Úrlausnir

Umfjöllun heilbrigðisstarfsmanns um sjúkling í blaðagrein – 2013/1262

22.4.2014

Persónuvernd hefur úrskurðað að birting persónuupplýsinga um fyrrum sjúkling í blaðagrein heilbrigðisstarfsmanns í Morgunblaðinu árið 2013, hafi ekki verið í samræmi við lög nr. 77/2000.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 11. apríl 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2013/1262:

 

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

1.

Tildrög máls og

afmörkun kvörtunarefnis

Þann 22. október 2013 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi), yfir birtingu persónuupplýsinga um hann í innsendri grein [B] í Morgunblaðinu. Í kvörtuninni segir m.a. að [á árinu] 2013 hafi birst grein í Morgunblaðinu eftir [B], heilbrigðisstarfsmann, undir yfirskriftinni […]. Kvartandi tekur fram að greinin hafi verið skrifuð án hans vitundar eða samþykkis en þar sé vitnað til niðurstaðna rannsókna, sem kvartandi hafði sýnt [B], tölvupósts frá lækni kvartanda, sem hann hafði afhent [B] auk þess sem rakin var hluti sjúkrasögu hans en kvartandi hafði hætt meðferð hjá [B] tæpum tveimur árum fyrr vegna meints brots [B] gegn trúnaðar- og þagnarskyldu hans. Tiltók kvartandi að hann biði nú niðurstöðu landlæknis hvað trúnaðar- og þagnarskyldubrot [B] varðaði. Þá sagði jafnframt í kvörtuninni:

„[...] Mér finnst engu breyta um að trúnaður hafi verið brotinn þótt [B]nafngreini mig ekki í blaðagreininni. Fólk sem ég þekki áttaði sig á því að hann væri að fjalla um mig og ég frétti af þessari grein nokkrum dögum eftir birtingu hennar í gegnum annan mann. Ef farið er inn í greinasafn Morgunblaðsins og eldri grein eftir [B]lesin þar sem hann nafngreinir mig er auk þess augljóst að [B] er að fjalla um sama manninn í seinni greininni, þ.e. [A].“

Þá kemur einnig fram í kvörtun kvartanda að í eldri grein [B], sem birst hafði í Morgunblaðinu [á árinu] 2012, hafi [B] haldið sig við að vitna í blaðagrein sem kvartandi hefði sjálfur birt í Morgunblaðinu þann [á árinu] 2011. Í þeirri grein sé þ.a.l. aðeins að finna upplýsingar um kvartanda sem hann hafði sjálfur látið frá sér fara. Í síðari blaðagrein [B], sem birtist [á árinu] 2013, væri hann hins vegar að vitna í trúnaðarupplýsingar, röntgenbréf, tölvupóst læknis, tiltekna sjúkdómsgreiningu o.fl. atriði. Kvartandi heldur því fram að augljóst sé af fyrri grein [B], þar sem kvartandi er nafngreindur, og hinni síðari að í þeim sé fjallað um einn og sama manninn, þ.e. kvartanda. 

 

Þann 2. desember 2013 barst Persónuvernd tölvubréf frá kvartanda með upplýsingum um trúnaðar- og þagnarskyldubrot annarra aðila en fyrrgreinds [B]. Annars vegar spurði kvartandi hvort Persónuvernd myndi vilja „kíkja á“meint trúnaðar- og þagnarskyldubrot [D], formanns [F], en kvartandi hafði einnig kvartað yfir trúnaðar- og þagnarskyldubroti [B] til [F]. Hins vegar tiltók kvartandi sem „hugsanlegt þriðja mál“ miðlun persónuupplýsinga um kvartanda frá [B] til lögreglu en tölvubréfinu fylgdu sjö handskrifuð bréf [B] til lögreglu er vörðuðu kvartanda og deilur hans við tiltekinn þriðja aðila.

 

Með tölvubréfi þann 10. desember 2013 óskaði Persónuvernd eftir nánari afmörkun kvartanda á kvörtunarefni hans. Af svarbréfi kvartanda, sem barst með tölvubréfi þann 11. desember sl., mátti ráða að kvörtun hans laut í fyrsta lagi að birtingu persónuupplýsinga um hann í grein [B] í Morgunblaðinu þann [á árinu] 2013, í öðru lagi  laut kvörtun hans að trúnaðar- og þagnarskyldubroti [D], formanns [F] og í þriðja lagi laut hún að miðlun persónuupplýsinga um kvartanda frá [B] til lögreglunnar. Þá fylgdu tölvupósti kvartanda afrit af frekari tölvupóstsamskiptum milli hans og [D], formanns [F] auk þess sem kvartandi afhenti, á skrifstofu Persónuverndar, þann 12. desember sl., umfangsmikil gögn á pappírsformi og geisladiski sem vörðuðu meint trúnaðar- og þagnarskyldubrot [B] en ekki er ástæða til að rekja frekar.

 

Með tölvubréfi þann 21. janúar 2014 tilkynnti Persónuvernd kvartanda um þann skilning sem stofnunin hefði á efni kvörtunar hans eftir fyrrnefnd bréfaskipti. Með tölvubréfi þann 11. febrúar sl. tilkynnti Persónuvernd kvartanda um að hún hefði tekið til meðferðar þann þátt kvörtunar hans sem laut að greinaskrifum [B] í Morgunblaðinu þann [á árinu] 2013. Jafnframt tilkynnti Persónuverndar kvartanda að samkvæmt lögum nr. 47/2007 hefði landlæknir eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum, þ.á.m. hvort trúnaðar- og þagnarskyldu hafi verið gætt. Það félli ekki undir verksvið Persónuverndar að skera úr um hvort eða með hvaða hætti önnur stjórnvöld rækja það hlutverk sem þeim hefur verið falið með lögum. Af þeirri ástæðu myndi Persónuvernd ekki aðhafast frekar vegna þess þáttar kvörtunarinnar sem laut að meintu trúnaðar- og/eða þagnarskyldubroti [B] og [D], sem heilbrigðisstarfsmanna.  

 

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, 11. febrúar 2014, var [B] tilkynnt um fram komna kvörtun og boðið að koma á framfæri andmælum sínum vegna hennar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Óskaði Persónuvernd sérstaklega eftir upplýsingum um það á hvaða heimild í 1. mgr. 8., og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, umrædd vinnsla persónuupplýsinga um kvartanda byggðist.

 

Í svarbréfi [B], dags. 13. febrúar sl., kom m.a. fram að kvartandi hefði ekki verið nafngreindur í grein hans frá [árinu] 2013, né nokkur annar einstaklingur. Telur [B] að ekki sé unnt að ráða af greininni um hvern sé að ræða, hvorki beint né óbeint. Þá staðfestir [B] að hann hafi nafngreint kvartanda í eldri grein sem hann skrifaði, og birtist í Morgunblaðinu [á árinu] 2012 og að hún hafi verið skrifuð sem svar við eigin blaðagrein kvartanda frá [árinu] 2011. Hin síðari grein hafi hins vegar fjallað um ónafngreint tilvik um tiltekna sjúkdómsgreiningu með samanburði á gögnum sem [B] hafði í fórum sínum. Þá bendir [B] á að í kvörtuninni komi fram að fyrri grein [B] varði einungis upplýsingar sem kvartanda sjálfur hefði látið frá sér fara til fjölmiðla og að það hafi verið hans val að gera slíkt. Bendir [B] á að með því að óska birtingar á grein eftir sig í Morgunblaðinu sé hún komin fyrir almenningssjónir og þar með í opinbera umræðu. Hefði kvartandi því átt eða mátt búast við að einhver myndi svara greininni. Loks kom fram að [B] hefði kynnt sér ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og hygðist gæta þess í framtíðinni að fara að þeim ef um frekari vinnslu yrði að ræða.

 

Með tölvubréfi þann 27. febrúar sl. ítrekaði Persónuvernd ósk sína um svör frá [B], nánar til tekið um það á hvaða heimild, ef einhverri, í 1. mgr. 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 umrædd vinnsla byggðist. Í svarbréfi [B], sem barst sama dag, kom fram að [B] hefði ekki haft vitund um að hann þyrfti að gæta að heimildaákvæðum í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 þar sem hann teldi nægilegt að fara eftir ríkum hefðum innan heilbrigðiskerfisins og fjalla um tilfelli, svo lengi sem þau væru ekki nafngreind. Þá hafði hann einnig gætt þess að lesandi gæti ekki giskað á með óbeinum hætti hver persónan væri á bak við tilfellið sem umfjöllun hans lyti að. Síðar sama dag sendi [B] frekari svör til Persónuverndar með tölvubréfi en þar kom m.a. fram að við skoðun á lögum nr. 77/2000 gæti [B] ekki séð að hann þyrfti að óska skriflegs leyfis fyrirfram frá þeim sem fjallað væri um ónafngreint til að fá grein birta í dagblaði. Þá benti [B] á ákvæði 5. gr. laga nr. 77/2000 sem fjallaði um tengsl við tjáningarfrelsi og tók fram að hann hefði verið að nýta rétt sinn til tjáningarfrelsis í þágu fjölmiðlunar, varðandi umrætt tilvik, og túlkun á gögnum þar að lútandi. Grein hans varðaði ekki persónu kvartanda heldur  fyrst og fremst vinnu heilbrigðisstarfsmanna við að komast að niðurstöðu í mjög þröngu tilfelli. Loks kom fram að [B] teldi að blaðagrein hans innihéldi varla viðkvæmar persónuupplýsingar um heilsuhagi þar sem slíkar viðkvæmar upplýsingar væru yfirleitt tengdar við geðsjúkdóm, kynsjúkdóm eða innvortis mein sem gæti leitt til örkumlunar. Tók [B] fram að alkunna væri að fólk fengi verki í […] og að um slík mál væri rætt meðal manna án allrar viðkvæmni.

 

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2014, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar [B] til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi kvartanda, sem barst með tölvubréfi þann 7. mars sl., kom fram að hann teldi að það hlyti að koma fram í lögum um persónuvernd að óheimilt væri að rita grein um heilsufar fyrrverandi sjúklings, þar sem m.a. væri vitnað í tölvupóst læknis og rannsókn viðkomandi, án hans samþykkis. Þá heldur kvartandi því fram að grein [B] sé efnislega röng auk þess sem um hana sagði:

„Fleiri en einn se m ég þekki og fleiri en tveir sem ég þekki áttuðu sig á því að [B]var að fjalla um mig í þessari grein. Þeim þótti hún óþægileg. Verst kom þetta þó við mig. Ef farið er inn í greinasafn Morgunblaðsins þá er hægt að lesa eldri grein [B] um mig þar sem hann nafngreinir mig og þá er lesandinn kominn með nafnið á mér enda augljóst að í seinni grein [B] er hann að fjalla um sama manninn.

Ef úrskurður Persónuverndar fellur með mér, sem hann hlýtur að gera getur þá Persónuvernd farið fram á það við Morgunblaðið að það fjarlægi þessar tvær greinar úr greinasafni sínu?“

Þann 7. mars sl. barst Persónuvernd einnig svarbréf [B] í tilefni af afriti, af bréfi Persónuverndar til kvartanda, dags. 28. febrúar sl., sem honum var sent. Í bréfinu kom fram gagnrýni á málsmeðferð Persónuverndar, aðallega á þá leið að IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heimili Persónuvernd ekki að óska eftir tilteknum skýringum frá aðilum máls s.s. um það á grundvelli hvaða heimildar í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 umrædd vinnsla hans hefði byggst. Af þeirri ástæðu krafist [B] þess að Persónuvernd drægi til baka, og afturkallaði skriflega, bréf stofnunarinnar til hans, dags. 11. febrúar sl.,  og dags. 27. febrúar sl. Þá lýsti [B] því jafnframt yfir að svör hans, sem send voru stofnuninni með tveimur tölvubréfum þann 27. febrúar sl., væru dregin til baka og lýst dauð og ómerk, líkt og þau hefðu aldrei komið fram. Loks gagnrýndi [B] að skýringar hans hefðu verið bornar undir kvartanda og krafðist hann af þeirri ástæðu að bréf Persónuverndar til kvartanda frá 28. febrúar sl. yrði einnig dregið til baka ásamt þeim gögnum sem því fylgdu.

 

Þá bárust Persónuvernd einnig þrjú tölvubréf frá [B] þann 7. mars sl. Ekki er þörf á að rekja efni þeirra sérstaklega að öðru leyti en því að [B] spyr m.a. að því hvort Morgunblaðið væri einnig aðili að máli þessu og hvort því hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um málið. Einnig tók [B] fram að kvartandi missti rétt sinn til að svara stofnuninni ef hann hefði ekki svarað bréfi Persónuverndar, dags. 14. febrúar sl. annars vegar og 28. febrúar sl. hins vegar, þar sem kvartanda var gefinn kostur á að tjá sig um fram komnar skýringar [B], innan þess svarfrests sem stofnunin veitti honum.

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

 

[B] ritaði blaðagrein í Morgunblaðið [á árinu] 2013. Umrædda blaðagrein verður að skoða í ljósi fyrri greinar [B], sem birtist í Morgunblaðinu [á árinu] 2012, sem áður hefur verið minnst á. Í grein [B] frá [árinu] 2012 er kvartandi nafngreindur og er sú grein andsvar við blaðagrein kvartanda sjálfs, sem upphaflega birtist í Morgunblaðinu [á árinu] 2011.  Þrátt fyrir að kvartandi sé ekki nafngreindur í grein [B] frá [árinu] 2013 má engu að síður ráða, þegar umrædd blaðagrein er skoðuð í samhengi við hina fyrri grein frá [árinu] 2012, að báðar greinarnar séu ritaðar um sama einstaklinginn, þ.e. kvartanda.

 

Í 5. gr. laga nr. 77/2000 er að finna sérreglu þess efnis að víkja megi frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta, að því marki sem það sé nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar. Þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku gilda aðeins tiltekin ákvæði laganna. Sé atvikum svo háttað að vinnsla persónuupplýsinga byggist á 5. gr. gilda t.d. ekki heimildarákvæði 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000.

 

Ákvæði 5. gr. er ætlað að koma í veg fyrir að lögum nr. 77/2000 verði beitt á þann veg að rétturinn til tjáningarfrelsis, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, víki fyrir einkalífsákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar þegar mál eru þannig vaxin að tjáningarfrelsið ætti að ganga framar. Það hvernig þeim ber að beita fer eftir atvikum hverju sinni. Ber m.a. við slíkt mat að huga að þeim tilgangi sem býr að baki birtingunni. Í því tilviki sem hér um ræðir getur ákvæði 5. gr. laganna ekki heimilað heilbrigðisstarfsmanni að fjalla um einkahagi fyrrum sjúklings, í ljósi lögbundinnar þagnarskyldu sem á viðkomandi hvílir.  Séu persónuupplýsinga birtar í fjölmiðli eins og hér um ræðir, án tengsla við fréttamennsku og af einstaklingi sem er ótengdur þeim fjölmiðli sem birtir persónuupplýsingar er ekki unnt að telja að umrædd vinnsla hafi farið fram í þágu fjölmiðlunar í skilningi 5. gr. laganna. Kallar því vinnsla persónuupplýsinga, í því tilviki sem hér um ræðir, ekki á að vikið verði frá ákvæðum laga nr. 77/2000 á grundvelli heimildar í 5. gr. þeirra.

 

Af framangreindu leiðir að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000, enda birti [B] persónuupplýsingar um kvartanda í blaðagrein sinni í Morgunblaðinu [á árinu] 2013 en sú vinnsla fór ekki fram í þágu fjölmiðlunar.

 

2.

2.1.

Ábyrgðaraðili vinnslu

Samkvæmt ákvæði 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 er ábyrgðaraðili sá aðili sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og áður hefur komið fram ritaði [B] blaðagrein sem hann óskaði eftir birtingu á, og sem í kjölfarið var birt í Morgunblaðinu [á árinu] 2013. Af framangreindu leiðir að [B] hafi í umrætt sinn ákveðið tilgang, aðferð og aðra ráðstöfun þeirra persónupplýsinga sem kvörtun þessi lýtur að og birtust í blaðagrein hans. Þrátt fyrir að Morgunblaðið taki ákvörðun um birtingu aðsendra greina til blaðsins hefur Morgunblaðið ekki ákvörðunarvald um efnislegt innihald aðsendra greina einstaklinga í skilningi 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Er því [B] talin vera ábyrgðaraðili þeirrar vinnslu sem hér um ræðir í skilningi laga nr. 77/2000.

 

2.2

Lögmæti vinnslu

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að fullnægja einhverju af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, og 1. mgr. 9. gr. laganna ef um viðkvæmar persónuupplýsingar er að ræða, svo hún teljist heimil. Upplýsingar um heilsuhagi teljast viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt c-lið 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna. Ekki er gerð krafa um að öllum skilyrðum framangreindra ákvæða sé fullnægt heldur telst vinnsla persónuupplýsinga hafa fullnægjandi heimild ef einhver skilyrði þeirra töluliða sem talin eru upp í 8. og 9. gr. laganna séu fyrir hendi.

 

Samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga heimil taki hún einungis til upplýsinga sem hinn skráði hefur sjálfur gert opinberar. Við túlkun þessara ákvæða þarf að hafa hliðsjón af athugasemdum með 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, eins og henni var breytt með 9. gr. laga nr. 97/1995. Þar segir að í friðhelgi einkalífsins felist m.a. réttur manns til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Fram kemur að mjög raunhæft dæmi um svið, þar sem álitaefni vakni um hvort brotið er gegn friðhelgi einkalífs, sé skráning persónuupplýsinga um einstaklinga, en þó segir að ýmsar almennar skrár af opinberum toga falli utan verndar ákvæðisins.

 

 Í máli þessu liggur fyrir að kvartandi hafi sjálfur birt grein sem ber yfirskriftina  „[...]“, í Morgunblaðinu [á árinu] 2011, þar sem fram komu m.a. upplýsingar um heilsufar kvartanda ásamt gagnrýni á heilbrigðiskerfið sem og þá meðferð sem kvartanda var veitt í tengslum við og í kjölfar læknisaðgerðar sem hann gekkst undir. Í umfjöllunum [B], sem birtust í Morgunblaðinu [á árinu] 2012 og [á árinu] 2013, er hins vegar að finna ítarlegri upplýsingar en upphafleg blaðagrein kvartanda tekur til, t.d. um að sjúklingur, í þessu tilviki kvartandi, hefði farið á fund tiltekins [heilbrigðisstarfsmanns] í [Z], hvaða dag vitjunin átti sér stað ásamt ítarlegri umfjöllun um heilsufar og sjúkdómsgreiningu kvartanda byggða á gögnum sem kvartandi hafði afhent honum. Fær framangreindur skilningur stoð í svarbréfi [B] til Persónuverndar, dags. 13. febrúar sl., þar sem segir að blaðagrein hans frá [árinu] 2011 hafi m.a. byggst á samanburði á gögnum sem hann hafði í fórum sínum. Af þeirri ástæðu á 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 ekki við í umræddu tilviki.

 

Þá hefur [B] ekki sýnt fram á að umrædd vinnsla hafi verið honum heimil með stoð í einhverju öðru ákvæði 1. mgr. 9. gr. laganna né 1. mgr. 8. gr. laganna heldur hefur þvert á móti komið fram, sbr. bréf [B] frá 27. febrúar sl. að hann hefði ekki haft vitneskju um að hann þyrfti að gæta að heimildarákvæðum í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 þar sem hann teldi nægilegt að fara eftir ríkum hefðum innan heilbrigðiskerfisins sem heimiluðu umfjöllun um sjúklingatilfelli, svo lengi sem þau væru ekki nafngreind.

 

Í bréfi kvartanda, dags. 7. mars sl., er óskað eftir því að Persónuvernd fari fram á það við Morgunblaðið að umræddar greinar verði fjarlægðar úr greinasafni blaðsins falli úrskurður stofnunarinnar honum í hag. Vegna þess er rétt að taka fram, með vísan til 71. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi, að stjórnvöld geta almennt ekki mælt fyrir um að greinaskrif einstaklinga séu fjarlægð úr fjölmiðlum. Telji kvartandi sig hafa orðið fyrir tjóni, s.s. varanlegum miska, vegna umfjöllunar um sig er unnt að krefjast skaðabóta á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993.

 

[B] hefur gert ýmsar aðfinnslur við málsmeðferð Persónuverndar sem lýst var í 2. kafla. Því er til að svara að við meðferð máls þessa hefur Persónuvernd sinnt þeirri skyldu sinni að upplýsa mál á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993,  með því að óska eftir upplýsingum og skýringum frá kvartanda annars vegar og [B] hins vegar og sinna jafnframt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart báðum aðilum samkvæmt 7. gr. sömu laga.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Vinnsla [B] á persónuupplýsingum um [A] í blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu [á árinu] 2013 var ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

 



Var efnið hjálplegt? Nei