Úrlausnir

Fræðsluskylda Vinnumálastofnunar - mál nr. 2012/1390

3.7.2013

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli konu sem kvartaði yfir ófullnægjandi fræðslu sem henni var veitt vegna skráningar ip-tölu hennar í tengslum við atvinnuleit. Komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að fræðsla Vinnumálastofnunar hefði verið ófullnægjandi. Beindi Persónuvernd þeim fyrirmælum til Vinnumálastofnunar að bæta úr fræðslu til atvinnuleitenda og senda Persónuvernd staðfestingu þess efnis eigi síðar en 1. ágúst næstkomandi. 

Úrskurður

Hinn 28. maí 2013 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2012/1390:

 

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

 

1.

Tildrög máls

Þann 23. nóvember 2012 barst Persónuvernd kvörtun frá A (hér eftir nefndur kvartandi), yfir meðferð persónuupplýsinga um sig hjá Vinnumálastofnun. Í kvörtuninni segir m.a.:

„Ég hef verið á atvinnuleysisbótum um nokkurn tíma. Í lok október [...] fékk ég samning um þátttöku í verkefninu „Eigið frumkvöðlastarf“ sem er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og Nýskoðunarmiðstöðvar Íslands. Það var gerður við mig samningur sem gilti til  [...] um að ég starfaði undir handleiðslu NMI að eigin viðskiptahugmynd, framleiðslu vöru og markaðssetningu, m.a. erlendis. Samkvæmt samning þessum var ég undanþegin skyldu til að vera í virkri atvinnuleit á meðan. [...] fór ég í 10 daga til  [...], m.a. til að kynna mér möguleika á að markaðssetja vöru mína þar. Ég vissi ekki að ég þyrfti að tilkynna um ferðir mínar til VMST, enda var ég undanþegin skyldu til að vera í virkri atvinnuleit og var að starfa að verkefni mínu samkvæmt samningi við NMI og í nánu samstarfi við starfsfólk þar. Nokkru eftir heimkomuna fékk ég bréf frá VMST þar sem ég var beðin um að gera grein fyrir ferðum mínum. Við eftirgrennslan kom í ljós að stofnunin fylgist með IP tölum þeirra tölva sem notaðar eru til að senda inn mánaðarlega staðfestingu sem bótaþegar senda stofnuninni [...].“

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, 19. desember 2012, var Vinnumálastofnun boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í svarbréfi Vinnumálastofnunar, dags. 14. janúar 2013, segir m.a. að kvörtunin lúti að því að Vinnumálastofnun hafi ekki með fullnægjandi hætti farið að ábendingum Persónuverndar um að auglýsa að stofnunin safni og vinni með upplýsingar um IP-tölur þeirra sem skráðir eru atvinnulausir hjá stofnuninni, m.a. til að kanna ferðir þeirra erlendis. Af þeim sökum telur kvartandi að viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar, [...], hafi byggst á ólögmætri vinnslu persónuupplýsinga.

Nánari tiltekið var þeim tilmælum beint til Vinnumálastofnunar í úrskurði Persónuverndar í máli nr. 2009/635 að gera atvinnuleitendum grein fyrir því að stofnunin kanni IP-tölur í því skyni að athuga ferðir atvinnuleitenda erlendis þegar þeir skrá sig atvinnulausa með rafrænum hætti. Í úrskurðarorðum Persónuverndar segir að framangreint megi gera með auglýsingu á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Að öðru leyti gerði Persónuvernd ekki athugasemdir við skoðun Vinnumálastofnunar á þeim hluta IP-tölu sem hefur að geyma auðkenni þess lands sem IP-talan stafar frá.

Um framangreint segir eftirfarandi í svarbréfi Vinnumálastofnunar:

„Í tilkynningu sem birtist á heimasíðu Vinnumálastofnunar, þann 20. maí 2010, er skýrt tekið fram að stofnunin aflar upplýsinga um rafrænar staðfestingar á atvinnuleit, meðal annars með tilliti til upprunalands staðfestingar. Telur Vinnumálastofnun að með fyrrgreindri tilkynningu og þeim upplýsingum sem veittar eru í kynningarerfni stofnunarinnar hafi stofnunin uppfyllt tilmæli Persónuverndar.[...Þá hafi stofnunin gert] viðbót á því upplýsingaefni sem finna má á heimasíðu stofnunarinnar og kemur þar nú skilmerkilega fram að stofnunin safnar IP-tölum þeirra sem staðfesta atvinnuleit sína með rafrænni skráningu og að þær séu m.a. nýttar til að kanna hvort staðsetningin hafi borist erlendis frá.“

Telur Vinnumálastofnun að með framangreindu hafi hún uppfyllt skilyrði 7. gr. laga nr. 77/2000.

Með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, óskaði Persónuvernd nánari upplýsinga frá Vinnumálastofnun um skoðun IP-tölu í því tilviki sem kvartað er yfir. Nánar tiltekið óskaði Persónuvernd nánari upplýsinga um af hvaða ástæðu Vinnumálastofnun kannaði IP-tölu kvartanda, til að athuga hvort hún hafi verið stödd erlendis. Í því samhengi benti Persónuvernd á að með kvörtuninni hafi fylgt afrit af samningi kvartanda við Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NÍ), sem byggði á samstarfssamningi NÍ og Vinnumálastofnunar frá  [...] um verkefnið „Eigið frumkvöðlastarf“, en í þeim samningi segir m.a. að meðan á verkefninu stendur er atvinnuleitandi ekki í virkri atvinnuleit og fer að reglum Vinnumálastofnunar þar að lútandi, en atvinnuleitandi þarf þó að staðfesta atvinnuleit mánaðarlega á meðan hann er í úrræðinu.

Í svarbréfi Vinnumálastofnunar, dags. 5. mars 2013, segir að umræddur samningur kvartanda við NÍ um þróun eigin viðskiptahugmyndar byggist á 7. gr. reglugerðar nr. 12/2009 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna vísar stofnunin til a-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006, þar sem segir að launamaður þurfi að vera í virkri atvinnuleit til að uppfylla skilyrði laganna, en hugtakið virk atvinnuleit er nánari skilgreint í 14. gr. laganna. Þá segi í c-lið 1. mgr. 13. gr. að umsækjandi um atvinnuleysisbætur þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi, og því sé um tvö ólík skilyrði að ræða. Telur Vinnumálastofnun að eina undanþágan frá því skilyrði sé að finna í 42. gr. laganna, þar sem segir að atvinnuleitendur geti sótt um að leita að starfi erlendis, en kvartandi hafi ekki sótt um slíka heimild. Að öðru leyti sé það hluti af almennu eftirliti stofnunarinnar að skoða IP-tölur þeirra atvinnuleitenda sem staðfesta atvinnuleit með rafrænum hætti og því fellst stofnunin ekki á að þeir atvinnuleytiendur sem eru undanþegnir virkri atvinnuleit þurfi ekki að uppfylla önnur almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Með bréfi, dags. 14. mars 2013, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við svarbréf Vinnumálastofnunar, dags. 14. janúar og 5. mars 2013, til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi kvartanda, dags. 5. apríl 2013, segir m.a. eftirfarandi um fræðslu Vinnumálastofnunar:

„Í fyrra bréfi sínu gerir Vinnumálastofnun grein fyrir því hvernig hún telur sig hafa uppfyllt tilmæli Persónuverndar sem fram komi í niðurstöðu í máli nr. 635/2009 um að gera skuli atvinnuleitendum grein fyrir því að stofnunin kanni IP-tölur í því skyni að athuga ferðir þeirra erlendis. Vísar stofnunin þar til þess að þessara skilyrða hafi verið getið í tilkynningu sem birt hafi verið á heimasíðu stofnunarinnar 20. maí 2010, en eins og kom fram í kvörtun minni var þar í raun um fréttatilkynningu að ræða sem enn má finna í fréttasafni á heimasíðu Vinnumálastofnunar undir flipa Vinnumálastofnun - fréttir - 2010. Má auðvitað ljóst vera að þessi fréttatilkynning var ekki til þess fallin að gera atvinnuleitendum til frambúðar grein fyrir umræddri söfnun upplýsinga og var öflun þeirra því ekki lögmæt á þeim tíma sem hér skiptir máli.[...]

Það breytir hins vegar engu um lögmæti umræddrar upplýsingaöflunar gagnvart mér í apríl eða maí 2012 þótt Vinnumálastofnun kunni nú loksins að hafa gert ráðstafanir til að fullnægja þeim skilyrðum sem henni voru sett fyrir umræddri upplýsingaöflun. Ég tók hinn 13. maí 2012 skjáskot af þeim síðum á vef Vinnumálastofnunar þar sem helst hefði mátt vænta upplýsinga um þessa gagnaöflun en fann ekki, enda er nú komið á daginn að að þær var ekki þar að finna nema í gömlu fréttasafni frá 2010. Læt ég til fróðleiks fylgja eina af þessum síðum (skjáskot 1) þar sem fram koma upplýsingar um staðfestingu á atvinnuleit eins og síðan var 13. maí 2012 og eins og hún er nú með þeirri viðbót sem sett hefur verið inn með feitu letri (skjáskot 2). Ég vek hins vegar athygli á því að þessar upplýsingar birtast undir yfirskriftinni réttindi og skyldur en ekki þegar ég skrái mig inn til að staðfesta atvinnuleit, sjá skjáskot 3 og 4, og verður því ekki sagt að Vinnumálastofnun leggi sig sérstaklega fram við að koma umræddum upplýsingum á framfæri með tryggilegum hætti.“

Þá segir eftirfarandi í bréfi kvartanda um ástæður Vinnumálastofnunar til að kanna IP-tölu kvartanda í því tilviki sem kvartað er yfir:

„Er í bréfi stofnunarinnar gerð grein fyrir þeirri túlkun stofnunarinnar að ég hafi ekki verið undanþegin skyldu til að vera stödd á landinu, sbr. c-lið 13. gr. laga nr. 54/2006, þrátt fyrir að ég hafi verið undanþegin skyldu til að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 7. gr. þess samnings sem í gildi var um verkefni mitt við eigið frumkvöðlastarf.

Ég tel að þessi túlkun Vinnumálastofnunar fái ekki staðist. Bendi ég á að náin tengsl eru milli þess skilyrðis að vera staddur á landinu og þess að vera í virkri atvinnuleit og að skýra verður ákvæðið í c-lið 13. gr. laga nr. 54/2006 með hliðsjón af tilgangi þess. Nægir að nefna að við setningu þessa ákvæðis, með 4. gr. laga nr. 134/2009, var gerð svohljóðandi grein fyrir því í greinargerð með frumvarpi til laganna: „Lagt er til að skýrar verði kveðið á um það skilyrði að atvinnuleitandi sé staddur hér á landi til að geta talist í virkri atvinnuleit og því ekki eingöngu nægjanlegt að hann teljist hér búsettur. Þetta er ekki breyting á framkvæmd laganna en þó þykir betra að undirstrika mikilvægi þess að atvinnuleitendur séu staddir hér á landi í virkri atvinnuleit og þar með reiðubúnir að taka vinnu þegar hún býðst með stuttum fyrirvara, sbr. einnig c-lið 1. mgr. 14. gr. laganna“. Má augljóst vera af þessu að ákvæðið þjónar þeim eina tilgangi að tryggja að atvinnuleitandi geti sinnt skyldu sinni til virkrar atvinnuleitar og er einsýnt að það á ekki við þegar einstalingur er undanþeginn virkri atvinnuleit vegna þátttöku í sérstöku vinnumarkaðsúrræði.[...]

Af þessu leiðir að engar lögmætar eða málefnalegar ástæður réttlættu að Vinnumálastofnun aflaði milliliðalaust upplýsinga um ferðir mínar eða aðra persónulega hagi á samningstímanum.“

Þá óskaði Persónuvernd nánari upplýsinga frá Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 24. apríl 2013, um eftirfarandi atriði:

1.    Hvernig var fræðslu háttað, um könnun IP-talna, í því tilviki sem hér um ræðir  [...]?

2.    Er það réttur skilningur Persónuverndar að Vinnumálastofnun þurfi vitneskju um ferðir atvinnuleitenda sem undanþegnir eru virkri atvinnuleit til að geta rækt lögboðið hlutverk sitt?

3.    Telur Vinnumálastofnun að skoðun IP-tölu kvartanda, í því tilviki sem hér um ræðir, hafi samrýmst ákvæði 7. gr. laga nr. 77/2000?

Í svarbréfi Vinnumálastofnunar, dags. 13. maí 2013, er í fyrsta lagi vikið að fræðslu. Nánar tiltekið segir að Vinnumálastofnun hafi farið að tilmælum Persónuverndar í úrskurði hennar í máli nr. 635/2009, og birt á heimasíðu sinni þann 20. maí 2010 auglýsingu þess efnis að stofnunin aflaði upplýsinga um rafrænar staðsetningar á atvinnuleit. Með þessu hafi stofnunin farið að tilmælum Persónuverndar. Jafnframt hafi kvartandi mætt á kynningarfund hjá Vinnumálastofnun þann  [...], en þar var m.a. gerð grein fyrir almennum skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar og skýrt tekið fram að atvinnuleitendum er óheimilt að þiggja atvinnuleysisbætur meðan þeir dvelja erlendis. Þá sé framangreint jafnframt áréttað í kynningu fyrir hóp nýskráðra atvinnuleitenda, sem og tekið fram að atvinnuleitanda ber að tilkynna um fyrirhugaðar ferðir til stofnunarinnar og að stofnunin fylgist með rafrænum skráningum á atvinnuleit. Að öðru leyti geti Vinnumálastofnun ekki staðhæft hvaða upplýsingar komu fram á fundinum þann  [...], og því sé ekki hægt að fullyrði að vakin hafi verið athygli á framangreindum eftirlitsaðgerðum stofnunarinnar.

Í öðru lagi er vikið að spurningu tvö í bréfi Persónuverndar. Telur Vinnumálastofnun að þeir sem taka þátt í vinnumarkaðsúrræðinu „Þróun eigin viðskiptahugmyndar“ séu undanþegnir því skilyrði laganna að þurfa að vera í virkri atvinnuleit. Aftur á móti séu þeir ekki undanþegnir öðrum skilyrðum laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, þ.m.t. skilyrðinu um að atvinnuleitandi sé staddur hérlendis. Í þessu samhengi vísar Vinnumálastofnun til þess að hafi ætlunin verið sú að binda búsetu- og dvalarskilyrði við hugtakið „virka atvinnuleit“ yrði að færa það skilyrði undir upptalningu 14. gr. laganna þar sem nánar er gerð grein fyrir því hvað felst í því að vera í virkri atvinnuleit. Þess í stað var sett sérstakt dvalarskilyrði í c-lið 13. gr. laganna. Loks er vísað til þess að eina undantekningin fyrir því skilyrði að vera búsettur og staddur hér á landi, sbr. c-lið 13. gr., er að sækja um undanþágu frá framangreindum skilyrðum, en það hafi kvartandi ekki gert. Þá uppfyllti hún ekki skilyrði þess að fá útgefið slíkt vottorð á grundvelli VIII. kafla laganna. Því sé það eindregin afstaða stofnunarinnar að það hafi ekki áhrif á skyldu stofnunarinnar til eftirlits með staðfestingum á atvinnuleit að viðkomandi atvinnuleitandi hafi gert samning um þróun eigin viðskiptahugmyndar, og sé það liður í lögboðuðu hlutverki Vinnumálastofnunarinnar að viðhafa eftirlit með þeim sem og öðrum er þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga.

Í þriðja lagi svarar stofnunin spurningu Persónuverndar, um hvort skoðun á IP-tölu kvartanda í þessu tilviki hafi samrýmst ákvæði 7. gr. laga nr. 77/2000. Telur stofnunin að svo hafi verið, enda voru umræddar upplýsingar nýttar í skýrum og málefnalegum tilgangi við framkvæmd laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar, enda geta IP-tölur verið rekjanlegar til einstaklinga. 

2.

Lögmæti vinnslu

Í máli þessu er uppi ágreiningur milli kvartanda og Vinnumálastofnunar um hvort IP-tala hennar hafi verið skoðuð með lögmætum hætti, í því tilviki sem hér um ræðir, og hvort Vinnumálastofnun hafi veitt fullnægjandi fræðslu þar að lútandi.

Að miklu leyti svipa málavextir þessa máls til máls nr. 2009/635, en stjórn Persónuverndar úrskurðaði í því máli þann 16. desember 2009, þar sem sagði að hún gerði ekki athugasemdir við skoðun Vinnumálastofnunar á IP-tölu kvartanda, sem var í virkri atvinnuleit. Í því máli sem hér um ræðir hafði atvinnuleitandinn, þ.e. kvartandi, aftur á móti undirritað samning við NÍ um „Eigið frumkvöðlastarf“, þar sem segir að meðan á verkefninu stendur er atvinnuleitandi ekki í virkri atvinnuleit og fer að reglum Vinnumálastofnunar þar að lútandi, en að atvinnuleitandi þurfi þó að staðfesta atvinnuleit mánaðarlega á meðan hann er í úrræðinu. Í ljósi þessa þarf Persónuvernd að fjalla um heimild Vinnumálastofnunar til að skrá IP-tölu kvartanda.

Svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil verður ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000. Þegar stjórnvöld afla upplýsinga í tengslum við stjórnvaldseftirlit verður einkum talið að 5. og 6. og, eftir atvikum, 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna geti átt við um upplýsingaöflunina og eftirfarandi vinnslu upplýsinganna. Samkvæmt 3. tölul. er vinnsla heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu, samkvæmt 5. tölul. er vinnsla heimil sé hún nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna og samkvæmt 6. tölul. er vinnsla heimil sé hún nauðsynleg við beitingu opinbers valds.

Vinnumálastofnun hefur vísað til þess að þrátt fyrir að kvartandi sé ekki talinn vera í virkri atvinnuleit, skv. 14. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, verði hún engu að síður að uppfylla skilyrði 13. gr. laganna varðandi atvinnuleysistryggingar launamanna. Þar segir n.t.t. í c-lið 1. mgr. að launamaður verði að vera búsettur og staddur hér á landi. Eina undantekningin frá framangreindri skyldu er ef atvinnuleitandi hefur sótt um heimild til atvinnuleitar í tilteknum ríkjum, sbr. VIII. kafla laganna, en svo hafi kvartandi ekki gert.

Framkvæmd framangreindra ákvæða samkvæmt lögum nr. 54/2006 er á hendi Vinnumálastofnunar, þ.m.t. að leggja mat á hvort atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit og hvort viðkomandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum þótt þeir hafi farið erlendis. Umfjöllun um það fellur ekki í hlut Persónuverndar og tekur hún því ekki afstöðu til þess hvernig túlka beri skilyrði laga nr. 54/2006 um virka atvinnleit. Telji Vinnumálastofnun að hún þurfi vitneskju um ferðir manna til að geta rækt lögboðið hlutverk sitt er ljóst að vinnsla upplýsinga um IP-tölur atvinnuleitenda, þ.m.t. þeirra sem eru ekki í virkri atvinnuleit, getur fallið undir framangreind skilyrði 8. gr. laga nr. 77/2000. Er framangreint í samræmi við niðurstöðu Persónuverndar í áðurnefndu máli hennar nr. 2009/635, dags. 16. desember 2009.

3.

Fræðsla til kvartanda

Vinnsla persónuupplýsinga verður hins vegar einnig að samrýmast öllum skilyrðum 7. gr. laga nr. 77/2000. Þar er m.a. mælt fyrir um að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); og að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.). Í þessum kröfum felst m.a. að aldrei má ganga lengra við öflun upplýsinga um utanferðir einstaklinga á atvinnuleysisskrá en nauðsynlegt er vegna eftirlits Vinnumálastofnunar. Þá felur fyrstnefnda krafan í sér að vinnsla persónuupplýsinga skal vera gagnsæ gagnvart hinum skráða. Taldi Persónuvernd í máli nr. 2009/635 að Vinnumálastofnun þurfti að bæta úr fræðslu til atvinnuleitenda sem skrá sig atvinnulausa með rafrænum hætti um að stofnunin safni IP-tölum til að komast að því hvort þeir hafi verið erlendis. Vísaði Persónuvernd í niðurstöðu sinni til þess að gera ætti atvinnuleitendum grein fyrir þessu með auglýsingu á heimasíðu stofnunarinnar, eins og áður segir. Ber því að skoða í máli þessu hvort Vinnumálastofnun hafi farið að leiðbeiningum Persónuverndar með fullnægjandi hætti, svo að kvartanda hafi mátt vera það ljóst hver ætlun Vinnumálastofnunar var í því tilviki sem hér um ræðir og hver var tilgangurinn með vinnslunni.

Hefur Vinnumálastofnun vísað til þess að fræðsla hafi verið veitt á kynningarfundi þann  [...], sem og á fundi með nýskráðum atvinnuleitendum. Jafnframt hefur stofnunin vísað til þess að hún hafi birt auglýsingu á heimasíðu hennar þann 12. maí 2010, í samræmi við tilmæli Persónuverndar í máli nr. 2009/635, en í auglýsingunni segir:

„Að gefnu tilefni er vakin athygli á því að Vinnumálastofnun aflar upplýsinga um rafrænar staðfestingar á atvinnuleit, m.a. með tilliti til upprunalands staðfestingar. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi. Heimilt er að veita undanþágu frá ofangreindum skilyrðum sbr. VIII. kafla laganna.

Þeir sem huga að ferð erlendis á sama tíma og þeir eru skráðir í atvinnuleit hjá stofnuninni er því vinsamlegast bent á að hafa samband við þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar.

Frekari upplýsingar um atvinnuleit erlendis má nálgast á heimasíðu Vinnumálastofnunar.“

Með bréfi, dags. 23. júlí 2010, benti Persónuvernd á að það verði að liggja ljóst fyrir að framangreindar upplýsingar séu birtar þeim sem efni þeirra varðar með skýrum hætti, svo að tilkynningin þjóni tilgangi sínum og fullnægi kröfum 7. gr. laga nr. 77/2000. Þá benti stofnunin einnig á að í tilkynningunni væri ekki vísað til IP-talna. Leiðbeindi því stofnunin Vinnumálastofnun um að fræðslunni yrði komið fyrir á áberandi stað í því viðmóti sem notað er við staðfestingu á atvinnuleit.

Af gögnum þessa máls má ráða að Vinnumálastofnun hefur ekki farið að tilmælum Persónuverndar með fullnægjandi hætti, enda kom fræðsla ekki fram á áberandi stað um vinnslu upplýsinga um IP-tölu kvartanda, n.t.t. um tilgang vinnslunnar og hverjar afleiðingarnar séu ef IP-tala er skráð erlendis. Mælir því Persónuvernd fyrir um að Vinnumálastofnun bæti úr fræðslu til handa atvinnuleitendum sem skrá sig í atvinnuleit rafrænt, svo að ljóst sé vinnslan teljist gagnsæ gagnvart hinum skráðu. Skal staðfesting þess efnis send Persónuvernd eigi síðar en 1. ágúst næstkomandi.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Vinnumálastofnun veitti kvartanda ekki fullnægjandi fræðslu við framkvæmd eftirlits síns. Fyrirmælum er beint til Vinnumálastofnunar að bæta úr fræðslu til atvinnuleitenda og senda Persónuvernd staðfestingu þess efnis eigi síðar en 1. ágúst næstkomandi.



Var efnið hjálplegt? Nei