Úrlausnir

Upplýsingamiðlun frá opinberri stofnun II

Mál nr. 2012/899

23.10.2012

Persónuvernd barst kvörtun tveggja manna vegna viðtala forstöðumanns ríkisstofnunar um þá við fjölmiðla. Í málinu reyndi í fyrsta lagi á valdmörk Persónuverndar. Var þegar vísað frá þeim þætti er laut að ágreiningi um misbeitingu tjáningarfrelsis og refsingu vegna brots á þagnarskyldu embættismanns. Um hinn þátt málsins sagði ríkisstofnunin að ekki hefði verið um að ræða miðlun persónuupplýsinga úr rafrænum skrám hennar. Í því ljósi þóttu Persónuvernd, m.t.t.  gildissviðs persónuupplýsingalaga og vegna sjónarmiða um sönnun, þá ekki vera lagaskilyrði til að fjalla frekar um málið. Var það fellt niður.

Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar yðar, f.h. A og B, dags. 23. júlí 2012, yfir tilteknum viðtölum [embættismanns hjá stofnuninni F], við fjölmiðla. [...]

1.
Í bréfi Persónuverndar til yðar, dags. 3. september sl., kom fram að líta yrði svo á að málið væri tvíþætt. Annars vegar varðaði það tjáningu. Beiting tjáningarfrelsis væri varin af 73. gr. stjórnarskrárinnar og það væri hvorki verkefni Persónuverndar að skera úr málum þar sem deilt væri um hvort menn hefðu misbeitt því frelsi né að ákvarða refsingar, eftir atvikum fyrir brot á þagnarskyldu.  Í ljósi valdmarka Persónuverndar tæki hún þennan þátt málsins því ekki til úrlausnar. Yður var veittur frestur til athugasemda við framangreint til 10. september, en engar bárust.

Hins vegar taldi Persónuvernd málið geta varðað miðlun F á persónuupplýsingum um [...], þ.e. upplýsinga sem ætla mætti að væru á rafrænum gögnum stofnunarinnar. Úrlausn um lögmæti þess gæti fallið innan valdmarka Persónuverndar og myndi hún taka það til athugunar.

2.
Með bréfi, dags. 11. september 2012, var málið borið undir F í samræmi við ákvæði 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svar barst Persónuvernd, með bréfi dags. 17. september sl. Þar segir m.a.:

„Málavextir í umræddu máli voru þeir að fjölmiðlar höfðu með einhverjum hætti fengið upplýsingar um að [...]. Ýmsir fjölmiðlar höfðu samband við F og óskuðu frekari upplýsinga um málið. Í öllum tilvikum var fjölmiðlamönnum tilkynnt að stofnunin gæti ekki tjáð sig um einstök mál. Hins vegar gæti stofnunin upplýst um hvernig tekið væri á málum þar sem [...]
Hvergi í svörum F voru viðkomandi [...] nafngreindir. Fjölmiðlum var tjáð að stofnunin gæti aðeins tjáð sig almennt um málefni, almennt var sagt frá fyrirkomulagi [...]. Voru þessar upplýsingar veittar á grundvelli 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. F getur hvorki borið ábyrgð á því hvernig einstakir fjölmiðlamenn vinna úr almennum upplýsingum sem veittar eru af fulltrúum stofnunarinnar né tengingu fjölmiðla við nafngreind viðfangsefni þeirra.
Upplýsingar sem F veitti fjölmiðlum um ofangreint málefni voru hvorki úr rafrænum skrám hennar né byggðar á öðrum skriflegum upplýsingum um einstaka [...].“

3.
Samkvæmt framangreindu er því haldið fram að fjölmiðlar hafi haft rangt eftir og í raun hafi engum persónuupplýsingum verið miðlað. Þá segir að þau svör sem F hafi veitt fjölmiðlum hafi ekki byggst á persónuupplýsingum sem varðveittar séu í rafrænum skrám stofnunarinnar. Liggur því ekki fyrir að málið falli innan efnislegs gildissviðs laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, eins og það er afmarkað í 3. gr. laganna.

Með vísun til framangreinds mun Persónuvernd ekki aðhafast frekar af tilefni máls þessa nema henni hafi fyrir 20. október næstkomandi borist sérstök og rökstudd ósk um annað. Tilkynnist það hér með.



Var efnið hjálplegt? Nei