Úrlausnir

Skráning í rekstrarsöguskrá

8.3.2012

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli manns varðandi skráningu persónuupplýsinga hjá Creditinfo-Lánstrausti. Um var að ræða upplýsingar um stjórnarsetu hans í félögum sem orðið höfðu gjaldþrota. Persónuvernd taldi að skráningin hefði verið heimil samkvæmt b-lið 7. tölul. 2. gr. starfsleyfis Creditinfo-Lánstrausts til skráningar upplýsinga um einstaklinga.

Úrskurður


Hinn 14. febrúar 2012 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2011/947:

I.
Málavextir og bréfaskipti

1.
Hinn 4. september 2011 barst Persónuvernd kvörtun frá A(hér eftir nefndur „kvartandi“), dags. sama dag, yfir skráningu upplýsinga um sig af hálfu Creditinfo Lánstrausts hf., þ.e. upplýsinga um að hann hafi verið skráður fyrir fyrirtæki sem varð gjaldþrota. Í kvörtun kemur fram að að hann hafi ekki getað greitt með kreditkorti frá Borgun hf. og fengið þær upplýsingar, eftir að hafa haft samband símleiðis við fyrirtækið, að upplýsingar um framangreint, fengnar frá Creditinfo Lánstrausti, væru ástæða þess. Um þetta segir nánar:

„Í ljós er komið að Borgun er að vitna í einhverja Viðskiptasöguskrá þar sem umrædd félagaslit koma fram.
 
Mér vitanlega hafa engir orðið fyrir tjóni af þeim slitum og get ég m.a. stoltur vitnað um það sem fáir geta að lífeyrissjóðsgjöld, félagsgjöld, vsk og annað var allt í skilum við slit.
 
Ég sem einstaklingur sem aldrei hef skilið eftir mig skuld eða valdið öðrum tjóni get ekki sætt mig við það að vera flokkaður sem ótraustur maður í viðskiptum eins og hér hefur verið gert, ég er ósáttur og bankinn minn er einnig ósáttur við þessi vinnubrögð Borgunar, þar sem segja má að eggið hafi tekið völdin af hænunni.

Ég er búinn að vera í sambandi við upplýsingagjafann sem er Creditinfo og þar er mér neitað um leiðréttingu minna mála.

Ég nýt ekki fulls trausts í viðskiptum vegna skráningar sem engan veginn er reynslusaga mín, þetta get ég ekki sætt mig við og fer hér með fram á aðstoð persónuverndar við að koma fram leiðréttingu á mínum málum.“

Með bréfi, dags. 20. september 2011, veitti Persónuvernd Creditinfo Lánstrausti færi á að tjá sig um framangreinda kvörtun. Fyrirtækið svaraði með bréfi, dags. 26. s.m. Þar segir að tvær færslur séu skráðar í svonefnda rekstrarsöguskrá hjá fyrirtækinu sem sé hið rétta heiti þeirrar skrár sem kvartandi nefnir „Viðskiptasöguskrá.“ Upplýsingarnar séu skráðar vegna tveggja félaga sem úrskurðuð voru gjaldþrota 8. apríl og 10. desember 2008. Heimild til skráningar upplýsinganna byggist á ákvæði 7. tölul. b-liðar 2. gr. starfsleyfis félagsins, dags. 10. maí 2011 (mál nr. 2010/1029), til söfnunar og skráningar upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga í því skyni að miðla þeim til annarra. Þá segir:

„Tilkynning um skráninguna var send 17. desember 2008. Í henni kemur fram að upplýsingar eyðast þegar færsla nær 4 ára aldri; einnig ef í skiptalokaauglýsingu kemur fram að allar kröfur hafi verið greiddar eða afturkallaðar (svo var ekki); eða ef ljóst er að skráningin hafi verið gerð vegna mistaka eða misskilnings – en ekkert hefur komið fram sem styður það. Að svo stöddu hefur Creditinfo Lánstraust hf. hvorki fengið í hendur gögn né rökstuðning sem réttlætir afskráningu annarrar færslunnar eða þeirra beggja. Við svo búið væri beinlínis óeðlilegt að afskrá aðra færsluna (sem myndi fella þær báðar úr miðlun), eða báðar, þar eð félagið gæti með engum hætti útskýrt fyrir viðskiptavinum sínum með hvaða rökum það væri gert. Viðskiptavinir hefðu þar með enga ástæðu til annars en að álykta sem svo að geðþóttaákvörðun réði því hvernig færslum er eytt úr rekstrarsöguskrá, og myndu að líkindum bera lítið traust til hennar í framhaldinu.

Ofanritað er efnislega það sem félagið hefur um skráningarnar að segja. Annað efni kvörtunarinnar snýr að Borgun hf. og þeim verklagsreglum sem Borgun hf. hefur sniðið sér. Creditinfo er kunnugt um verklagsreglur Borgunar hf. varðandi greiðsludreifingu, þ.e. að Borgun hf. býður ekki upp á dreifingu greiðslna ef korthafi er með skránin[g]u á rekstrarsöguskrá. Creditinfo hefur rætt þetta við Borgun hf. a.m.k. tvisvar og bent á að skráning á rekstrarsöguskrá er allt annars eðlis en skráning á vanskilaskrá, einfaldlega til að tryggja að enginn slíkur misskilningur væri þar á ferð. Borgun hf. er að öllu leyti kunnugt um muninn á þessum skrám.

Borgun hf. þakkaði fyrir ábendingarnar, en þær hafa þó ekki orðið til þess að breytingar hafi verið gerðar á þessari verklagsreglu, líkt og erindi A ber með sér. Hvernig aðilar framkvæma sitt áhættumat hverju sinni er í eðli sínu á þeirra könnu, enda er viðkomandi lánveitandi að lána út sitt eigið fé og verðmæti, eða sinna skjólstæðinga. Á meðan sumir lánveitendur kunna að líta fram hjá því, af ýmiss konar ástæðum, að aðili er með skráningu á rekstrarsöguskrá, eða jafnvel með færslur á vanskilaskrá, við opnun reiknings- og lánaviðskipta, þá kýs Borgun hf. að horfa til þessa tiltekna þáttar í tengslum við umsóknir á þeim greiðslukortum sem Borgun hf. gefur út. Creditinfo hefur einfaldlega ekki vald til að skikka lánveitendur til að meta áhættu frá öðrum forsendum en þeirra eigin, og skv. ákvæðum laga þar sem þeim er til að dreifa. Félagið býður lánveitendum vissulega upp á ýmiss konar þjónustu sem varðar tiltekna þætti áhættumats, en Creditinfo er ekki lánveitandi sjálft og hefur ekki alla þá þekkingu sem býr hjá lánveitendum og fyrirtækjum og stofnunum í reikningsviðskiptum til að raunhæft sé, að það geti metið áhættu allra lánsumsókna sem þeim berast, betur en þeir sjálfir.“

Með bréfi, dags. 11. október 2011, veitti Persónuvernd kvartanda færi á að tjá sig um framangreint bréfi Creditinfo Lánstrausts. Hann svaraði með bréfi, dags. 24. s.m. Þar segir:

„Í framhaldi af bréfi yðar dagsett 11. sl. vil ég ítreka mótmæli mín við dreifingu gagna af hálfu Creditinfo um mig.

Ég er sjálfstæður einstaklingur og sjálfstæður skattaðili með óflekkað mannorð sem er hvergi með lán eða annað í vanskilum og hef ekki verið.

Erindi mitt til Persónuverndar hófst út af tilraun til kaupa á sláttuvél með greiðsludreifingu og þá kom í ljós að ekki var allt með felldu. Þar sem upplýst hefur verið að vísað er til tveggja fyrirtækja sem lokað var með gjaldþrotaúrskurði skal það áréttað að hvorugt þessara félaga skildi eftir sig ógreidda vörsluskatta, vörureikninga eða iðgjöld til lífeyrissjóða og stéttarfélaga. Félögunum var lokað með þessum hætti af óviðráðanlegum orsökum.

Tekið skal fram að í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 138/1994 segir: „Einkahlutafélag merkir félag samkvæmt lögum þessum þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins.“
Í 1. mgr. 42. gr. sömu laga: Stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld.

Samkvæmt ofangreindum lögum um einkahlutafélög ber undirritaður ekki persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum þeirra félaga sem voru tekin til gjaldþrotaskipta. Og samkvæmt sömu lögum eru sett mörk við 3 ár frá gjaldþroti til þess að geta setið í stjórn nýs félags eða gerst framkvæmdastjóri.

Hvernig Creditinfo getur í fyrsta lagi mistúlkað lögin á þennan hátt er óskiljanlegt og hvaða heimild hafa þeir til þess að setja mörkin hærra en lögin segja til um. Það getur ekki annað verið en það að stofna nýtt einkahlutafélag sé kostnaðarsamara og áhættusamara en kaup á einni sláttuvél.

Benda skal á í þessu máli 1. mgr. 1. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar segir: „Markmið laga þessara er að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.“

Aðalmálið er það að þeir aðilar sem vilja, t.d. Borgun hf, hafa aðgang að upplýsingum sem gera mig að óskilamanni sem ég er ekki og því krefst ég þess að slík upplýsingagjöf um mig verði tafarlaust stöðvuð.“

II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

2.
Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að eiga sér stoð í lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í því felst m.a. að ávallt verður að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 8. gr. laganna. Litið hefur verið svo á að vinnsla upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust geti m.a. átt sér stoð í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr., þ.e. á þeim grundvelli að vinnsla sé nauðsynleg í þágu lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001, sbr. 45. gr. laga nr. 77/2000, sbr. einnig 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 712/2008 um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 33. gr. laganna, er söfnun og skráning upplýsinga um fjárhagsmálefni einstaklinga, í því skyni að miðla þeim til annarra, óheimil án starfsleyfis Persónuverndar.

Creditinfo Lánstraust hf. hefur haft með höndum vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli slíkra leyfa, sbr. nú leyfi, dags. 10. maí 2011 (mál nr. 2010/1029). Í 2. gr. leyfisins er talið upp hvaða upplýsingar handhafi slíks leyfis, þ.e. svonefnd fjárhagsupplýsingastofa, megi skrá, en sú upptalning byggist á 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 246/2001 þar sem segir að fjárhagsupplýsingastofu sé einungis heimilt að vinna með upplýsingar sem eðli sínu samkvæmt hafa afgerandi þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða.

Við útgáfu leyfa hefur verið byggt á því að tiltekin skráning á einstaklingum sem staðið hafa að félögum, sem orðið hafa gjaldþrota, samrýmist framangreindu. Í 7. tölul. b-liðar 2. gr. áðurnefnds starfsleyfis er því mælt fyrir um heimild til að skrá upplýsingar frá hlutafélagaskrá um stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjóra hlutafélaga og einkahlutafélaga sem staðið hafa að a.m.k. tveimur slíkum félögum sem orðið hafa gjaldþrota á síðustu fjórum árunum fyrir skráningu. Í samræmi við 3. mgr. 2. gr. og 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar skulu upplýsingar ekki varðveittar lengur en sem því nemur í skrá sem notuð er til miðlunar, sbr. 5. mgr. 5. gr. leyfisins.

Eins og kvartandi hefur vakið athygli á er í lögum að finna ákvæði um m.a. hversu lengur tími líður frá gjaldþroti félags þar til forsvarsmaður í því má taka við trúnaðarstörfum í nýju félagi, sem og það hvort forsvarsmaður félags beri persónulega ábyrgð á skuldbindingum þess. Í þessum ákvæðum er hins vegar ekki að finna fyrirmæli þess efnis að upplýsingar um stjórnarsetu í gjaldþrota félagi geti ekki haft vægi við lánshæfismat.

Fyrir liggur að kvartandi sat í stjórn tveggja félaga sem urðu gjaldþrota, sem og að innan við fjögur ár eru liðin frá gjaldþrotinu. Með vísan til þess er niðurstaða Persónuverndar sú að Creditinfo Lánstrausti sé umrædd skráning heimil.


Ú r s k u r ð a r o r ð:

Creditinfo Lánstrausti hf. var heimilt að skrá upplýsingar um stjórnarsetu A í tveimur félögum, sem úrskurðuð voru gjaldþrota hinn 8. apríl og 10. desember 2008.




Var efnið hjálplegt? Nei