem vildu ekki vera í Guðfræðingatalinu. Hvaða lög heimila honum að hunsa þá sem ekki vildu vera í talinu? Hvernig getur ritstjórinn leyft sér að viðurkenna að það hafi verið guðfræðingar sem höfnuðu aðild að ritinu og sett tvær stjörnur við nöfn þeirra og haft þá í ritinu þrátt fyrir það? Ég hlýt að eiga rétt til þess að ráða mínum málum. Í athugasemdum við 71. gr. stjórnarskrárinnar segir m.a. að í friðhelgi einkalífsins felist fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Jafnframt er litið svo á að tilfinnangalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar samkvæmt ákvæðinu.Ritstjórinn nefnir rit sem hann er höfundur að eins og t.d. Lögfræðingatal, Tannlæknatal, Læknar á Íslandi og svo frv. og segir síðan að engin eftirmál hafi orðið vegna útgáfu þessara rita umfram eðlilegar leiðréttingar og viðauka. Þótt raunin hafi orðið sú, eru það engin rök í þessu máli.
Ég fékk próförk frá ritstjóranum og átti ég að gera athugasemdir og leiðréttingar. Af því tilefni sendi ég honum strax e-mail þar sem ég ítrekaði afstöðu mína um að réttur minn til að ákveða að vera ekki með í talinu yrði virtur. Satt að segja var ég undrandi að fá próförk þar sem ég hafði verið í góðri trú um að ósk mín hefði verið gild enda fékk ég aldrei svarbréf eða tilkynningu um að nefndin hafnaði beiðni minni.
Mér er nú kunnugt um að mynd sú sem birtist af mér í Guðfræðingatalinu er komin úr bókinni "Hreiðarsstaðakotsætt." En hver veitti ritnefndinni/ritstjóranum leyfi til að nota mynd þessa í Guðfræðingatalinu sem annar á höfundarétt að, sbr. 3. gr. laga nr. 73/1972? Ekki hef ég veitt slíka heimild.
Ritstjórinn segir: "A kom andmælum sínum um birtingu samviskusamlega á framfæri við mig og formann ritnefndar. Ég afréð hins vegar að sinna þeim ekki og þótti eðlilegra í þessu efni sem öðru að fylgja þeim vinnureglum sem mér voru settar af ritnefnd." Mér sárnaði mjög mikið að vita hvernig ritstjórinn af ásetningi og með tilvísun til vinnureglna hunsaði algjörlega mína afstöðu og minn rétt, auk þess sem ekki heyrðist frá honum eitt einasta orð þó að hann vissi af minni afstöðu gagnvart ritinu, heldur keyrði hann málið áfram án tillits til andmæla minna og sýndi vald sitt.
Satt að segja datt mér ekki í huga að ég yrði í ritinu. Ég hafði ekki heyrt neitt frá forsvarsmönnum Guðfræðingatalsins og var því í góðri trú að mitt mál væri afgreitt þannig að ég yrði ekki með í ritinu enda ekki við öðru að búast eftir skrif mín til þessara tveggja manna. Það var því ekki fyrr en starfsbróðir minn sagði mér á aðventu árið 2002 að hann hefði séð mig í Guðfræðingatalinu með stjörnu.
Þegar Persónuvernd höfðu borist framangreind bréf A, Sigurðar Jónssonar og Gunnlaugs Haraldssonar, taldi hún frekari upplýsingar enn vera nauðsynlegar. Sendi hún því A bréf, dags. 11. apríl sl., þar sem þess var óskað að hún upplýsti (1) hvort A hefði tilgreint einhverjar sérstakar ástæður fyrir því að upplýsingar mætti ekki birta í Guðfræðingatali 1847–2002 og þá hvaða ástæður það hefðu verið og (2) hvort A hefði samþykkt birtingu einkunna sinna í Árbók Háskóla Íslands 1976–1979 og birtingu myndar af sér í ritinu Hreiðarsstaðakotsætt, I. bindi, en eins og kemur fram í ofanröktum bréfum voru upplýsingar um þessi atriði fengnar úr þessum ritum við útgáfu guðfræðingatalsins. Þá var þess óskað að A sendi Persónuvernd öll gögn sem A kynni að hafa undir höndum og tengdust málinu, þ. á m. útprentun af tölvupósti til Gunnlaugs Haraldssonar, sem getið er í gögnum málsins, þar sem A mótmælti birtingu upplýsinga um sig í guðfræðingatalinu.
Einnig sendi Persónuvernd Sigurði Jónssyni og Gunnlaugi Haraldssyni bréf, dags. 11. apríl sl., og spurði hvort A hefði tilgreint einhverjar sérstakar ástæður fyrir því að upplýsingar um A yrðu ekki birtar í Guðfræðingatali 1847–2002 og þá hvaða ástæður það hefðu verið. Þá var þess óskað að þeir tjáðu sig um hvort og þá hvernig þeir teldu sig hafa farið að 21. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga um upplýsingaskyldu við hinn skráða þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en honum sjálfum, 1. mgr. 28. gr. sömu laga um rétt hins skráða til að andmæla vinnslu persónuupplýsinga um sig og 14. gr. sömu laga um að ábyrgðarmaður að vinnslu persónuupplýsinga skal afgreiða erindi frá hinum skráða, m.a. samkvæmt 28. gr., svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan eins mánaðar frá móttöku þess. Að lokum var þess óskað að þeir sendu Persónuvernd öll gögn sem þeir kynnu að hafa undir höndum og tengdust málinu, þ. á m. framangreindan tölvupóst frá A til Gunnlaugs Haraldssonar.
Sigurður Jónsson svaraði með bréfi, dags. 15. apríl sl. Þar segir:
Ég hlýt að verða við þeirri ósk yðar að ég upplýsi Persónuvernd um hvort séra A hafi tilgreint einhverjar sérstakar ástæður fyrir því að upplýsingar um A mætti ekki birta í Guðfræðingatali 1847-2002 í samskiptum A við mig sem formann ritnefndar, og þá hverjar.
Eins og fram kemur í bréfi mínu til Persónuverndar dagsettu 26. febrúar 2003 vegna málsins, hafði séra A samband við mig sem formann ritnefndar, bæði bréflega og símleiðis, og kvaðst ekki hafa áhuga á að vera með í væntanlegu guðfræðingatali. Sendi A mér í pósti bréf dagsett 12. júlí 1999 og annað með faxi dagsett 12. desember [1999]. Í millitíðinni hringdi A í mig einu sinni, til að fylgja eftir erindi sínu.
Aðrar ástæður fyrir beiðni sinni en þær, að A hefði ekki áhuga á að vera með í væntanlegu guðfræðingatali, tilgreindi séra A ekki í samskiptum sínum við mig.
Í svarbréfi Gunnlaugs Haraldssonar, sem með fylgdi meðal annars útprentun af framangreindum tölvupósti frá A, segir síðan:
Hef í dag móttekið bréf yðar dagsett 11. þ.m. vegna fyrirspurnar A frá 3. febrúar 2003 varðandi birtingu æviágrips A í Guðfræðingatali 1847-2002. Mun ég nú leitast við að svara því sem um er spurt.
1. Í bréfi yðar er þess óskað að ég upplýsi "Persónuvernd um hvort A tilgreindi einhverjar sérstakar ástæður fyrir því að upplýsingar um A mætti ekki birta í guðfræðingatalinu í samskiptum A við [mig] og, hafi A gert það, hvaða ástæður það voru". Jafnframt er þess óskað að ég sendi Persónuvernd öll gögn sem ég kunni að hafa undir höndum "og tengjast þessu máli, þ. á m. útprentun af tölvupósti" til mín "þar sem A mótmælti birtingu upplýsinga um sig í guðfræðingatalinu".
Í aðsendum, útfylltum eyðublöðum, leiðréttum próförkum og öðrum gögnum sem bárust frá guðfræðingum við vinnslu handrits og ég hef undir höndum, er ekkert annað að finna varðandi æviágrip A en meðfylgjandi tölvubréf dags. 19. desember 2000. Það var sent Þjóðsögu ehf., en stílað á mig sem ritstjóra verksins (fskj. 1). Texti bréfsins er svohljóðandi: "Hér með ítreka ég að ég hef ekki áhuga á að vera með í þessu Guðfræðingatali eins og ég hef tjáð formanni ritnefndar Guðfræðingatals bæði símleiðis og sk[r]iflega. Ég treysti að það standi".
Annað bréf en þetta minnist ég ekki að hafa móttekið frá A, en hafði hins vegar á fyrri stigum málsins (árið 1999) veður af samskiptum A og formanns ritnefndar. Mér var því ljóst að A hafði ekki áhuga á því að vera með í guðfræðingatalinu, enda bárust mér ekki til baka þær prófarkir sem sendar voru A.2. Þá er í bréfi yðar óskað eftir því að ég tjái mig "hvort og þá hvernig" ég telji mig hafa "farið að 21. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga um upplýsingaskyldu við hinn skráða þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en honum sjálfum".
Í þessu sambandi vil ég taka eftirfarandi fram til að skýra nánar hvernig að upplýsingaöflun var staðið:
a) Með bréfi dags. 18. febr. 1999 (fskj. 2) var sent út eyðublað til allra þálifandi guðfræðinga og aðstandenda þeirra sem látnir voru. Einnig fylgdi með útskrift þeirra upplýsinga, sem ég hafði þá þegar skráð í tölvu sem nokkurs konar frumkast æviágripa. Þar var í fyrsta lagi um að ræða æviágrip guðfræðingar úr eldri útgáfu guðfræðingatals (frá 1976) í nýrri uppsetningu ásamt upplýsingum, sem ég hafði aukið við úr öðrum og nýrri heimildum. Í öðru lagi gloppótt drög að æviágripum yngri guðfræðinga, þar sem ég hafði dregið saman upplýsingar með hliðstæðum hætti. Þetta vinnulag hefur gefist mér vel á undanförnum árum við samantekt stéttartala af mörgum ástæðum, sem hér er óþarft að skýra nánar. – A mun hafa fengið við þetta tækifæri slíka útskrift eða frumdrög eins og allir aðrir, þótt engin skrá hafi verið haldin um hvað kom í hlut hvers og eins á því stigi.
b) Jafnóðum og útfyllt eyðublað og/eða leiðrétt útskrift barst mér í hendur frá guðfræðingum, jók ég upplýsingum í tölvuhandritið, lagfærði það sem rangt hafði verið hermt og felldi annað út að beiðni fólks eins og gengur. Þrátt fyrir ýmsar ítrekanir (bréfleiðis og símleiðis) af hálfu formanns ritnefndar og útgáfunnar miðaði upplýsingaöfluninni hægar en ráðgert hafði verið. Það reyndist því ekki kleift að senda út nýja útskrift æviágripa til guðfræðinga fyrr en 16. janúar 2000. Höfðu þá allmargir ekkert látið frá sér heyra. Öllum var send útskrift, en þeir sem ekki höfðu svarað fyrra erindi eða ítrekunum fengu póstsent meðfylgjandi bréf (fskj. 3). Önnur áþekk ítrekun var síðan send út hinn 1. maí 2000 vegna þeirrar tafar sem varð á verkinu (fskj. 4) og fylgdi með slíku bréfi til A meðfylgjandi útskrift, sem síðar gekk óbreytt til prentsmiðju (fksj. 5).
c) Með ofangreindum hætti tel ég mig hafa á öllum stigum reynt að upplýsa A um þau atriði sem tiltekin eru í 21. gr. laga 77/2000.3. Þá óskið þér að ég tjái mig um hvort ég telji mig hafa tekið tillit til ákvæða 1. mgr. 28. gr. laga 77/2000 "um rétt hins skráða til að andmæla vinnslu persónuupplýsinga um sig".
Við vinnslu prenthandrits móttók ég engin þau tilmæli frá A sem gáfu mér ástæðu til að ætla að A hefði "til þess lögmætar og knýjandi ástæður vegna sérstakra aðstæðna sinna" að andmæla því að birtar yrðu um A þær upplýsingar sem ég hafði tekið saman í æviágrip. Þau skilaboð sem mér bárust frá formanni ritnefndar um að A hefði ekki áhuga á því að vera með í ritinu gáfu ekkert slíkt til kynna. Nokkrir guðfræðingar sem seint svöruðu, en létu um síðir til leiðast, viðruðu áþekk viðhorf og þessi til ritsins.4. Síðan vísið þér til ákvæði 14. og 28. gr. laga 77/2000 um frest ábyrgðaraðila til að svara erindum frá hinum skráða, þ.e. skyldur mínar í þessu sambandi gagnvart A.
Því er til að svara, að bréf A dags. 19. desember 2000 barst mér ekki í hendur fyrr en að prentvinnsla hafði legið niðri um fjögurra mánaða skeið. Þá var reyndar útlit fyrir að útgáfu ritsins yrði hætt með öllu. Mínu hlutverki sem ritstjóra guðfræðingatals var á þessum tíma þannig í reynd lokið. Taldi ég við þessar aðstæður enga ástæðu til að svara bréfi A fremur en síðbúnum leiðréttingum frá allmörgum guðfræðingum, löngu eftir að ritið átti samkvæmt uppgefnum eindaga að vera komið í dreifingu! Þar á ofan taldi ég mig hafa í fyrri bréfum talað nægilega skýrt til þeirra sem ekki sinntu kalli um upplýsingagjöf og vart á það bætandi (fskj. 3 og 4).5. Ákvörðun um að reyna aftur til við útgáfu guðfræðingatalsins var síðan tekin á vordögum 2002. Þá leystu Prestafélag Íslands og Skálholtsútgáfan til sín verkið með sérstökum samningum við Þjóðsögu ehf. og Prentsmiðjuna Odda hf. Síðan samdi stjórn Prestafélagsins við mig um að búa hið rykfallna prenthandrit til útgáfu. Það var gert með þeim hætti, að af hálfu Skálholtsútgáfunnar voru sendar út prófarkir af fyrirliggjandi prenthandriti (frá sumrinu 2000) til allra guðfræðinga með ósk um að menn "uppfærðu" sinn texta, þ.e. ykju við hann eftir þörfum. Líkt og allmargir aðrir svaraði A ekki slíkum tilmælum. Voru því æviágrip þeirra sem svo háttaði til um prentuð eins og þau voru þegar í prenthandriti sumarið 2000. Í nokkrum tilvikum var þó aukið við upplýsingum, sem oftast fyrir tilviljun bárust í hendur, s.s. úr dánarskrám Hagstofu Íslands, minningargreinum eða skýrlsu biskupsstofu um stöðubreytingar presta. Þannig minnist ég þess t.d., að á lokasprettinum skaut ég inn í próförk A dánardegi tengdaföður, sem lést í september 2000.
A svaraði ofannefndu bréfi Persónuvernd, dags. 11. apríl sl., með bréfi, dags. 24. s.m. Þar segir:
IV.Vísað er til bréfs þíns frá 11. þ.m. þar sem óskað er eftir frekari upplýsingum af minni hálfu, sbr. eftirtalda töluliði:
1. Hvort ég hafi tilgreint einhverjar sérstakar ástæður fyrir því að upplýsingar um mig mætti ekki birta í guðfræðingatalinu í samskiptum mínum við ritnefnd þess og Gunnlaug Haraldsson, ritstjóra þess, og, hafi verið svo, hvaða ástæður það voru?
Svar: Ég tjáði formanni og ritstjóra ritnefndar Guðfræðingatalsins að ég hefði ekki áhuga á að vera með í Guðfræðingatalinu. Forsvarsmenn Guðfræðingatalsins fóru ekki fram á það að ég tilgreindi einhverjar aðrar ástæður.
2. Hvort ég hafi samþykkt birtingu einkunna minna í Árbók Háskóla Íslands 1976-1979 og birtingu myndar af mér í ritinu Hreiðarsstaðakotsætt, I. bindi, sem út kom árið 1988.
Svar: a. Ef einkunnir mínar hafa birst í Árbók Háskóla Íslands 1976-1979, þá hefur það verið gert algjörlega án míns samþykkis, enda vissi ég ekki að þetta rit birti einkunnir fyrr en það var nefnd í sambandi við þetta mál.
b. Maki minn er af Hreiðarsstaðakotsætt. Mér var kunnugt um send hafi verið fjölskyldumynd í þeim tilgangi að hún yrði notuð eingöngu í þessu riti.
Niðurstaða
Árið 2002 gaf Prestafélag Íslands út ritið Guðfræðingatali 1847–2002. Höfundur þess er Gunnlaugur Haraldsson. Fyrir liggur að þrátt fyrir að A hafi andmælt því að þar birtust upplýsingar um A var það engu að síður gert. Þar eru birtar upplýsingar um uppruna A, fæðingardag og stað, upphaflegt kenninafn, foreldra, nám og námsframmistöðu og fyrri störf - auk upplýsinga um maka og börn. Þá eru upplýsingarnar um A auðkenndar með tveimur stjörnum (**) og þannig upplýst að A sé andvígur birtingu upplýsinga um sig í ritinu.
1.
Í máli þessu er í fyrsta lagi til úrlausnar lögmæti birtingar andlitsmyndar og persónuupplýsinga um A í Guðfræðingatali 1847–2002. Í 1. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er hugtakið persónuupplýsingar skilgreint sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Persónuvernd hefur litið svo á að hugtakið persónuupplýsingar taki til andlitsmynda ef unnt er að bera kennsl á þann mann sem er á myndinni og segja má að hún beri með sér upplýsingar um hann.
1.1.
Vinnsla persónuupplýsinga telst lögmæt ef hún fullnægir einhverju af skilyrðum 8. gr. og eftir atvikum 9. gr. laga nr. 77/2000. Ákvæði 8. gr. gilda um vinnslu almennra upplýsinga en 9. gr. um vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Kemur helst til álita að vinnsla almennra upplýsinga í þágu ættfræði- eða æviskrárrita falli undir 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Þar segir að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða, sem vernda ber samkvæmt lögum, vegi þyngra. Þá má til hliðsjónar benda á ákvæði 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil taki hún einungis til upplýsinga sem hinn skráði hefur sjálfur gert opinberar. Við túlkun þessara ákvæða þarf að hafa hliðsjón af athugasemdum með 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, eins og henni var breytt með 9. gr. laga nr. 97/1995. Þar segir að í friðhelgi einkalífsins felist m.a. réttur manns til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Fram kemur að mjög raunhæft dæmi um svið, þar sem álitaefni vakni um hvort brotið er gegn friðhelgi einkalífs, sé skráning persónuupplýsinga um einstaklinga, en þó segir að ýmsar almennar skrár af opinberum toga falli utan verndar ákvæðisins.
Þótt vinnsla teljist vera heimil samkvæmd framangreindum ákvæðum laga nr. 77/2000 þarf hún ennfremur að samrýmast þeim grunnreglum sem kveðið er á um í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000. Í 1. tölul. ákvæðisins er kveðið á um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra skuli vera í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. Þá segir í 2. tölul. að persónuupplýsingar skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi. Persónuvernd telur vinnslu persónuupplýsinga í þágu gerðar æviskrárrita geta verið málefnalega ef hún er sanngjörn og fer að öðru leyti fram í samræmi við grunnreglur þessa ákvæðis.
Í 5. gr. laga nr. 77/2000 er kveðið á um að víkja megi frá ákvæðum laganna í þágu bókmennta að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar. Þá er þar kveðið á um að þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu bókmenntalegrar starfsemi gildi aðeins tiltekin ákvæði laganna. Persónuvernd telur vinnslu persónuupplýsinga í þágu æviskrárrita vera bókmenntalegs eðlis. Hins vegar telur hún ekki unnt að líta svo á að slík vinnsla persónuupplýsinga fari einungis fram í þágu bókmenntalegrar starfsemi og sé þar af leiðandi undanþegin tilteknum ákvæðum laga nr. 77/2000. Túlka verður 5. gr. svo að henni sé einkum ætlað að gilda um þá vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer við listræna tjáningu og tjáningu skoðana og viðhorfa, en að mati Persónuverndar fellur vinnsla persónuupplýsinga í þágu æviskrárrita hins vegar ekki til þar undir. Gilda lög nr. 77/2000 þar af leiðandi um slíka vinnslu.
1.2.
Áður en lög nr. 77/2000 tóku gildi fór um meðferð persónuupplýsinga samkvæmt lögum nr. 121/1989 og hafði tölvunefnd eftirlit með framkvæmd þeirra laga. Skráning í þágu ættfræðirita og æviskrárrita féll utan marka laganna en almennt var þó litið svo á að við slíka skráningu yrði að gæta annarra reglna um friðhelgi einkalífs. Þetta viðhorf kemur m.a. fram í bréfi, dags. 4. ágúst 1999, sem tölvunefnd sendi einum af aðilum þessa máls, Gunnlaugi Haraldssyni. Þar segir meðal annars:
Samkvæmt 2. gr. laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr. 121/1989 fellur skráning í þágu ættfræðirita og æviskrárrita utan marka laganna og þar með utan valdsviðs Tölvunefndar. Telja verður læknatal til æviskrárrita í skilningi þess ákvæðis. Í greinargerð með lögunum kemur hins vegar fram að við ættfræðirannsóknir og samningu æviskrárrita kunni eigi að síður að þurfa að gæta annarra reglna er varða vernd einkalífs. Í umræðum nefndarinnar um mál þetta kom fram það viðhorf að hæpið sé að menn geti varnað því að í slíku riti birtist um þá almennar lýðskrárupplýsingar, s.s. um nafn og kennitölu, nöfn niðja, foreldra og núverandi maka, um menntun og opinberar stöður sem menn hafa gegnt. Að áliti Tölvunefndar er hins vegar eðlilegt að sýna eðlilega tillitsemi og byggja á samþykki hlutaðeigandi fyrir birtingu annarra upplýsinga, einkum um hjúskaparstöðu annars fólks (s.s. foreldra), um nöfn fyrri maka, barnsfeðra/mæðra, um einkunnir, ættleiðingu o.s.frv. Minnir Tölvunefnd hér sérstaklega á niðurstöðu Hrd. 1968:1007.
Persónuvernd telur að þessi afstaða tölvunefndar eigi enn efnislega við að mörgu leyti. Persónuvernd telur að með stoð 7. tl. 8. gr., sbr. og eftir atvikum með hliðsjón af 6. tl. 9. gr, megi skrá í æviskrárrit almennar lýðskrárupplýsingar, s.s. nafn og fæðingardag, nöfn niðja, foreldra og núverandi maka, menntun og opinberar stöður sem menn hafa gegnt, og gera þær aðgengilegar almenningi í slíkum ritum, nema fram komi rökstudd andmæli hins skráða sem réttmætt sé að taka tillit til. Sama á við um birtingu myndar af manni í slíku riti, enda sé hún málefnaleg, sanngjörn og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, þegar litið sé til efnis hennar, framsetningar og þess samhengis sem hún birtist í. Um vinnslu annarra upplýsinga, s.s. um einkunnir, ættleiðingar og önnur atriði er varða einkamálefni, hefur Persónuvernd hins vegar litið til 1. tl. 8. gr. um samþykki hins skráða, sé hann á lífi. Til að skýra þessa afstöðu til upplýsinga um einkunnir má benda á það almenna viðhorf að upplýsingar um frammistöðu einstakra nemenda á prófum séu upplýsingar um einkamálefni þeirra sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Þetta viðhorf kemur til dæmis fram í þeirri grundvallarreglu 2. mgr. 45. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995 um að almennt skuli ekki veita upplýsingar um vitnisburði nemenda. Hafi hinn skráði hins vegar sjálfur áður samþykkt opinbera birtingu upplýsinga um einkunnir kann málið, með hliðsjón af 6. tölul. 1. mgr. 9. gr., að horfa öðruvísi við.
Persónuvernd telur, með vísan til ofangreinds, að heimilt hafi verið að birta í Guðfræðingatali 1847–2002 almennar lýðskrárupplýsingar um A, þ. á m. um brautskráningu, prestsvígslu, skipun í embætti og ættir, enda hefur ekki verið sýnt fram á að hagsmunirnir af birtingunni hafi gengið framar hagsmunum A af því upplýsingarnar yrðu ekki birtar. Sama gildir um birtingu myndar af A enda verður ekki annað séð en að hún hafi, m.t.t. efnis hennar, framsetningar og þess samhengis sem hún birtist í, verið málefnaleg, sanngjörn og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga á hlutaðeigandi sviði, sbr. 1. tl. 7. gr. laga nr. 77/2000. Tekið skal fram að Persónuvernd tekur ekki afstöðu til þess hvort með birtingu myndarinnar hafi verið brotið gegn höfundarrétti, enda fellur það álitaefni utan valdsviðs Persónuverndar. Persónuvernd telur hins vegar að óheimilt hafi verið án samþykkis A að birta einkunnir, enda hafði A sjálf hvorki gert þær opinberar, né hefur verið rökstutt að slíkir hagsmunir hafi verið af birtingu einkunnanna að þeir hafi gengið framar hagsmunum A af því að fá að ráða hvort einkunnirnar yrðu birtar eða ekki, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.
1.3.
Fram kemur í gögnum málsins að í Guðfræðingatali 1847–2002 eru upplýsingar um A auðkenndar með tveimur stjörnum (**) til að sýna að A sé því andvígur að upplýsingar séu birtar í guðfræðingatalinu. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 skal þess gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. Telja verður að með því að auðkenna að A hafi verið andvígur birtingu upplýsinga um sig hafi verið brotið gegn þessu ákvæði, enda hafa ábyrgðarmenn vinnslunnar ekki sýnt fram á að sérstaka hagsmuni sem þar hafi verið í húfi né verður séð að það hafi verið gert í málefnalegum tilgangi.
2.
Í máli þessu er í öðru lagi til úrlausnar hvort virt hafi verið ákvæði 21. gr. laga nr. 77/2000 um skyldu ábyrgðaraðila til að láta hinn skráða vita um vinnslu persónuupplýsinga sem er aflað hjá öðrum en honum sjálfum. Þar segir að upplýsa skuli um nafn og heimilisfang ábyrgðaraðila, svo og önnur atriði sem hinum skráða er nauðsynlegt að fá vitneskju um til að gæta hagsmuna sinna í tengslum við vinnsluna. Breyting varð á ákvæði 21. gr. með 3. gr. laga nr. 81/2002 en kröfur til upplýsingagjafar ábyrgðaraðila til hins skráða voru sambærilegar fyrir og eftir breytinguna að því fráskildu að fyrir breytinguna var ekki kveðið á um skyldu til að greina frá ákvæðum um upplýsingarétt hins skráða. Meðal þess sem skylt hefur verið að greina frá, bæði fyrir og eftir breytinguna, er hvaðan viðkomandi persónuupplýsingar eru fengnar.
Samskipti A við ritnefnd Guðfræðingatals 1847–2002 og ritstjóra þess áttu sér að nokkru stað í gildistíð laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga en þar var ekki að finna sambærilegt ákvæði og nú er í 21. gr. laga nr. 77/2000. Verður ekki fullyrt að á ritnefnd guðfræðingatalsins og ritstjóra þess hafi í gildistíð þeirra hvílt sú skylda að veita A upplýsingar með þeim hætt sem nú er skylt að gera. Síðari próförk var send út eftir að lög nr. 77/2000 tóku gildi þann 1. janúar 2001. Persónuvernd telur að skýra verði 21. gr. laga nr. 77/2000 á þann veg að hún eigi við þótt umrædd vinnsla hafi byrjað fyrir gildistöku laganna, hafi henni ekki verið lokið þegar þau tóku gildi. Byggist sú skýring á því markmiði laganna "að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga", sbr. 1. mgr. 1. gr. Þetta markmiðsákvæði ber með sér að lögunum er ætlað að vernda hagsmuni hins skráða en ekki ábyrgðaraðila og ber því, við ákvörðun þess hver skil þeirra og eldri laga skuli vera, að horfa til þess hvernig hagsmunum hins skráða verði best borgið.
Í ljósi þessa telur Persónuvernd að þegar lög nr. 77/2000 tóku gildi hafi ritstjóra og ritnefnd Guðfræðingatals 1847–2002 orðið skylt að upplýsa A í samræmi við 21. laganna. Í próförkinni, sem er meðal gagna málsins, er ekki getið heimilda fyrir þeim upplýsingum sem þar eru né verður ráðið af öðrum gögnum málsins að A hafi verið nægilega vel upplýstur um það. Verður enda ekki séð að við hafi átt þær undantekningar frá upplýsingaskyldunni sem tilgreindar eru í 4. mgr. 21. gr. en tilgreindar voru í 2. mgr. sama ákvæðis fyrir 29. apríl 2002.
3.
Í máli þessu er í þriðja lagi til úrlausnar hvort virt hafi verið ákvæði 28. gr. laga nr. 77/2000 um andmælarétt hins skráða. Segir þar að hinum skráða sé heimilt að andmæla vinnslu upplýsinga um sjálfan sig hafi hann til þess lögmætar og knýjandi ástæður vegna sérstakra aðstæðna sinna nema kveðið sé á um annað í öðrum lögum. Eigi andmælin rétt á sér er ábyrgðaraðila óheimil frekari vinnsla umræddra upplýsinga.
Við umfjöllun um þetta ber að greina á milli tvenns, annars vegar skyldu ábyrgðaraðila til að verða við andmælum hins skráða og hins vegar málsmeðferðar ábyrgðaraðila við umfjöllun um andmælin:
a) Ljóst er að A andmælti því eindregið að upplýsingar yrðu birtar í Guðfræðingatali 1847–2002. Andmæli A bárust fyrir gildistöku laga nr. 77/2000 en Persónuvernd telur að skýra verði 28. gr. laga nr. 77/2000 á þann veg að ábyrgðaraðila beri að virða andmæli hins skráða um vinnslu persónuupplýsinga þótt hún hafi byrjað fyrir gildistöku laganna, þar sem henni var ekki lokið þegar þau tóku gildi. Þá ber að túlka ákvæðið með hliðsjón af ákvæðum 45. gr. í formálsorðum tilskipunar 95/46/EB og ákvæði a-liðar 14. gr. tilskipunarinnar, en 28. gr. er ætlað að innleiða í íslenskan rétt efni þessara ákvæða. Af því leiðir að skilja ber ákvæði 28. gr. svo að hinum skráða sé heimilt að andmæla vinnslu persónuupplýsinga um sjálfan sig færi hann fram réttmætar ástæður, sem eðlilegt sé að taka tillit til.
Fyrir liggur að A andmælti því eindregið að upplýsingar yrðu birtar í Guðfræðingatali 1847–2002 með bréfum til formanns ritnefndar þess, dags. 8. júlí og 12. desember 1999, og tölvupósti til ritstjóra þess hinn 19. desember 2000. Hins vegar verður hvergi séð að A hafi tilgreint einhverjar sérstakar ástæður fyrir því að upplýsingar mætti ekki birta í guðfræðingatalinu. Þá liggur ekki fyrir að ábyrgðarmenn hafi kallað eftir þeim svo sem eðlilegt hefði verið. Ekki verður þó framhjá því litið að A tilgreindi engar ástæður fyrir andmælum sínum eins og áskilið er í 28. gr. Verður því ekki fullyrt að ábyrgðarmönnum Guðfræðingatals 1847–2002 hafi borið lagaskylda til þess að taka tillit til órökstuddra andmæla A.
b) Í 14. gr. laga nr. 77/2000 er kveðið á um ábyrgðaraðili að vinnslu persónuupplýsinga skuli afgreiða erindi samkvæmt tilteknum ákvæðum laganna, m.a. 28. gr., svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan eins mánaðar frá móttöku þess.
Öll erindi A vegna Guðfræðingatals 1847–2002 bárust fyrir gildistöku laga nr. 77/2000, hið síðasta 19. desember 2000. Þá giltu lög nr. 121/1989, en þar var ekki að finna ákvæði sambærilegt við það sem nú er í 14. gr. laga nr. 77/2000. Hins vegar verður, eðli málsins samkvæmt, að líta svo á að þá hafi gilt sú óskráða regla að svara ætti erindum frá hinum skráða nægilega fljótt til að hann gæti neytt réttar síns gagnvart ábyrgðaraðila. Persónuvernd telur því að ritnefnd og ritstjóra guðfræðingatalsins hafi verið skylt að svara erindum A og það án ástæðulausrar tafar.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ritstjóra og ritnefnd Guðfræðingatals 1847–2002 var heimilt að birta þar mynd af A auk upplýsinga um brautskráningu, prestsvígslu, skipun í embætti og ættir. Óheimilt var hins vegar að birta þar upplýsingar um einkunnir A svo og að auðkenna upplýsingar um A þar með tveimur stjörnum (**).