Úrlausnir

Vöktun við Hvalfjarðargöng

20.12.2011

Persónuvernd hefur fjallað um lögmæti rafrænnar vöktunar í og við Hvalfjarðargöng á vegum Spalar ehf. Í kjölfar vettvangskönnunar, og eftir úrbætur sem fyrirtækið gerði á fræðslu til ökumanna, taldi stofnunin að vöktunin uppfyllti skilyrði 24. gr. laga nr. 77/2000.

Ákvörðun


Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 22. nóvember 2011 tók hún ákvörðun í máli nr. 2011/802:

1.
Tildrög máls og bréfaskipti
Persónuvernd bárust ábendingar um rafræna vöktun við gjaldskýli Spalar ehf. við Hvalfjarðargöng sem gáfu tilefni til að skoða með hvaða hætti þeim, sem fara um hið vaktaða svæði, er gert aðvart um vöktunina.

Með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. ágúst 2011, var skýringa óskað. Svarbréf Spalar ehf., dags. 25. ágúst 2011, barst Persónuvernd og í því segir m.a. eftirfarandi:

„Í bæklingi um Hvalfjarðargöng, sem gefinn hefur verið út til upplýsinga fyrir alla þá sem hug hafa á að fara um göngin eða vilja vita hvaða skilmálar gilda varðandi umferð um þau, er sérstaklega fjallað um myndavélar sem nýttar eru til vöktunar og eftirlits í sambandi við umferð um þau. Þar segir orðrétt svo:
„Sívöktunarkerfi 57 myndavéla var tekið í notkun í nóvember 2010. Það vaktar akbrautir enda á milli í göngunum, gangamunna og svæðin utan munna beggja fjarðar. Kerfið lætur vaktmenn í gjaldskýli vita þegar það greinir frávik frá „eðlilegu ástandi“, svo sem ef bíll stöðvast, ef bílar lenda í árekstri eða reykur myndast, ef of hægt eða of hratt er ekið og ef farmur fellur af palli flutningabíls. Áfram eru í notkun 24 eftirlitsmyndavélar sem fyrir voru. Alls er því 81 öryggismyndavél í notkun samtímis og fullvíst að enginn annar hluti samgöngukerfis Íslendinga er jafnvel vaktaður og þessi.“
og

„Samkvæmt lögum er leyfileg hámarkshæð ökutækja og farms í göngunum 4,2 metrar og leyfilegur öxulþungi 11,5 tonn. Hæð ökutækis/farms er mæld með afar fullkomnum búnaði sem Spölur hefur komið upp sunnan Hvalfjarðar. Ökumenn fá sjálfirka viðvörun á ljósaskilti ef þeir reynast brotlegir. Lögreglu er tilkynnt um brot af þessu tagi enda skapar það stórfellda hættu fyrir aðra vegfarendur ef reynt er að aka um göngin með of háan farm. Lengd ökutækja er mæld sjálfvirkt í gjaldhliðum. Vegfarendur greiða veggjald í samræmi við heildarlengd ökutækis, með eða án eftirvagns, í samræmi við ákvæði gjaldskrár á baksíðu þessa bæklings.“
Varðandi síðartalda atriðið er rétt að taka fram að tilgangur myndatökunnar er að skrá skráningarnúmer ökutækisins en ekki upplýsingar um persónur í ökutækjunum.
Framangreindur bæklingur og auglýsingaskilti á staðnum upplýsa alla þá sem um göngin fara um staðsetningu myndavélanna, bæði þeirra sem skrá upplýsingar vegna fyrirframgreiddrar gjaldskyldu sem og vöktunar og eftirlitsmyndavéla í samræmi við ákvæði 24. gr. laga nr. 77/2000.
Myndavélar þær sem eru til rafrænnar vöktunar eru eingöngu hagnýttar í öryggis og eignavörsluskyni. Allar myndir eyðast reglubundið aftanfrá 10-20 dögum eftir myndatöku, sbr. 5. tl. 1. mgr. 7. gr. og 3. tl. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Af þeim upplýsingum sem safnast í tækjunum er eingöngu haldið eftir og skráð einkennisnúmer og umferðarfjöldi þeirra bifreiða sem eru grundvöllur viðskiptasambands eigenda bifreiðanna og Spalar til upplýsinga um stöðu viðskiptanna á hverjum tíma í hverju tilviki.
Framangreindur myndatökubúnaður og notkun hans uppfyllir ákvæði reglna Persónuverndar nr. 837/2006 að öðru leyti.“
Með bréfi Persónuverndar, dags. 15. september 2011, var tilkynnt um fyrirhugaða vettvangsathugun. Athugunin fór fram hinn 30. september 2011.  Í ljós kom að bæði er um öryggis- og eftirlitsmyndavélar að ræða. Í minnisblaði Persónuverndar um heimsóknina segir m.a. þetta um öryggismyndavélar:

„Traficon er rafræn atvikagreining skv. Evróputilskipun. Myndavélar eru inni í göngunum á 100 metra fresti. Felur í sér sjálfvirka vöktun sem fer í gang ef eitthvað gerist í göngunum, t.d. ef bíll stöðvast eða kerfið nemur hreyfingu sem líkist gangandi vegfaranda. Þá er tekin upp 30 sek myndbandsupptaka og kyrrmynd.“

Um eftirlitsmyndavélar segir m.a.:

„Um er að ræða 12 myndavélar (3x4 á hverri akbraut) + tvær Kodicon myndavélar við gjaldskýli. Þá eru 57 Trafikon myndavélar inni í göngunum. Þar að auki eru Kodicon myndavélar í útskotum og ein á Kjalarnesi fyrir hæðamörk. [...] Starfsmenn Spalar ehf. sýndu starfsmönnum Persónuverndar hvernig kerfin væru í framkvæmd. Af þeirri skoðun mátti sjá að eingöngu eru teknar myndir af bílnúmerum í gegnum TDS kerfið + upplýsingar um lengd, hæð og prófíl af bíl (það sést þó ekki af ljósmyndinni). Það er gert til að geta hagað gjaldtöku í samræmi við lengd bíls. Þá varð ekki séð að hægt væri að sjá hver sæti undir stýri.“

Í heimsókninni var gerð sú athugasemd að þótt vegfarendum væri gert aðvart um myndavélar lögreglu væru aðvaranir um þá vöktun sem Spölur framkvæmdi sjálfur ófullkomnar. Með tölvubréfi Spalar, til Persónuverndar, dags. 30. september 2011, var hins vegar greint frá því að útbúið hefði verið merki til að líma á gjaldskrárskilti Spalar til að gera vegfarendum aðvart um rafræna vöktun félagsins í og við Hvalfjarðargöng. Mynd af merkinu fylgdi með tölvupóstinum í viðhengi. Á henni er stór mynd af myndavél fyrir miðju og undir henni segir „Rafræn vöktun“, „CCTV“ og „í og við Hvalfjarðargöng“. Neðst í hægra horni merkisins er auðkennismerki Spalar.

2.
Forsendur og niðurstaða

2.1
Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Myndir af bílum úr eftirlitsmyndavélum hafa samkvæmt þessu verið taldar til persónuupplýsinga þótt aðeins sé unnt að greina einstök bílnúmer á myndunum en ekki andlit farþega.  Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Af framangreindu er ljóst að rafræn vöktun Spalar ehf. í og við Hvalfjarðargöng fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

2.2.
Öll rafræn vöktun þarf, eins og önnur vinnsla persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000, að uppfylla eitthvert af heimildarskilyrðum laganna. Þau eru í 1. mgr. 8. og 1. mgr. 9. gr. Að því er varðar almennar persónuupplýsingar hefur verið talið að rafræn vöktun geti samrýmst 7. tölul. 1. mgr. 8. gr., að því marki sem hún er nauðsynlegur liður í lögmætri gjaldtöku og henni hagað í samræmi við meginreglur 7. gr.  Það þýðir að gæta þarf meðalhófs og vinna aðeins með nægilegar og viðeigandi persónuupplýsingar.  Þá þarf að virða  4. gr. laganna þar sem segir að rafræn vöktun sé háð því skilyrði að hún fari fram í málefnalegum tilgangi og að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem fram fer.
Fyrir liggur að hjá Speli ehf. er eftirliti hagað með tilliti til gjaldtöku, í samræmi við lengd bifreiða og myndir eru ekki þannig að unnt sé að sjá andlit þeirra sem eru í bifreiðum. Jafnframt er eftirlitinu hagað með tilliti til öryggis vegfarenda. Það er gert í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 992/2007 um öryggiskröfur fyrir jarðgöng, en með henni var innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/54/EB frá 29. apríl 2004. Að mati Persónuverndar hefur ekkert komið fram um annað en að vinnslan samrýmist framangreindum ákvæðum laga nr. 77/2000.
2.3.
Í máli þessu er til úrlausnar hvernig vegfarendur eru fræddir um vinnslu persónuupplýsinga með rafrænni vöktun í Hvalfjarðargöngum á vegum Spalar ehf. Auk þess sem heimild þarf að standa til vinnslu persónuupplýsinga þarf að gæta ákvæða laganna um fræðslu til hinna skráðu, en þegar beinni fræðslu verður ekki viðkomið getur nægt að gera þeim aðvart í samræmi við ákvæði 24. gr. laganna. Þar segir að þegar rafræn vöktun fari fram á vinnustað eða á almannafæri skuli með merki eða á annan áberandi hátt gera glögglega viðvart um vöktunina og hver beri ábyrgð á henni.
Spölur ehf. vísaði til þess að gefinn hefði verið út bæklingur um Hvalfjarðargöng til að upplýsa þá sem hefðu hug á að fara um göngin um hina rafrænu vöktun o.fl. Hins vegar höfðu ekki verið sett upp merki sem uppfylltu skilyrði 24. gr., þ.e. um vöktun af hálfu Spalar ehf.  Í framhaldi af vettvangsathugun Persónuverndar, sem fram fór þann 30. september 2011, setti Spölur ehf. hins vegar upp fullnægjandi merki til að greina vegfarendum frá þeirri rafrænu vöktun sem félagið sjálft framkvæmir í og við Hvalfjarðargöng. Nú er því fullnægt viðvörunarskyldu í samræmi við 24. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Á k vö r ð u n a r o r ð:
Aðvaranir um rafræna vöktun Spalar ehf. í og við Hvalfjarðargöng eru í samræmi við 24. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.



Var efnið hjálplegt? Nei