Úrlausnir

Samþykki veitt í gegnum heimabanka

5.1.2012

Persónuvernd hefur svarað fyrirspurn um hvort það nægi að menn gefi samþykki sitt í gegnum heimabankakerfi. Persónuvernd telur svo vera, svo fremi um sé að ræða upplýst samþykki, frjálst og ótvírætt.

Efni: Svar við fyrirspurn um gildi samþykkis í gegnum heimabanka




1.
Fyrirspurn Creditinfo Lánstrausts hf.

Persónuvernd vísar til erindis Creditinfo Lánstrausts hf., dags. 27. september 2011. Þar segir:

„Varðandi 2. mgr. 3. gr. starfsleyfis Creditinfo Lánstrausts um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og jafnframt 2. mgr. 4. gr. starfsleyfis Creditinfo Lánstrausts um fjárhagsmálefni og lánstraust lögaðila, um heimildir til að gera fyrirspurn í skuldastöðukerfi.Félagið óskar eftir afstöðu Persónuverndar um hvort málsgreinar þessar nái að óbreyttu til heimildar viðkomandi einstaklinga og lögaðila til að gefa heimild til uppflettingar í gegnum eigin heimabanka, hvort sem viðkomandi aðilar eru skráðir inn í sinn heimabanka með rafrænum skilríkjum (sbr. lög nr. 28/2001) eða með hefðbundnum auðkennum (notandanafni, leyniorði og auðkennislykli).

Ekki þarf að fjölyrða um gott öryggi heimabanka og telur félagið þá ekki síður örugga en undirskrift og hljóðritun, sbr. umræddar málsgreinar starfsleyfanna. Engu að síður er ljóst að ekki er vikið að þessu með beinum hætti í umræddum málsgreinum, né annars staðar í starfsleyfunum.

Líti Persónuvernd svo á að miðað við núverandi orðalag starfsleyfanna sé óheimilt að veita heimild til að gera fyrirspurn í skuldastöðukerfi í gegnum heimabanka, þá óskar félagið þeirra breytinga á starfsleyfum, að aðilum sé sömuleiðis gert kleift að veita samþykki og heimild til að gera fyrirspurn í gegnum heimabanka sína, á þeim grundvelli að það sé fyllilega sambærilegt og hið minnsta jafnöruggt og þau skilyrði sem eru nú þegar til staðar. Með sama hætti, ef Persónuvernd álítur að heimildin nái, miðað við núverandi orðalag, einnig til heimildar sem gefin er í gegnum heimabanka, þá óskar félagið þess að Persónuvernd staðfesti það í svari sínu.“

2.
Svar Persónuverndar

Starfsleyfi Persónuverndar til handa Creditinfo Lánstrausti hf., til söfnunar og skráningar upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, í því skyni að miðla þeim til annarra, hafa að geyma ákvæði um miðlun úr svonefndu skuldastöðukerfi. Það lýtur að miðlun persónuupplýsinga um skuldastöðu manna til aðila sem eru áskrifandur að upplýsingakerfi Creditinfo Lánstrausts. Um lögmæti er byggt á því að hinn skráði hafi veitt samþykki sitt.

Útgáfa starfsleyfanna byggist á 45. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, og eru ákvæði um umrætt skuldastöðukerfi í 3. gr. starfsleyfis varðandi upplýsingar um einstaklinga, dags. 10. maí 2011 (mál nr. 2010/1029), og 4. gr. starfsleyfis varðandi upplýsingar um lögaðila, dags. 22. júní s.á. (mál nr. 2011/641).

Í 2. mgr. 3. gr. starfsleyfis varðandi einstaklinga og 2. mgr. 4. gr. starfsleyfis varðandi lögaðila er gert ráð fyrir því að hinn skráði veiti samþykki í viðurvist starfsmanns viðkomandi áskrifanda eða í símtali, hljóðrituðu í samræmi við ákvæði 48. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003.

Það er niðurstaða Persónuverndar að samþykki veitt í gegnum heimabanka jafngildi slíku samþykki og teljist fullnægjandi - enda sé það upplýst, frjálst og ótvírætt. Verður tekið mið af því við næstu útgáfu starfsleyfa til handa Creditinfo Lánstrausti hf.



Var efnið hjálplegt? Nei