Úrlausnir

Annmarkar á öryggi við innskráningu á heimasíðu

14.2.2012

Persónuvernd hefur lagt fyrir Orlofssjóð Bandalags háskólamanna að gera breytingar á vefsíðu sinni og viðhafa tæknilegar öryggisráðstafanir til að vernda persónuupplýsingar félagsmanna gegn óleyfilegum aðgangi.

Efni: Annmarkar á öryggi persónuupplýsinga á orlofsvef Bandalags háskólamanna

1.
Persónuvernd bárust ábendingar um annmarka á vinnslu persónuupplýsinga á orlofsvef BHM. Athugun Persónuverndar á orlofsvefnum leiddi í ljós að með því einu að vita kennitölu manns var unnt að komast að persónuupplýsingum um hann. Aðeins þurfti að slá inn kennitölu og eitthvert netfang. Gildir þá einu hvort um raunverulegt netfang sé að ræða eða ekki. Þannig mátti t.d. sjá upplýsingar um punktastöðu félagsmanns og um leigu hans á sumarhúsum.

Með bréfi, dags. 4. október 2011, óskaði Persónuvernd eftir því að Orlofssjóður Bandalags háskólamanna (hér eftir Orlofssjóður BHM) gæfi skýringar á þessu fyrirkomulagi. Í bréfi hennar var annars vegar vísað til 10. gr. og hins vegar 11.-13. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Með bréfi, dags. 30. nóvember 2011, óskaði Orlofssjóður BHM eftir upplýsingum um hvað væri að þessu fyrirkomulagi og hver væru lágmarksskilyrði til að Persónuvernd teldi aðgengi að heimasíðu orlofssjóðsins viðunandi.

2.
Samkvæmt lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er það ábyrgðaraðili vinnslu persónuupplýsinga sem ákveður tilgang hennar, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Í þessu tilviki er það Orlofssjóður BHM.

Það er því á ábyrgð sjóðsins sjálfs að finna, ákveða og gera nauðsynlegar öryggisráðstafanir til tryggja að vinnsla persónupplýsinga fari fram með lögmætum hætti. Bent er á að til þess þarf að uppfylla 10. gr. laga nr. 77/2000 um skilyrði fyrir notkun á kennitölum. Einnig þarf að uppfylla ákvæði 11. gr. laga nr. 77/2000, um ráðstafanir til að koma í veg fyrir óleyfilegan aðgang og að persónuupplýsingar berist ekki óviðkomandi. Til þess að tryggja öryggi eru margar leiðir færar. Til að mynda má hafa aðgang háðan því að notuð séu lykilorð, en þau má t.d. senda í heimabanka.

Nú er svo búið um hnútana á vefsvæði Orlofssjóðs BHM að óviðkomandi aðilar geta þar með einföldum hætti séð persónuupplýsingar um einstaka félagsmenn og stöðu þeirra hjá sjóðinum, þ.e. með því einu að slá inn kennitölu viðkomandi og eitthvert netfang. Það fyrirkomulag samræmist hvorki 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga né 11. gr. laga nr. 77/2000 um upplýsingaöryggi. Er vinnslan því ólögmæt.

Með vísun til 1. tölul. 3. mgr. 37. gr. og 40. gr. laga nr. 77/2000 er hér með lagt fyrir  Orlofssjóð BHM að gera breytingar á  vefsíðu sinni og viðhafa tæknilegar öryggisráðstafanir til að vernda persónuupplýsingar félagsmanna gegn óleyfilegum aðgangi. Skal það gert eigi síðar en 1. mars 2012. Senda skal Persónuvernd tilkynningu um úrbætur þegar er þær hafa verið gerðar.



Var efnið hjálplegt? Nei