Úrlausnir

Beiðni um lífsýni úr látnum manni - mál nr. 2014/398

29.9.2014

Persónuvernd hefur tekið ákvörðun í máli manns varðandi beiðni um lífsýni úr látnum manni vegna faðernisrannsóknar. Í ákvörðuninni kemur fram að það falli utan valdsviðs Persónuverndar að veita slíkt leyfi vegna ákvæða barnalaga. Viðkomandi var því leiðbeint um að leita úrskurðar dómara.

Efni: Svar við beiðni um leyfi til notkunar lífsýna úr lífsýnasafni vegna máls til að fá skorið úr um faðerni

 

1.

Persónuvernd vísar til erindis X, dags. 24. febrúar 2014, fyrir hönd umbjóðanda þeirra, A. Í bréfinu er óskað eftir leyfi Persónuverndar til að hann fái aðgang að lífsýni úr B til að gera megi erfðafræðirannsókn á sýninu sem skeri úr um hvort B hafi verið faðir hans.

Tafir urðu á meðferð erindisins vegna mikilla anna Persónuverndar. Með bréfi, dags. 28. maí 2014, baðst Persónuvernd velvirðingar á þeirri töf og tilkynnti jafnframt að ráðgert væri að fjalla um erindið í stjórn Persónuverndar.

Nánar segir í erindinu:

„Til lögmannsstofunnar hefur leitað A sökum þess að komið hefur í ljós að hann er ranglega feðraður. Mannerfðafræðileg rannsókn sem gerð var af DNAtest.dk leiddi í ljós að 0% líkur væru á að skráður faðir hans, C, væri líffræðilegur faðir hans.

[...] B lést [dags.] en staðfest hefur verið að lífsýni úr honum er varðveitt á Lífsýnasafni rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítala. Hagsmunir umbjóðanda míns af því að þekkja uppruna sinn og ætt eru miklir og lögvarðir sbr. 71. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt mæla heilsufarsleg rök með því að umbjóðandi minn fái úr því skorið hver líffræðilegur faðir hans er og má í því sambandi nefna að umbjóðandi minn hefur aflað sér upplýsinga um það að ætlaður faðir hans B hafi látist úr krabbameini og séu slík mein nokkuð algeng í fjölskyldu hans.

Af framansögðu má ráða að hagsmunir umbjóðanda míns af því að fá aðgang að lífsýni úr B eru miklir og er því hér með, með vísan til 5. mgr. 9. gr. laga nr. 110/2000, óskað eftir því að Persónuvernd heimili að lífsýni úr framangreindum einstaklingi verði afhent umbjóðanda mínum svo hann geti látið fara fram mannerfðafræðilega rannsókn á því hvort hann sé líffræðilegur faðir hans.“

2.

Samkvæmt 5. mgr. 9. gr. laga nr. 110/2000 um lífsýnasöfn getur safnstjórn lífsýnasafns, að fengnu leyfi Persónuverndar og vísindasiðanefndar, heimilað notkun lífsýna í öðrum tilgangi en ætlað var þegar þau voru tekin, enda mæli brýnir hagsmunir með því og ávinningurinn vegi þyngra en hugsanlegt óhagræði fyrir lífsýnisgjafann eða aðra aðila. Meðal þess sem talist getur til nægra hagsmuna er að komist sé að hinu rétta um uppruna einstaklings, en á því hefur verið byggt í framkvæmd Persónuverndar.

Við mat á því hvernig beita skal framangreindu ákvæði ber að líta til ákvæða í öðrum lögum sem við geta átt. Er þá til þess að líta að í barnalögum nr. 76/2003 er að finna ákvæði sem mæla fyrir um tiltekna málsmeðferð þegar faðerni er vefengt og skorið úr um það að nýju. Í því felst að höfðað er vefengingar- og faðernismál, en sá sem telur vafa leika á faðerni sínu eða að tiltekinn maður sé faðir hans getur verið stefnandi í slíku máli, sbr. 1. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 21. gr. barnalaga.

Í 15. gr., sbr. 22. gr. barnalaga, er mælt fyrir um heimild dómara til að kveða upp úrskurð þess efnis að fram skuli fara mannerfðafræðileg rannsókn vegna meðferðar slíkra mála sem hér um ræðir, en slík rannsókn fer þá fram stefnanda að kostnaðarlausu, sbr. 11. og 22. gr.

Í framkvæmd hefur verið litið svo á að umrædd ákvæði gangi framar ákvæði 4. mgr. 9. gr. laga um lífsýnasöfn, en af því leiðir að úrskurður dómara nægir til að fram fari erfðarannsókn á sýni úr lífsýnasafni og þarf ekki leyfi Persónuverndar og vísindasiðanefndar til. Á það við hvort sem sýnið er úr lifandi eða látnum einstaklingi.

Þetta verður m.a. ráðið af úrskurði héraðsdóms Reykjaness frá 23. maí 2006 sem vísað er til í dómi Hæstaréttar frá 13. júní 2006 í máli nr. 308/2006, en í úrskurðinum kemur fram að vegna vefengingarmáls hafi farið fram erfðarannsókn á lífsýni úr látnum einstaklingi samkvæmt úrskurði dómara. Persónuvernd hafði ekki atbeina að þeirri rannsókn.

Mál þetta var rætt á fundi stjórnar Persónuverndar í dag. Með vísan til framangreinds var komist að þeirri niðurstöðu að þar sem dómstólum er lögum samkvæmt falið að heimila erfðarannsóknir þegar vafi leikur á um faðerni falli það utan valdsviðs Persónuverndar að veita slíkt leyfi sem hér um ræðir. X er því leiðbeint um að leita úrskurðar dómara fyrir umbjóðanda sinna.



Var efnið hjálplegt? Nei