Úrlausnir

Meðferð mynd- og hljóðefnis á dansíþróttamótum- mál nr. 2012/981

15.8.2013

Persónuvernd hefur veitt álit um lögmæti meðferðar mynd- og hljóðefnis sem tekið er upp á vegum þeirra sem standa að alþjóðlegum dansíþróttamótum. Í álitinu kemur m.a. fram að huga þurfi að sjónarmiðum tengdum fræðslu til hins skráða við öflun samþykkis og eftir atvikum gera úr úrbætur á fræðslu vegna fyrirhugaðrar notkunar efnisins.

Reykjavík, 4. júlí 2013

Efni: Álit um lögmæti meðferðar mynd- og hljóðefnis sem tekið er upp á vegum þeirra sem standa að alþjóðlegum dansíþróttamótum

I.

Bréfaskipti

Hinn 27. ágúst 2013 barst Persónuvernd ábending einstaklings varðandi yfirlýsingu sem hann sem foreldri barns, sem stundar dans innan vébanda Dansíþróttasambands Íslands (DSÍ), þarf að rita undir svo að það öðlist þátttökurétt í mótum á vegum Alþjóðlega danssambandsins (e. World Dance Sport Federation (WDSF)). Í erindinu er m.a. vísað til liðs B.1 í yfirlýsingunni, en þar segir að WDSF og aðilar, sem starfa í umboði WDSF, þ. á m. skipuleggjendur móta, megi taka mynd- og hljóðefni af keppendum á mótum sem nota megi og dreifa án endurgjalds, samþykkis eða undanþágna í því skyni að kynna dansíþróttina og starfsemi WDSF. Verður ráðin sú afstaða af erindinu að með þessum áskilnaði sé gengið of nærri persónulegum réttindum.

Með bréfi, dags. 18. október 2012, óskaði Persónuvernd skýringa DSÍ á því hvaða heimildir samkvæmt lögum nr. 77/2000 sambandið teldi renna stoðum undir umrædda vinnslu á mynd- og hljóðefni, sem og hvernig það teldi hana samrýmast m.a. meðalhófssjónarmiðum. Svarað var með bréfi, dags. 23. október 2012. Þar segir:

„Stjórn Dansíþróttasambands Íslands (DSÍ) lýsir furðu sinni á að Persónuvernd telji það hlutverk sitt að hlaupa upp til handa og fóta yfir ábendingum sem hún fær til sín án þess að kanna réttmæti þeirra. Enginn frá Persónuvernd hefur haft samband við DSÍ til að kanna hvort í þessum ábendingum sé farið með rétt mál.

Það er ekki rétt að DSÍ sé að fara fram á þessi félagsskírteini heldur er það WDSF sem er að gefa félagsmönnum sínum kost á að sækja um þessi skírteini eða ekki. Í bréfi til aðildarfélaga frá DSÍ kemur skýrt fram að þetta sé val. Ef viðkomandi hefur frjálst val hjá alþjóðlegum íþróttasamböndum um að hafa ákveðin skírteini eða ekki þá sér DSÍ ekki hver afskipti Persónuverndar eigi að vera af málinu.

Bent skal á að í lögum flestra sérsambanda innan ÍSÍ eru sambærileg ákvæði og í ákvæði WDSF um að allt myndefni sé í eigu viðkomandi sérsambands og/eða alþjóðlegs íþróttasambands. Einnig þurfa íþróttamenn sem taka þátt t.d. á Ólympíuleikum að undirrita enn strangari skilmála en WDSF fer fram á.“

Með bréfi til DSÍ, dags. 13. nóvember 2012, ítrekuðu með bréfi, dags. 14. desember s.á., vakti Persónuvernd athygli sambandsins á því að tilgangurinn með bréfaskiptum við það væri að kanna réttmæti þeirrar ábendingar sem stofnuninni hafði borist. Þá benti stofnunin á að samkvæmt því sem fram kæmi á heimasíðu WDSF yrði notkun félagsskírteina að skyldu fyrir lok janúar 2013. Með vísan til þess var þess óskað að fram kæmi hvort DSÍ hygðist gera öllum félagsmönnum sínum skylt að sækja um slíkt skírteini, auk þess sem ósk um skýringar var áréttuð að öðru leyti. DSÍ svaraði með bréfi, dags. 15. desember 2012. Þar segir að í ákvörðun WDSF um notkun félagsskírteina felist aðeins að skylt sé að sækja um slíkt skírteini ef dansíþróttapar hefur hug á að keppa á alþjóðlegu móti sem haldið er undir merkjum WDSF. Þá segir að viðkomandi verði að samþykkja keppendareglur WDSF og fara eftir þeim, þ. á m. reglum um bann við lyfjanotkun og hegðunar- og siðareglum. Ekkert er hins vegar fjallað um notkun mynd- og hljóðefnis þó svo að í bréfum Persónuverndar hafi einkum verið spurt um það atriði.

Í ljósi þess að íþrótta- og æskulýðsmál falla undir mennta- og menningarmálaráðuneytið, sbr. 12. og 13. tölul. 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 66/2013 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sbr. m.a. 4. gr. stjórnarskrárinnar, ákvað Persónuvernd að leita upplýsinga frá ráðuneytinu um hvort það hefði gefið út reglur sem skipt gætu máli varðandi umrædd vottorð. Það var gert með bréfi, dags. 15. janúar 2013, ítrekuðu með bréfi, dags. 15. mars s.á. Svarað var með bréfi, dags. 21. s.m., þar sem fram kemur að slíkar reglur hafa ekki verið settar.

 

II.

Álit Persónuverndar

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar. Mun umfjöllun stofnunarinar um þá vinnslu afmarkast við upplýsingar, sem fram koma í mynd- og hljóðefni, um þá sem ólögráða eru fyrir æsku sakir.

2.

Svo að heimilt sé að vinna með persónuupplýsingar verður að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Það ákvæði 8. gr., sem einkum verður talið geta átt við eins og hér háttar til, er 1. tölul. 1. mgr., þess efni að vinna má með persónuupplýsingar á grundvelli samþykkis hins skráða. Þegar um ræðir barn fara forráðamenn þess með hæfi til að veita slíkt samþykki, sbr. 1. mgr. 51. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 þar sem fram kemur að foreldrar barns, sem ólögráða er fyrir æsku sakir, og þeir sem barni koma í foreldra stað ráða persónulegum högum þess. Þá segir í 4. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 að forsjá feli í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns.

Þess er krafist samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 að samþykki sé ótvírætt, en í því felst að hafið þarf að vera yfir vafa að hinn skráði fallist á að unnið sé með tilteknar upplýsingar um sig. Við mat á því hvort svo sé skiptir m.a. máli sú fræðsla sem honum hefur verið veitt í aðdraganda yfirlýsingar um samþykki. Hvað það varðar ber að líta til 20. gr. laga nr. 77/2000 þar sem fjallað er um þá fræðslu sem ábyrgðaraðila ber að veita hinum skráða þegar upplýsinga er aflað hjá honum sjálfum. Með ábyrgðaraðila er þá átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna, sbr. 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Fyrir liggur að umrædd yfirlýsing stafar frá erlendum aðila, þ.e. WDSF. Samkvæmt yfirlýsingunni er hins vegar ljóst að DSÍ, sem aðili sem starfar í umboði WDSF, getur haft með höndum vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer á grundvelli yfirlýsingarinnar. Hefur DSÍ stöðu ábyrgðaraðila að því leyti og ber því ábyrgð á að fræðsla, sem veitt er við öflun samþykkis til umræddrar vinnslu, samrýmist ákvæðum 20. gr. laga nr. 77/2000.

Í 1. mgr. 20. gr. eru talin upp þau atriði sem að lágmarki þurfa að koma fram í fræðslu til hins skráða, en þó þarf ekki, eins og fram kemur í 2. mgr., að veita um þau fræðslu hafi hinn skráði þegar fengið vitneskju um þau. Þau atriði, sem fræðsla þarf að lúta að með þessum fyrirvara, eru (1) nafn og heimilisfang ábyrgðaraðila eða eftir atvikum fulltrúa hans hér á landi sé hann erlendur, (2) tilgangur vinnslunnar, sem og (3) aðrar upplýsingar, að því marki sem þær eru nauðsynlegar, með hliðsjón af þeim sérstöku aðstæðum sem ríkja við vinnsluna, svo að hinn skráði geti hagsmuna sinna, s.s. upplýsingar um:

  1. viðtakendur eða flokka viðtakenda upplýsinga,
  2. hvort honum sé skylt eða valfrjálst að veita umbeðnar upplýsingar og hvaða afleiðingar það kunni að hafa veiti hann þær ekki,
  3. ákvæði laga nr. 77/2000 um upplýsingarétt hins skráða, svo og rétt hins skráða til leiðréttingar og eyðingar rangra eða villandi persónuupplýsinga um hann.

Það að skort hafi á fræðslu samkvæmt framangreindu getur orðið til þess að kröfum sem gera verður til ótvíræðs samþykkis sé ekki talið fullnægt. Það hversu miklar kröfur ber að gera í þeim efnum getur farið eftir eðli og efni upplýsinga. Þetta mál lýtur að mynd- og hljóðefni sem nýtt er til kynningar á dansíþróttinni og hinum alþjóðlegu dansíþróttasamtökum, WDSF. Þegar slíkt efni er notað til almenns kynningarstarfs kann tiltölulega almennt orðuð fræðsla að vera nægileg, s.s. þegar um er að ræða hópmyndir þar sem hver einstaklingur er lítt áberandi. Ef hins hins vegar á að nota mynd- eða hljóðefni í t.d. auglýsingu þar sem tiltekið barn kemur fyrir með áberandi hætti verður að gera mun ríkari kröfur til fræðslu en ella. Í því sambandi ber sérstaklega að líta til þess að börn teljast viðkvæmur hópur sem njóta á sérstakrar verndar, sbr. yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 1959 og inngang barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1992 sem fengið var lagagildi hér á landi með lögum nr. 19/2013.

Í áliti þessu er ekki tekin bindandi afstaða til þess hvort sú fræðsla, sem fram kemur á umræddri yfirlýsingu, fullnægi þeim kröfum sem gera verður til að fullnægjandi samþykkis teljist aflað fyrir notkun mynd- og hljóðefnis. DSÍ er hér með leiðbeint um að huga að framangreindum sjónarmiðum og eftir atvikum gera þær úrbætur á fræðslu sem nauðsynlegar kunna að vera í ljósi fyrirhugaðrar notkunar efnisins.

 



Var efnið hjálplegt? Nei