Úrlausnir

Persónuupplýsingar bornar í hús

4.10.2011

Persónuvernd barst kvörtun A yfir því að maður dreifði í hús miðum sem á voru rituð ókvæðisorð í garð A, mynd af honum og hlekkur inn á dóm Hæstaréttar varðandi brot A. Fyrir lá að málið var þegar á borði lögreglu og því var ekki fjallað um það frekar.

Ákvörðun


Þann 17. ágúst 2011 tók stjórn Persónuverndar svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2011/692:


1.
Kvörtun

Þann 8. júní 2011 barst Persónuvernd kvörtun A(hér eftir nefndur kvartandi). A kvartar yfir því að B hafi haft í hótunum við sig og dreift miðum með mynd af honum og upplýsingum um hlekk á vefsíðu Hæstaréttar þar sem dómur í máli hans er birtur. Í kvörtuninni segir m.a.:  

„Þessi B hefur verið að hóta mér í síma, á netinu og búa til allskonar sögur um mig síðan haustið [...]... Svo hótar hann að fara með dóminn á forsíðu DV og dreifa honum um mitt hverfi hér [....]. Ég hunsa hann bara áfram og hélt að þetta myndi bara ganga yfir eins og það gerði áður. En síðan [...] þá kom ég heim og þá var B búinn að dreifa í sirka 25 til 30 hús hér allt í kringum mig miða með mynd af mér og ég kallaður [...] og eitthvað meira og linkur inn á dóminn á heimasíðu Hæstaréttar. [...] Ég hafði samband við lögregluna [...] og lét þá hafa afrit af öllum smsunum...
Lögreglan hafði samband við B og samdi við hann um að hætta þessu annars myndi ég kæra hann til lögreglu fyrir brot á friðhelgi einkalífsins og fleira.“

2.
Bréfaskipti

Persónuvernd sendi bréfi til lögreglunnar [...], dags. 23. júní 2011, og spurði hvort umrætt umkvörtunarmál væri þar til meðferðar. Í svarbréfi lögreglunnar, dags. 28. júní, segir:

„Með bréfi þessu er staðfest að A hefur lagt fram kæru á hendur B vegna meintra hótana.
Aðdragandi máls er sá að þann [...] leitaði A aðstoðar lögreglu vegna endurtekinna hótana frá fyrrum viðskiptafélaga sínum  B. Loforð var tekið af B um að láta af háttsemi þessari í garð A. Stæði það ætlaði A ekki að aðhafast frekar í málinu.
Þann [...] hafði A samband við lögreglu og greindi frá því að B væri tekinn til við fyrri iðju. A kom í lögreglustöðina [...] og lagði fram formlega kæru á hendur B vegna hótana.
Málinu mun verða úthlutað til rannsóknar á næstunni. Engar áætlanir eru um hvenær rannsókn muni ljúka.“

Stofnuninni barst tölvupóstur frá kvartanda 11. ágúst 2011 en þar kom fram að kvartandi hefði kært umræddan B til lögreglunnar vegna athæfisins. Þar segir:

„Ég kom með þann [...] umslag vegna kvörtunar minnar til Persónuverndar. Ég hef gleymt að senda ykkur þetta með tölvupósti. Hér eru sömu gögn á rafrænu formi. Ég vill bæta því við að í dag er ég búinn að leggja fram formlega kæru til lögreglunnar [...] út af þessu máli. Ég gaf lögreglunni þá leyfi til að afhenda ykkur þau gögn sem þið mynduð óska eftir vegna þessara kvörtunar minnar.“

Kvartandi sendi Persónuvernd tölvupóst 4. ágúst 2011 til að spyrjast fyrir um meðferð málsins hjá stofnuninni. Í honum segir:

„Eins og sést hér fyrir neðan þá sendi ég inn til persónuverndar kvörtun mína samkvæmt meðfylgjandi viðhengi þann 11.07.2011. Þá hafði setti ég sömu kvörtun í umslag hjá ykkur þann 07.06.2011. Núna hef ég ekki fengið nein viðbrögð eða annað frá ykkur vegna þessa máls. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið þá telst þetta mjög óeðlilega langur tími. Vinsamlegast sendið mér til baka hvað veldur þessum töfum á að þið aflið ykkur upplýsinga um þetta mál.“

Stofnunin svaraði samdægurs með tölvupósti, baðst velvirðingar á því að kvartandi hefði ekki verið upplýstur um meðferð málsins og veitti andmælafrest til 10. ágúst 2011. Í kjölfarið átti kvartandi í nokkrum tölvupóstasamskiptum við starfsmann Persónuverndar. Í bréfi hans, dags. 10. ágúst 2011, segir:

„[...]Ég er alls ekki sáttur við hvaða málsmeðferð þessi kvörtun mín hefur fengið hjá Persónuvernd. Ég vill taka það skýrt fram að ég er ekki lögmenntaður og þekki ekki allar þær reglur sem Persónuvernd á að fylgja en samkvæmt því sem ég hef lesið og verið upplýstur um þá er þetta mjög óeðlileg málsmeðferð sem þetta mál hefur hlotið. Fyrir það fyrsta þá leið 34 dagar frá því að Persónuvernd fékk kvörtun mína til málsmeðferðar og ég neyddist til að leggja fram kæru á hendur B. Til að vernda mína fjölskyldu þar sem að hótanir voru að beinast gegn 5 ára gömlu dóttir minni. Eftir að ég sendi gögn mín á rafrænu formi til Persónuverndar þá liðu 24 dagar þangað til að ég sendi aftur tölvupóst til að fá einhver viðbrögð um hvar mitt mál væri statt. Samtals gera þetta 58 dagar síðan að ég lagði fram fyrst kvörtun mína. Og þá fyrst er mér tjáð að það sé möguleiki á að mínu máli verði vísað frá vegna þess að þetta mál er komið í meðferð hjá lögreglu. Þetta verður að teljast ósanngjörn málsmeðferð. Síðan er mér gefin 6 dagar til að koma með athugasemdir ef einhverjar eru.
Kröfur A:
Hér með fer ég fram á það við Persónuvernd að mér verði gefin fullnægjandi skýringar á hvernig á því stendur að þessi kvörtun mín hlaut þessa málsmeðferð samkvæmt ofangreindu. Einnig fer ég fram á að Persónuvernd sendi mér þær málsmeðferðar reglur og lög sem gilda þegar eisntaklingur sendir inn kvörtun til Persónuverndar. Og rökstuðning með þar um hvernig það getur verið möguleiki á að minni kvörtun verði vísað frá af stjórn Persónuverndar. [...]“

Þann 11. ágúst 2011 var kvartanda svarað með tölvupósti og honum veittur lengri andmælaréttur, ef hann óskaði. Þar segir:

„Í bréfi þínu til Persónuverndar, dags. 10. ágúst 2011 kemur fram að þú sért ósáttur með veittan frest til að koma að athugasemdum. Af því tilefni vill Persónuvernd taka fram að ef þú óskar eftir lengri fresti þá er ekkert af hálfu Persónuverndar sem stendur því í vegi. Það eina sem við þyrftum þá að fá eru upplýsingar um hversu langan frest þú þarft.
Kvörtun þín var móttekin 7. júní 2011. Af kvörtuninni mátti ráða að þú hafir verið í samskiptum við lögregluna [...] vegna málsins. Af þeim ástæðum var ákveðið á fundi stjórnar Persónuverndar, sem haldinn var 22. júní 2011, að senda lögreglunni [...] bréf og óska upplýsinga um það hvort hún hefði málið til meðferðar. Bréfið var sent 23. júní 2011. Svarbréf lögreglunnar barst stofnuninni, dags. 28. júní 2011, en í bréfinu kom fram að þú hefur lagt fram kæru á hendur B vegna meintra hótana.
Um tilefni þess af hverju Persónuvernd ákvað að senda lögreglunni umrætt bréf er það að segja að stjórnin taldi á fundi sínum í júní að upplýsingar um hvort málið væri til meðferðar hjá lögreglunni [...], væru nauðsynlegar til að geta lagt mat á hvort hægt væri að taka málið til meðferðar hjá Persónuvernd. Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins um valdmörk stjórnvalda og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga er almennt miðað við að sama mál sé ekki til meðferðar hjá tveim eða fleiri stjórnvöldum í einu.
Persónuvernd vill þó taka fram að endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin um frávísun en slíkar ákvarðanir eru teknar af stjórn Persónuverndar.
Meðfylgjandi eru lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, stjórnsýslulög nr. 37/1993 og upplýsingablað Persónuverndar um meðferð mála hjá stofnuninni.
Hvað varðar fyrirspurn þína um Hæstarétt er það skilningur Persónuverndar að þetta sé sjálfstætt fyrirspurnarefni og ekki hluti af þessari kvörtun. Ég mun skoða fyrirspurnina og svara þér innan fárra daga. Í kjölfar þess getur þú ákveðið hvort þú viljir leggja fram formlega kvörtun í tengslum við það mál.“

Kvartandi svaraði samdægurs og taldi sig ekki þurfa lengri andmælafrest þar sem hann væri búinn að koma fram athugasemdum sínum. Í svari hans stóð:

„Ég þakka vel fyrir þessar upplýsingar. Ég er nú þegar búin að skila inn athugasemdum mínum og þarf því ekki frekari frest.“

3.
Ákvörðun

Efnislegt gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og þar með valdsvið Persónuverndar, nær til vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Af athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Samkvæmt framansögðu telst útprentun, fjölföldun og dreifing skjals með persónuupplýsingum vera vinnsla persónuupplýsinga í skilningi. Fellur mál þetta þannig undir ákvæði laga nr. 77/2000.  

Brot gegn lögum nr. 77/2000 geta leitt til refsingar sbr. 42. gr. laganna.  Af hálfu lögreglunnar [...] hefur komið fram að umrætt mál er nú þegar til meðferðar þar. Með vísan til þess eru ekki efni til þess að Persónuvernd fjalli um málið; eftir atvikum með tilliti til þess að kæra það til lögreglu.

Þegar lögregla - og eftir atvikum dómari - hefur lokið meðferð málsins getur Persónuvernd kannað hvort lagaskilyrði séu uppfyllt til þess að hún fjalli um það enda berist henni um það sérstök ósk frá kvartanda, A.



Var efnið hjálplegt? Nei