Úrlausnir

Synjað ósk um samkeyrslu við lyfjagagnagrunn

9.2.2012

Persónuvernd hefur synjað umsókn um leyfi til að samkeyra persónuupplýsingar, sem til urðu við gerð rannsóknar, við lyfjagagnagrunn landlæknis. Ekki lá fyrir að heimilt hafi verið að varðveita upplýsingarnar og því var ekki talið unnt að heimila slíka notkun þeirra.

Ákvörðun


Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 17. janúar 2012 var tekin svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2011/895:

I.
Erindi um leyfi til samkeyrslu
1.
Umsókn
Þann 19. ágúst 2011 barst Persónuvernd umsókn, dags. 19. ágúst 2011, frá A, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands, og B, forstöðumanni Rannsóknarstofu í næringarfræði og prófessor í næringarfræði við HÍ. Sótt er um leyfi til samkeyrslu vegna rannsóknarinnar „Næring á meðgöngu og heilsa barna - langtímaáhrif fólinsýru á meðgöngu á astma hjá börnum.“

Sótt er um leyfi til að upplýsingar úr lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins um 549 börn fædd á árunum 1999-2001 verði samkeyrð við gögn framangreindrar rannsóknar um neyslu móður á fólinsýru á fyrri og seinni hluta meðgöngu. Erindi vegna þessarar rannsóknar var afgreitt af tölvunefnd þann 4. nóvember 1998.

2.
Bréfaskipti
Með bréfi, dags. 5. september 2011, óskaði Persónuvernd eftir upplýsingum um hvers vegna enn væri hægt að rekja þær persónuupplýsingar, sem safnað hefði verið vegna rannsóknarinnar, til viðkomandi kvenna en þeim ekki verið eytt sex mánuðum eftir fæðingu barna viðkomandi kvenna, eins og gert hafi verið ráð fyrir í upphafi.

Svarbréf A, dags. 19. september 2011, barst Persónuvernd sama dag. Þar segir:

„Það vísast í bréf Persónuverndar, dagsett 5. september 2011, þar sem óskað er skýringa á því hvers vegna persónuupplýsingar eru ennþá rekjanlegar til kvenna sem tóku þátt í rannsókninni Mataræði barnshafandi kvenna á Íslandi og útkoma meðgöngu. Í leyfi Tölvunefndar frá 4. nóvember 1998 var tekið fram að frumgögnum könnunarinnar yrði eytt í lok úrvinnslu. Okkur er ljúft og skylt að verða við þeirri beiðni.
Tekið skal fram að úrvinnslu rannsóknarinnar er ekki lokið og það verkefni sem hér er til undirbúnings er hluti af útkomu meðgöngu sömu kvenna.
Öllum pappírsgögnum var eytt á ábyrgan hátt í lok gagnasöfnunar. Notkun gagnanna eftir það hefur eingöngu stuðst við dulkóðuð gögn og tengingin við persónuauðkenni hefur verið varðveitt hjá einum ábyrgmu rannsakanda.
Á meðan á gagnasöfnun stóð kom skýrara í ljós mikilvægi þess að skoða áhrif meðgöngu fram eftir ævi afkvæmis, nokkuð sem ekki var vitað með eins afdrifaríkum hætti í upphafi rannsóknar.
Förgun tenginga dulkóðaðra gagna við persónur hefði haft í för með sér að miklum verðmætum væri kastað á glæ, ekki væri mögulegt að rannsaka útkomu meðgöngu eftir að börnin vaxa úr grasi, og með því móti væri framlag þátttakenda til rannsóknarinnar ekki nýtt sem skyldi.“

Þann 26. september 2011 barst Persónuvernd bréf Landlæknisembættisins, dags. 22. september s.á. Þar segir:

„Í lýsingu á rannsókninni kemur fram að fyrirhugað sé að kanna tengsl ávísana og úttektar 10-12 ára barna á astmalyfjum og neyslu mæðra þeirra á fólinsýru á meðgöngu. Upplýsingar um mæður og börn á að fá úr rannsókn á mataræði og lífsháttum barnshafandi kvenna og útkomu meðgöngu, sem framkvæmd var á árunum 1999-2001. Fyrir þeirri rannsókn fékkst leyfi Tölvunefndar.
Í ofangreindu leyfi Tölvunefndar, nr. 98110448 frá 1998, stendur:

„Sex mánuðum eftir hverja fæðingu, þremur mánuðum eftir að síðasta færsla um fæðingu hefur fengist, er nafnalista eytt. Sitja þá einungis eftir raðnúmeraðar bækur um mataræði ákveðins fjölda kvenna á meðgöngu og útkoma og heilsa barna þeirra. Ekki verður mögulegt að rekja upplýsingar til viðkomandi kvenna.“
Í ljósi ofangreinds ákvæðis lítur Embætti landlæknis svo á að leyfi Tölvunefndar frá árinu 1998 nái ekki til varðveislu kennitölulista. Þar af leiðandi sér embættið sér ekki fært að taka við kennitölulista úr fyrri rannsókn til samkeyrslu við lyfjagagnagrunn embættisins.“

Með tölvubréfi, dags. 10. október 2011, óskaði Persónuvernd eftir upplýsingum um hvenær fyrirhugað væri að úrvinnslu gagna í tengslum við eldri rannsóknina lyki. Svarbréf A barst sama dag. Þar kom fram að áætlað væri að úrvinnslu gagnanna lyki í lok árs 2014.

Með bréfi, dags. 1. nóvember 2011, óskaði Persónuvernd eftir því við rannsakendur að stofnuninni yrði send umsókn um endurútgáfu eldra leyfis, dags. 4. nóvember 1998. Umsókn A, C, vísindamanns hjá Lífeðlisfræðistofnun HÍ og D, dósents á menntavísindasviði HÍ, um endurútgáfu leyfis Tölvunefndar frá 4. nóvember 1998 vegna rannsóknarinnar „Könnun á mataræði barnshafandi kvenna og útkoma meðgöngu.“ barst Persónuvernd þann 18. nóvember 2011.

Með bréfi, dags. 30. nóvember 2011, bauð Persónuvernd umsækjanda að koma að frekari skýringum á því hvers vegna umræddum persónuupplýsingum hefði ekki verið eytt í samræmi við skilmála leyfis Tölvunefndar og eins og lög geri ráð fyrir. Svarbréf A, dags. 4. janúar 2012, barst stofnuninni sama dag. Þar segir:

„Okkur er ljúft og skylt að verða við þessum óskum.  Umrætt ákvæði í umsókn rannsakenda um eyðingu nafnalista svo skömmu eftir gagnasöfnun var yfirsjón, sem rekja má til reynsluleysis umsækjenda á þeim tíma sem rannsóknin var skipulögð.  Mikilvægt er að taka fram að skilyrði um eyðingu nafnalista var ekki nefnt í samþykkisblaði þáttakenda rannsóknarinnar, sjá fylgiskjal.  Í samþykkisblaði  var meira að segja nefnt að þátttakendur gætu fengið niðurstöður úr rannsókninni að henni lokinni, og þar voru engin tímatakmörk tilgreind.  Eyðing nafnalista kom heldur aldrei fram í munnlegum samskiptum  við þátttakendur, sjá fylgiskjal. Hins vegar var þátttakendum tjáð í samþykkisblaði að blóðsýnum yrði eytt, og var því sannarlega framfylgt. Engin lífsýni eru því til staðar úr rannsókninni. Öllum pappírsgögnum rannsóknarinnar hefur og verið eytt á viðeigandi hátt.
Að okkar mati er á engan hátt brotið á þátttakendum eða trúnaði við þá, með þeirri úrvinnslu sem hér um ræðir. Enn er verið að rannsaka útkomu meðgöngu sömu kvenna. Unnið hefur verið með dulkóðuð gögn frá upphafi rannsóknarinnar, og lykill sem tengir kennitölur og gögn er varðveittur af einum ábyrgum aðila. Við óskum því góðfúslega eftir undanþágu frá umræddu ákvæði í leyfi Tölvunefndar frá  4. nóvember 1998 um eyðingu nafnalistans svo skömmu eftir fæðingu barnsins.  Við biðjumst jafnframt velvirðingar á yfirsjón okkar,  en á þeim tíma sem rannsóknin hófst var minni skilningur á mikilvægi eftirfylgni eða langtíma rannsóknum en síðar varð. Ákvæðið um eyðingu nafnalista svo skömmu eftir gagnasöfnun er í raun fáheyrt, og endurspeglar fyrst og fremst reynsluleysi okkar, umsækjendanna, og tíðaranda á þessum tíma. Eins og fram kemur í bréfi frá Embætti landlæknis frá 22.09.2011 er Embættið líka fúst til að taka málið upp að nýju, veiti Persónuvernd leyfi fyrir notkun listans.
Þau gögn sem rannsóknin býr yfir eru afar verðmæt, en tvær doktorsritgerðir og fjöldi ritrýndra greina hafa þegar verið unnar úr efniviðnum.  Það er von okkar að Persónuvernd sýni aðstæðum skilning og veiti leyfi fyrir notkun nafnalistans, sem legið hefur óhreyfður í öll þessi ár. Rannsakendur leggja áherslu á að trúnaðar sé gætt í hvívetna gagnvart þátttakendum, og að virðing fyrir persónuvernd einkenni úrvinnslu gagna og birtingu niðurstaðna héðan í frá sem hingað til.“
II.
Ákvörðun

Mál þetta varðar samkeyrslu tveggja skráa sem hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar.

Annars vegar er um að ræða lyfjagagnagrunn landlæknis, en hann hefur að geyma miðlægar skrár í skilningi 4. gr. reglna nr. 712/2008. Þar segir að samkeyrsla skráar sem hefur að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar við aðra skrá, hvort sem sú hefur að geyma almennar eða viðkvæmar persónuupplýsingar, sé háð leyfi Persónuverndar. Hún er það þó ekki ef skrá er einvörðungu samkeyrð við upplýsingar úr þjóðskrá um nafn, kennitölu, fyrirtækjanúmer, heimilisfang, aðsetur og póstnúmer, eða ef samkeyrðar eru skrár sama ábyrgðaraðila, þó að undanskildum miðlægum skrám sem innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar. Af þessu leiðir að hyggist landlæknir samkeyra lyfjagagnagrunn við aðrar skrár þarf hann að fá til þess leyfi Persónuverndar.

Hins vegar er um að ræða persónuupplýsingar sem til urðu við gerð rannsóknar á mataræði barnshafandi kvenna á Íslandi og útkomu meðgöngu. Vinnsla persónuupplýsinga vegna þeirrar rannsóknar var heimiluð með leyfi Tölvunefndar hinn 4. nóvember 1998. Það leyfi var veitt á grundvelli umsóknar sem sagði að upplýsingum yrði eytt sex mánuðum eftir fæðingu barns.  Óumdeilt er að það var ekki gert. Liggur því ekki fyrir að heimild hafi staðið til að varðveita upplýsingarnar.

Af þeirri ástæðu hefur Landlæknisembættið, með bréfi dags. 22. september 2011, gert Persónuvernd grein fyrir því að það telji sér, sem ábyrgðaraðila lyfjagagnagrunns og framkvæmdaraðila samkeyrslunnar, ekki fært að fallast á að gera hana. Þegar af þeiri ástæðu eru ekki forsendur til að gefa út leyfi til slíkrar vinnslu.

Á k v ö  r ð u n a r o r ð:

Synjað er umsókn um leyfi til að samkeyra lyfjagagnagrunn landlæknis við persónuupplýsingar úr rannsókninni: „Næring á meðgöngu og heilsa barna - langtímaáhrif fólinsýru á meðgöngu á astma hjá börnum.“




Var efnið hjálplegt? Nei