Úrlausnir

Birting nafns á heimasíðu héraðsdómstóla - mál nr. 2011/1339

29.3.2012

Vísað hefur verið frá kvörtun manns yfir því að nafn hans kemur fram í dómi sem birtur er á vefsíðu sem rekin er á ábyrgð dómstólaráðs og héraðsdómstólanna. Um er að ræða dóm í sakamáli. Í ákvörðun Persónuverndar segir að þótt í ýmsu tilliti megi líta á dómstólaráð sem stjórnvald, er fari með almenn stjórnsýsluverkefni, starfi það einnig í umboði dómaranna. Það var því niðurstaða Persónuverndar að það félli utan hennar valdheimilda að úrskurða um lögmæti ákvörðunar um netbirtingu dómsins.

Efni:

Mál nr. 2011/1339, dags. 16. mars 2012.

Frávísun




I.
Grundvöllur máls
Málavextir og bréfaskipti

1.
Tildrög máls
Þann 2. desember 2011 barst Persónuvernd kvörtun vegna birtingar á nafni yðar í dómi sem birtur var á heimasíðunni www.domstolar.is. Samkvæmt upplýsingum á framangreindri heimasíðu er hún rekin á ábyrgð dómstólaráðs og héraðsdómstólanna. Í kvörtuninni segir m.a.:

„Undirritaður er að kvarta yfir nafnabirtingu á domstolar.is. Ég er mjög ósáttur við að dómstólar taki það upp hjá sjálfum sér að birta dóma og að í birtingu þessara dóma séu nafnabirtingar þ.e.a.s. að nöfn brotamanna komi þar fram.

Ástæða þess að ég er ósáttur við þessa nafnabirtingu er sú að ég tel að þetta hjálpi ekki mönnum sem hafa afplánað sína dóma við að koma aftur út í samfélagið. Þetta hefur skemmandi áhrif á aðlögun manna að samfélaginu að nýju. Það er eins og það sé verið að dæma mann upp á nýtt því að í hvert skipti sem maður sækir um vinnu eða leitar að húsnæði svo eitthvað sé nefnt þá þarf fólk lítið annað að gera en að fletta naf[n]inu upp á netinu og þá birtist dómurinn. Finnst eðlilegra að þessar upplýsingar séu eingöngu aðgengilegar í gegnum beiðni um sakavottorð. [...]“

Þá óskuðuð þér þess að svör stofnunarinnar yrðu send B, félagsráðgjafa hjá Fangelsismálastofnun ríkisins, þar sem þér væruð óstaðsettur í hús um þessar mundir.

2.
Bréfaskipti
Með bréfi, dags. 3. janúar 2012, var dómstólaráði boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var svarfrestur veittur til 13. janúar s.á. Með bréfi, dags. 9. janúar 2012, óskaði dómstólaráð eftir fresti til 20. janúar s.á. til að svara bréfi stofnunarinnar. Persónuvernd féllst á umbeðinn frest með tölvubréfi dags. 10. janúar s.á. Svarbréf dómstólaráðs, dags. 20. janúar 2012, barst stofnuninni þann 26. s.m. Þar segir m.a.:

„Dómstólaráð hefur birt dóma á heimasíðu héraðsdómstólanna frá því í apríl mánuði 2005 og fylgdi þá í kjölfar Hæstaréttar sem hafði þá birt dóma sína á heimasíðu dómstólsins í nokkurn tíma. Dómstólaráð setti sér strax í upphafi reglur um birtingu dómanna og tóku þær gildi 8. apríl 2005. Reglurnar byggðu á sömu grunnviðmiðum og Hæstiréttur m.a. varðandi nafnleynd. Núgildandi reglur um birtingu héraðsdóma tóku gildi 1. janúar 2011, sbr. tilkynningu dómstólaráðs þar að lútandi nr. 4/2010. Skv. 3. gr. reglnanna um nafnleynd, er nafn ákærða ekki birt ef hann er sýknaður eða birting á nafni hans getur talist andstæð hagsmunum brotaþola. Ef ákært er fyrir brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga (kynferðisbrot) skal gæta nafnleyndar um brotaþola og aðra sem geta persónugreint hann. Þá skal og gæta nafnleyndar í sakamálum þar sem dómfelldir eru yngri en 18 ára. Að öðru leyti eru ekki takmarkanir á nafnbirtingu ef dómsúrlausnir eru birtar á annað borð, sbr. 2. gr. reglna um birtingu héraðsdóma um þá málaflokka sem dómsúrlausnir verða ekki birtar í.“

Með bréfi, dags. 31. janúar 2012, var yður gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við framkomnar skýringar dómstólaráðs. Svarbréf B, félagsráðgjafa hjá Fangelsismálastofnun ríkisins, fyrir yðar hönd, barst með tölvubréfi þann 7. febrúar 2012. Þar segir m.a.:

„Hann veltir fyrir sér hvort Dómstólaráði sé heimilt að birta dómana með nafni á heimasíðu héraðsdómstólanna án þess að viðkomandi hafi verið upplýstur um það fyrirfram.  Hann segir sig ekki hafa verið dæmdan til að vera settur inn á heimasíðuna.  Að ekkert hafi komið fram í gögnum málsins sem gaf til kynna að dómurinn hans yrði settur á heimasíðu dómstólanna.  Dómarinn hafi ekki dæmt þannig í málinu að það ætti að birta dóminn og að á engum tímapunkti hafi honum verið tilkynnt um þessa aðgerð.  
Einnig veltum við því fyrir okkur hvort að Dómstólaráð hafi heimild til þess að taka þessa ákvörðun og setja sér reglur um að svona viðkvæm persónuleg mál séu sett á veraldarvefinn.  Þegar menn eru dæmdir af dómstóli fyrir afbrot sín þá kemur skýrt fram hver refsingin er og eins og staðan er í dag þá er ekkert sem segir að þessir dómar eigi að vera birtir fyrir almenningi á heimasíðu dómstólanna.  Við veltum einnig fyrir okkur hvort að Persónuvernd hafi tekið málið til umfjöllunar áður en Dómstólaráð tók þessa ákvörðun.“


II.
Forsendur og niðurstaða

1.
Gildissvið laga nr. 77/2000
Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Af framangreindu er ljóst að birting nafna í dómsniðurstöðum á heimasíðunni www.domstolar.is, sem rekin er á ábyrgð dómstólaráðs og héraðsdómstólanna, fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

2.
Laga- og reglugerðarákvæði
Svo að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil verður ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Til viðkvæmra persónuupplýsinga teljast m.a. upplýsingar um hvort einstaklingur hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Fyrir liggur í máli þessu að birt var á heimasíðunni www.domstolar.is dómsniðurstaða í sakamáli þar sem kvartandi var nafngreindur, en hann var hinn ákærði.  Með vísan til framangreinds er ljóst að umræddar upplýsingar falla undir b-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að uppfyllt hafi verið eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 9. gr. laganna. Sá töluliður sem hér kemur til álita er fyrst og fremst 2. tölul. 9. gr. laganna, þ.e. að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil standi til hennar sérstök heimild samkvæmt öðrum lögum.

Um birtingu héraðsdóma er fjallað í 16. og 17. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 3. mgr. 16. gr. laga um sakamál er mælt fyrir um að ef dómur er birtur skuli, ef sérstök ástæða er til, afmá úr honum atriði sem eðlilegt er að fari leynt með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna. Þar segir:

Dómara er enn fremur skylt gegn greiðslu gjalds að láta öðrum þeim, sem þess óskar, í té staðfest endurrit úr dómabók og af úrskurðum og ákvörðunum sem færðar hafa verið í þingbók. Áður en þau endurrit eru afhent skal, ef sérstök ástæða er til, afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna, þar á meðal atriði úr endurritum af úrskurðum og ákvörðunum ef það hefði í för með sér hættu á sakarspjöllum að þau kæmust til vitundar almennings. Hið sama á við ef dómar eða aðrar úrlausnir eru birtar opinberlega, svo sem á vefsíðum.

Í f-lið 17. gr. segir að dómstólaráð, sem hefur með höndum ýmsa umsýslu vegna héraðsdómstóla, setji nánari reglur um birtingu dóma, t.d. á vefsíðum. Í slíkum reglum skuli m.a. mælt fyrir um hvaða upplýsingar skuli ekki birtar.

Dómstólaráð hefur sett reglur um birtingu héraðsdóma á heimasíðu héraðsdómstólanna, sem fram koma í tilkynningu ráðsins nr. 4/2010. Í 1. gr. þeirra segir að dómar skuli birtir á sameiginlegri vefsíðu dómstólanna með þeim undantekningum og takmörkunum sem kveðið sé á um í reglunum. Í  3. gr. þeirra er ákvæði um hvenær gæta skuli nafnleyndar við birtingu dóma í saka- og einkamálum. Þar segir:

„Ef ákærði er sýknaður í máli eða birting á nafni hans getur talist andstæð hagsmunum brotaþola skal nafnleyndar gætt um ákærða. Ef ákært er fyrir brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga (kynferðisbrot) skal gæta nafnleyndar um brotaþola og aðra sem geta persónugreint hann. Skal þess þá jafnframt gætt að má út úr dómi aðrar upplýsingar sem gera kleift að persónugreina viðkomandi, svo sem heimilisföng og staðanöfn.
Gæta skal nafnleyndar í sakamáli gagnvart vitni þegar fjallað er um viðkvæm persónuleg málefni þess sem eðlilegt er að leynt fari.
Gæta skal nafnleyndar í sakamálum þar sem dómfelldu eru yngri en 18 ára.
Gæta skal nafnleyndar í einkamálum sem fjalla um mjög viðkvæm persónuleg málefni, svo sem málum um forsjá barna og aðra hagsmuni þeirra, um lögræðissviptingu og nauðungarvistun, um erfðir, um slit hjúskapar og óvígðrar sambúðar, svo og í málum þar sem fjallað er um viðkvæmar heilsufarsupplýsingar.“

Í 4. gr. reglnanna er fallað um hvaða atriði skuli afmá úr dómsúrlausnum. Þar segir að afmá skuli úr dómum og úrskurðum atriði sem eðlilegt er að fari leynt með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna í samræmi við ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

3.
Valdsvið Persónuverndar
Af framangreindu má ráða að lagaheimild stendur til birtingar dóma í sakamálum á Netinu. Hefur löggjafinn falið dómstólaráði að útfæra nánar og setja reglur um birtingu dóma og hefur það verið gert með framangreindum reglum. Í reglunum er talið upp hvenær skuli gæta nafnleyndar við birtingu dóma í sakamálum. Ekki verður séð að þau ákvæði eigi við í því máli sem hér er til skoðunar. Þá kemur fram í framangreindum reglum að í ákveðnum tilvikum skuli afmá atriði, sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- og einkahagsmuna. Hins vegar verður ekki annað ráðið  af framangreindum ákvæðum en að það sé hlutverk dómara í hverju máli að taka ákvarðanir um opinbera birtingu dóma eða annarra úrlausna svo sem á vefsíðum.

Með vísan til ákvæða stjórnarskrár um þrískiptingu ríkisvalds eru því rík takmörk sett að hvaða marki Persónuvernd getur, sem handhafi framkvæmdarvalds, hlutast til um mál sem eru á forræði annarra sjálfstæðra handhafa ríkisvaldsins, Alþingis og dómstóla. Samspil dómstólanna og dómstólaráðs er flókið. Þótt í ýmsu tilliti megi líta á ráðið sem stjórnvald, er fari með almenn stjórnsýsluverkefni, starfar það einnig í umboði dómaranna og af lögum leiðir að þeir taka ákvarðanir um birtingu dóma á vefsíðum.

4.
Frávísun
Að framangreindu virtu er það niðurstaða Persónuverndar að það falli utan sinna valdheimilda að fjalla efnislega um ákvarðanir sem teknar eru af hálfu dómstólaráðs eða dómara í málum á borð við það sem kvörtun yðar beinist að. Eru því ekki lagaskilyrði til þess að hún leggi úrskurð á það atriði hvort heimilt hafi verið að birta nafn yðar í þeim dómi sem birtur var á heimasíðunni www.domstolar.is. Verður þar af leiðandi að vísa málinu frá.



Var efnið hjálplegt? Nei