Beiðni um endurupptöku máls nr. 2012/1091 - mál nr. 2013/1397
Ákvörðun
Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 13. febrúar 2014 var tekin svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2013/1397:
I.
Fyrirliggjandi erindi
Persónuvernd hefur borist bréf [A] hdl., dags. 8. nóvember 2013, fyrir hönd umbjóðenda hennar, þ.e. sálfræðinganna [B] og [C]. Bréfið varðar mál af tilefni kvörtunar [D] yfir vinnslu persónuupplýsinga á vegum þeirra, dags. 20. febrúar 2009 (mál nr. 172/2009), en málinu lauk með úrskurði stofnunarinnar, dags. 10. júní s.á. Með ákvörðun, dags. 4. mars 2013 (mál nr. 2012/1091), synjaði Persónuvernd þeim um endurupptöku málsins. Með framangreindu bréfi óskar nú fyrrnefndur lögmaður endurskoðunar á þeirri ákvörðun.
Fyrrgreind kvörtun varðaði aðkomu umræddra sálfræðinga að rannsókn á því hvort framangreindur kvartandi hefði sætt einelti á vinnustað sínum, þ.e. [Z]. Í úrskurðinum frá 10. júní 2009 var komist að þeirri niðurstöðu að þeir hefðu ekki unnið í samræmi við 20. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en í því ákvæði er fjallað um þá fræðslu sem veita ber hinum skráða þegar persónuupplýsinga er aflað frá honum sjálfum. Nánar tiltekið taldi Persónuvernd ekki hafa komið fram að í tengslum við viðtal, sem sálfræðingarnir tóku við kvartanda, hefði verið greint nægilega vel frá atriðum sem kvartanda voru nauðsynleg til að gæta hagsmuna sinna, sbr. 3. tölul. 1. mgr. ákvæðisins.
Í kjölfar framangreinds úrskurðar kvörtuðu sálfræðingarnir til umboðsmanns Alþingis sem gaf út álit, dags. 5. september 2012, þess efnis að úrskurður Persónuverndar hefði ekki verið í samræmi við lög þar sem ranglega hefði verið byggt á því að þeir hefðu stöðu ábyrgðaraðila að þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem fram fór við umrædda rannsókn. Í álitinu er mælst til þess að Persónuvernd endurupptaki málið ef ósk þar að lútandi berist frá þeim. Slík ósk barst með bréfi til Persónuverndar, dags. 28. september 2012, en var synjað eins og fyrr greinir.
Í bréfi áðurnefnds lögmanns, dags. 8. nóvember 2013, segir að í áliti umboðsmanns Alþingis komi fram eindregin og skýr afstaða til málefnisins og að ekki séu forsendur til þess að hafna endurupptökubeiðni sálfræðinganna. Þá segir að niðurstaða Persónuverndar í fyrrgreindum úrskurði sé röng þar sem sönnunarbyrði hafi verið snúið við með ólögmætum hætti. Er þar vísað til þeirra orða í úrskurðinum að það að veita nauðsynlega fræðslu sé lagaskylda sem hvíli á ábyrgðaraðila. Hann beri sönnunarbyrði um að hann hafi uppfyllt hana. Af hálfu ábyrgðaraðila, þ.e. sálfræðinganna, hafi engin fræðsluyfirlýsing verið lögð fram eða sambærileg sönnun um veitta fræðslu. Verði þar af leiðandi ekki á því byggt að lögboðin fræðsla hafi verið veitt.
II.
Svar Persónuverndar
Fyrrgreind ákvörðun, dags. 4. mars 2013, var tekin að fenginni endurupptökubeiðni [E], dags. 28. september 2012. Við meðferð á beiðninni var litið til þess sem fram kemur í áliti umboðsmanns Alþingis, dags. 5. september 201[2], að í gögnum þess máls, sem lauk með úrskurðinum hinn 10. júní 2009, hafi ekki verið að finna skriflegan vinnslusamning milli vinnuveitanda fyrrnefnds kvartanda og umræddra sálfræðinga, sbr. 13. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Má af þessu álykta að umboðsmaður Alþingis hafi talið mikilvægt að við meðferð málsins væri kannað hvort fyrir lægi samningur þar sem fram kæmi að vinnuveitandi væri ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu, sbr. 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, en umræddir sálfræðingar vinnsluaðilar, sbr. 5. tölul. sömu greinar. Í aðdraganda álitsins hafði hann og innt Persónuvernd sérstaklega eftir því hvort framangreint hefði verið gert og, ef svo væri ekki, hvort stofnunin teldi nægilega vel hafa verið gætt að ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga um rannsóknarskyldu stjórnvalda, sbr. bréf til stofnunarinnar, dags. 13. september 2010.
Í samræmi við framangreint óskaði Persónuvernd þess af umræddum lögmanni að hún upplýsti hvort gerður hefði verið slíkur samningur sem að framan greinir, þ.e. með bréfi, dags. 8. október 2012, ítrekuðu með bréfum, dags. 23. október 2012, 26. nóvember s.á. og 3. janúar 2013. Í síðastnefnda bréfinu greindi stofnunin frá því að ef ekki bærist svar innan tiltekins tíma yrði litið svo á að fallið hefði verið frá ósk um endurupptöku. Barst þá svar frá lögmanninum, dags. 14. s.m., þar sem ósk þar að lútandi er ítrekuð. Í svarinu kemur fram að enginn vinnslusamningur var gerður. Meðal annars með vísan til þess segir í niðurlagi ákvörðunar Persónuverndar um synjun um endurupptöku:
„Öll rök hníga að því að í ljósi sérfræðiþekkingar sinnar hafi sálfræðingarnir ráðið mestu um það hvernig verkið var unnið. Þá bendir skortur á vinnslusamningi til þess að [Z] hafi talið þá ábyrga fyrir þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem þeir höfðu með höndum. Þegar litið er til þessa telur Persónuvernd ekkert hafa komið fram sem gefur tilefni til að ætla að niðurstaða stofnunarinnar í úrskurði frá 10. júní 2009 þarfnist endurskoðunar við. Er því synjað um endurupptöku málsins.“
Stjórnvaldi er skylt að taka tilmæli Umboðsmanns Alþingis um endurupptöku máls til vandlegrar skoðunar og rökstyðja sérstaklega ef synjað er um endurupptöku. Þar vegur einnig þungt ef gögn, sem umboðsmaður taldi skorta á að kallað hefði verið eftir og væru til þess fallin að hafa áhrif á efni stjórnvaldsákvörðunar, eru í reynd ekki til. Af framangreindri tilvitnun í ákvörðun Persónuverndar, efni hennar að öðru leyti, sem og þeirri ósk stofnunarinnar um frekari gögn sem fyrr er lýst, er ljóst að byggt var á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum sem rökstudd voru ítarlega. Telur Persónuvernd því ekki tilefni til að endurskoða ákvörðun sína um að synja um endurupptöku málsins.
Hvað varðar sönnunarbyrði sérstaklega skal bent á að á umræddum sálfræðingum sem ábyrgðaraðila að vinnslu persónuupplýsinga hvíldu ríkar skyldur. Þegar litið er til þeirrar áherslu, sem lög nr. 77/2000 leggja á hlutverk ábyrgðaraðila, verður að telja þá kröfu málefnalega og að það standi honum nær að tryggja með einhverjum hætti sönnun um það að hann farið að þeim skyldum, sérstaklega þegar vinnsla persónuupplýsinga varðar ríka hagsmuni einstaklinga eins og var í tilviki kvartanda.
Með vísan til alls framangreinds er synjað beiðni um að ákvörðun Persónuverndar, dags. 4. mars 2013 (mál nr. 2012/1091), sé endurskoðuð.