Úrlausnir

Beiðni líknarsamtaka um skattframtal heimil - mál nr. 2012/691

8.2.2013

Persónuvernd hefur úrskurðað varðandi kröfu líknarsamtaka um að fá skattframtal einstaklings sem sótti um mataraðstoð. Persónuvernd taldi þetta vera vinnslu fyrir lögmæta hagsmuni félagsins. Hún tengdist einstaklingum sem væru í reglulegum samskiptum við það. Því væri þetta heimil vinnsla.

Úrskurður


Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 25. janúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2012/691:

I.
Grundvöllur máls
Málavextir og bréfaskipti


1.
Tildrög máls
Þann 16. maí 2012 barst Persónuvernd kvörtun frá A (hér eftir nefndur kvartandi), vegna Fjölskylduhjálpar Íslands. Í kvörtuninni segir m.a.:

„Um sl. Mánaðarmót (apríl/maí 2012) krafði[...] Fjölskylduhjálpin alla þá sem til hennar le[i]ta um afrit af skattframtali.
Framtalið skyldi skilið eftir í þeirra umsjá.
[...]
Ekki er ljóst hvernig farið verður með þessar upplýsingar, hverjir hafa aðgang að þeim, hvar þetta verður skráð, hvort og hvernig gögnunum verður eytt og svo frv.
Ekki er gefin kvittun fyrir móttöku gagna né trúnaði heitið.

Þeir aðilar sem eru í þeim (þungu) sporum að þurfa leita aðstoðar þessara samtaka er stillt upp við vegg. Annað hvort gefa þeir allar upplýsingar um sig og sína, eða fá ekki hjálp úr þessari átt.“

2.
Bréfaskipti
Með bréfi, 8. júní 2012, var Fjölskylduhjálp Íslands boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svarbréf Fjölskylduhjálpar Íslands, dags. 15. júní 2012, barst Persónuvernd þann 18. s.m. Þar segir m.a.:

„Ástæða þess að við hjá Fjölskylduhjálp Íslands hófum að innkalla skattframtöl þeirra einstaklinga sem leita til okkar eftir aðstoð er vegna gífurlegrar fjölgunar þeirra sem leita til okkar.

Árið 2011 afgreiddum við 25586 mataraðstoðir.  Á skrá hjá okkur eru um 6000 kennitölur.  Fólk sýnir örorkukort, endurhæfingarkort o.s.fr.  Þá fáum við að sjá innkomu þeirra t.d. frá TR.  

Við höfum takmarkað fjármagn sem er að mestu leyti sjálfsaflafé.

Meðhöndlun upplýsinga er sem hér segir:

  1. Skattframtal er afhent starfsmanni á tölvu sem skráir að viðkomandi hafi skilað inn skýrslunni. Engar upplýsingar eru skráðar í tölvu.
  2. Þá fá formaður og varaformaður Fjölskylduhjálpar Íslands skýrsluna í hendur, fara yfir hana.
  3. Eftir skoðun á skýrslunni er skýrslan sett í möppu sem síðan fer inn í eldfastann skáp. Það er formaður og varaformaður sem hafa aðgang að umræddum skáp.
  4. Ef eignarstaða einstaklings er önnur og meiri en gefin hefur verið upp, er viðkomandi vísað frá og hefur ekki aðgang að aðstoð hjá okkur.
  5. Að ári munu skjólstæðingar okkar skila inn nýju skattframtali og er eldra skattframtali skilað til viðkomandi.“
Með bréfi, dags. 22. júní 2012, óskaði Persónuvernd eftir nánari skýringum frá Fjölskylduhjálp Íslands varðandi eftirfarandi atriði:

  1. Hvað sé átt við með því sem segir í bréfi yðar að skattframtal sé afhent starfsmanni á tölvu sem skráir að viðkomandi hafi skilað inn skýrslu en engu að síður séu engar upplýsingar skráðar í tölvu.
  2. Hvort eða hvernig fræðsla sé veitt hinum skráða í tengslum við afhendingu á skattframtali, sbr. 20. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
  3. Hvernig staðið sé að eyðingu ef viðkomandi einstaklingur sækir ekki skattframtal sitt að ári liðnu.

Ekkert svar barst og var erindið ítrekað með bréfi 14. ágúst 2012. Svarbréf Fjölskylduhjálpar Íslands barst síðan með tölvupósti þann 14. september 2012. Þar segir:

„[H]ér koma svörin við liðunum a.b og c.
a.       Þá er átt við að starfsmaður tekur við skattframtali og merki í tölvu að viðkomandi hafi skilað inn framtalinu.  Framtalið fæ ég strax í hendur og fer yfir það fyrir næsta úthlutunardag.  Ef tekjuviðmið eru við þau mörk sem gilda hjá okkur getur viðkomandi haldið áfram að sækja sér aðstoð.  Ef tekjur eru hærri enn viðmiðin tekur skjólstæðingurinn framtalið með sér og á ekki rétt á aðstoð.
b.      Er skjólstæðingur afhendir skattframtal, þá er hann upplýstur um að engar upplýsingar er skráðar um hann er varðar skattframtalið í tölvgagnagrunn okkar.  Til að fá mataraðstoð verður viðkomandi að skila inn framtali.
c.       Þá eyðum  við framtalinu.“

Með bréfi, dags. 24. september 2012 var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var frestur veittur til 12. október 2012. Ekkert svar barst. Erindið var ítrekað þann 31. s.m. og veittur frestur til 14. nóvember s.á. Ekkert svar barst.

II.
Forsendur og niðurstaða


1.
Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

2.
Lögmæti vinnslu
Svo að vinna megi með persónuupplýsingar verður ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Sé um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. 8. tölul. 2. gr. sömu laga, þarf að auki að vera fullnægt einhverju þeirra viðbótarskilyrða sem greind eru í 9. gr. sömu laga. Í skattframtölum getur verið að finna upplýsingar um hvort að einstaklingur þiggi greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins vegna örorku. Slíkar upplýsingar teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. Að því marki sem að slíkar upplýsingar koma fram í skattframtölum, þarf heimild bæði í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000.

Í 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. segir að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil sé hún framkvæmd af samtökum sem hafa stéttarfélagsleg markmið eða af öðrum samtökum sem ekki starfa í hagnaðarskyni, svo sem menningar-, líknar-, félagsmála- eða hugsjónasamtökum, enda sé vinnslan liður í lögmætri starfsemi samtakanna og taki aðeins til félagsmanna þeirra eða einstaklinga sem samkvæmt markmiðum samtakanna eru, eða hafa verið, í reglubundnum tengslum við þau; slíkum persónuupplýsingum má þó ekki miðla áfram án samþykkis hins skráða. Telst sú vinnsla sem hér um ræðir fara fram í þágu líknarsamtaka og telst vera liður í lögmætri starfsemi þeirra.

Í 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. segir að vinnsla sé heimil hafi hinn skráði ótvírætt samþykkt vinnsluna. Slíkt samþykki getur verið veitt með afhendingu skattframtals. Þá segir í 7. tölul. að heimil sé vinnsla sem er nauðsynleg í þágu lögmætra hagsmuna – nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra. Í svörum Fjölskylduhjálparinnar kemur fram að nauðsynlegt hafi þurft að krefja fólk um tilteknar upplýsingar um afkomu sína þannig að komið væri í veg fyrir að þeir sem ekki þyrftu á hjálp að halda fengju hana engu að síður. Telst vinnslan því fara fram í þágu lögmætra hagsmuna í skilningi ákvæði 7. töluliðar. Þá verður ekki talið að grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi hér þyngra, enda er hinum skráða ekki skylt að afhenda umrædd gögn, nema að hann óski mataraðstoðar, gögnin eru varðveitt í læstum skáp og afhent viðkomandi einstaklingi aftur að ári liðnu eða eytt. 

Með vísan til framangreinds er ljóst að krafa Fjölskylduhjálpar Íslands um að einstaklingar afhendi henni afrit af skattframtali þegar sótt er um mataraðstoð er heimil.  

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Fjölskylduhjálp Íslands er heimilt að óska eftir skattframtali A þegar hann sækir um mataraðstoð.



Var efnið hjálplegt? Nei