Úrlausnir

Gagnagrunnur um fólk með lokastigslifrarsjúkdóma

5.1.2012

Persónuvernd barst erindi frá LSH varðandi gagnagrunn með persónuupplýsingum um sjúklinga með skorpulifur og lifrarsjúkdóm á lokastigi. Persónuvernd telur ekki vera fyrir hendi fullnægjandi heimild fyrir gerð og rekstri slíks gagnagrunns.

Álit


Þann 22. nóvember 2011 samþykkti stjórn Persónuverndar, með vísun til 5. tölul. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000, eftirfarandi álit í máli nr. 2011/769:


I.
Erindi Landspítala háskólasjúkrahúss

Persónuvernd hefur borist erindi Landspítalans, dags. 16. júní 2011, varðandi lokastigslifrarsjúkdómaskrá sem fyrirhugað sé að koma á fót. Í bréfinu segir að skráin verði yfir alla sjúklinga með skorpulifur og lifrarsjúkdóm á lokastigi. Hún verði notuð til að fá yfirsýn yfir umfang og árangur læknisfræðilegra inngripa og lifrarígræðslna þar sem meðferðin sé kostnaðarsöm og sjúklingarnir þurfi mikla ummönnun. Einnig muni skráin nýtast til samanburðar við önnur sjúkrahús og til gæðaeftirlits.

Með bréfi, dags. 15. júlí 2011, óskaði Persónuvernd staðfestingar á því hvort það væri réttur skilningur stofnunarinnar að um yrði að ræða miðlægan gagnagrunn, rafræna skrá sem kæmi til með að verða notuð um ókomna tíð í ýmsum tilgangi, til að mynda við gæðaeftirlit og vegna vísindarannsókna. Svarað var með bréfi, dags. 9. ágúst 2011. Þar segir:

„Íslenska lokastigslifrarsjúkdómaskráin er í rafrænu formi. Skráin er miðlæg, læst með lykilorði og vistuð hjá Landspítala. Aðgang að skránni hefur umsjónaraðili skrárinnar, daglegur umsjónarmaður hennar (umsjónarlæknir lifrarlækninga) og tveir starfsmenn hans. Upplýsingar í skránni eru trúnaðarmál og þeir sem hafa aðgang að henni bundir þagnarskyldu sbr. 2. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár, 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga og 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Skráin er m.a. notuð til að fá yfirsýn yfir árangur læknisfræðilegra inngripa og lifrarígræðslna og gæðaeftirlit. Þegar og ef skráin er nýtt til vísindarannsókna verður það að sjálfsögðu ekki fyrr en öll tilskilin leyfi liggja fyrir, s.s. frá viðkomandi siðanefnd og Persónuvernd.“

Segir að lagaheimild sé fyrir hendi þar sem skráningin sé órjúfanlegur þáttur þess ferlis að tryggja eins fullkomna heilbrigðisþjónustu og völ sé á, sbr. 1. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, 1. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga.


II.
Svar Persónuverndar

Mál þetta varðar gerð gagnagrunns með viðkvæmum persónuupplýsingum um sjúklinga með skorpulifur og lifrarsjúkdóm á lokastigi. Segir að með gerð hans megi fá yfirsýn yfir umfang og árangur læknisfræðilegra inngripa og lifrarígræðslna. Þá geti hann nýst til að gera samanburð við önnur sjúkrahús og þar með nýtast til gæðaeftirlits. Þá má ráða að hann geti að vissum skilyrðum uppfylltum nýst til vísindarannsókna.

Upplýsingar um heilsuhagi einstaklinga eru viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Svo að vinna megi með viðkvæmar persónuupplýsingar verður að vera fullnægt einhverju skilyrðanna fyrir vinnslu slíkra upplýsinga í 9. gr. sömu laga.

Samkvæmt 8. tölul. 1. mgr. 9. gr. er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga heimil sé hún nauðsynleg vegna læknismeðferðar eða vegna venjubundinnar stjórnsýslu á sviði heilbrigðisþjónustu. Hvorki liggur fyrir í þeim gögnum, sem LSH hefur lagt fram, að um sé að ræða skrá sem notuð sé við meðferð, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um sjúkraskrár, né að færsla hennar sé liður venjubundinni stjórnun spítalans.

Í 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. er ákvæði um vinnslu sem fer fram á grundvelli heimildar í lögum. Eins og áður segir verður ekki ráðið að um sé að ræða lögbundnar sjúkraskrár í skilningi laga nr. 55/2009. Í bréfi spítalans, dags. 9. ágúst 2011, segir hins vegar að gerð skrárinnar sé órjúfanlegur þáttur heilbrigðisþjónustu og er m.a. vísað til 1. gr. laga nr. 40/2007. Samkvæmt 1. gr. þeirra hafa þau það markmið að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að efla lýðheilsustarf, tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að því að lýðheilsustarf og heilbrigðisþjónusta byggist á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma. Þar er þó ekki að finna aðra skýra lagaheimild til vinnslu persónuupplýsinga en þá sem er í 27. gr. og varðar skráningu óvæntra atvika.

Þótt á það megi fallast að rekstur gagnagrunnsins getið þjónað góðum tilgangi, og haft bæði hagrænan og faglegan ávinning, haggar það ekki því að samkvæmt framangreindu verður ekki séð að hann samrýmist neinu af skilyrðum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. getur Persónuvernd, þótt vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga uppfylli ekki neina af heimildum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, heimilað hana vegna brýnna almannahagsmuna. Persónuvernd hefur þó ekki talið sig bæra til að heimila gerð gagnagrunna með viðkvæmum persónuupplýsingum, þ.e. rafrænna miðlægra skráa með slíkum persónuupplýsingum til varðveislu á persónugreinanlegu formi til frambúðar. Í þeim efnum hefur hún m.a. litið til dóms Hæstaréttar frá 27. nóvember 2003 í máli nr. 151/2003, en af honum má ráða að til reksturs slíkra skráa þurfi lagaheimild. Sem dæmi um slíka heimild má geta 2. mgr. 8. laga um landlækni nr.  41/2007 um miðlægar heilbrigðisskrár.

Á l i t s o r ð

Ekki liggur fyrir að sú gerð gagnagrunns, með persónuupplýsingum um sjúklinga með skorpulifur og lifrarsjúkdóm á lokastigi, sem lýst er í bréfi Landspítalans, dags. 16. júní 2011, eigi sér stoð í lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.



Var efnið hjálplegt? Nei