Úrlausnir

Upplýsingar um slys af völdum flugelda

31.5.2006

Hinn 28. febrúar 2005 gaf stjórn Persónuverndar svohljóðandi álit í máli nr. 2005/53:



I.
Tildrög og bréfaskipti

Með bréfi, dags. 24. janúar s.l., óskaði Lögreglustjórinn í Reykjavík eftir áliti Persónuverndar á því hvaða upplýsingar starfsfólki í heilbrigðisþjónustu sé heimilt eða jafnvel skylt að veita lögreglu með vísan til 9. gr. reglugerðar um skotelda nr. 952/2003 sem hljóðar svo:

,,Tilkynna ber lögreglu um öll alvarleg slys sem verða af völdum skotelda. Þá ber að tilkynna lögreglunni í Reykjavík, sem samkvæmt 22. gr. annast gerðarviðurkenningu á skoteldum, um gallaða skotelda í umferð."

Í bréfinu kemur fram að með 22. gr. sömu reglugerðar sé lögreglustjóranum í Reykjavík m.a. falið að annast eftirlit með að skoteldar standist gæðakröfur. Til að sinna því hlutverki sé nauðsynlegt að tilkynningar skv. tilvitnuðu ákvæði séu sem nákvæmastar. Í erindinu segir síðan:

,,Hingað til hefur lögregla ekki fengið upplýsingar um slys af völdum flugelda þegar leitað hefur verið beint til slysadeildar eða heilsugæslustöðva. Þær upplýsingar sem embættið hefur fengið eru því afar takmarkaðar og nýtast ekki til að sinna því forvarnarhlutverki sem lögreglu er ætlað varðandi meðferð skotelda.


Leitað hefur verið eftir samvinnu við Slysa- og bráðamóttöku LSH. Starfsfólk slysadeildar hefur skilning á forvarnargildi þess að lögregla fái greinargóðar ástæður slysa af völdum blysa- og flugelda en er hins vegar í vafa um hvort og að hvaða marki heimilt sé að veita slíkar persónuupplýsingar. Við skráningu upplýsinga hjá LSH er notast við meðfylgjandi eyðublað, þar sem m.a. kemur fram nafn og kennitala þess slasaða auk upplýsinga um staðsetningu, orsakir áverka, tegund skaðvalds o.fl. Telur embætti lögreglustjóra mjög mikilvægt að fá þessar upplýsingar, m.a. getur í sumum tilvikum reynst nauðsynlegt að hafa samband við viðkomandi einstakling í því skyni að afla nánari upplýsinga."

Það eyðublað sem fylgdi erindinu gerir ráð fyrir skráningu upplýsinga um nafn og kennitölu, tímasetningu slyss, komu á Slysa- og bráðamóttöku, staðsetningu slyss, þ.e. hvort það varð heima við eða á skemmtistað, orsakir áverka, öryggisatriði, hvort um frítímaslys eða vinnuslys hafi verið að ræða, flokkun tegunda skaðvalda, hvort flugeldurinn hafi verið merktur, hver hafi verið söluaðili hans, hvort leiðbeiningar hafi verið lesnar og hvort farið hafi verið eftir þeim, hvort flugeldurinn hafi verið keyptur í ár og hvort grunur hafi verið um galla í vöru.


Með bréfi dags. 7. febrúar s.l. var, í ljósi 7.-9 gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem og almennrar þagnarskyldu starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar, óskað eftir nánari rökstuðningi Lögreglustjórans í Reykjavík fyrir nauðsyn þess að fá ávallt full persónuauðkenni þess slasaða.


Í svarbréfi dags. 16. febrúar s.l. kemur fram að ekki er ætlast til þess að lögreglu sé tilkynnt um öll slys sem verða af völdum flugelda, heldur um alvarleg slys eingöngu. Þá er vísað í 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 um hlutverk lögreglu sem m.a. er að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna, koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins, að vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð opinberra mála eða öðrum lögum. Í bréfinu segir síðan:

,,Samkvæmt reglugerð nr. 952/2003 er lögreglu ætlað að sinna forvarnarhlutverki og á að fá í þeim tilgangi tilkynningar um öll alvarleg slys af völdum skotelda. Til að lögregla geti sinnt þessu hlutverki er nauðsynlegt að fá sem nákvæmastar lýsingar frá þeim slasaða og eða hugsanlegum vitnum. Þær upplýsingar gætu skipt sköpum á gerðarviðurkenningu sem lögreglu er ætlað að gera á flugeldum sbr 22. gr. reglugerðar nr. 952/2003 og gætu leitt til þess að ákveðinn flugeldur eða tegundir þeirra yrðu teknar úr umferð.


Þá geta það verið verulegir hagsmunir þess slasaða að lögregla fái vitneskju um slys af þessum toga vegna hugsanlegs bótaréttar hins slasaða."

Ekki er vísað í þau ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sem til greina koma sem heimild til umræddrar vinnslu persónuupplýsinga.

II.
Forsendur og niðurstaða

1. Gildissvið

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Með persónuupplýsingum er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem rekja má beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með vinnslu er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Af b-lið 2. gr. tilskipunar nr. 95/46/EB, sem og athugasemdum í greinargerð með því frumvarpi er síðar varð að lögum nr. 77/2000, er ljóst að miðlun telst til vinnslu í skilningi laganna. Umrædd miðlun persónuupplýsinga til lögreglu fellur því ótvírætt undir gildissvið laga nr. 77/2000.



2. Skylda til vinnslu persónuupplýsinga
Markmið laga nr. 77/2000 er m.a. að stuðla að því að farið sé með persónuupplýsingar í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Í samræmi við það er í lögum nr. 77/2000 að finna ákvæði um það hvenær heimilt er að vinna með persónuupplýsingar. Einu ákvæði laganna sem kveða á um skyldu til vinnslu persónuupplýsinga snúa að hinum skráða sjálfum, þ.e. þegar persónuupplýsingar eru unnar um einstakling ber þeim sem það gerir skylda til að veita viðkomandi tilteknar upplýsingar. Starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar verða því ekki, á grundvelli laga nr. 77/2000, skyldaðir til umræddrar miðlunar persónuupplýsinga til lögreglu. Ekki verður tekin afstaða til þess hvort skylda standi til vinnslunnar samkvæmt öðrum lögum, enda fellur það utan valdsviðs Persónuverndar, sbr. 37. gr. laganna. Persónuvernd getur hins vegar tekið afstöðu til þess hvort umrædd miðlun sé heimil.


3. Heimild til vinnslu persónuupplýsinga
Reglugerð nr. 952/2003 um skotelda er sett með stoð í 2. mgr. 33. gr. vopnalaga nr. 16/1998. Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um það hvar og hvenær heimilt er að nota skotelda. Þannig er notkun skotelda óheimil nema á tilteknum árstíma og þá á tilteknum tíma sólarhrings. Einnig er notkun skotelda óheimil á tilteknum stöðum. Samkvæmt 36. gr. reglugerðarinnar varðar brot á ákvæðum hennar sektum eða fangelsi allt að fjórum árum, sbr. VII. kafla vopnalaga, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.


Ljóst er að þær upplýsingar sem hugmyndin er að LSH miðli til lögreglu geta borið með sér upplýsingar um það hvort viðkomandi hafi gerst brotlegur við refsiákvæði. Ennfremur er um að ræða upplýsingar um heilsuhagi viðkomandi, t.d. um það hvort viðkomandi hafi hlotið sprengjuáverka, bruna, heyrnarskaða eða áverka á auga. Einnig er á eyðublaðinu reitur fyrir frjálst textaform. Þær upplýsingar sem hér um ræðir teljast því vera viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi b- og c-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Vinnsla, þ. á m. miðlun, slíkra persónuupplýsinga er óheimil nema uppfyllt sé eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 og ennfremur eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 9. gr. laganna.


Áður en metið er hvort eitthvert af skilyrðum 8. gr. sé uppfyllt þarf að liggja fyrir að eitt af skilyrðum 9. gr. sé uppfyllt. Þau skilyrði 1. mgr. 9. gr. sem helst koma til greina eru 1. og 2. tölul. Þá hefur af hálfu lögreglu verið vísað til þess að verulegir hagsmunir þess slasaða geti staðið til þess að lögregla fái vitneskju um slys af þessum toga vegna hugsanlegs bótaréttar hins slasaða og verður því tekin afstaða til þess hvort 4. tölul. eigi við.


Í 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 er kveðið á um að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil standi sérstök heimild til hennar í öðrum lögum. Slík lagaheimild verður að vera skýr og ótvíræð og fyrir verður að liggja að löggjafinn hafi í raun og veru tekið tillit til þeirra almennu persónuverndarsjónarmiða sem á reynir við meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga, en engu að síður talið vinnsluna nauðsynlega vegna almannahagsmuna. Það er því ljóst, að til uppfylla kröfur ákvæðisins um skýrleika, verður að kveða á um það með nokkuð afmörkuðum hætti hvaða vinnsla persónuupplýsinga megi fara fram. 9. gr. reglugerðar nr. 952/2003 er sett með stoð í 2. mgr. 33. gr. vopnalaga nr. 16/1998. Þar segir m.a. að ráðherra geti sett reglur um að ekki megi selja almenningi ýmsar skaðlegar tegundir skotelda og í því skyni geti hann kveðið á um sérstakt eftirlit. Hins vegar er ekkert vikið að umræddri vinnslu persónuupplýsinga eða afmarkað nánar í hverju eftirlitið er falið. Í reglugerðarákvæðinu sjálfu er kveðið á um skyldu til að tilkynna lögreglu um öll alvarleg slys sem verða af völdum flugelda. Hins vegar kemur ekki skýrlega fram hvort sú skylda nær eingöngu til atburðarins sem um ræðir, þ.e. að orðið hafi alvarlegt slys af völdum flugelda, og eftir atvikum ópersónugreinanlegra upplýsinga sem gagnast gætu í forvarnarstarfi lögreglu og gæðaeftirliti með flugeldum, t.d. um söluaðila, tegund skaðvalds, hvort öryggisbúnaður hafi verið notaður og hvort grunur leiki á að um gallaðan skoteld hafi verið að ræða, eða hvort hún nær einnig til miðlunar persónuupplýsinga um þann eða þá tilteknu einstaklinga sem fyrir slysinu verða. Persónuvernd hefur fullan skilning á því að umræddri upplýsingaöflun er ætlað að þjóna góðum tilgangi. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að umrædd laga- og reglugerðarákvæði eru ekki nægilega skýr og afmörkuð til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til heimildar samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.


Ef vinnsla er nauðsynleg til að verja verulega hagsmuni hins skráða, eða annars aðila, sem ekki er sjálfur fær um að gefa samþykki sitt skv. 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. kann hún að eiga sér stoð í 4. tölul. 1. mgr. 9. gr. Ákvæðið er sett til að uppfylla sambærilegt ákvæði í c-lið 2. mgr. 8. gr. tilskipunar 95/46/EB, en þar segir að bann við vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga gildi ekki sé vinnsla nauðsynleg til að vernda brýna hagsmuni hins skráða eða annars einstaklings ef hinn skráði er líkamlega eða í lagalegum skilningi ófær um að veita samþykki sitt. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins þarf vinnsla að vera nauðsynleg til þess að það teljist uppfyllt. Mat á nauðsyn ræðst af eðli og markmiði vinnslunnar og hvort því markmiði verði náð með öðrum hætti. Ákvæðið hefur verið skýrt þannig að það geti aðeins gilt um vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga sem er nauðsynleg til að tryggja verulega hagsmuni hins skráða, eða einhvers annars aðila, þegar hinn skráði getur af einhverjum ástæðum ekki gefið samþykki sitt, svo sem vegna þess að hann sé látinn, alvarlega veikur eða hafi ekki aðild lögum samkvæmt. Tekið skal fram að skilyrðið hefur ekki verið talið eiga við þegar foreldri eða forsjáraðili barns eða lögráðamaður er bær til þess að veita samþykki. Heyra slík tilvik undir 1. tölul. 1. mgr. 9. gr., en þó ber að athuga að ef þessir aðilar eru ófærir um að veita samþykki sitt getur 4. tölul. 1. mgr. 9. gr. eftir atvikum átt við.


Með vísun til framangreinds, og virtri þeirri ríku þagnarskyldu sem hvílir á læknum, verður ekki verður séð að önnur ákvæði en 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. komi til greina sem heimild fyrir miðlun umræddra upplýsinga frá LSH til lögreglu. Af því leiðir að miðlunin er heimil ef hinn skráði veitir til hennar samþykki sitt í skilningi 7. tölul. 2. gr. laganna. Er þá átt við sérstaka ótvíræða yfirlýsingu sem gefin er af fúsum og frjálsum vilja um að hinn skráði sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv. Þegar slíks samþykkis er aflað ber að upplýsa hinn skráða um nafn og heimilisfang ábyrgðaraðila, tilgang vinnslunnar og aðrar upplýsingar, að því marki sem þær eru nauðsynlegar, með hliðsjón af þeim sérstöku aðstæðum sem ríkja við þá tilteknu vinnslu sem um ræðir, sbr. 20. gr. laganna, s.s. um viðtakendur upplýsinganna, um það hvort honum sé skylt eða valfrjálst að veita umbeðnar upplýsingar og hvaða afleiðingar það kunni að hafa veiti hann þær ekki og um upplýsingarétt hans. Sé þessa ekki gætt verður ekki talið að um samþykki í skilningi 7. tölul. 2. gr. sé að ræða. Persónuvernd sér ekkert því til fyrirstöðu að sjúklingi verði boðið að veita upplýst samþykki sitt fyrir því að lögreglu verði veittar persónuauðkenndar upplýsingar um hann, t.d. með undirskrift á eyðublað það sem fylgdi erindi Lögreglustjórans í Reykjavík. Einnig getur sjúklingur leitað til lögreglu að eigin frumkvæði telji hann sé hag í því.



Var efnið hjálplegt? Nei