Úrlausnir

Óheimil krafa TR um fjárhagsupplýsingar

5.9.2011

Kona kvartaði til Persónuverndar yfir Tryggingastofnun ríkisins. Hún hafði sótt um að fá örorkuskírteini frá stofnuninni, en réttur til að fá slíkt skírteini ræðst af örorku og er óháður tekjum. Persónuvernd taldi að ekki hafi verið til staðar þörf hjá TR, og þar með heimild, til að gera kröfu um að fá fjárhagsupplýsingar um konuna.

Úrskurður


Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 17. ágúst 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2011/184:

I.
Grundvöllur máls
Málavextir og bréfaskipti
1.
Tildrög máls
Þann 9. febrúar 2011 barst Persónuvernd kvörtun frá H(hér eftir nefnd kvartandi), vegna kröfu Tryggingarstofnunar ríkisins um að fá aðgang að skattframtali hennar vegna útgáfu örorkuskírteinis, en réttur til að fá slíkt skírteini ráðist af örorku og sé óháður tekjum. Í kvörtuninni segir m.a.:

„[...]Erindið er: Hefur Tryggingastofnun ríkisins heimild til að þvinga mig til að veita aðgang að persónuupplýsingum um fjárhag minn af því stofnunin hefur einkarétt á útgáfu örorkuskírteina, sem eru ekki tekjutengd?
Ég er öryrki vegna [...], þigg örorkulífeyri frá Lífeyrissjóði [...] og sá lífeyrir er það hár að ég á engan rétt til bóta úr almannatryggingakerfinu, þ.e. frá Tryggingastofnun ríkisins. Aftur á móti getur einungis Tryggingastofnun ríkisins gefið úr svokallað örorkuskírteini, sem gefur t.d. afsláttarrétt á læknisþjónustu. (Sjá 5. gr. reglugerðar um örorkumat, nr. 379 frá 1999.) Lögfræðingur réttindaskrifstofu velferðarráðuneytisins hefur staðfest skriflega að einungis TR megi gefa út slík skírteini.
 
Hjá TR fékk ég þær upplýsingar að stofnunin gæti ekki afgreitt örorkuskírteini nema ég fyllti út umsókn um örorkubætur frá stofnuninni. Ég tek fram að örorkuskírteini er ekki tekjutengt en örorkubætur og örorkustyrkur eru það hins vegar. Meðfylgjandi umsókninni sendi ég stutt bréf þar sem ég útskýrði að ég væri einungis að sækja um að fá örorkuskírteini enda teldi ég mig ekki eiga neinn rétt á fjárhagslegum stuðningi, þiggjandi örorkulífeyri skv. áunnum réttindum mínum frá LSR.
 
Ég er ósátt við að til þess að fá örorkuskírteini, sem er ekki tengt tekjum heldur örorkumati,  sé ég neydd til að fylla út umsókn þar sem ég gef TR með undirskrift minni TR til að skoða ýmis persónuleg gögn sem varða fjárhag minn. [...]
Í umsóknareyðublaði TR stendur: „Með undirskrift minni veiti ég Tryggingastofnun heimild til að afla nauðsynlegra upplýsinga sem kunna að hafa áhrif á fjárhæð greiðslna, þ.e. tekjuupplýsinga hjá skattayfirvöldum, lífeyfissjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis þegar við á, með rafrænum hætti eða á annan hátt. Jafnframt staðfesti ég að ég mun tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum mínum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur.“  Skrifi ég ekki undir þetta get ég ekki fengið örorkuskírteini. [...]
 
Ég get ómögulega séð að aðferð TR til að neyða mig til að veita samþykki mitt fyrir því að stofnunin megi skoða tekjuupplýsingar hjá skattayfirvöldum og lífeyrissjóðum einungis af því ég get ekki fengið örorkuskírteini (ótekjutengt) frá öðrum aðila en TR sé yfirlýstur, skýr eða málefnalegur tilgangur. [...]“

2.
Bréfaskipti
Með bréfi, dags. 28. febrúar 2011, var Tryggingastofnun Íslands veitt færi á að tjá sig um framkomna kvörtun. Í svarbréfi TR, dags. 4. mars 2011, segir m.a.:

„H uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 og þar af leiðandi uppfyllir hún ekki skilyrði til að sækja um örorkuskírteini.
Tryggingastofnun óskar aldrei eftir upplýsingum um fjárhag lífeyrisþega við útgáfu örorkuskírteina. Skilyrði sem þarf að uppfylla er að vera sjúkratryggður og vera með 75% örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007.
Rétt er að geta þess að þeir sem undirrita umsókn um örorkumat veita Tryggingastofnun heimild til að afla nauðsynlegra upplýsinga sem kunna að hafa áhrif á greiðslur umsækjanda, það hefur ekkert með útgáfu örorkuskírteina að gera.“

Svarbréf Tryggingastofnunar Íslands var kynnt kvartanda með bréfi Persónuverndar, dags.  8. mars 2011.  Svarbréf hennar barst með tölvupósti hinn 20. mars 2011. Í því segir m.a.:
 
„Mér barst bréf frá Persónuvernd, undirritað af [...] þar sem vitnað er í svar Tryggingastofnunar: "...en þar kemur m.a. fram að Tryggingastofnun óski ekki eftir upplýsingum um fjárhag lífeyrisþega við útgáfu örorkuskírteina."

Þetta er rangt. Til þess að fá örorkuskírteini, sem Tryggingastofnun (TR) hefur einkarétt á að gefa út þarf, skv. upplýsingum TR, að fylla út umsóknareyðublaðið „Umsókn um örorkulífeyri og tengdar greiðslur“ þar sem segir: „Með undirskrift minni veiti ég Tryggingastofnun heimild til að afla nauðsynlegra upplýsinga sem kunna að hafa áhrif á fjárhæð greiðslna, þ.e. tekjupplýsinga hjá skattayfirvöldum, lífeyrissjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis þegar við á, með rafrænum hætti eða á annan hátt. Jafnframt staðfesti ég að ég mun tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum mínum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur.“

Í bréfi TR til Persónuverndar segir einnig: "Þeir sem undirrita umsókn um örorkumat veita Tryggingastofnun heimild o.s.frv."
Þetta er einnig rangt því á vef TR er ekkert umsóknareyðublað um örorkumat. Því er ekki hægt að "undirrita umsókn um örorkumat".
[...]
Í tilkynningu fulltrúa [...] Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. mars 2011 (sem fylgir þessu bréfi í viðhengi) segir: "Tryggingastofnun hefur borist umsókn þín um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Samkvæmt örorkumati tryggingalæknis uppfyllir þú læknisfræðileg skilyrði. ... Þess er því vinsamlegast farið á leit að þú fyllir út meðfylgjandi tekjuáætlun ... Berist áætlunin ekki innan 20 daga mun Tryggingastofnun áætla tekjur þínar á grundvelli nýjasta skattframtals þíns og greiða bætur samkvæmt þeim grundvelli."
Svo það er ljóst að þótt ég hafi marghamrað á því við TR að ég sé einungis að sækja um ótekjutengt örorkuskírteini er mér ómögulegt að komast hjá því að TR snuðri í mínum gögnum, þ.e. skattframtali vegna þess að:
a) Ekki er hægt að sækja um örorkuskírteini frá TR nema fá örorkumat TR;
b) Ekki er hægt að fá örorkumat TR nema fylla út „Umsókn um örorkulífeyri og tengdar greiðslur“;
c) Ekki er hægt að skila þeirri umsókn óundirritaðri. Með undirskrift gefur umsækjandi TR víðtækan rétt til að skoða ýmis persónuleg skjöl sem varða fjárhag umsækjanda.[...]“

Með bréfi, dags. 29. apríl 2011, gerði kvartandi frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum og því að hún hefði leitað til umboðsmanns Alþingis og hún óskaði þess að Persónuvernd lyki umfjöllun um sitt mál. Þar er áréttað að hún hafi einungis sótt um ótekjutengt örorkuskírteini til TR en verið krafin um upplýsingar um tekjur og sætti sig ekki við það.

Málið var enn borið undir Tryggingarstofnun ríkisins með bréfi Persónuverndar, dags. 8. júní 2011, og var óskað nánari skýringa þaðan. Svarbréf Tryggingarstofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2011, barst Persónuvernd þann 23. júní s.á. Þar segir:

„Samkvæmt 54. gr. laga nr. 100/2007 gefur Tryggingarstofnun út örorkuskírteini til þeirra sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 18. gr. sömu laga og eru jafnframt sjúkratryggðir á Íslandi.
Þetta þýðir að enginn getur sótt eingöngu um örorkuskírteini.
Örorkumat hjá Tryggingastofnun byggir á umsókn og læknisfræðilegum gögnum umsækjanda. Þegar 75% örorkumat liggur fyrir er gefið út örorkuskírteini á nafn viðkomandi umsækjanda. Þetta skírteini veitir afslátt á lyfjum og læknismeðferðum eftir ákveðnum reglum.“

II.
Forsendur og niðurstaða

1.
Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Af framangreindu leiðir að vinnsla Tryggingastofnunar Íslands á upplýsingum um fjárhag einstaklings í tengslum við afgreiðslu óskar hans um að fá útgefið örorkuskírteini er vinnsla almennra persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000. Fellur málið þar með undir gildissvið þeirra laga og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 37. gr. laganna.

2.
Svo að vinnsla almennra persónuupplýsinga sé heimil þarf ávallt að vera fullnægt einhverri af kröfunum í 8. gr. laga nr. 77/2000.  Þá skal við meðferð persónuupplýsinga gæta þess að unnið sé með persónuupplýsingar á sanngjarnan, málefnalegan og lögmætan hátt og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); og að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.).

3.
Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 8. gr. getur vinnsla talist heimil hafi hinn skráði ótvírætt samþykkt hana. Með ótvíræðu samþykki er átt við að ekki sé um það vafi að hinum skráða hafi verið kunnugt um vinnsluna og hafi af fúsum og frjálsum vilja sannanlega tekið afstöðu til þess að hún megi fara fram. Í máli þessu liggur fyrir að þegar kvartandi sótti um örorkuskírteini hjá TR átti hún í raun ekkert val heldur bauðst henni aðeins að nota eyðublað þar sem á stóð að með því að undirrita það veitti hún Tryggingastofnun heimild til að afla ýmissa persónuupplýsinga um hana, þ. á m. tekjuupplýsinga frá skattayfirvöldum.

4.
Þegar ábyrgðaraðili er stjórnvald þarf, í ljósi lögmætireglunnar, að skoða hvort uppfyllt sé ákvæði 3. töluliðar 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um að vinnsla sé heimil vegna þess að hún sé ábyrgðaraðila nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á honum. Ber hér að skoða ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, þ.e. að því varðar um örorkuskírteini.  Í 3. mgr. 54. gr. laganna, eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 112/1008, segir að Tryggingastofnun ríkisins gefi út slík skírteini. Þau megi gefa þeim er uppfylli skilyrði 1. mgr. 18. gr. og sé sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Í 1. mgr. 18. gr. segir:

„Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, eru á aldrinum 18 til 67 ára og:
   a. hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,
   b. eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.“

Ákvæði um rétt til örorkulífeyris var áður í 12. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993. Ákvæði b-liðar 1. mgr. 12. gr. var breytt með 1. gr. laga nr. 62/1999 um breytingar á lögum um almannatryggingar. Í athugasemdum þeim er fylgdu frumvarpi því sem varð að framangreindum lögum segir um 1. gr. að breytingin lúti að forsendum fyrir ákvörðun örorkulífeyris. Megintilgangurinn með breytingunum sé að falla frá beinni tekjuviðmiðun. Eigi örorkumat alfarið að byggja á læknisfræðilegum forsendum. Með því muni þeir sem læknisfræðilega teljast öryrkjar á háu stigi fá örorkuskírteini og þau réttindi sem því fylgja, óháð því hvort þeir stunda vinnu eða ekki. Örorkuskírteinið tryggi öryrkjum m.a. lægri greiðslu fyrir læknisþjónustu, lyf og sjúkra-, iðju- og talþjálfun.

Af framangreindu er ljóst að rétt til að fá útgefið örorkuskírteini eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi í tiltekinn tíma og eru metnir til 75% örorku til langframa. Má ráða af athugasemdum þeim er fylgdu frumvarpi til laga nr. 62/1999 að rétturinn til örorkulífeyris sé ekki háður tekjum viðkomandi einstaklings og að matið sé eingöngu læknisfræðilegt. Af þessu er ljóst að ekki skal taka tillit til tekna umsækjanda þegar réttur til örorkulífeyris er metinn. Hins vegar gæti slíkt skipt máli við mat á fjárhæð örorkubóta, sbr.  2. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007. Í tilviki kvartanda var óskað eftir örorkuskírteini, og um leið staðfestingu á rétti til örorkulífeyris, en ekki eftir útreikningi á fjárhæð bóta að teknu tilliti til tekna kvartanda.

Með vísan til framangreinds verður ekki séð að til staðar hafi verið þörf, sbr. 3. tölul. 7. gr. laga nr. 77/2000, og þar með heimild samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna,  fyrir Tryggingastofnun ríkisins til vinnslu fjárhagsupplýsinga um kvartanda. Þá hefur Tryggingastofnun sjálf ekki sýnt fram á að uppfyllt hafi verið önnur skilyrði 1. mgr. 8 .gr.  Verður því ekki séð að henni hafi verið heimilt að vinna persónuupplýsingar um fjárhag kvartanda á þeirri forsendu að kvartandi hefði beðið um örorkuskírteini, enda ræðst réttur til þess af læknisfræðilegu mati en ekki tekjum. Af þeim sökum var Tryggingastofnun ríkisins óheimilt að krefja kvartanda um upplýst samþykki fyrir aðgangi að fjárhagsupplýsingum í tilefni af erindi hennar um örorkuskírteini.


Ú r s k u r ð a r o r ð:

Tryggingarstofnun ríkisins var óheimilt að krefja H um upplýst samþykki hennar fyrir aðgangi stofnunarinnar að fjárhagsupplýsingum í tilefni af erindi hennar um að fá útgefið örorkuskírteini.




Var efnið hjálplegt? Nei