Úrlausnir

Notkun eftirlitsmyndavéla á réttargeðdeild - mál nr. 2013/229

19.7.2013

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli nokkurra starfsmanna á réttargeðdeild Landspítala varðandi notkun eftirlitsmyndavéla í aðdraganda áminningar sem veitt var umræddum starfsmönnum.Var niðurstaða Persónuverndar sú að spítalanum hefði verið heimilt að skoða upptökur úr eftirlitsmyndakerfi í þágu eignarvörslu og vöktunar með vinnuskilum og ekki hefði verið farið út fyrir þá heimild í umræddu tilviki.

Úrskurður

 

Hinn 25. júní 2013 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2013/229:

 

I.

Málavextir og bréfaskipti

1.

Hinn 12. febrúar 2013 barst Persónuvernd kvörtun frá A, B, C, D, E og F, dags. 9. janúar s.á., yfir notkun á eftirlitsmyndavélum á réttargeðdeild Landspítalans. Í kvörtuninni segir:

 

„Undirritaðir fengu þann 4. maí s.l. áminningu vegna brots í starfi skv. 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um er að ræða brot samkvæmt fyrrnefndri lagagrein sem felst í því að þeir höfðu á vakt þann 2. apríl 2012, vanrækt mikilvægar starfsskyldur samkvæmt starfslýsingu og verklagi réttargeðdeildar.

Gögn sem notuð voru til sönnunar í þessu máli voru myndskeið úr myndavélakerfi réttargeðdeildar. Myndavélakerfi deildarinnar er sett upp í þeim tilgangi að fylgjast með – og tryggja öryggi sjúklinga stofnunarinnar (með vitneskju starfsmanna).

Stjórnendur réttargeðdeildar skoðuðu að sögn einungis tvær vaktir, þar sem umræddir starfsmenn voru við störf en ekki voru frekari gögn varðandi aðra starfsmenn deildarinnar skoðuð þrátt fyrir að starfsmenn héldu því fram að það vinnulag sem þeir fengu áminningu fyrir væri ekki einskorðað við þá eina. Ekki hlaust af skaði vegna umrædds brots og var það því ekki forsenda þess að þetta var athugað í upphafi.

Undirritaðir óska hér með eftir því að Persónuvernd taki lögmæti þess að nýta myndavélakerfi réttargeðdeildar með þessum hætti til skoðunar.“

Með bréfi, dags. 27. mars 2013, veitti Persónuvernd Landspítalanum færi á tjá sig um framangreinda kvörtun. Spítalinn svaraði með bréfi, dags. 24. apríl s.á. Þar segir m.a.:

„Allir starfsmenn réttargeðdeildar vita af þeim öryggismyndavélum sem staðsettar eru á deildinni. Er það staðfest í kvörtun starfsmanna til Persónuverndar dags. 9. apríl 2013. Sambærilegar myndavélar voru einnig á Sogni þegar réttargeðdeildin var staðsett þar með vitund allra starfsmanna. Er þeim ætlað að tryggja öryggi sjúklinga og starfsmanna sem og að sinna almennu eftirliti inni á erfiðri deild, m.a. eignavörslu. Ástæða þess að deildarstjóri réttargeðdeildar skoðaði upptökur úr öryggismyndavél var til að reyna að upplýsa þjófnað sem hafði átt sér stað á deildinni. Við þá skoðun kom í ljós að sjúklingur sem átti að vera á „fullri gát“ var eftirlitslaus inni á sínu herbergi.

Á réttargeðdeild gilda verklagsreglur varðandi fulla gát en í henni felst að stöðugt eftirlit á að vera með viðkomandi sjúklingi. Sjúklingurinn sem um ræðir var á fullri gát vegna sjálfsvígshættu og í leiðbeiningum fyrir starfsmenn segir eftirfarandi um slíka gát: „Á að baki ítrekaðar tilraunir til að stytta sér aldur. Má því ekki líta af honum auga. Mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því að líf einstaklings er á ábyrgð deildarinnar“. Þegar deildarstjóri sá á upptöku úr eftirlitsmyndavél að fullri gát var ekki sinnt varð honum ljóst að öryggi viðkomandi sjúklings var stefnt í hættu. Eins og áður segir er hlutverk öryggismyndavélanna að tryggja öryggi sjúklinga og því ekki séð að deildarstjóra hafi verið óheimilt að skoða frekari upptökur úr öryggismyndavélinni eftir að ljóst varð að öryggi sjúklingsins var ógnað.

Upphaflegur tilgangur skoðunar á upptökum úr öryggismyndavélum var að upplýsa þjófnað. Við þá skoðun kom hins vegar í ljós enn alvarlegra brot sem starfsmenn spítalans voru uppvísir að. Þó upptökurnar hafi í fyrstu ekki verið skoðaðar í þeim tilgangi að upplýsa um þetta tiltekna brot þá verður að telja að spítalanum hafi verið heimilt að nota upplýsingar sem þessar þar sem þær eru í samræmi við tilgang öryggismyndavélanna, þ.e. að tryggja öryggi sjúklinganna. Brotið er litið mjög alvarlegum augum enda mikilvægir hagsmunir sem varða öryggi og líf sjúklings í húfi. Nauðsynlegt er að bregðast við brotum sem þessum og var yfirmönnum spítalans óhjákvæmilegt að gera það.“

Með bréfi, dags. 30. apríl 2013, var kvartendum veitt færi á að tjá sig um framangreint svar Landspítalans. X, hdl., svaraði fyrir hönd þeirra með bréfi, dags. 17. maí 2013. Þar segir:

„Umbjóðendur mínir mótmæla því að deildarstjóri réttargeðdeildar hafi skoðað upptökur úr öryggismyndavél Landspítalans „til að upplýsa þjófnað“ eins og haldið er fram í svarbréfi Landspítalans. Þá er því mótmælt að sú skoðun hafi leitt til þess að deildarstjórinn hafi farið að skoða „alvarlegra brot sem starfsmennirnir voru uppvísir að“. Skorað er á Persónuvernd að afla upplýsinga um hinn meinta þjófnað, t.d. um það hvort meintur þjófnaður hafi verið atvikaskráður í kerfum Landspítalans, hvort hann hafi verið kærður til lögreglu, hvað var tekið og hver var meintur brotaþoli.

Umbjóðendur mínir byggja á því að deildarstjóra Landspítalans hafi ekki verið heimilt að skoða umræddar upptökur nema að uppfylltum skilyrðum 8. og 9. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 („pvl.“). Umbjóðendur mínir byggja á því að upplýsingar um vinnubrögð einstakra heilbrigðisstarfsmanna séu viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi 2. gr. pvl. þar sem heilbrigðisstarfsmanni getur verið gert að sæta sektum eða fangelsi í þrjú ár gerist hann brotlegur í starfi gegn lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012, sbr. 28. gr. laganna. Upptökur úr öryggismyndavélum Landspítalans geta því haft upplýsingar um refsiverðan verknað heilbrigðisstarfsmanns, sbr. 2. gr. og 2. tl. 2. mgr. 9. gr. pvl.

Deildarstjóri Landspítalans leitaði ekki eftir samþykki umbjóðanda minna áður en hann skoðaði umræddar upptökur. Vinnslan braut því gegn 2. tl. 2. mgr. 9. gr. pvl.“

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Rafræn vöktun er vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkjum búnaði, og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sbr. 6. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Hugtakið tekur til vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga og sjónvarpsvöktunar sem fram fer með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla eða annars samsvarandi búnaðar, án þess að fram fari söfnun myndefnis eða aðrar aðgerðir sem jafngilda vinnslu persónuupplýsinga.

Af framangreindu er ljóst að myndavélaeftirlit það sem fram fer á réttargeðdeild Landspítalans er í eðli sínu rafræn vöktun og rafræn vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000. Jafnframt er ljóst að það heyrir undir valdsvið Persónuverndar að úrskurða um ágreining um umrædda vöktun, sbr. 37. gr. laganna.

 

2.

Til að rafræn vöktun sé heimil verður að vera fullnægt skilyrðum 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/2000. Þar er kveðið á um að rafræn vöktun sé ávallt háð því skilyrði að hún fari fram í málefnalegum tilgangi. Rafræn vöktun svæðis, þar sem takmarkaður hópur fólks fari um að jafnaði, sé jafnframt háð því skilyrði að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram.

Eins og fram hefur komið er hér um að ræða rafræna vöktun sem leiðir til vinnslu persónuupplýsinga. Svo að vinnsla slíkra upplýsinga sé heimil verður einhverju þeirra skilyrða, sem kveðið er á um í 8. gr. laga nr. 77/2000, að vera fullnægt. Að því marki sem hér kann að vera um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða, s.s. um grun um refsiverða háttsemi, sbr. a-lið 8. tölul. 2. gr. sömu laga, verður einnig að líta til 9. gr. laganna, en þar er mælt fyrir um viðbótarskilyrði fyrir vinnslu slíkra upplýsinga. Þarf vinnslan þá að fullnægja einhverju þeirra skilyrða, auk einhvers skilyrðanna í 8. gr.

Það ákvæði 8. gr., sem hér kemur einkum til álita, er 7. tölul. 1. mgr. 8. gr., þess efnis að vinna megi með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra. Af ákvæðum 9. gr. kemur einkum til álita 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. um heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga sem nauðsynleg er til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, segir:

„Vinnuveitanda getur t.d. verið nauðsynlegt að vinna upplýsingar um heilsufar starfsmanns til að geta sýnt fram á lögmætar forsendur fyrir uppsögn. Það er ekki skilyrði að málið verði lagt fyrir dómstóla heldur nægir að vinnslan sé nauðsynleg til að styðja kröfu fullnægjandi rökum. Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga í þessum tilgangi telst hins vegar því aðeins vera lögleg að krafan verði hvorki afmörkuð né staðreynd með öðrum hætti.“

Með stoð í 5. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 hefur Persónuvernd sett reglur nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun. Samkvæmt 4. gr. þeirra reglna verður rafræn vöktun að fara fram í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, s.s. í þágu öryggis eða eignavörslu. Þá segir í 5. gr. reglnanna að við alla rafræna vöktun skuli þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við þann tilgang sem að er stefnt. Skuli gæta þess að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skuli því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiðinu með slíkri vöktun sé unnt að ná með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum.

Í 6. gr. reglnanna er ákvæði um vöktun með vinnuskilum. Segir þar að vöktun til að mæla vinnu og afköst starfsmanna sé háð því að hennar sé sérstök þörf, s.s. vegna þess að:


I.                   ekki sé unnt að koma við verkstjórn með öðrum hætti;

II.                án vöktunarinnar sé ekki unnt að tryggja öryggi á viðkomandi svæði, s.s. í ljósi laga og sjónarmiða um hollustuhætti og mengunarvarnir; eða

III.             hún sé nauðsynleg vegna ákvæða kjarasamnings eða annars konar samkomulags um launakjör, s.s. þegar laun eru byggð á afkastatengdu, tímamældu launakerfi.

Af hálfu Landspítalans hefur komið fram að vöktunarefni hafi í umræddu tilviki upphaflega verið skoðað vegna gruns um þjófnað. Því er andmælt af hálfu kvartenda. Persónuvernd hefur hins vegar ekki forsendur til að véfengja staðhæfingu Landspítalans um hið upprunalega tilefni skoðunar á vöktunarefni. Var þar um að ræða skoðun í þágu eignavörslu, en frekari skoðun verður hins vegar talin hafa falið í sér vöktun með vinnuskilum. Eins og hér háttar til telur Persónuvernd framangreindu ákvæði b-liðar 6. gr. reglna nr. 837/2006 hafa þar verið fullnægt. Þá telur Persónuvernd vöktunina og vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við hana að öðru leyti hafa samrýmst kröfum reglna nr. 837/2006, sem og að hún hafi átt fullnægjandi stoð í þeim ákvæðum laga nr. 77/2000 sem að framan eru rakin. Ekki hefur komið fram að brotið hafi verið gegn öðrum ákvæðum og er því niðurstaða stofnunarinnar sú að hún hafi samrýmst lögum.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

 Skoðun Landspítalans á myndefni úr eftirlitsmyndavélum á réttargeðdeild Landspítalans í aðdraganda áminningar, sem A, B, C, D, E og F var veitt, samrýmdist lögum nr. 77/2000.

 



Var efnið hjálplegt? Nei