Úrlausnir

Miðlun RÚV á upplýsingum um umsækjanda um sumarstarf

2.8.2011

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 22. júní 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2011/437:

 

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

 

Þann 30. mars 2011 barst Persónuvernd kvörtun A (hér eftir nefnd kvartandi) yfir því að Ríkisútvarpið ohf. (RÚV) hefði miðlað persónuupplýsingum um sig þegar afhentur var listi umsækjenda um sumarafleysingarstörf á fréttastofu RÚV. Í kvörtun segir m.a.:

 

„[Kvartað er yfir] birtingu viðkomandi vegna umsóknar um starf hjá RÚV, sem mun vera birt á helstu miðlum landsins. Hvar einstaklingar sækja um störf telst trúnaðarmál.

Í öllum öðrum störfum er það tekið fram ef viðkomandi á von á að hans persónulegu mál eins og það að sækja um starf verði birt sérstaklega og ætti því ekki að koma viðkomandi á óvart. Það var ekki gert í auglýsingum RÚV og aldrei áður verið birtur nafnalisti um minniháttar störf hjá RÚV.

Ef slíkt er viðhaft, er hringt í viðkomandi og hann látinn vita um að slíkt liggi fyrir og að viðkomandi hafi tök á að draga umsóknina til baka, líkt og gert er hjá capacent, ráðuneytum eins og fjármálaráðuneytinu o.flr. ef viðkomandi vill ekki að nafn hans sé birt og athugað hvort þetta geti komið sér illa á nokkurn hátt fyrir viðkomandi. Þetta eru viðkvæmar upplýsingar og getur komið illa við fólk.

 

Þetta varðar við persónuverndarlög um hvar einstaklingur sækir um starf, telst hans persónulega mál, sem engum kemur við nema þeim sem sækir um starfið, nema annað hafi verið tekið fram.

 

Sendur var tölvupóstur mörgum mánuðum seinna að RÚV verði að verða við þessari ósk um að senda nafnalista og ekki einu sinni hringt í fólk né þeim gefnir e.h. úrslitakostir. Það vildi svo heppilega til að viðkomandi sá póstinn og brást strax við og lét vita að viðkomandi væri algjörlega mótfallinn birtingunni og send ósk um að þetta yrði virt. Nærri viku seinna þegar viðkomandi heldur að þetta verði ekki leiðindi fær viðkomandi svar um að ekki hafi hægt að verða við óskinni og að búið sé að senda listann. 

 

Ég fer fram á þetta verði tekið fyrir hjá persónuvernd þar sem að ég er mjög prívat manneskja og starfa mikið með öðrum miðlum og mun þetta því geta eyðilagt önnur verkefni fyrir mér. Ósk mín um að umsóknin væri dregin til baka var ekki virt, né það að ég hef engan áhuga á því að vera partur af einhverjum "fjölmiðlasirkus" sem kemur í kjölfarið að svona nafnalisti er birtur á helstu netmiðlum landsins. Það er hatrammt stríð á milli miðlana, sem ég hef engan áhuga á að taka þátt í!!! Ég hélt að RÚV, ríkissjónvarp allra landsmanna væri stýrt með faglegri starfsháttum en þetta. Hér með sendi ég málið til persónuverndar og lít málið mjög alvarlegum augum.[...]“

 

Með bréfi, dags. 27. apríl 2011, gerði Persónuvernd RÚV grein fyrir kvörtuninni og bauð því að koma sínum sjónarmiðum á framfæri til samræmis við 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svar mannauðsstjóra RÚV ohf. barst Persónuvernd þann 18. maí 2011. Þar segir m.a.:

 

„Af hálfu RÚV er sérstök athygli vakin á því að samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 6/2007 um RÚV gilda upplýsingalög um starfsemi RÚV. Í 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4-6. gr.“. Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. laganna tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til „umsókna um störf hjá ríki eða sveitarfélögum og allra gagna sem þær varða“. Í athugasemdum frumvarps þess sem varð að upplýsingalögum er ákvæði þetta skýrt á þann hátt að með því sé tekið af skarið um að öll gögn máls sem snerta skipun, setningu eða ráðningu í opinber störf séu undanþegin aðgangi almennings. Frá þessari reglu er þó lögfest eitt frávik, sbr. áðurnefndan 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga, en þar segir að „þó er skylt að veita upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarferstur er liðinn“. Framangreind ákvæði 4. tölul. 4. gr. standa í nánum tengslum við þá meginreglu að störf hjá hinu opinbera skuli auglýst laus til umsóknar. Þegar umsóknarfrestur er liðinn ber ráðningaraðila því að útbúa lista yfir nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda svo og veita almenningi aðgang að þessum lista sé þess óskað, svo sem hér var ástatt.

 

Við setningu upplýsingalaga var þannig tekin afstaða til þess hver skyldi vera aðgangur almennings að upplýsingum varðandi umsóknir um opinber störf.

 

Hvorki er tekið fram í 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga né í athugasemdum við greinina í frumvarpi til laganna að tilkynna skuli umsækjendum fyrirfram um að fyrirhugað sé að útbúa framangreindan lista. Þá er heldur ekki tekið fram að gefa eigi hlutaðeigandi kost á að draga umsókn til baka komi slík ósk frá almenningi. Gæti slík niðurstaða heldur ekki talist samþýðanleg markmiði upplýsingalaga. Þá virðist heldur ekki gerður neinn greinarmunur á eðli hins auglýsta starfs og gildir þannig einu, að því er best verður ráðið þótt um „minniháttar starf“ væri að ræða, svo sem kvartandi virðist telja umrætt starf hafa verið.

Af framangreindu leiðir að RÚV var að lögum skylt að birta upplýsingar, enda þótt upplýsingarnar gætu í eðli sínu verið viðkvæmar. Skal jafnframt sérstaklega bent á að ekki verður séð að réttur almennings samkvæmt upplýsingalögum takmarkist af ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 7/2000, sbr. 2. mgr. 44. gr. þeirra laga.

Samkvæmt öllu framansögðu fær RÚV ekki betur ráðið en að félaginu hafi verið skylt að lögum að útbúa umræddan lista yfir nöfn, heimilisföng og starfsheiti þeirra einstaklinga sem sóttu um auglýst sumarafleysingarstörf á fréttastofu RÚV, þ.m.t. kvartanda.“

Svarbréf RÚV var borið undir kvartanda með bréfi, dags. 24. maí 2011. Engin svör bárust.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Almennt

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Þar undir geta m.a. fallið miðlun með framsendingu, dreifing eða aðrar aðferðir til að gera upplýsingarnar tiltækar, sbr. það sem fram kemur í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000, sem og b-lið 2. gr. tilskipunar nr. 95/46/EB.

Með vísan til framangreinds telst sú aðgerð RÚV ohf. að miðla persónuupplýsingum um kvartanda, þ.e. að hann hafi sótt um auglýst störf á fréttastofu RÚV ohf., hafa verið vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000. Fellur úrlausn máls þessa þar með undir verkefnasvið Persónuverndar.


2.

Lögmæti miðlunar á persónuupplýsingum

Vinnsla persónuupplýsinga er heimil ef eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, er uppfyllt. Samkvæmt 3. tölul. 8. gr. telst vinnsla heimil ef hún er nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila. Með lagaskyldu er átt við hvers konar skyldu sem leiðir af lagasetningu.

Í 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að þau taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að lögin taki til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Segir í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga að lögin gildi að öðru leyti ekki um einkaaðila, en undir það hugtak falli m.a. „félög einkaréttarlegs eðlis, eins og hlutafélög og sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu“.

Ríkisútvarpið ohf. er sjálfstætt hlutafélag í opinberri eigu samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 6/2007.  Vegna sérákvæðis 12. gr. laganna, þar sem sérstaklega er tekið fram að upplýsingalög nr. 50/1996 gildi um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf., liggur þó fyrir að upplýsingalögin gilda engu að síður um aðgang almennings að gögnum í vörslum þess.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er þeim sem lögin ná til skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál. Þó nær rétturinn ekki til gagna sem talin eru upp í 4. gr. laganna, þ.e.:

1. Fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og skjala sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi;

2. bréfaskipta stjórnvalda við sérfróða menn til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað;

3. vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota; þó skal veita aðgang að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá;

4. umsókna um störf hjá ríki eða sveitarfélögum og gagna sem þær varða. Þó er skylt að veita upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn.

 Í því máli sem hér um ræðir liggur ekki fyrir að miðlað hafi verið öðrum persónuupplýsingum um kvartanda en þeim er greinir í framangreindu ákvæði 4. töluliðar, þ.e. um nafn hans, heimilisfang og starfsheiti. Þá liggur ekki fyrir að þeim persónuupplýsingum hafi verið miðlað fyrr en umsóknarfrestur um umrætt starf var liðinn.

Þótt fallast megi á það með kvartanda að birting upplýsinga um nöfn umsækjenda geti í ákveðnum tilvikum valdið þeim óhagræði haggar það ekki því að löggjafinn hefur, með framangreindum ákvæðum 3. gr. og 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga, ákveðið að almennur aðgangur skuli vera að slíkum persónuupplýsingum sem hér um ræðir. Er því ljóst að til vinnslunnar, þ.e. til miðlunar á persónuupplýsingum um að kvartandi hefði sótt um umrætt starf hjá RÚV ohf., stóð lagaheimild í skilningi 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.  Var miðlun persónuupplýsinganna til almennings því heimil að lögum.

 

 Ú r s k u r ð a r o r ð:

RÚV ohf. var heimilt að afhenda almenningi persónuupplýsingar um umsókn A um sumarstarf á fréttastofu félagsins.



Var efnið hjálplegt? Nei