Úrlausnir

Mál vegna markaðssetningar fellt niður

28.9.2011

Póst- og fjarskiptastofnun sendi til Persónuverndar kvörtun manns yfir því að hafa fengið óumbeðinn tölvupóst frá frambjóðanda til stjórnlagaþings. Persónuvernd taldi ekki vera tilefni til að taka málið upp sem frumkvæðismál. Var það fellt niður.

Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta um tölvupósta sem sendir voru út í þágu markaðssetningar. Nánar tiltekið var um að ræða pósta sem S sendi út í aðdraganda að kosningum til stjórnlagaþings til að vekja athygli á framboði sínu til þingsetu.

1.
Upphaflega var málið til meðferðar hjá Póst- og fjarskiptastofnun en hún áframsendi það til Persónuverndar. Í bréfi hennar er vikið að tilurð þess lista sem S notaði við útsendinguna.

Í bréfi S til Persónuverndar, dags. 15. júní sl., segir hann m.a.:

„Ég var að reyna að ná til sem flestra sem höfðu haft við mig erindi fyrr á lífsleiðinni gegnum tölvupóst.  Líkur væru á því að það fólk sem væri aðilar að netpósti sem mér hafði borist gegnum hotmail og gmail þekkti mig og í hita leiksins ákvað ég að senda á nær alla þá sem voru þannig í bréfum sem ég hafði sent eða fengið síðustu 5 ár eða svo.  Ég reyndi svo að vinsa úr aðila sem ég taldi að bréfið ætti ekki erindi til en hafði ekki tíma til að gera það mjög nákvæmlega.  Þannig varð til listi sem ég sendi á og gat ég ekki verið viss um að ég þekkti alla á honum. [...] Þannig varð þessi listi til og var því ekki tekinn úr neinum skrám frá opinberum aðilum eða öðrum sem kunna að hafa póstlistaskrár. “

2.
Samkvæmt gögnum máls þessa liggur fyrir að þér viljið ekki sjálfur kvarta við Persónuvernd eða vera aðili kvörtunarmáls yfir S.

Stjórn Persónuverndar hefur í dag fjallað um málið og ákveðið að reka það ekki sem frumkvæðismál.

Með vísun til framangreinds eru ekki efni til að hafa frekari afskipti af máli þessu.

Hefur því verið ákveðið að fella það niður.




Var efnið hjálplegt? Nei