Úrlausnir

Upplýsingar um greiðsluaðlögun

15.11.2011

Persónuvernd barst ábending um að aðili sem selur mat í grunnskólum krefði upplýsinga um greiðsluaðlögun viðskiptavina. Í kjölfar útskýringa frá Umboðsmanni skuldara, og lögmanni fyrirtækisins, var tekin ákvörðun um að fella málið niður.

Ákvörðun


Hinn 12. október 2011 tók stjórn Persónuverndar ákvörðun í máli nr. 2011/905.

1.
Málavextir og bréfaskipti
Þann 24. ágúst 2011 barst Persónuvernd ábending varðandi skráningu á upplýsingum um greiðsluaðlögun viðskiptavina Skólamatar ehf. Í ábendingunni sagði jafnframt að samkvæmt skilmálum sem finna mætti á vefsíðu Skólamatar ehf., www.skolamatur.is, væri óskað eftir upplýsingum um það hvort viðskiptavinur væri í greiðsluaðlögun. Í skilmálum sagði m.a.:

„Sé greiðandi í greiðsluaðlögun er hann vinsamlegast beðinn um að tilkynna það sérstaklega í athugasemdum með áskriftarumsókn, í framhaldi þarf að velja viðeigandi greiðsluform.“

Með bréfi, dags. 29. ágúst 2011, óskaði Persónuvernd skýringa hjá Skólamat ehf. Var þess sérstaklega óskað að fram kæmi hvers vegna Skólamatur ehf. teldi nauðsynlegt að afla framangreindra upplýsinga.

Svarbréf lögmanns Skólamatar ehf., A hdl., dags. 5. september 2011, barst stofnuninni þann 7. s.m. Þar sagði m.a.:

„[...] Greiðsluaðlögun er aðferð sem notuð er við að gera einstaklingum, sem eru í verulegum greiðsluerfiðleikum, kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu. Ef einstaklingur uppfyllir skilyrði laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, til að fá heimild til greiðsluaðlögunar, er skipaður umsjónarmaður sem hefur m.a. það hlutverk að gera samning um greiðsluaðlögun. Eftir að einstaklingur hefur greiðsluaðlögun sína hefst svonefndur „frestur“, en á því tímabili er einstaklingi óheimilt að greiða fyrir annað en það sem viðkemur rekstri heimilisins og framfærslu

Eftir að hafa fengið álit starfsmanns embættis umboðsmanns skuldara, varðandi það hvort að skólamáltíðir teljist til þeirrar framfærslu sem að einstaklingum í greiðsluaðlögun er heimilt að greiða fyrir innan „frestsins“, þá þótti rétt að setja þennan texta inn í skilmála vefsíðunnar. Ástæðan er sú að ræða þarf sérstaklega fyrirkomulag greiðslu m.t.t. greiðsluaðlögunar viðskiptavinarins og mögulega þarf umsjónarmaður viðkomandi í greiðsluaðlgöun að koma að málinu. Í því skyni hafa starfsmenn Skólamatar ehf. samband við viðkomandi. Það skal tekið fram að engum viðskiptavinum er neitað um viðskipti vegna greiðsluaðlögunar þeirra.

Með vísan til framangreinds telja forsvarsmenn fyrirtækisins það nauðsynlegt að óska eftir þessum upplýsingum frá viðskiptavinum þess. Þá telja þeir að ástæðurnar séu bæði málefnalegar og lögmætar.“

Með bréfi, dags. 12. sepetmber 2011, óskaði Persónuvernd frekari skýringa frá Skólamat ehf. og embætti umboðsmanns skuldara. Í bréfi Persónuverndar sagði m.a.:

„Í svarbréfi Skólamatar ehf., dags. 5. september 2011, segir að félagið safni persónuuplýsingum um greiðsluaðlögun hjá viðskiptavinum, m.a. vegna munnlegs álits umboðsmanns skuldara. [...]

Það er skilningur Persónuverndar að Skólamatur ehf. telji, í ljósi svara frá Umboðsmanni skuldara, að það þurfi að vita hvort einstakir viðskiptavinir séu í greiðsluaðlögun til að geta haft samband við umsjónarmann viðkomandi viðskiptavinar - og ákveða með umsjónarmanninum fyrirkomulag á greiðslum viðskiptavinar fyrir skólamáltíðirnar.

Er þess óskað að Skólamatur ehf. og Umboðsmaður skuldara staðfesti hvort framangreint sé rétt. Ef það er ekki hlutverk umsjónarmanns að ákveða fyrirkomulag greiðslna fyrir máltíðir er mikilvægt að það komi fram.“

Í svarbréfi B, f.h. Umboðsmanns skuldara, dags. 21. september 2011 sagði:

„[...] Vísað er til erindis Persónuverndar dags. 12.09.2011, þar sem óskað er eftir því að embættið skýri nauðsyn Skólamatar ehf. á að vita hvort viðskiptavinir þess hafi fengið greiðsluaðlögun.

Þegar greiðsluaðlögun hefst er einstaklingi óheimilt að greiða annað en það sem viðkemur rekstri heimilis og framfærslu. Skólamáltíðir teljast til þeirrar framfærslu sem að einstaklingum í greiðsluaðlögun er heimilt að greiða. Ekki þarf að ræða neitt sérstaklega um fyrirkomulag greiðslu né heldur þarf umsjónarmaður viðkomandi í greiðsluaðlögun að koma að málinu.

Tekið skal fram að umboðsmaður skuldara hefur ekki beðið Skólamat ehf. um að safna persónuupplýsingum um þá sem eru í greiðsluaðlögun hjá embættinu. Ef frekari upplýsinga er þörf er velkomið að hafa samband við undirritaðan.“

Þann 23. september 2011 barst Persónuvernd tölvubréf lögmanns Skólamatar ehf. Þar sagði:

„[...] Í stuttu máli snýst málið um það að í byrjun sumars átti ég samtal við starfsmann embættis umboðsmanns skuldara (UMS). Erindið var að kanna það hvort að skólamáltíðir væru hluti af þeirri framfærslu sem einstaklingum í greiðsluaðlögun er heimilt að greiða fyrir á svokölluðum fresti sínum. Til frekari útskýringa vísa ég til bréfs míns til Persónuverndar í síðasta mánuði.
 Í samtali mínu við starfsmann UMS kom fram að hann teldi það nokkuð öruggt að skólamáltíðir féllu undir þá kostnaðarliði sem einstaklingar í greiðsluaðlögun mættu greiða fyrir, en það væri ljóst að það þyrfti að ræða sérstaklega við þessa einstaklinga um greiðslufyrirkomulag. Ljóst væri að einstaklingar í greiðsluaðlögun gætu ekki verið með greiðslukort og þeir þyrftu hugsanlega að blanda umsjónarmönnun sínum inn í það hvernig greitt yrði fyrir skólamáltíðirnar.
 
Með vísan til framangreinds (þ.e. greiðslufyrirkomulags hjá þeim einstaklingum sem kaupa skólamáltíðir á meðan þeir eru í greiðsluaðlögun) var neðangreind klásúla sett inn í skilmála á vefsíðu fyrirtækisins: „Sé greiðandi í greiðsluaðlögun er hann vinsamlega beðinn um að tilkynna það sérstaklega í athugasemdum með áskriftarumskókn [sic], í framhaldi þarf að velja viðeigandi greiðsluform.“
 
Eftir að undirrituðum barst bréf Persónuverndar í síðasta mánuði hef ég aftur rætt við starfsmenn UMS. Í gær átti ég samtal við, B, lögfræðing og aðstoðarmann umboðsmanns. Í samtali okkar kom m.a. fram að svona mál hefðu verið leyst með því að notast við svonefnd fyrirframgreidd greiðslukort og að þetta hefði aldrei átt að vera flókið mál. Líklega væri um að ræða misskilning af hálfu viðkomandi starfsmanns. B tók það skýrt fram að hann teldi að það hafi verið óþarfi frá upphafi að óska eftir þessum upplýsingum hjá viðskiptavinum fyrirtækisins.
 Með vísan til framangreinds skal það tekið fram að fyrirtækið sér ekki ástæðu til þess að óska eftir þessum upplýsingum frá viðskiptavinum þess. Jafnvel þó upphaflega hafi þótt ástæða til þess og hafi ástæðurnar, að mati forsvarsmanna fyrirtækisins, verið bæði málefnalegar og lögmætar. Þá hefur fyrirtækið ekki safnað upplýsingum um þá einstaklinga sem eru í greiðsluaðlögun og mun skilmálum vefsíðunnar verða breytt.  
Forsvarsmenn fyrirtækisins óska eftir því að málið verði látið niður falla. Óskað er eftir staðfestingu þess frá Persónuvernd. “

2.
Ákvörðun
Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að skráning upplýsinga um greiðsluaðlögun einstaklinga telst vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000.

Verkefni Persónuverndar eru rakin í 37. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, með áorðnum breytingum. Er það m.a. að hafa eftirlit með framkvæmd þeirra laga, þ.m.t. að hafa eftirlit með því að farið sé að lögum og öðrum reglum um vinnslu persónuupplýsinga, að úrskurða í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga og tjá sig samkvæmt beiðni eða að eigin frumkvæði um álitaefni varðandi meðferð persónuupplýsinga. Á grundvelli þess ákvæði ákvað Persónuvernd að taka málið til meðferðar að eigin frumkvæði í kjölfar ábendingar þeirrar sem stofnuninni barst þann 24. ágúst 2011.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti umboðsmanns skuldara teljast skólamáltíðir til þeirrar framfærslu sem að einstaklingum í greiðsluaðlögun er heimilt að greiða án aðkomu umsjónarmanns viðkomandi, sbr. bréf umboðsmanns skuldara, dags. 21. september 2011. Þá hefur lögmaður Skólamatar ehf. jafnframt bent á, sbr. tölvubréf dags. 23. september sl., að Skólamatur hafi ekki, og muni ekki, skrá upplýsingar um greiðsluaðlögun viðskiptavina sinna. Jafnframt kom fram að áskriftarskilmálum félagsins muni verða breytt.

Stjórn Persónuverndar hefur rætt mál þetta á fundi sínum í dag. Í ljósi þess að Skólamatur ehf. hefur látið af umræddri vinnslu hefur verið ákveðið að fella málið niður.




Var efnið hjálplegt? Nei