Úrlausnir

Kvörtun yfir spurningalistakönnun í grunnskóla

30.8.2011

Ákvörðun


Hinn 17. ágúst 2011 fjallaði stjórn Persónuverndar um mál nr. 2011/209 og tók eftirfarandi ákvörðun:

1.
Erindi kvartanda
Með tölvubréfi, dags. 10. febrúar 2011, barst Persónuvernd kvörtun B vegna  rannsóknarinnar „Ungt fólk 2011“ sem framkvæmd var af hálfu Rannsóknar og greiningar ehf. Kvörtunin er þríþætt, í fyrsta lagi er kvartað yfir því að mennta- og velferðarráðuneyti standi að rannsókn, í öðru lagi yfir framsendingu á tölvupósti frá X-skóla til Rannsóknar og greiningar ehf. og í þriðja lagi yfir spurningalista sem lagður var fyrir barn kvartanda. Hér á eftir er aðeins fjallað um síðasta þáttinn.

Í kvörtun B segir m.a.:
„Rannsókn og greining
Mótmæli því að hægt sé að framkvæma rannsókn á bönrum án þess að fyrir liggi samþykki foreldra.
X-skóli
Mótmæli því að skólinn sendi tölvupóst sem ætlaður er skólayfirvöldum á 3 aðila án þess að fyrir liggi samþykki mitt fyrir slíku. Mótmæli einnig því að skólinn taki þátt í rannsókn sem ekki hefur fengið til þess tilsk[i]lin leyfi PV og VSN.
Mennta- og Velferðarráðuneyti
Mótmæli því að ráðuneytið standi fyrir ólöglegri rannsókn á mínum börnum.“

Kvörtuninni fylgdi afrit af tölvupóstsamskiptum milli kvartanda og H, deildarstjóra í X-skóla, annars vegar og J, starfsmanns Rannsóknar og greiningar, hins vegar.

Með bréfi Persónuverndar, dags. 16. júní 2011, var Rannsókn og greiningu ehf. gerð grein fyrir kvörtuninni og félaginu boðið að koma á framfæri andmælum sínum. Svarbréf Rannsóknar og greiningar, dags. 27. júní 2011, barst stofnunni þann 4. júlí s.á. Þar segir m.a.:

„[...] Í kvörtun B gætir misskilnings eins og ég benti á í tölvupósti mínum [...] þann 9. febrúar 2011. B vísar þar til Skólapúlsins sem er einhvers konar persónurekjanleg rannsókn sem unnin er á meðal barna á Íslandi. Ég skildi ætla að það væri B ljóst að um persónurekjanlegar og ópersónurekjanlegar rannsóknir gilda ekki sömu reglur.

Eins og sjá má hafa félagsvísindarannsóknir Rannsókna og greiningar verið nokkuð í umfjöllun og er það gott. Nú beinist kvörtun til Rannsóknar og greiningar að því að ekki liggi fyrir samþykki foreldra. Gagnagrunnur Rannsókna og greiningar um ungt fólk nær allt aftur til ársins 1992. Rannsóknir hafa alla tíð síðan verið unnar á sama hátt og samkvæmt lögum. Rannsóknirnar eru unnar samkvæmt samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið en sá samningur var nýverið framlengdur til ársins 2016.

Sem fram kemur í hjálögðum bréfum eru allar rannsóknir Rannsókna og greiningar ópersónurekjanlegar og til þess eins gerðar að varpa ljósi á hagi og líðan ungs fólks á Íslandi með það fyrir augum að bæta líf og líðan ungs fólks og fjölskyldna þeirra. Árið 2011 eru rannsóknirnar nýttar í þeim tilgangi í sveitarfélögum á Íslandi sem í búa um 80% landsmanna og hefur svo verið undanfarin 11 til 12 ár. Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur með stuðningi sínum grunn að því að sveitarfélög, stofnanir og skólar geti þannig unnið að bættum hag og líðan ungmenna á hverjum stað. Foreldrum er ávallt sent upplýsingabréf um rannsóknarfyrirlögn hverju sinni og samhliða gefinn kostur á að láta okkur eða skólann vita, sé vilji foreldra til þess að barna viðkomandi taki ekki þátt í rannsókninni. Á hverju ári hafa örfáir foreldrar/forráðamenn samband við okkur í kjölfar upplýsingabréfs til foreldra og flestir til að afla nánari upplýsinga um rannsóknina. Aðeins örfáir foreldrar óska þessa í hvert sinn að barn þeirra taki ekki þátt og er ávallt orðið við beiðni þeirra. Í ár var lagður spurningalisti fyrir alla nemendur sem mættir voru í skólann og stunduðu nám við 5.-10. bekk á öllu landinu, alls um 25 þúsund nemendur. Þannig eru rannsóknirnar mikilvægur þáttur í starfi þeirra sem starfa með hag ungmenna að leiðarljósi, hafa verið og eru grundvöllur stefnumótunar í fjölmörgum málaflokkum sem lúta að lífi ungs fólks og fjölskyldna þeirra. [...].“

Svarbréfi Rannsóknar og greiningar ehf. fylgdi jafnframt afrit af fræðslubréfi, dags. 7. febrúar 2011, sem sent var foreldrum/forráðamönnum þátttakenda. Þar sagði m.a.:

„Könnunin er nafnlaus og ópersónurekjanleg og því ekki hægt að rekja neinar upplýsingar til einstaklinga. Þegar nemendur hafa lokið við að fylla út spurningalistana eru þeir beðnir að setja þá í umslag og loka þeim vandlega áður en þeim er safnað saman. Listarnir eru svo sendir greiningaraðilum sem tölvuskrá upplýsingarnar án þess að geta með nokkru móti vitað hverjum þær tilheyra. Að skráningu lokinni er spurningalustinum eytt.„

Með svarinu fylgdi einnig afrit spurningalistans og þess kynningarbréfs sem nemendur fengu í hendur. Í því segir m.a.:

„Enginn sem þekkir þig, hvorki kennarar þínir né foreldrar, kunningjar eða vinir, munu nokkurn tíma fá að sjá svörin þín eða fá að vita hvernig þú svaraðir. Gættu þess því að skrifa ekki nafn þitt á spurningalistann eða umslagið sem honum fylgir.„

2.
Ákvörðun Persónuverndar
Efnislegt gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og þar með valdsvið Persónuverndar, nær til vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna.

Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Í athugasemdum þeim er fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 77/2000 er ákvæðið skýrt. Þar segir m.a.:

„Skilgreining frumvarpsgreinarinnar á hugtakinu persónuupplýsingar byggist á tilskipun ESB. Í 26. lið formála tilskipunarinnar segir að meginreglur um vernd skuli gilda um allar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar. Þar segir og að til þess að ákveða hvort upplýsingar séu persónugreinanlegar (rekjanlegar) skuli tekið mið af öllum aðferðum sem eðlilegt er að hugsa sér að ábyrgðaraðili eða annar aðili beiti til að bera kennsl á viðkomandi einstakling. Meginreglur um vernd skulu ekki gilda um upplýsingar sem hafa verið aftengdar einstaklingum (rendered anonymous) þannig að ekki sé lengur unnt að persónugreina hina skráðu. Af a-lið 2. gr. tilskipunar ESB leiðir m.a. að upplýsingar teljast persónugreinanlegar ef unnt er að persónugreina þær, beint eða óbeint, með tilvísun í kennitölu eða einn eða fleiri þætti sem sérkenna hinn skráða í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti.“

Erindi það sem hér er til úrlausnar lýtur að því að fyrir barn kvartanda var lagður spurningalisti. Það var gert í þágu verkefnis sem ber yfirskriftina „Ungt fólk 2011“ og var könnun gerð meðal nemenda í 8., 9. og 10. bekk.

Persónuvernd hefur farið yfir umræddan spurningalista. Á honum eru spurningar um kyn, fæðingarár og hvort nemandi sé í 8., 9. eða 10. bekk. Í mjög litlum skóla væri ekki algerlega útilokað að rekja svör til einstakra svarenda með slíkar upplýsingar í höndum. Til þess ber hins vegar að líta hver er fjöldi nemenda í X-skóla. Á heimasíðu skólans hefur verið birt ársskýrsla vegna starfsárinsins 2009-2010. Þar kemur fram að þá voru alls 134 nemendur í 8. bekk, 66 drengir og 68 stúlkur. Í 9. bekk voru 141 nemendandi, 75 drengir og 66 stúlkur. Í 10. bekk voru 163 nemendur, 74 drengir og 89 stúkur. Í svo stórum skóla nægja framangreindar breytur ekki til þess, að mati Persónuverndar, að telja megi umræddar upplýsingar vera persónugreinanlegar. Af því leiðir að vinnsla þeirra fellur utan gildissviðs laga nr. 77/2000 og þar með utan verkefnasviðs Persónuverndar. Eru því ekki lagaskilyrði til þess að Persónuvernd leggi úrskurð á hvort heimilt hafi verið að leggja umrædda könnun fyrir nemendur án samþykkis foreldra.  Verður því að vísa málinu frá.

Á k v ö r ð u n a r o r ð :
Vísað er frá kvörtun B, dags. 10. febrúar 2011, yfir spurningalista sem lagður var fyrir barn hans vegna könnunar á vegum Rannsóknar og greiningar í þágu verkefnisins „Ungt fólk 2011“ .


Var efnið hjálplegt? Nei