Úrlausnir

Íslendingabók

1.6.2006

Á fundi sínum þann 18. apríl kvað stjórn Persónuverndar upp svofelldan úrskurð í máli nr. 2004/568.

I.
Grundvöllur málsins og bréfaskipti

Hinn 30. október 2004, barst Persónuvernd tölvupóstur frá A, sem hér eftir nefnist kvartandi, þar sem hann kvartaði yfir því að á vefnum "Íslendingabók" væru upplýsingar um fyrrverandi eiginkonu hans. Þar sem þau hafi aldrei átt börn saman geti slíkt ekki talist til ættfræðiupplýsinga heldur upplýsinga um hans einkamálefni. Fram kom að kvartandi hafði þegar leitað til ábyrgðaraðila Íslendingabókar, B, en án árangurs. Með erindi kvartanda fylgdi afriti af færslu úr Íslendingabók. Í rökstuðningi fyrir kvörtuninni segir m.a.:

Undirritaður telur að hjúskaparstaða sín gagnvart fyrri eiginkonu [D] teljist á engann [svo] hátt til ættfræði á einn né annan hátt. Þessar upplýsingar eru eingöngu upplýsingar sem eiga að vera til í bókum Sýslumannsins í Reykjavík og í kirkjubókum.


Undirritaður og fyrri eiginkona eignuðust ekki börn saman og því er vandséð hvaða tilgangi það þjóni að nafn hennar komi fram í ættfræðiupplýsingum um undirritaðann [svo].

Og á sama hátt að nafn undirritaðs komi fram í ættfræðiupplýsingum fyrrum eiginkonu.


Tengsl ofangreindra einstaklinga var hjónaband sem lauk með skilnaði og engin ættartengsl vegna barna og þar með eru þær upplýsingar einkahagsmunir.


Undirritaður telur að tilgangur Íslendingabókar sé ekki að greina frá hverjum einstaklingar hafi verið giftir áður og taka beri tillit til þess.


Undirritaður hefur kvartað til Íslendingabókar nokkur skipti en engin svör fengið né rökstuðning fyrir því að þessar upplýsingar eigi að vera í þessum gagnagrunni og heimildir Íslendingabókar um að þessar upplýsingar séu skráðar í Íslendingabók. Undirritaður fær ennfremur ekki séð að þessar tilteknu upplýsingar séu í samræmi við megintilgang Íslendingabókar.


Undirritaður óskar eftir að nafn fyrri eiginkonu verði afmáð úr upplýsingasíðu um sjálfan sig og áskilur sér allann [svo] rétt til að leita réttar síns.

Af þessu tilefni sendi Persónuvernd bréf til B, dags. 2. desember 2004. Var forsvarsmönnum félagsins boðið að tjá sig um kvörtunina. Persónuvernd óskaði sérstaklega upplýsinga um hvers vegna nöfn fyrrverandi maka væru birt.


Með bréfi, dags. þann 28. desember 2004, barst svar frá B þar sem raktar eru ýmsar ástæður fyrir því að í Íslendingabók eru skráðar upplýsingar um fyrrverandi maka, jafnvel þótt viðkomandi einstaklingar hafi engin börn átt saman. Meginástæðan sé að hefð hafi skapast fyrir slíku verklagi. Í því sambandi eru rakin nokkur dæmi úr eldri ættartöluritum. Um þetta segir síðan nánar í svarbréfinu:

Sú regla hefur gilt hjá Íslendingabók að slíti sambúðarfólk samvist er tenging milli þeirra fjarlægð, að því gefnu að þau hafi ekki átt börn saman (augljóslega er ekki hægt að gera slíkt í þeim tilvikum þegar viðkomandi eiga börn, enda tengja börnin einstaklingana saman.), en hins vegar eru ekki rofin tengsl í Íslendingabók þegar hjón skilja. Ástæða þessa mismunar er að engin hefð er fyrir því í íslenskum ættfræðiritum að skrá fyrrverandi sambúðarfólk, en einnig hefur sambúðarformið ekki sama [svo] lagalegu stöðu og hjónabandið.


Sú regla er í gildi hjá Íslendingabók að hjónabandstenging skuli fjarlægð sé hjónabandið ógilt fyrir dómi, þar sem sú staða er í raun jafngild því að hjónabandið hafi aldrei átt sér stað. Hvað það varðar að rjúfa tengsl milli einstaklinga við skilnað til að fela fortíðina er það tæknilega mögulegt svo framarlega sem viðkomandi hafi ekki átt börn saman.


Við höfum einu sinni áður fengið beiðni um fjarlægingu tengingar, en það var frá konu sem giftist erlendum aðila gegn greiðslu í þeim tilgangi að viðkomandi fengi dvalarleyfi hér á landi. Þeirri beiðni var hafnað.


Í því tilviki sem hér um ræðir skortir ákveðnar upplýsingar til að við getum tekið afstöðu, en það varðar fyrrverandi eiginkonu A. Hjúskapartengingar varða tvo aðila, ekki aðeins einn. Verði tengingin fjarlægð breytist hennar færsla einnig. Lægi einnig fyrir skrifleg beiðni frá henni um að tengingin væri fjarlægð myndum við væntanlega verða við því, en meðan aðeins liggur fyrir beiðni frá öðrum þeirra aðila sem málið varðar, þá treystum við okkur ekki til að ganga á rétt fyrrverandi eiginkonu.


Að lokum viljum við minna á að upplýsingar á Vefnum um tengingu A við fyrrverandi eiginkonu eru eingöngu aðgengilegar hlutaðeigandi og nánum ættingjum þeirra, sem ætla má að sé þegar fullkunnugt um stöðu mála en ekki óviðkomandi aðilum.

Kvartanda var boðið að tjá sig um ofangreint svarbréf, sbr. bréf dags. 10. janúar 2005 en engar frekari athugasemdir bárust.

II.
Forsendur og niðurstöður

Í máli þessu liggur fyrir að upplýsingar um fyrrverandi maka kvartanda birtast á vefsíðu Íslendingabókar þrátt fyrir að þau hafi ekki átt nein börn saman. Upplýsingar þessar eru aðgengilegar kvartanda sjálfum og þeim ættingjum sem óskað geta eftir aðgangi að upplýsingum um hann í Íslendingabók. Hér er til úrlausnar hvort B hafi verið heimilt að skrá og birta upplýsingar um fyrri maka kvartanda í Íslendingabók.

1.
Gildissvið laga nr. 77/2000

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda lögin um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tl. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið "vinnsla" er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, skv. 2. tl. 2. gr. laganna. Skráning og birting nafna í Íslendingabók falla undir ofangreindar skilgreiningar. Er því um að ræða vinnslu persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000.


Samkvæmt 4. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000 telst ábyrgðaraðili sá sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. B, hefur haft fyrirsvar, sem ábyrgðaraðili að því er varðar birtingu Íslendingabókar á netinu. Er því litið, í úrskurði þessum, litið á hann sem ábyrgðaraðila vinnslunnar í skilningi 4. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000.


Í 5. gr. laga nr. 77/2000 er að finna sérreglu þess efnis að víkja megi frá ákvæðum laganna í þágu bókmennta að því marki sem það sé nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar. Í 2. málslið ákvæðisins segir síðan að þegar persónuupplýsingar séu einvörðungu unnar í þágu bókmenntalegrar starfsemi þá gildi aðeins tiltekin ákvæði laganna. Persónuvernd lítur svo á að vinnsla persónuupplýsinga í þágu ættfræði- og æviskrárrita sé bókmenntalegs eðlis en að túlka verði 5. gr. þannig að henni sé einkum ætlað að gilda um þá vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer við listræna tjáningu og tjáningu skoðana og viðhorfa. Því falli vinnsla persónuupplýsinga í þágu æviskrárrita ekki undir sérreglu 5. gr. heldur gildi öll ákvæði laga nr. 77/2000 um slíka vinnslu. Loks skal tekið fram að í úrskurði þessum er á því byggt að vinnsla ættfræðiupplýsinga á vef Íslendingabókar (www.islendingabok.is) sé sambærileg við vinnslu í ættfræði- eða æviskrárriti.

2.
Lögmæti vinnslunnar

Vinnsla persónuupplýsinga telst lögmæt ef hún fullnægir einhverju af skilyrðum 8. gr. og eftir atvikum 9. gr. laga nr. 77/2000. Ákvæði 8. gr. gilda um vinnslu almennra upplýsinga en einnig 9. gr. um vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Af þeim skilyrðum sem greind eru í 8. gr. kemur helst til álita ákvæði 7. tl. 1. mgr. 8. gr. laganna. Þar segir að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða, sem vernda ber samkvæmt lögum, vegi þyngra. Þrátt fyrir að ættfræðiupplýsingar falli ekki undir hugtaksskilgreiningu viðkvæmra persónuupplýsinga, skv. 8. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000, má um lögmæti vinnslunnar hafa til hliðsjónar ákvæði 6. tl. 1. mgr. 9. gr. laganna um að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil taki hún einungis til upplýsinga sem hinn skráði hefur sjálfur gert opinberar.


Vinnsla persónuupplýsinga þarf einnig ávallt að samrýmast meginreglum um gæði gagna og vinnslu sem er að finna í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000. Í 1. tl. 1. mgr. 7. gr. er kveðið á um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra skuli vera í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. Þá segir í 2. tl. að persónuupplýsingar skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum málefnalegum tilgangi. Í 3. tl. segir síðan að við meðferð persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt sé miðað við tilgang vinnslunnar. Persónuvernd telur vinnslu persónuupplýsinga í þágu æviskrárrita geta verið málefnalega sé hún sanngjörn og fari að öðru leyti fram í samræmi við grunnreglur 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.


Til þessa hefur Persónuvernd litið svo á að menn geti vart varist því að í ættfræði- og æviskrárritum birtist um þá almennar lýðskrárupplýsingar, s.s. um nafn og kennitölu, nöfn niðja, foreldra og núverandi maka, um menntun og opinberar stöður sem menn hafa gegnt. Hins vegar sé eðlilegt að sýna eðlilega tillitssemi og byggja á samþykki hlutaðeigandi fyrir birtingu annarra upplýsinga, einkum um hjúskaparstöðu annars fólks (s.s. foreldra), um nöfn fyrri maka, barnsfeðra/mæðra, um einkunnir, ættleiðingu o.s.frv. Hefur framangreind afstaða m.a. byggst á Hrd. 1968:1007 (Læknatal).


Að því er varðar birtingu nafna fyrri maka í æviskrárritum, þá hafa Persónuvernd, og áður tölvunefnd, talið hana geta orkað tvímælis, nema í þeim tilvikum þegar hún hefur byggst á samþykki hins skráða.


Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að ofan, telur Persónuvernd, að B hafi verið óheimilt að skrá og birta í Íslendingabók upplýsingar um fyrrverandi maka kvartanda, gegn andmælum kvartanda. Hefur þar einkum verið litið til þess að ekkert hefur komið fram um að ábyrgðaraðili hafi slíka hagsmuni af birtingu upplýsinga um nafn fyrrverandi maka kvartanda að þeir gangi framar hagsmunum kvartanda, sbr. 7. tl. 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 77/2000. Í síðarnefnda ákvæðinu segir m.a. að ef ákvæði annarra laga standi því ekki í vegi geti skráður aðili krafist þess að upplýsingum um hann skv. 1. mgr. sé eytt eða notkun þeirra bönnuð ef slíkt telst réttlætanlegt út frá heildstæðu hagsmunamati. Byggir framangreind niðurstaða m.a. á þeim yfirlýsta tilgangi sem býr að baki rekstri og vinnslu Íslendingabókar, þ.e. að hún nýtist í þágu ættfræðirannsókna, en kvartandi og fyrrverandi maki hans eiga engin börn saman. Ekki skiptir máli í þessu tilviki þótt umræddar upplýsingar séu aðeins aðgengilegar kvartanda sjálfum og nánustu aðstandendum hans.

Úrskurðarorð:

B er óheimilt að skrá og birta upplýsingar um fyrrverandi maka A í Íslendingabók, gegn andmælum A.



Var efnið hjálplegt? Nei