Úrlausnir

Miðlun upplýsinga úr málaskrá lögreglu

13.7.2011

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli manns sem kvartaði yfir miðlun lögreglu úr málaskrá til geðlæknis í tengslum við umsókn mannsins um endurnýjun skotvopnaleyfis. Var það niðurstaða Persónuverndar að lögreglu hafi verið óheimilt að miðla upplýsingunum til læknisins.

Úrskurður

 

Hinn 22. júní 2011 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2011/272:

I.

Málavextir og bréfaskipti

Þann 22. febrúar 2011 barst Persónuvernd kvörtun B (hér eftir nefndur „kvartandi“), dags. 22. febrúar 2011, yfir Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt kvörtuninni voru upplýsingar úr málaskrá sendar lækni B án hans samþykkis, en læknirinn hafi átt að meta hæfni hans til að eiga skotvopn. Þá hafi honum verið synjað um vitneskju um tilteknar upplýsingar sem hann varða, sem og um útprentun úr málaskrá. Hinn 18. mars 2011 gaf kvartandi yfirlýsingu þess efnis að kvörtun hans lyti að miðlun gagna frá lögreglu til umrædds læknis, en hann hefði óskað vottorðs frá honum til að afhenda lögreglu. Hann hefði aldrei samþykkt miðlun úr málaskránni.

Í kvörtuninni segir m.a.:

„Málið varðar umsókn um endurnýjun á skotvopnaleyfi og meðhöndlun lögreglu á upplýsingum úr málaskrá lögreglunnar.

 Útprentaðar upplýsingar úr málaskránni voru afhentar lækni sem átti að meta hæfni mína til að eiga skotvopn. Ég hafði ekki vitneskju um þetta þegar þetta átti sér stað og þ.a.l. ekki búinn að veita samþykki mitt fyrir að þetta væri gert.

Til viðbótar hefur mér verið synjað um að fá að vita til hvaða mála lögreglan er að vísa í málatilbúnaði sínum.

Ég er mjög ósáttur við vinnubrögð lögreglunnar og tel á mér brotið. Hefur [H] lögfræðingur hjá lögreglunni verið fremst í flokki með að leyna mig upplýsingum og hefur ekki viljað svara spurningum mínum um hvað málið snýst sem ég hef borið upp í mörgum símtölum sem ég hef átt við hana.

Mér var sagt sjálfum af lögreglunni að ég mætti ekki fá útprentun úr málaskránni þar sem að það bryti í bága við lög.“

Hinn 23. febrúar 2011 kom kvartandi á fund Persónuverndar og afhenti afrit af þeim gögnum sem send voru framangreindum lækni.

Með bréfi, dags. 9. mars 2011, veitti Persónuvernd lögreglunni færi á að tjá sig um umrædda kvörun. Hún svaraði með bréfi, dags. 22. s.m. Þar segir:

„Varðandi fyrra umkvörtunarefnið eru málavextir þeir að kærandi mætti á skrifstofu embættis lögreglustjóra í Kópavogi [...] með umsókn um endurnýjun skotvopnaleyfis. Meðal skilyrða fyrir skotvopnaleyfi er að umsækjandi hafi nægilega kunnáttu til þess að fara með skotvopn, sé andlega heilbrigður og að öðru leyti hæfur til þess að fara með skotvopn sbr. c. lið 1. mgr. 13. gr. vopnalaga nr. 16/1998. Við meðferð umsóknar skal lögreglustjóri leita allra nauðsynlegra upplýsinga um umsækjanda, svo sem með því að kanna annan sakaferil hans en samkvæmt sakaskrá sbr. 26. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl. Í samræmi við framangreint kannaði starfsmaður embættisins skráningar í málaskrá lögreglu, hvort þar væri eitthvað skráð sem mælti gegn endurnýjun leyfisins. Kom þá í ljós að í málaskrá voru skráð nokkur tilvik þar sem kærandi hafði misst stjórn á skapi sínu með þeim hætti að lögregla hafði verið kölluð til. Kvartandi var upplýstur um þessar bókanir og ennfremur að vegna þeirra væri ekki hægt að afgreiða umsókn hans að svo stöddu. Í framhaldinu var kæranda síðan tilkynnt skriflega að til greina kæmi að hafna umsókn hans með vísan til umræddra bókana í málaskrá. Var óskað eftir að áður en ákvörðunin yrði tekin legði hann fram vottorð sérfræðings í geðlækningum þar sem lagt yrði mat á hvort hann uppfyllti skilyrði vopnalaga um andlegt heilbrigði, meðal annars með hliðsjón af þeim tilvikum sem skráð eru í málaskrá lögreglu.

Að frumkvæði kvartanda hafði síðan S geðlæknir samband við embættið en kvartandi hafði falið honum að rita umbeðið vottorð og hafði hann jafnframt afhent honum afrit af bréfi embættisins. Eins og að ofan greinir innihélt bréfið þau fyrirmæli að kvartandi legði fram vottorð sérfræðings í geðlækningum þar sem lagt yrði mat á hvort hann uppfyllti skilyrði vopnalaga um andlegt heilbrigði, meðal annars með hliðsjón af þeim tilvikum sem skráð eru í málaskrá lögreglu. Beiðni kvartanda til viðkomandi læknis um að rita vottorðið gat því ekki talist annað en samþykki hans fyrir því að veita honum aðgang að þeim gögnum sem átti að hafa til hliðsjónar við mat á andlegu heilbrigði hans og ljóst er að læknirinn hafði samþykki kvartanda fyrir því að afla þeirra. Rétt er að undirstrika að embættið hafði ekki frumkvæði að því að hafa samband við umræddan lækni eða senda honum umrædd gögn, heldur var það kvartandi sjálfur sem ræddi við lækninn og óskaði eftir því að hann sendi embættinu umbeðið læknisvottorð. Á þeim grunni óskaði læknirinn eftir gögnunum sem í kjölfarið voru afhent honum.

Að framangreindu virtu hafði embætti lögreglustjóra enga ástæðu til að efast um umboð læknisins til að afla og meta umrædd gögn vegna gerðar læknisvottorðs í tengslum við umsókn kvartanda um endurnýjun skotvopnaleyfis. Þá var lítið tilefni til að óttast að gögnin eða upplýsingar úr þeim færu til óviðkomandi aðila þegar virt er sú ríka þagnarskylda sem hvílir á læknum.

Varðandi síðara umkvörtunarefnið þá var kvartanda afhent útprentun úr málaskrá daginn eftir að munnleg beiðni hans um útprentun var borin fram. Honum voru hins vegar kynnt gögnin ítarlega um leið og hann lagði inn umsókn sína um endurnýjun skotvopnaleyfis eins og að ofan greinir. Ekkert liggur fyrir um að honum hafi verið synjað um upplýsingar eða útprentun enda ekki í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu.“

Með bréfi, dags. 8. apríl 2011, veitti Persónuvernd kvartanda færi á að tjá sig um framangreint bréf lögreglu. Með bréfi, dags. s.d., til umrædds læknis, þ.e. S, óskaði Persónuvernd þess einnig að læknirinn lýsti skilningi sínum á málsatvikum. Læknirinn svaraði með bréfi, dags. 23. maí 2011. Þar segir:

„Þann 11.1.2011 óskaði B eftir því að ég ritaði vottorð vegna umsóknar hans um framlengingu skotvopnaleyfis. B lagði fram bréf Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til hans, dags. 20.12. 2010. Í bréfinu, sem ég geri ráð fyrir að Persónuvernd hafi undir höndum, er vísað til tilvika í „málaskrá lögreglu“, sem til álita munu hafa komið. Þann 17.1.2011 óskaði ég eftir upplýsingum frá lögreglunni um þau tilvik sem nefnd voru í því skyni að geta áttað mig betur á málsatvikum. Fékk ég send afrit úr málaskránni. Í framhaldi af því átti ég samskipti við B í viðtali og símleiðis. Varð niðurstaða þeirra samskipta sú að fallið var frá því að rita hið umbeðna vottorð. Kom efni nefndra afrita úr málaskrá því í rauninni ekki til álita af minni hálfu. Tilkynnti ég lögreglunni þessa niðurstöðu með bréfi mínu dags. 23.2.2011 (sbr. meðf. afrit) og endursendi lögreglunni umrædd afrit úr málaskrá, sem ég hef því ekki lengur undir höndum. Lauk þar með aðkomu minni að málinu.“

Kvartandi svaraði fyrrnefndu bréfi Persónuverndar til hans, dags. 8. apríl 2011, í símtölum hinn 12. apríl og 15. maí s.á. Í símtali 12. apríl sagði hann það ekki rétt sem greinir í bréfi lögreglu að hann hefði fengið aðgang að málaskrárupplýsingum daginn eftir að hann fór þess á leit munnlega (sbr. niðurlag bréfsins). Hið rétta væri að hann hefði verið margbúinn að ítreka þessa ósk. Hann hefði ekki fengið aðgang að gögnunum fyrr en viðkomandi læknir hefði greint sér frá því að honum hefðu borist gögnin. Þá greindi kvartandi frá samtali við S, lögreglustjóra, þar sem umsókn um skotvopnaleyfi hafi verið til umræðu. Hafi S, [lögreglustjóri], rætt um „þessi mál“ og kvartandi þá spurt hvaða mál það væru. Svarið hefði þá verið: „Öll þessi mál“. Kvartandi taldi sér hafa verið torveldað að verja sig.

Kvartandi greindi frá því að hann hefði gert leiðréttingar við færslur um sig í málaskrá lögreglu og að hann teldi þær hafa verið færðar inn sem athugasemdir hans. Seinna um daginn hringdi hann aftur og greindi frá því að hann hefði að nýju óskað eftir aðgangi að málaskrá til að sjá hvernig hún liti út með leiðréttingunum. Munnlegri beiðni hans þar að lútandi hefði verið hafnað.

Í símtali 16. maí 2011 ítrekaði kvartandi það sem fram hafði komið af hans hálfu áður um að það væri rangfærsla hjá lögreglunni að hann hefði fengið aðgang að málaskrárupplýsingum daginn eftir að hann fór þess á leit munnlega. Hann sagði það styrkja mál sitt að hann hefði komið á fund Persónuverndar daginn eftir að aðgangurinn átti að hafa verið veittur samkvæmt skýringum lögreglu og þá gert athugasemdir við að hafa ekki fengið þennan aðgang.

Með bréfi til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 19. maí 2011, veitti Persónuvernd henni færi á athugasemdum við þann skilning á málsatvikum sem birtist í framangreindum símtölum við kvartanda. Lögreglan svaraði með bréfi, dags. 30. s.m. Þar segir:

„Kvartandi heldur því fram að ekki sé rétt að hann hafi fengið gögn úr málaskránni afhent daginn eftir að hann bar beiðni sína fram munnlega. Hið rétta sé að hann hafi verið margbúinn að ítreka þá beiðni. Eins og fram kemur í bréfi embættisins frá 22. mars sl. voru umrædd gögn kynnt fyrir B [...]um leið og hann lagði fram umsókn um endurnýjun skotvopnaleyfis. Sá háttur er ævinlega hafður á þegar sótt er um skotvopnaleyfi að byrjað er á að kanna hvort einhverjar upplýsingar í málaskrá lögreglu geti komið í veg fyrir veitingu leyfis. Ef svo reynist vera eru þær upplýsingar kynntar fyrir umsækjanda og kannað hvort hann vilji draga umsókn sína til baka eða láta á hana reyna. B voru ekki afhent nein gögn við þetta tækifæri og ekkert liggur fyrir um að hann hafi farið fram á það. Þá liggur heldur ekkert fyrir um að B hafi verið margbúinn að ítreka beiðni sína um afhendingu gagnanna eins og hann heldur fram en staðfest er að þann 22. febrúar sl. óskaði hann eftir gögnunum og fékk þau afhent degi síðar. Tekið skal fram að meginreglan er sú að beiðni um gögn úr málaskrá skuli borin fram skriflega en það er þó ekki ófrávíkjanleg regla.

Þá heldur kvartandi því fram að honum hafi verið neitað um afhendingu gagna sem hann fór fram á eftir að hafa gert athugasemdir eða leiðréttingar við tilteknar skráningar í málaskránni. Það rétta í þessu er að B hafði samband við lögreglustjóra þann 12. apríl og óskaði eftir gögnunum. Ef þau yrðu ekki afhent skyldi beiðni hans hafnað skriflega. Farið var fram á skriflega beiðni hans um afhendingu gagnanna en hann taldi sig ekki þurfa að verða við því. Gögnin voru síðar tekin saman og voru þau tiltæk til afhendingar í afgreiðslu embættisins síðar þann sama dag í samræmi við beiðni hans. Gögnin hafa ekki verið sótt.“

Með tölvubréfi, dags. 9. júní 2011, var kvartanda sent afrit af framangreindu bréfi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Svar barst frá honum samdægurs þar sem hann staðfestir að hann hefur fengið umrædd gögn. Þar segir:

„Það er algjörlega rangt að mér hafi verið kynnt þessi mál [...] ég hefði varla staðið í þessu öllu saman ef ég hefði fengið gögnin í byrjun og haft tækifæri til að verja mig. Varðandi gögnin með leiðréttingum þá neitaði [lögreglustjóri] sjálfur að ég fengi þessi gögn og þurfti ég aðstoð lögfræðings til að fá þau afhent hjá Ríkislögreglustjóra.  Þannig að fullyrðingar um að gögnin bíði mín ennþá í afgreiðslu embættisins eru eftirá skýringar og í raun ósannindi. Það eru sennilega 3-4 mánuðir síðan ég kom fyrst til að kvarta yfir framgöngu Lögreglunnar og í raun byrjaði ég að kvarta yfir því að ég fengi aldrei að vita hvaða gögn væri verið að vísa í til að efast um andlegt heilbrigði mitt.  Vinnubrögð Lögreglu eru með öllu óásættanleg og reynir Lögreglustjórinn að flækja málið óþarflega.“

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að hér ræðir um meðferð persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

Við meðferð máls þessa kom fram af hálfu kvartanda að hann fengi ekki aðgang að upplýsingum um sjálfan sig úr málaskrá lögreglu.  Af hálfu lögreglu hefur komið fram að umbeðin gögn hafi verið tekið saman fyrir kvartanda og liggur fyrir að þau eru nú komin í hans hendur. Er því ekki lengur til staðar ágreiningur um það atriði og verður ekki um það fjallað frekar. Afmarkast úrlausnarefni máls þessa því við það hvort umrædd miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga um kvartanda frá lögreglu til S geðlæknis hafi verið heimil.

 

2.

Upplýsingar í málaskrá lögreglu geta m.a. lotið að grun um refsiverða háttsemi, en þá teljast þær viðkvæmar, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna. Svo að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil verður að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Hér kemur til álita að til vinnslu hafi staðið samþykki hins skráða þannig að telja megi skilyrði 1. tölul. greinarinnar vera uppfyllt. Þá þarf að skoða hvort vinnslan samrýmist 2. tölul. greinarinnar, um vinnslu sem er heimil samkvæmt lögum

 

2.1.

Í bréfi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 22. mars 2011, er vikið að því að vinnslan hafi byggst á samþykki kvartanda. Segir að það hafi verið að hans frumkvæði sem geðlæknir hans hafi haft samband við embættið en kvartandi hefði falið honum að rita umbeðið vottorð og afhent honum afrit af bréfi embættisins. Um þetta segir m.a. í bréfi lögreglu: „Beiðni kvartanda til viðkomandi læknis um að rita vottorðið gat því ekki talist annað en samþykki hans fyrir því að veita honum aðgang að þeim gögnum sem átti að hafa til hliðsjónar við mat á andlegu heilbrigði hans og ljóst er að læknirinn hafði samþykki kvartanda fyrir því að afla þeirra.“

Ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 lýtur að heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga á grundvelli samþykkis hins skráða. Hugtakið samþykki er síðan skilgreint í 7. tölul. 2. gr. laganna sem sérstök, ótvíræð yfirlýsing sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv.

Í því máli sem hér um ræðir sýndi kvartandi lækni sínum bréf frá lögreglu þegar hann bað lækninn um að gefa út læknisvottorð. Af framangreindu ákvæði 7. tölul. 2. gr. laganna leiðir að ekki verður litið svo á að einstaklingur hafi samþykkt miðlun viðkvæmra upplýsinga með því að sýna lækni sínum slíkt bréf enda þarf hann að gefa frá sér sérstaka yfirlýsingu um að hann sé samþykkur vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga um sig. Af því leiðir að miðlun umræddra persónuupplýsinga um kvartanda frá lögreglu til S geðlæknis var ekki heimil á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.

 

2.2.

Í öðru lagi kemur til skoðunar hvort miðlun upplýsinganna hafi verið heimil, þótt hún hafi ekki samrýmst 1. tölulið 1. mgr. 9. gr. laganna, því hún hafi samrýmst reglum um miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga úr skrám lögreglu til þriðja aðila og þar með átt sér heimild í 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna.

Um heimild til miðlunar persónuupplýsinga úr skrám lögreglu er fjallað í 6. gr. reglugerðar nr. 322/2001, með síðari breytingum. Þar eru taldir upp þeir aðilar sem lögregla má miðla slíkum upplýsingum til. Sú upptalning er tæmandi að öðru leyti en því að hinn skráði sjálfur á rétt á upplýsingum um sig, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar, enda eigi ekki við ákvæði 9. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti. Miðlun umræddra upplýsinga um kvartanda úr málaskrá lögreglu til S geðlæknis féll ekki undir upptalningu 6. gr. reglugerðar nr. 322/2001.

Við mat á andlegri heilsu í tengslum við endurnýjun skotvopnaleyfis er lækni heimilt að styðjast við nauðsynlegar upplýsingar úr sjúkraskrá, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár þar sem mælt er fyrir um heimild heilbrigðisstarfsmanna til aðgangs að slíkum skrám vegna meðferðar. Telja má greiningu á einstaklingum vegna útgáfu vottorða um heilsufar falla þar undir, sbr. 3. tölul. 3. gr. laganna. Einnig verður að telja lækni mega notast við gögn sem sjúklingur sjálfur leggur fram. Þar á meðal gætu verið gögn úr skrám lögreglu sem hann hefur sjálfur fengið aðgang að samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 322/2001. Svo var ekki í því tilviki sem hér um ræðir.

Af framangreindu leiðir að miðlun umræddra persónuupplýsinga um kvartanda frá lögreglu til S geðlæknis samrýmdist heldur ekki 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

 Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var óheimilt að miðla upplýsingum úr málaskrá um B til S geðlæknis af tilefni óskar B um að fá frá S læknisvottorð.



Var efnið hjálplegt? Nei