Úrlausnir

Vinnsla persónuupplýsinga hjá barnaverndarnefnd - mál nr. 2012/964

19.7.2013

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli varðandi vinnslu persónuupplýsinga hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkurborgar í tengslum við gerð forsjárhæfnimats. Taldi stofnunin að nefndinni hefði borið að gera vinnslusamning við þann sálfræðing sem hún fékk til að vinna umrætt mat en að sálfræðingnum hefði verið heimilt að fara í sjúkraskrá kvartanda að fengnu samþykki hans.

Ú r s k u r ð u r

 

Hinn 25. júní 2013 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2012/964:

 

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

1.

Tildrög máls

Þann 22. ágúst 2012 barst Persónuvernd kvörtun frá A (hér eftir nefndur kvartandi), vegna miðlunar persónuupplýsinga um hana frá barnaverndarnefnd Reykjavíkur til B, sálfræðings. Kvörtunin var þríþætt. Í fyrsta lagi beindist hún að því að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefði ekki gert vinnslusamning við umræddan sálfræðing varðandi vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Í öðru lagi að ekki hefði verið tryggt nægilegt öryggi persónuupplýsinga og í þriðja lagi að umræddur sálfræðingur hefði unnið tilteknar persónuupplýsingar um kvartanda án þess að hafa til þess fullnægjandi heimildir, öryggi upplýsinganna hefði ekki verið tryggt með fullnægjandi hætti og að sálfræðingurinn hefði aflað sér upplýsinga með ólögmætum hætti úr sjúkraskrá kvartanda.

Með kvörtuninni fylgdu ýmis gögn varðandi meðferð málsins hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Þar á meðal var undirritað samþykki kvartanda fyrir aðgangi sálfræðingsins að sjúkraskrám hennar.


2.

Bréfaskipti

vegna barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Með bréfi, 4. september 2012, var barnaverndarnefnd Reykjavíkur boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá óskaði Persónuvernd sérstaklega eftir upplýsingum um eftirfarandi:

1.    Hvort að umrædd miðlun eða afhending gagnanna hefði átt sér stað, um hvaða gögn hafi þá verið að ræða og hver hafi verið tilgangur þeirrar miðlunar eða afhendingar.

2.    Hvort barnaverndarnefnd teldi að umræddur sálfræðingur hefði verið ábyrgðaraðili eða vinnsluaðili, samkvæmt 4. og 5. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

3.    Ef nefndin teldi að sálfræðingurinn hefði verið ábyrgðaraðili vinnslunnar var þess óskað að fram kæmi á hvaða heimild í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 sú miðlun byggðist.

4.    Ef nefndin teldi að sálfræðingurinn hefði verið vinnsluaðili var þess óskað að stofnuninni bærist afrit af vinnslusamningi vegna vinnslunnar, sbr. 13. gr. laga nr. 77/2000.

Var frestur til að svara veittur til 21. september 2012. Ekkert svar barst og var erindið ítrekað með bréfi, dags. 4. október s.á. Frestur var þá veittur til 12. s.m. Þann dag barst Persónuvernd svarbréf nefndarinnar, dags. 11. s.m. þar sem m.a. segir að kvartandi hafi þann [...], í kjölfar þess að nefndin úrskurðaði um vistun dóttur hennar utan heimilis, undirritað svonefnda „áætlun um meðferð máls“ en í henni komi fram að kvartandi myndi undirgangast svonefnt „forsjárhæfnimat“. Því næst segir í bréfi nefndarinnar:

 

„Þann [...] var meðfylgjandi bréf sent B sálfræðingi þar sem óskað var eftir að B tæki að sér sálfræðimat m.t.t. forsjárhæfni móður. Sálfræðingar sem taka að sér að vinna forsjárhæfnimat fá gögn frá barnaverndarnefndum til að geta unnið matið. Í kjölfar bréfsins kom B á skrifstofu Barnaverndar Reykjavíkur og sótti gögn til starfsmanns sem fór með málið. Ekki liggur fyrir dagáll um fyrrgreint. Ekki var gerður frekari samningur við B enda litið svo á að beiðnin, dags. [...], sem byggðist á fyrrgreindri bókun nefndarinnar nægði.

Gögnin sem afhent voru B vegna sálfræðiathugunar voru þau gögn sem lögð voru fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann [...] ásamt fylgigögnum, þ.e. öllum greinargerðum og fylgiskjölum sem höfðu áður verið lögð fyrir fundi nefndarinnar. [Kvartandi] undirgekkst forsjárhæfnimat í kjölfarið og var til góðrar samvinnu við gerð matsins.

Hjá Barnavernd Reykjavíkur liggja ekki fyrir gögn um frekari samskipti milli starfsmanns eða nefndarmanna og fyrrgreinds sálfræðings fyrr en hann skilaði skýrslu sinni [...], dags. [...], en hún barst Barnavernd Reykjavíkur þann [...]. [...].“

Með framangreindu bréfi barnaverndarnefndar Reykjavíkur fylgdi m.a. afrit af áætlun um meðferð skv. 23. gr. laga nr. 80/2002, dags. [...]. Þar kemur m.a. fram að markmið áætlunarinnar sé að tryggja uppeldisaðstæður dóttur kvartanda. Þá kemur fram að forsjárhæfnimat sé eitt þeirra úrræða og aðgerða sem beita skuli til að ná markmiði áætlunarinnar. Undir áætlunina undirrita starfsmaður nefndarinnar og kvartandi, þó með fyrirvara um kæru á úrskurði nefndarinnar.

Með bréfi barnaverndarnefndar Reykjavíkur fylgdi einnig afrit af bréfi, dags. [...], til B, sálfræðings. Þar kemur m.a. fram að beiðnin sé lögð fram á grundvelli bókunar nefndarinnar, dags. [...] . Þá hafi samþykkis kvartanda verið aflað fyrir matinu með því að undirrita áætlun um meðferð máls. Í bréfi nefndarinnar til sálfræðingsins kemur enn fremur fram að gert sé ráð fyrir að umbeðin sálfræðiathugun sé unnin með viðtölum og viðeigandi sálfræðilegum prófunum, og að í skýrslu komi fram upplýsingar um sálræna hagi, með sérstöku tilliti til hæfni, eða skort á hæfni, til að axla forsjárskyldur sínar. Þá er enn frekar óskað eftir að lagt verði mat á tiltekna þætti sem taldir eru upp í umræddu bréfi.

Með bréfi, dags. 22. október 2012, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar barnaverndarnefndar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svarbréf kvartanda, dags. 4. nóvember 2012, barst Persónuvernd þann 6. s.m. Þar kemur m.a. fram að kvartandi sé ósátt við að spurningum Persónuverndar, sem settar voru fram í fjórum töluliðum, hafi ekki verið svarað. Þá telur kvartandi að bókanir nefndarinnar endurspegli ekki það sem fram komi á fundum hennar.

Þá segir í svari kvartanda:

„Eins og sjá má á áætlunum dags. [...] koma ekki fram neinar upplýsingar um hvernig slíkt mat fer fram eða er framkvæmt, eða nokkuð annað eins og þegar um upplýst samþykki er að ræða. Ekki kemur fram hvort um sé að ræða ótvíræða yfirlýsingu sem gefin er að fúsum og frjálsum vilja, ekki kemur fram hvaða upplýsingar verði notaðar né tilgang, né hvernig vinnslan fari fram og hvernig persónuvernd verði tryggð og því síður kemur fram hvort heimilt sé að afturkalla samþykki sitt.

Einnig má þess geta [að] fræðsluskylda Barnaverndar Reykjavíkur þegar aflað er persónuupplýsinga hjá foreldrum er aldrei undir nokkrum kringumstæðum veitt, sama á hvaða stigi málsmeðferð Barnaverndar Reykjavíkur er á.

Því síður er upplýsingaskylda Barnaverndar Reykjavíkur sinnt á nokkurn hátt, því er enginn möguleiki að fá leiðréttingar um rangar og villandi persónuupplýsingar.

Hvergi kemur fram hvort munur er á sálfræðimati, forsjárhæfnimati eða sálfræðilegu forsjárhæfnimati. [...]

Á þessum forsendum hafna ég því alfarið að um upplýst samþykki hafi verið að ræða, heldur þvinguð fram undirritun áætlana dags. [...]. Engar skýringar hafa verið gefnar varðandi þau gögn sem afhent voru sálfræðingi og afdrif þeirra.“

Með bréfi kvartanda fylgdi m.a. afrit af blaðsíðu úr skýrslu þeirri sem B, sálfræðingur, skilaði til barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Þar kemur m.a. fram að notast hafi verið við gögn frá barnaverndarnefnd Reykjavíkur en einnig hafi verið tekin viðtöl við kvartanda og hennar saga fengin. Þá hafi heimili hennar verið skoðað og samskipti móður og barns. Enn fremur kemur fram að notast hafi verið við sálfræðileg próf sem og sjúkragögn frá geðdeild Landspítala.

Með bréfi, dags. 5. desember 2012, óskaði Persónuvernd nánari skýringa frá barnaverndarnefnd, m.a. hvað varðar þá fræðslu sem kvartanda hafi verið veitt. Var frestur veittur til 14. s.m. Engin svör bárust og var erindið ítrekað með bréfi, dags. 14. janúar 2013. Þar kom fram að bærust engin svör yrði tekin afstaða til málsins á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Var frestur veittur til 29. janúar 2013. Ekkert svar barst.

 

 

3.

Bréfaskipti vegna

B, sálfræðings

Með bréfi, dags. 14. mars 2013, var B, sálfræðingi, boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá óskaði Persónuvernd einnig upplýsinga um eftirfarandi:

 

1.    Hvort að umrædd miðlun eða afhending gagnanna hefði átt sér stað, um hvaða gögn hafi þá verið að ræða og hver hafi verið tilgangur þess.

2.    Hvort hann teldi sig eða barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafa verið ábyrgðaraðila eða hvort hann teldi sig hafa starfað sem vinnsluaðila, samkvæmt 4. og 5. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

3.    Ef hann teldi að hann hefði verið ábyrgðaraðili vinnslunnar var þess óskað að fram komi á hvaða heimild í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 sú miðlun byggðist.

4.    Ef hann teldi að hann hefði vinnsluaðili fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur var þess óskað að stofnuninni bærist afrit af þeim vinnslusamningi, sbr. 13. gr. laga nr. 77/2000, sem gerður var við hann.

Var frestur veittur 2. apríl 2013 en framlengdur til 8. s.m. að beiðni B. Svarbréf hans, dags. 3. apríl 2013, barst Persónuvernd þann 5. s.m. Þar segir m.a.:

„Í stuttu máli gengur þetta þannig fyrir sig varðandi aðkomu sérfræðinga að matsgerðum að matsbeiðandi, sem getur verið til dæmis barnaverndir, lögregla eða dómstólar, óskar eftir mati sérfræðings á einstaklingum með beiðni. Skilningur undirritaðs á þeirri beiðni er sá að hann vinnur þá í umboði matsbeiðanda. Matsmaður fær einnig alltaf málsgögn í hendur sem hann notar til að vinna matsgerðina. Alltaf liggur fyrir einhvers konar samþykki matsbeiðanda og matsþola um að sérfræðimatið fari fram hjá öllum stofnunum en matsmaður sér ekki um slíkt enda tekur matsmaður því þannig að ef matsþoli mætir þá hefur hann í raun gefið sitt samþykki. Slíkt gerist oft í þessum málum og er þá ekkert mat gert. Í þessi tilviki hafði matsþoli þó undirritað meðferðaráætlun hjá Barnavernd Reykjavíkur og inn í því var samþykki fyrir forsjárhæfnimati.

Matsmaður vinnur síðan með upplýsingar sem hann fær frá matsbeiðanda en getur með samþykki matsþola fengið ítarlegri upplýsingar sem nauðsynlegar eru eins og t.d. sjúkraupplýsingar. Í þessu tilviki hefur komið fram að matsþoli skrifaði undir samþykki fyrir aðgangi að sjúkraskrá og Persónuvernd hefur síðan undir höndum svar undirritaðs til Barnaverndar Reykjavíkur varðandi það frá árinu [...]. Taka ber fram að matsþola er algerlega frjálst að skrifa ekki undir slíkt samþykki og gerist það oft við sérfræðimöt. Þær upplýsingar voru síðan eingöngu notaðar fyrir gerð umræ[dd]s sálfræðimats en ekki til persónulegra nota eins og kemur fram í kvörtun. Undirritaður hefur einnig ekki farið í sjúkraskrá matsþola nema eingöngu á þeim tíma sem matið var gert eins og matsþoli hefur líklegast fengið upplýsingar um frá Landspítala. Matsmaður telur að með umboði sínu hafi matsþoli gefið nægjanlegt samþykki fyrir aðgangi að sjúkraskrá og taka ber fram að Barnavernd Reykjavíkur hefur samkvæmt barnaverndarlögum rétt til að fá sjúkraupplýsingar. Undirritaður skilur beiðni um matsgerð frá Barnavernd Reykjavíkur vera þannig að hann vinni í umboði barnaverndaryfirvalda og koma þá til barnaverndarlög ásamt lögum um heilbrigðisstéttir. 

Upplýsingar sem matsmaður sótti úr sjúkraskrá voru því eingöngu afhentar Barnavernd Reykjavíkur og var ekki miðlað til óviðkomandi og án heimildar eins og virðist koma fram í kvörtun. [...]

Undirritaður fékk því afhent gögn frá Barnavernd Reykjavíkur varðandi þetta mál og má sjá í svari Barnaverndar Reykjavíkur hvaða gögn það voru og hvernig slíkt fór fram. Tilgangur slíkra gagna er almennt að matsmaður fái betri yfirsýn og innsýn í málefni matsþola og í sumum tilvikum málefni barna sem tengjast málunum. Matsgerðir eru því byggðar á gögnum málsins ásamt sögu matsþola. Sérfræðimat er oft viðamikið og þarf að taka til margra þátta til að gagnast í vinnslu mála og gögn málsins algerlega nauðsynleg. Ef engin gögn myndu fylgja málinu þyrfti matsmaður eingöngu að byggja matið á sögu matsþola og þá væri matið bæði hlutdrægt og í raun ómarktækt og engin leið fyrir matsmann að sannreyna sögu matsþola. Þetta eru stöðluð alþjóðleg vinnubrögð [...]. Taka ber fram að í þessu máli voru gögn farin yfir með matsþola og ákveðin atriði í gögnum borin undir hana. Matsþoli hafði því á þeim tíma tækifæri til að tjá sig um gögnin og hafði fulla vitneskju um að matsmaður hefði gögnin og gerði engar athugasemdir um notkun þeirra.“

Með bréfi, dags. 8. apríl 2013, var kvartanda veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar B. Svarbréf kvartanda, dags. 2. maí 2013, barst Persónuvernd þann 7. s.m. Þar kemur m.a. fram að kvartandi telji að ekki sé hægt að leggja matsgerðir sem framkvæmdar eru af tilefni opinberra mála eða einkamála fyrir dómi að jöfnu við þær sem framkvæmdar eru að tilstuðlan opinberra stofnana. Um matsgerðir fyrir dómi gildi ákvæði laga um meðferð sakamála og laga um meðferð einkamála. Að mati kvartanda gildi ekki sömu reglur þegar um er að ræða forsjárhæfnimat enda sé ákvörðun um slíkt mat háð geðþóttaákvörðun starfsmanns barnaverndarnefndar. Í því sambandi vísar kvartandi til afrits af meðferðarfundi nefndarinnar, dags. 2. júní 2010. Þá telur kvartandi að enginn greinarmunur sé gerður á upplýstu samþykki og umboði af hálfu sálfræðingsins, og ekkert bendi til þess að nefndin hafi veitt starfsmanni sínum umboð til að ákveða þær umtalsverðu breytingar á framkvæmd vinnslunnar og þeim viðbótum sem urðu meðan vinnslan fór fram eða til að fá þriðja aðila til að afla upplýsinga og fá aðgang að sjúkraskrá.

Þá segir í bréfi kvartanda:

„Hvað varðar að gögn hafi verið borin undir mig eins og sálfræðingurinn B fullyrðir í bréfi sínu, er þeim þætti alfarið hafnað og ber skýrslan þess augljós merki að slíkt hafi ekki verið gert. Einungis eitt ákveðið atriði var borið undir mig af hálfu sálfræðingsins [...], þetta ákveðna atriði er ekki að finna í þeim gögnum sem hafa verið lögð fram. [...]

Enn hefur ekki verið upplýst hvaða gögn voru afhent sálfræðingnum, og engan veginn hægt að sjá það í svörum Barnaverndar Reykjavíkur.

Misvísandi upplýsingar hafa komið fram hjá Barnavernd Reykjavíkur [um] hvaða gögn voru afhent, ýmist er sagt hluti gagna sem lögð voru fyrir fund, eða öll gögn [...]. Ekki hefur heldur verið upplýst hvar gögnin eru niðurkomin né hvernig öryggi þeirra er tryggt.

Annars ber skýrsla þessi augljós merki [þess] að upplýsingar sem urðu til eftir fund nefndarinnar [...] og á meðan vinnslan fór fram voru veittar sálfræðingnum með einhverjum hætti.“

Þá telur kvartandi að enn hafi ekki verið tilgreint á grundvelli hvaða lagaheimildar sálfræðingurinn hafi aflað upplýsinga úr sjúkraskrá hennar. Þá tekur kvartandi fram að ekki liggi ljóst fyrir hvort að barnaverndarnefnd hafi verið afhentar upplýsingar úr sjúkraskrá, umfram það sem fram komi í skýrslu sálfræðingsins, eða hvort nefndin hafi fengið afrit af allri sjúkraskrá hennar. Hvergi komi fram hversu víðtækum upplýsingum hafi verið safnað úr sjúkraskrá hennar og hvort upplýsingarnar einskorðist við eitt svið hjá Landspítala eða í heild, né hvað hafi verið merkt við varðandi tilgang og opnun sjúkraskrárinnar.

 

II.

Forsendur og niðurstaða 

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Af framangreindu er ljóst að framangreind vinnsla um kvartanda hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur og B fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

2.

Afmörkun umfjöllunarefnis

Erindi kvartanda er þríþætt. Í fyrsta lagi er kvartandi ósátt við að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi miðlað upplýsingum til B, sálfræðings, án þess að gerður hafi verið vinnslusamningur við hann. Í öðru lagi telur kvartandi að öryggi og varðveisla gagnanna hafi ekki verið tryggð með fullnægjandi hætti. Í þriðja lagi telur kvartandi að sálfræðingurinn hafi aflað upplýsinga með ólögmætum hætti úr sjúkraskrá hennar.

Úrskurður þessi lýtur að fyrsta og þriðja þætti kvörtunarinnar. Hvað varðar annan þátt þess hyggst Persónuvernd afla frekari upplýsinga um fyrirkomulag upplýsingaöryggis hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur og heimildir þær sem nefndin telur sig hafa að lögum fyrir gerð forsjárhæfnimats.

3.

Vinnslusamningur

Skyldur samkvæmt lögum nr. 77/2000 hvíla á ábyrgðaraðila að vinnslu persónuupplýsinga. Með ábyrgðaraðila er átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna, sbr. 4. tölul. 2. gr. laganna. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur átti frumkvæði að gerð forsjárhæfnimatsins auk þess sem nefndin mælti fyrir um hvaða atriði skyldu sérstaklega könnuð. Með vísan til þess ber að telja barnaverndarnefnd Reykjavíkur ábyrgðaraðila að vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við gerð skýrslunnar.

Sá sem vinnur persónuupplýsingar á vegum ábyrgðaraðila er nefndur vinnsluaðili, sbr. 5. tölul. 2. gr. laganna. Um samband ábyrgðaraðila og vinnsluaðila er nánar kveðið í 13. gr. laga nr. 77/2000. Vinnsluaðili er sá sem framkvæmir fyrirmæli ábyrgðaraðila, að minnsta kosti að því er varðar tilgang vinnslu, aðferðir og búnað. Lögmæti þess sem hann gerir ræðst af því umboði sem ábyrgðaraðili hefur gefið honum. Gangi vinnsluaðili lengra en umboðið nær, eða taki hann að einhverju marki sjálfstæðar ákvarðanir, getur hann talist ábyrgur – a.m.k. á þeim þáttum sem hann ræður sjálfur og tekur ákvarðanir um.

Í bréfi B sálfræðings til Persónuverndar, dags. 3. apríl 2013, kemur m.a. fram að skilningur hans hafi verið sá að hann ynni í umboði barnaverndarnefndar. Hins vegar hafi hann haft nokkurt sjálfdæmi um hvernig umbeðið forsjármat yrði unnið og vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við það á ábyrgð hans. Í áliti nr. 1/2010 frá ráðgjafarhópi um túlkun persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB, sem liggur lögum nr. 77/2000 til grundvallar, um hlutverk ábyrgðaraðila og vinnsluaðila hefur komið fram sú afstaða að þegar verktaka, sem hefur tiltekna og afmarkaða sérfræðiþekkingu, er falið tiltekið verkefni af verkbeiðanda geta afmarkaðir hlutar vinnslunnar verið á ábyrgð verktakans.

 Í ljósi framangreinds er það niðurstaða Persónuverndar að barnaverndarnefnd Reykjavíkur og B hafi hvort um sig borið ábyrgð á tilteknum þáttum vinnslunnar. Í því felst að nefndin bar ábyrgð á verkinu í heild sinni en B bar ábyrgð á þeim hluta vinnslunnar sem hann framkvæmdi í krafti sérfræðiþekkingar sinnar þegar hann aflaði upplýsinga úr sjúkraskrá og lagði mat á forsjárhæfni kvartanda, m.a. með viðtölum við hana.

 Niðurstaða Persónuverndar er því sú að þrátt fyrir að B hafi borið ábyrgð á afmörkuðum og sérhæfðum hlutum þeirrar vinnslu sem hér fór fram, n.t.t. öflun upplýsinga úr sjúkraskrám kvartanda og öflun upplýsinga frá kvartanda og sérfræðilegt mat hans á forsjárhæfni hennar, var frumkvæðið hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur, auk þess sem nefndin hafði meginákvörðunarvald um það hvernig skýrslan skyldi úr garði gerð, m.a. með því að leggja fyrir sálfræðinginn tilteknar spurningar sem skyldi svarað í skýrslunni.

 Af þessu leiðir að B starfaði sem vinnsluaðili fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur og bar stofnuninni skylda til að ljúka gerð skriflegs samnings við hann í samræmi við 13. gr. laga nr. 77/2000. Það var hins vegar ekki gert. Þá skal tekið fram að í 3. mgr. 35. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd að ef nefndin fær aðra stofnun eða ræður starfsmann til þess að sinna tilteknum verkefnum eða einstökum málum skal í skriflegum samningi skv. 4. gr. sérstaklega kveða á um skráningu, varðveislu og skil á gögnum sem innihalda persónuupplýsingar. Hið sama á við um samninga um stuðning eða beitingu úrræðis samkvæmt ákvæðum reglugerðar um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga. Í því máli sem hér er til skoðunar liggur enginn slíkur samningur fyrir.


4.

Aðgangur að sjúkraskrá

Í málinu hefur því verið haldið fram að B, sálfræðingur hafi aflað upplýsinga í leyfisleysi úr sjúkraskrá kvartanda. Af hálfu sálfræðingsins hefur því verið haldið fram að sóttar hafi verið upplýsingar úr þeim sjúkraskrárgögnum sem til voru um kvartanda hjá Landspítala. Þau gögn, ásamt viðtölum við kvartanda og sálfræðiprófunum, hafi síðan verið notuð til að vinna tilteknar upplýsingar um kvartanda í skýrslu um forsjárhæfnimat. Þá liggur fyrir í málinu að kvartandi skrifaði undir samþykki þar sem veitt er leyfi til aðgangs að sjúkraskrá. Kvartandi telur hins vegar að um þvingað samþykki hafi verið að ræða.

Samkvæmt 12. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár er aðgangur að sjúkraskrám óheimill nema til hans standi lagaheimild samkvæmt þeim lögum eða öðrum lögum. Í 14. gr. laga nr. 55/2009 segir að sjúklingur eða umboðsmaður hans eigi rétt á aðgangi að eigin sjúkraskrá í heild eða hluta og til að fá afhent afrit af henni ef þess er óskað. Þá segir í 44. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 að öllum heilbrigðis- og sjúkrastofnunum, þar með töldum sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum, sérfræðingum sem veita félagslega þjónustu, geðdeildum, meðferðardeildum o.fl., sé skylt eftir að barnaverndarnefnd hefur tekið ákvörðun um könnun máls að láta nefndinni endurgjaldslaust í té upplýsingar og afrit af nauðsynlegum gögnum um heilsu barns, foreldra þess og annarra heimilismanna, þar á meðal upplýsingar um ástand viðkomandi og batahorfur, auk annarra upplýsinga sem nefndin telur að skipt geti máli fyrir úrlausn málsins. 

Í beiðni barnaverndarnefndar Reykjavíkur er með skýrum hætti afmarkað hvaða spurningum sálfræðingurinn skuli leitast við að svara. Þær lúta m.a. að andlegu ástandi forsjáraðila og möguleg geðræn vandkvæði. Af þeirri beiðni verður ekki annað ráðið en að gert hafi verið ráð fyrir að sálfræðingur gæfi heildstætt mat á forsjárhæfni kvartanda, m.a. með staðfestingu á tilteknum upplýsingum í sjúkraskrá.

Þá hefur komið fram við meðferð málsins að kvartandi skrifaði undir samþykki þess efnis að B væri heimilt að afla upplýsinga úr sjúkraskrá hennar vegna vinnu við gerð forsjárhæfnimatsins.

Hvað varðar þá fullyrðingu kvartanda að sálfræðingurinn hafi þvingað fram samþykki þá hefur Persónuvernd nú rannsakað þennan hluta málsins með þeim úrræðum sem henni eru búin að lögum og er ekki á hennar færi að rannsaka það frekar. Engin gögn hafa komið fram sem hafa stutt þá fullyrðingu kvartanda að samþykki hennar hafi verið þvingað fram með ólögmætum hætti. 

Því gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við að B hafi aflað upplýsinga úr sjúkraskrá kvartanda í þeim tilgangi að afla sér upplýsinga í tengslum við gerð forsjárhæfnimats.

  

Ú r s k u r ð a r o r ð:

 

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur bar að gera vinnslusamning við B, sálfræðing, í samræmi við 13. gr. laga nr. 77/2000.

B, sálfræðingi var heimilt að afla upplýsinga um kvartanda, A, úr sjúkraskrá hennar, að fengnu samþykki hennar.



Var efnið hjálplegt? Nei