Upplýsingar um vanskil á umslagi bréfs
Maður kvartaði yfir umslagi sem Orkubú Vestfjarða notaði fyrir áminningarbréf. Á umslaginu var áritun sem bar með sér að viðtakandi þess væri í vanskilum. Var það niðurstaða Persónuverndar að þetta fæli í sér miðlun upplýsinga sem ekki væri heimil.
Upplýsingar um vanskil á umslagi bréfs
Úrskurður
Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 17. ágúst 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2011/653:
I.
Grundvöllur máls
Málavextir og bréfaskipti
1.
Tildrög máls
Þann 26. maí 2011 barst Persónuvernd kvörtun frá M (hér eftir nefndur
kvartandi). Kvartar hann yfir því að sér hafi borist póstur frá Orkubúi
Vestfjarða, en umslagið beri með sér innihaldið, þ.e. að hann sé í
vanskilum hjá stofnuninni. Í kvörtuninni segir m.a.:
„Kvörtunin er sú að það kemur engum við nema mér og Orkubúinu hvort ég sé í vanskilum við þá eða ekki en það bréf sem þeir senda út er bara auglýsing í póstinum þess efnis að ég skuldi (sjá viðhengi).“
Í viðhengi fylgdi afrit af umslaginu og á því er að finna áletrunina: „...Við viljum bara minna þig á...“
2.
Bréfaskipti
Með bréfi, dags. 1. júní 2011, gerði Persónuvernd Orkubúi Vestfjarða
ohf. grein fyrir framangreindri kvörtun og bauð henni að koma sínum
sjónarmiðum á framfæri til samræmis við 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga
nr. 37/1993. Svarbréf B hrl. f.h. Orkubús Vestfjarða ohf., dags. 10.
júní 2011, barst stofnuninni þann 15. júní 2011. Þar sagði m.a.:
„M ehf. annaðist sendingu bréfsins fyrir umbjóðanda minn, en það er fyrirtæki sem starfar samkvæmt innheimtulögum með leyfi frá Fjármálaeftirlitinu og sérhæfir sig í innheimtu vanskilaskulda. Sendingin var í nafni umbjóðanda míns, en ekki innheimtufyrirtækisins og því merkt umbjóðanda mínum en ekki innheimtufyrirtækinu, svo sem algengt mun að gert sé.
Eins og fyrr sagði var kvartanda sent lokað bréf, með áletruninni „Við viljum bara minna þig á...“ í almennum pósti. Þannig var hvergi vikið að meintum vanskilum kvartanda við umbjóðanda minn á ytra byrði bréfsins. Áletrunin getur vísað til fjölmargs annars en vanskila, svo sem álestur mælis, nýrrar þjónustuleiðar, óskar um svör við könnun og svo mætti lengi telja. Sú fullyrðing sem fram kemur í bréfi stofnunarinnar og stafar frá kvartanda, að umslag bréfsins beri með sér innihaldið er einfaldlega ekki rétt.
Jafnvel þó komist væri að þeirri niðurstöður að draga mætti þá ályktun um innihaldið, þ.e. tilmæli um greiðslu reiknings sem kominn er fram yfir eindaga, telur umbjóðandi minn sig vera innan marka laga og reglna með sendingunni. Tilmæli um greiðslu ógreiddrar kröfu er ekki miðlun fjárhagsupplýsinga eða aðför að friðhelgi einkalífs.
Umbjóðandi minn telur í engu hallað á kvartanda með því að senda honum lokað bréf með tilmælum um greiðslu meintrar skuldar. Almennt orðalag á ytra byrði og merki umbjóðanda míns vegi með engum hætti að friðhelgi persónu hans eða persónulegra réttinda og geti með engum hætti talist miðlun persónulegra eða fjárhagslegra upplýsinga.
Að gefnu tilefni telur umbjóðandi minn að engin líkindi séu með atvikum sem fjallað er um í úrskurði embættisins í máli 2001/435 og þeim sem kvartað er yfir. Í máli 2001/435 var um opna sendingu að ræða, með tilkynningu um fyrirhugaðar lokunaraðgerðir, vegna vanskila sem ekki hefði verið bætt úr, þrátt fyrir óskir þar um. Í tilfelli umbjóðanda míns var um að ræða lokað bréf, með tilkynningu um meint vanskil og að ef ekki yrði brugðist við gæti það leitt til innheimtuaðgerða af hálfu umbjóðanda míns, með almennu orðalagi á ytra byrði. Umbjóðandi minn telur að hann hafi í hvívetna gætt meðalhófs og tillitssemi.“
Svarbréf Orkubú Vestfjarða var borið undir kvartanda með bréfi, dags. 16. júní 2011. Engin svör bárust.
Með bréfi, dags. 12. júlí 2011, óskaði Persónuvernd eftir frekari
upplýsingum frá Orkubúi Vestfjarða ohf., þ.e. hvort umrædd bréf, með
áletruninni „Við viljum bara minna þig á...“, væru einungis send vegna
vanskila viðskiptavina eða einnig í öðrum tilvikum. Svarbréf B hrl. f.h.
Orkubú Vestfjarða ohf., dags. 27. júlí 2011, barst stofnuninni þann 29.
júlí s.á. Þar sagði m.a.:
„Í tilefni af fyrirspurn frá stofnuninni frá 12. júlí sl. upplýsist að bréf með áletruninni „Við viljum bara minna þig á...“ hafa fram að þessu eingöngu verið send þegar bækur umbjóðanda míns hafa sýnt að reikningar viðskiptavina hans hafa verið komnir fram yfir eindaga. Umbjóðandi minn áréttar að hann fellst ekki á að umslagið beri með sér innihaldið, eins og segir í bréfinu.“
II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um
sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu
persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, skv. 1. mgr.
3. gr. laganna. Persónuupplýsingar
eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar
persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e.
upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings,
látins eða lifandi. Hugtakið „vinnsla“
er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með
persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, skv.
2. tölul. 2. gr. laganna. Miðlun persónuupplýsinga telst vera ein tegund
vinnslu, sbr. b-liður 2. gr. tilskipunar nr. 95/46/EB og athugasemdir í
greinargerð með frumvarpi því er varð síðar að lögum nr. 77/2000.
Með vísun til framangreinds telur Persónuvernd það að senda
persónuupplýsingar með almennum pósti í sérmerktum umslögum fela í sér
vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.
2.
Mál það sem hér er til úrlausnar lýtur að því að Orkubú Vestfjarða
sendir upplýsingar um að reikningar viðskiptavinar séu komnir fram yfir
eindaga með almennum pósti í sérstökum umslögum sem eingöngu hafa verið
notuð fyrir slík skilaboð. Að mati Persónuverndar jafngildir slík aðgerð
því að miðla persónuupplýsinum um vanskil viðkomandi til þeirra aðila
sem sjá umslögin. Það geta t.d. verið starfsmenn póstburðarþjónustu,
nágrannar og menn er koma sem gestkomandi - en ætla verður að flestum sé
kunnugt um það til hvers orkubúið hefur notað slík umslög.
Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að samræmast einhverju af
skilyrðunum í 1. mgr. 8. gr. og eftir atvikum einnig 1. mgr. 9. gr. laga
nr. 77/2000, sé um vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga að ræða.
Upplýsingar um vanskil einstaklinga hafa ekki verið taldar til viðkvæmra
persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000, sbr. 8. tölul. 2. gr.
laganna. Nægir því að vinnsla eigi sér stoð í einhverju af ákvæðum 1.
mgr. 8. gr.
Öll vinnsla persónuupplýsinga þarf einnig að samrýmast meginreglum 1. mgr. 7. gr. laganna um gæði gagna og vinnslu. Vinnslan
þarf meðal annars að samrýmast meginreglunni um meðalhóf. Í því felst
m.a. að ekki skal miðla persónuupplýsingum ef þess þarf ekki. Þá þarf að
gæta þess að vinnsla sé sanngjörn, lögmæt og málefnaleg. Því skal m.a.
gæta þess að haga vinnslu ekki með tilteknum hætti sérstaklega til þess
að skapa þrýsting á hinn skráða eða valda honum óþægindum að
nauðsynjalausu.
Með vísun til framangreinds, og þess að af hálfu ábyrgðaraðila, Orkubús
Vestfjarða, eða lögmanns hans, hefur ekki verið skýrt að nokkurt ákvæða
1. mgr. 8. gr. hafi verið uppfyllt, verður umrædd miðlun upplýsinga um
vanskil kvartanda ekki talin heimil. Af þeirri ástæðu koma ekki til
skoðunar önnur ákvæði laganna sem fylgja ber að því er varðar heimila
vinnslu, s.s. ákvæði 11. gr. um öryggisráðstafanir o.fl.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Orkubúi Vestfjarða ohf. var óheimilt að miðla persónuupplýsingum um
vanskil M við félagið; þ.e. með því að senda honum skilaboð með almennum
pósti í sérstaklega merktu umslagi.