Úrlausnir

Afhending nafnalista hjá stéttarfélagi

8.8.2011

Persónuvernd hefur úrskurðað um afhendingu nafnalista yfir félagsmenn VR til frambjóðenda í kjöri til formanns og stjórnar félagsins. Persónuvernd taldi að afhendingin væri heimil þar sem hún var liður í lögmætri starfsemi samtakanna og tók aðeins til félagsmanna.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 22. júní 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2011/450:

 

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

1.

Tildrög máls

Þann 30. mars 2011 barst Persónuvernd kvörtun frá S yfir því að Verslunarmannafélag Reykjavíkur (VR) hafi miðlað upplýsingum um sig við afhendingu kjörskrár til frambjóðenda við kjör á einstaklingum til setu í stjórn félagsins og við kjör formanns félagsins. Í kvörtuninni segir m.a.:

„Ég tel [...]að utankomandi aðilar eigi ekki að fá nöfn þeirra sem eru félagsmenn í stéttafélagi við það eitt að vita hverjir eru í félaginu og geta hringt til að smala atkvæðum. Það kemur engum við í hvaða stéttafélagi ég er eða hvort ég er í stéttafélagi.  Þessar upplýsingar eiga að vera trúnaðarmál.“

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 31. mars 2011, var VR veitt færi á að tjá sig um hina framkomnu kvörtun. Svarbréf lögmanns f.h. VR, dags. 18. apríl 2011, barst stofnuninni þann 28. apríl 2011. Þar sagði m.a.:

„Í [20]. gr. laga VR segir að við framkvæmd kosninga í félaginu skuli fara eftir reglugerð ASÍ um framkvæmd kosninga. Þar segir í 14. gr. að meðmælendur lista hafi rétt á að fá afrit af kjörskrá. Markmiðið með ákvæðinu er að þeir sem bjóði sig fram til trúnaðarstarfa eigi þess kost að kynna sér hverjir eigi atkvæðisrétt í félaginu og að þeir geti náð til þeirra í kosningum og kynnt framboð sitt. Er þetta í samræmi við almennar kosningareglur eins og t.d. í alþingiskosningunum en í 26. gr. kosningalaga segir að kjörskrá skuli liggja frammi almenningi til sýnis 10 dögum fyrir kjördag.

Á árinu 2009 var í fyrsta sinn kosið til trúnaðarstarfa í félaginu í almennri atkvæðagreiðslu. Við gerð kjörskrár þá var leitað til Persónuverndar um hvernig standa ætti að útgáfu kjörskrár í ljósi þess að um er að ræða upplýsingar sem njóta persónuverndar skv. persónuverndarlögum. Samkvæmt ráðleggingum Persónuverndar [...] var einungis tilgreint nafn og heimilisfang í kjörskrá en ekki kennitala og með því var talið að fyllstu persónuverndar væri gætt.

Þá var ákveðið, til að tryggja endurheimtu kjörskrár og koma í veg fyrir óheimila afritatöku að hvert eintak, sem var afhent ábyrgðamanni framboðs, væri merkt nafni frambjóðanda eða ábyrgðarmanni listaframboðs í bakgrunni á hverri síðu auk þess sem tekið var fram að afritun væri óheimil. Sömu reglum var fylgt við ný afstaðnar kosningar.

[...]

Það er mat VR að til að tryggja eðlilega framkvæmd kosninga og til að gæta jafnræðis milli framboða sé eðlilegt að þeir sem bjóði sig fram fái upplýsingar um hverjir hafi atkvæðisrétt í félaginu. Að öðrum kosti er augljóst að sitjandi ráðamenn hafa eða gætu haft aðgengi að meiri upplýsingum en aðrir. Með því að afhenda afrit kjörskrár er tryggt jafnræði milli framboða þannig að allir hafi sama aðgang að upplýsingum um atkvæðisbæra félagsmenn.

Það er mat VR að þó aðild að stéttarfélagi sé skilgreind sem viðkvæmar persónuverndaðar upplýsingar þá verða félagsmenn að sæta því að frambjóðendur hafi aðgang að kjörskrá, með þeim takmörkunum sem áður hafa verið nefndar, til að tryggja jafnræði við kosningar í félaginu.“

Svarbréf VR var borið undir kvartanda með bréfi, dags. 9. maí 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Af framangreindu leiðir að afhending persónuupplýsinga um kvartanda, við afhendingu kjörskrár til frambjóðenda við kjör á einstaklingum til setu í stjórn félagsins og við kjör formanns félagsins, fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000, sem og valdsvið Persónuverndar, sbr. 37. gr. laganna.

 

2.

Samkvæmt e-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 eru upplýsingar um stéttarfélagsaðild viðkvæmar persónuupplýsingar.  Samkvæmt 9. gr. þeirra laga er vinnsla slíkra upplýsinga óheimil nema uppfyllt sé eitthvað af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. og ennfremur eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 9. gr. laganna.

 Í 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. segir að vinnsla sé heimil sé hún framkvæmd af samtökum sem hafa stéttarfélagsleg markmið eða af öðrum samtökum sem ekki starfa í hagnaðarskyni, svo sem menningar-, líknar-, félagsmála- eða hugsjónasamtökum, enda sé vinnslan liður í lögmætri starfsemi samtakanna og taki aðeins til félagsmanna þeirra eða einstaklinga sem samkvæmt markmiðum samtakanna eru, eða hafa verið, í reglubundnum tengslum við þau. Í lokamálslið töluliðsins segir að þó megi ekki miðla slíkum upplýsingum áfram án samþykkis hins skráða. Með miðlun persónuupplýsinga er hins vegar almennt, í skilningi laga nr. 77/2000, átt við að þær séu afhentar einhverjum öðrum en hinum skráða, ábyrgðaraðila eða vinnsluaðila eða starfsmönnum sem vinna undir þeirra stjórn. Þegar upplýsingar eru afhentar með þeim hætti sem um ræðir í þessu máli, þ.e. innan félags í samræmi við reglur sem gilda um starfsemi þess og vegna kosningar þess til stjórnar, telst ekki vera um að ræða miðlun í framangreindum skilningi.

Við mat á því hvort vinnslan hafi samrýmst ákvæði 5. töluliðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 ber að líta til 20. gr. laga VR. Þar er vísað til reglugerðar ASÍ um  leynilega allsherjar atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna aðildarsamtaka ASÍ. Í 2. mgr. 14. gr. þeirrar reglugerðar segir að meðmælendur hvers lista eða tillögu (uppástungu) hafi rétt til að fá sameiginlega eitt afrit af kjörskrá ásamt skuldalista, um leið og atkvæðagreiðsla er auglýst. Þá segir einnig að óheimilt sé að afrita kjörskrá og/eða dreifa með nokkrum hætti. Að mati Persónuverndar var afhending persónuupplýsinga um kvartanda við afhendingu kjörskrár til frambjóðenda við kjör á einstaklingum til setu í stjórn félagsins og við kjör formanns félagsins, liður í lögmætri starfsemi samtakanna og uppfyllti það skilyrði töluliðarins að taka aðeins til félagsmanna þeirra eða einstaklinga sem eru í reglubundnum tengslum við þau. Samrýmdist vinnslan því skilyrði 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.

Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga þarf, auk þess að uppfylla eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 9. gr., að uppfylla eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 8. gr.  Samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 8. gr. er heimil vinnsla sem er nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda ber samkvæmt lögum vegi þyngra. Að mati Persónuverndar má, að virtum lögum VR og því í hvaða tilgangi nafn kvartanda var afhent frambjóðendum, líta svo á að þetta skilyrði hafi verið uppfyllt enda hefur kvartandi ekki bent á með hvaða hætti réttindi hans eða frelsi hafi vegið þyngra á metunum en lögmætir hagsmunir af lögmætri framkvæmd kosninga til stjórnar félagsins. Samrýmdist vinnslan því skilyrði 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

VR var heimilt að afhenda upplýsingar um S við afhendingu kjörskrár til frambjóðenda við kjör á einstaklingum til setu í stjórn félagsins og við kjör formanns félagsins.




Var efnið hjálplegt? Nei