Úrlausnir

Markaðsrannsókn á börnum

12.1.2012

Persónuvernd barst kvörtun föður yfir markaðskönnun fyrirtækis, en hringt hafði verið í 12 ára dóttur hans að kvöldi til. Við rannsókn málsins kom ekki í ljós að fram hefði farið vinnsla persónuupplýsinga um barnið. Var málið þá fellt niður.

Ákvörðun


Þann 22. nóvember 2011 tók stjórn Persónuverndar ákvörðun í máli nr. 2011/750:


I.
Grundvöllur og efni máls

Persónuvernd barst kvörtun A, þann 24. júní 2011, varðandi vinnslu persónuupplýsinga við gerð markaðsrannsóknar af hálfu Capacent.  Ljóst að hér reynir að nokkru á sjónarmið sem falla utan verkefnasviðs Persónuverndar, s.s. um hve gömul börn skuli vera svo senda megi þeim markpóst eða eiga við þau marksímtöl. Af hálfu Persónuverndar verður ekki tekin afstaða til málsins að því er þau atriði varðar. Að öðru leyti er málið tvíþætt. Annars vegar varðar það notkun á nafni kvartanda við gerð úrtakslista. Hins vegar varðar það vinnslu persónuupplýsinga um 12 ára dóttur kvartanda. Fyrri hluti málsins er ekki til úrlausnar nú, aðeins sá hluti þess er snýr að söfnun persónuupplýsinga um hið 12 ára barn. Mun reifun bréfaskipta taka mið af því.

Í kvörtun segir m.a.:

„Þann 23. júní sl. kl: 21:51 var hringt frá Capacent [...] og spurt um 12 ára gamla dóttur mína. Ég spyr hver hringi og viðkomandi segist vera að gera könnun á vegum Capacent. Ekki var óskað samþykkis forráðamanns heldur spurt beint um dóttur mína. Hvorki spyrillinn né vaktstjóri gat sagt til um hver óskaði eftir þessari markaðsrannsókn en hún hefði verið um farsíma- og internetnotkun ásamt fleiru, nefnt ungmennavagn af vakstjóra. Mér finnst óeðlilegt að ólögráða börn geti lent í úrtaki fyrir markaðsrannsóknir sem þessar.[...]“

Með bréfi, dags. 26. júlí 2011, tilkynnti Persónuvernd Capacent um kvörtunina og gaf kost á skýringum. Svarbréf Capacent er dags. 9. ágúst 2011. Þar segir :

„Hafa verður stuttan formála til að útskýra vinnulag við ungmennavagninn.  Ungmennavagninn er könnun þar sem ungt fólk er spurt um ýmis viðhorf, neyslu o.fl.  Um er að ræða símtöl þar sem spyrlar spyrja og taka niður svör með aðstoð tölvu, það sem kallað er CATI í erlendum tungumálum (Computer Assisted Telephone Interviewing).  Allir spyrlar fara því eftir sömu leiðbeiningum og þurfa að biðja um svör við sömu spurningum. Ég hef skoðað leiðbeiningar forritara í þessari tilteknu könnun og eru þær eftirfarandi: Í leiðbeiningum sem hver spyrill fær er fyrsta spurning í könnuninni að biðja forráðamann um leyfi til að spyrja barn. Næsta spurning er hver gefur leyfið og eru svarmöguleikar: 1: Móðir,  2: Faðir eða 3: Annar [...] Ef forráðamaður neitar og gefur ekki samþykki, nær samtalið ekki lengra. Þegar samþykkis er aflað og barnið er heima þá er barnið spurt hvort það vilji taka þátt í könnuninni.  Svar Capacent er því að: Barn á því aðeins að vera spurt hvort það vilji taka þátt í könnun ef leyfi er komið frá forráðamanni. Barninu er síðan í sjálfsvald sett hvort það svarar könnuninni í heild eða einstökum spurningum (hægt er að fá útskrift úr tölvukerfinu á leiðbeiningum til spyrla, ef óskað er).  Rætt var við vaktstjóra umrætt kvöld og kannaðist vakstjóri ekki við að nein mál hefðu komið upp þetta kvöld, né að reglur sem eru tilgreindar að ofan hefðu verið sveigðar eða brotnar.  Einnig ræddi ég við viðkomandi spyril sem sagðist ávallt fara eftir öllum reglum varðandi kannanir á börnum og ávallt biðja um forráðamann fyrst af öllu. Mögulegar skýringar á ofangreindri kvörtun eru þá:  Að spyrill hafi ekki fylgt reglum og þeim spurningum sem hann átti að fylgja.  Að spyrill hafi nefnt nafn barnsins og spurt hvort barnið væri heima og síðan ætlað að biðja um leyfi forráðamans en ekki komist lengra í samtalinu. Við munum fara yfir okkar ferli hér og enn frekar ítreka hvaða reglur gilda um kannanir meðal barna.  Enn fremur munum við fara yfir það hvernig spurningar birtast spyrlum þannig að ekki sé hægt að misskilja ferlið með neinum hætti.  Að lokum viljum við biðja viðkomandi afsökunar ef ekki hefur verið farið eftir þeim reglum sem bæði lög og Gallup setja.“

Með bréfi, dags. 5. september 2011, óskaði Persónuvernd nánari skýringa frá Capacent, svo af mætti ráða hvort til væru einhver gögn um símtalið. Í bréfi Capacent, dags. 17. september 2011, segir m.a.:

„Stuttan inngang verður að hafa að fyrra svarinu.  Um er að ræða símtöl þar sem spyrlar spyrja og taka niður svör með aðstoð tölvu, það sem kallað er CATI í erlendum tungumálum (Computer Assisted Telephone Interviewing).  Allir spyrlar fara því eftir sömu leiðbeiningum og þurfa að biðja um svör við sömu spurningum og spyrlar komast ekki hjá því að gefa svar við þeim spurningum sem birtast á skjánum, þ.e. spyrlar geta ekki hoppað yfir síður eða spurningar.  [...]
Í tilfelli umkvörtunaraðila kemst spyrill aldrei að þessari fyrstu síðu, heldur lýkur símtalinu í kynningunni áður en spyrill kemst á fyrstu síðuna. Spyrillinn nær því ekki að klára kynninguna áður en svarandi hefur endað samtalið með neitun. [...] (Athugasemd til Persónuverndar: símtalið fær númerið „12“ og okkur finnst óþarfi að skýra út nákvæmlega hvað merkið „12“ þýðir – ef ykkur er sama, ef ykkur nægir ykkur að vita að símtalinu lýkur strax í kynningu með neitun forráðamanns). “

Með bréfi, dags. 20. september 2011, bauð Persónuvernd kvartanda að tjá sig um fram komin svör Capacent. Athugasemdir hans bárust með tölvubréfi, dags. 22. september 2011. Þar segir m.a.:

„Mig langaði að koma með athugasemd við svar Capacent í bréfi dagsettu 10. ágúst 2011 en þar segir: "Rætt var við vaktst[]jóra umrætt kvöld og kannaðist vakts[t]jóri ekki ekki við að nein mál hefðu komið upp þetta kvöld, né að reglur [...] hefðu verið sveigðar eða brotnar." Mér finnst þetta ansi ódýrt svar og skrítið að umræddur vaktstjóri hafi ekki munað eftir þessu atviki þar sem ég talaði við hana aftur daginn eftir (fyrir tilviljun held ég) þegar ég var að leita mér upplýsinga varðandi þetta mál og mundi hún glöggt eftir mér þá. Ég get ekki betur skilið á þessum svörum en að  Capacent gefi í skyn að ég sé að búa þetta til og ljúgi upp á þá sökum, sem ég er engan veginn að gera! Einnig hef ég athugasemd varðandi svar Capacent dagsett (hjá ykkur) 19. sept. 2011 þar sem Tómas rekur feril á upphafi símtals: "Góða kvöldið ég heiti....". Þetta er ekki eins og tíðrætt símtal hljómaði. Spyrillinn býður reyndar gott kvöld (enda var tvímælalaust kvöld, klukkan var um 21:50!) og spyr strax um dóttur mína. Þegar ég spyr hver hringi, kemur romsan um að hún sé að hringja á vegum Capacent. Þá fer ég að setja út á hvort það sé ekki eðlilegt að spyrja samþykkis og þar fram eftir götunum og eðlilega nær "viðtalið" ekki að halda áfram eftir það. Þannig að ferillinn eins og Capacent lýsir var klárlega ekki tilhafður í mínu tilfelli. Einnig finnst mér skipta svolitlu máli hvað þessi kódi "12" þýði, skildu þeir vera að gefa í skyn að samþykkið hafi þegar verið komið?!? Hvorki ég né konan mín kannast við það. Eða þýðir þetta kannski; "neitaði með skít og skömm, passið ykkur á þessum".“

Í símtali starfsmanns Persónuverndar við sviðsstjóra hjá Capacent, hinn 11. nóvember 2011, kom fram að kóði 12 merkti að viðkomandi hefði ekki viljað taka þátt í könnun og engin svör fengist.

II.
Ákvörðun Persónuverndar

Efnislegt gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og þar með valdsvið Persónuverndar, nær til vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Af athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Söfnun persónuupplýsinga um skoðanir og neyslu barns, við framkvæmd könnunar sem fram fer símleiðis, telst samkvæmt framangreindu til vinnslu persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000. Af fyrirliggjandi gögnum verður hins vegar ekki ráðið að Capacent hafi, við gerð markaðsrannsóknarinnar Ungmennavagninn, safnað slíkum upplýsingum um barn kvartanda. Mun símtalinu hafa verið slitið áður en að til þess kom.

Með vísun til framangreinds hefur Persónuvernd ákveðið að fjalla ekki frekar um þennan þátt málsins. Verður málið að þessu leyti fellt niður.



Var efnið hjálplegt? Nei