Úrlausnir

Miðlun vegna manntals

20.1.2012

Persónuvernd hefur veitt umsögn um heimild Fangelsismálastofnunar til að miðla upplýsingum um fangelsisvist einstaklinga vegna töku manntals hjá Hagstofu. Það er niðurstaða Persónuverndar að Hagstofa hafi heimild til að krefja Fangelsismálastofnun um persónuupplýsingar, sem nauðsynlegar eru vegna manntals, á grundvelli lagaheimildar.

Umsögn


Hinn 17. janúar 2012 samþykkti stjórn Persónuverndar að veita svohljóðandi umsögn í máli nr. 2011/1365:

I.
Erindi Fangelsismálastofnunar ríkisins
1.
Persónuvernd vísar til bréfs Fangelsismálastofnunar ríkisins, dags. 14. desember 2011. Þar segir:

„Fangelsismálastofnun hefur borist bréf Hagstofu Íslands, dags. 5. desember 2011, þar sem óskað er upplýsinga um langtímadvöl einstaklinga á vegum Fangelsismálastofnunar vegna töku manntals í árslok 2012. Óskað er eftir upplýsingum um nafn, kennitölu og heimilisfang viðkomandi dvalarstaðar. Í bréfinu kemur m.a. fram að manntalið muni fylgja evrópskum reglum og að farið verði með allar upplýsingar sem Hagstofan fær sem trúnaðargögn og að engar persónugreinanlegar upplýsingar verði birtar, né upplýsingar sem hægt er að rekja til einstaklinga. Þá kemur fram að manntalsskrár verði varðveittar til frambúðar eins og venja er en verði ekki gerðar aðgengilegar fyrir almenning fyrr en 1. janúar 2092 að óbreyttum lögum.

Fangelsismálastofnun óskar eftir umsögn Persónuverndar vegna framkominnar beiðni Hagstofu Íslands.“

2.
Með bréfi Fangelsismálastofnunar til Persónuverndar fylgdi afrit af bréfi Hagstofu Íslands til Fangelsismálastofnunar, dags. 5. desember 2011. Þar segir:

„Hagstofan undirbýr nú töku manntals í árslok 2011. Manntalið mun fylgja evrópskum reglum, sbr. Reglugerð (EB) Evrópuþingsins og ráðsins nr. 763/2008, sem hefur verið tekin upp í EES samninginn með samþykkt Sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 54/2009 frá 24. apríl 2009. Manntalið verður að langmestu leyti unnið upp úr skrám á vegum stjórnvalda.

Til þess að tölur um búsetu á Íslandi verði sem sambærilegastar erlendum tölum mun Hagstofan telja fólk til heimilis þar sem það býr að staðaldri, fremur en þar sem það er skráð til lögheimilis. „Að staðaldri“ þýðir m.a. búseta þar sem viðkomandi hefur búið í a.m.k. 12 mánuði á manntalsdegi (31. desember 2011) eða gert er ráð fyrir að hann búi þar í a.m.k. 12 mánuði.

Ofangreind skilgreining á við um skjólstæðinga Fangelsismálatofnunar þann 31. desember 2011 sem setið hafa í fangelsi, í varðhaldi eða dvalist á öðrum stofnunum undir umsjón Fangelsismálastofnunar allt árið 2011 eða lengur, eða gert er ráð fyrir að muni dveljast þar í a.m.k. 12 mánuði frá upphafi vistunar. Ef vistun fer fram á fleiri en einum stað, t.d. á fangelsi og á áfangaheimili, skal telja samanlagðan tíma. Dvöl á sjúkrahúsi í 12 mánuði eða lengur telst ekki með.

Hagstofan óskar einungis eftir upplýsingum um heimilisfang viðkomandi dvalarstaðar, kennitölu og nafn skjólstæðings sem dvalartímaskilyrði eiga við um.

Farið verður með allar upplýsingar sem Hagstofan fær sem trúnaðargögn. Engar persónugreinanlegar upplýsingar verða birtar, né upplýsingar sem hægt er að rekja til einstaklinga. Gert er ráð fyrir að manntalsskrár verði varðveittar til frambúðar eins og venja er, en verði ekki gerðar aðgengilegar fyrir almenning fyrr en 1. janúar 2092 að óbreyttum lögum.

Í samræmi við lög nr. 163/2007, sbr. greinar nr. 5 og 6, óskar Hagstofan hér með eftir ofangreindum upplýsingum frá Fangelsismálastofnun. Hagstofan fer vinsamlegast fram á það að þessi gögn séu afhent eigi síðar en 20. janúar 2012.“

II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir lögin og verkefnasvið Persónuverndar.

2.
Svo að heimilt sé að vinna með persónuupplýsingar þarf ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000. Við mat á því hvort svo sé ber að líta til 5. gr. laga nr. 163/2007 um Hagstofu Íslands. Þar segir:

„Hagstofunni er heimilt að krefja stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri um gögn og upplýsingar sem hún þarfnast til hagskýrslugerðar sinnar samkvæmt lögum þessum og er þeim skylt að veita henni upplýsingarnar á því formi sem hún óskar eftir eða um semst og innan þeirra tímamarka sem hún ákveður. Hagstofan skal jafnan upplýsa í hvaða tilgangi gagna er aflað, hvernig úrvinnslu verði háttað, gögn varðveitt og niðurstöður birtar.“

Þegar skylt er að afhenda Hagstofunni gögn samkvæmt framangreindu ákvæði verður að líta til 2. og 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Það eru ákvæði um vinnslu samkvæmt lagaskyldu og vinnslu sem nauðsynleg er vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna.

Hér er um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna, en þegar svo er þarf að auki að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 9. gr. sömu laga. Í fyrsta lagi ber að líta til 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 og 5. gr. laga nr. 163/2007. Í öðru lagi er í 9. tölul. 1. mgr. 9. gr. ákvæði um vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga sem er heimil sé hún nauðsynleg vegna tölfræði- eða vísindarannsókna, enda sé persónuvernd tryggð með tilteknum ráðstöfunum eftir því sem við á. Þetta ákvæði hefur m.a. verið talið ná til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga í þágu tölfræðilegra útdrátta vegna opinberra hagskýrslna – en gæta þarf þess þá að viðhafa viðeigandi öryggisráðstafanir.

Í ljósi framangreinds telur Persónuvernd Hagstofuna hafa heimild til að krefja Fangelsismálastofnun um upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna umrædds manntals. Í því felst jafnframt að ekki eru, eins og á stendur, gerðar athugasemdir við að Fangelsismálastofnun afhendi, á grundvelli sömu ákvæða, Hagstofu umræddar upplýsingar, þ.e. um nafn, kennitölu og heimilisfang þeirra sem hinn 31. desember 2011 höfðu dvalið samfleytt 12 mánuði í fangelsum eða á öðrum stofnunum undir umsjón Fangelsismálastofnunar. Á báðum aðilum, Hagstofu og Fangelsismálastofnun, hvílir skylda til að tryggja öryggi upplýsinganna með fullnægjandi hætti.



Var efnið hjálplegt? Nei