Úrlausnir

Lífsýnasöfnun Íslenskrar erfðagreiningar

Mál nr. 2014/882

30.12.2014

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 17. desember 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2014/882:

 

I.

 

Grundvöllur máls

 

Málavextir og bréfaskipti

 

1.

 

 

Tildrög máls

Þann 23. maí 2014 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi), vegna aðferða Íslenskrar erfðagreiningar hf. (ÍE) við söfnun lífsýna í lífsýnabanka sinn. Þá er kvartandi einnig ósáttur við framsetningu samþykkisyfirlýsingar þar sem gert var ráð fyrir samþykki forráðamanns ef þátttakandi væri ólögráða. Í kvörtuninni segir m.a.

„Kvartað er yfir aðferðum fyrirtækisins við að safna sýnum í lífsýnabanka sinn, aðferðum sem bera keim af ofsóknum. Hér er átt við útkallið í samkrulli við björgunarsveitirnar.

Einnig er kvartað yfir uppsetningu samþykkisyfirlýsingar þar sem gert er ráð fyrir undirskrift þriðja aðila.“

 

2.

 

 

Bréfaskipti

Með bréfi, 30. júní 2014, var ÍE boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svarbréf ÍE, dags. 25. júlí 2014, barst Persónuvernd þann 30. s.m. með tölvupósti.

Í bréfi ÍE er m.a. vísað til þess að allar erfðarannsóknir fyrirtækisins byggi á leyfum frá Vísindasiðanefnd og í langflestum tilvikum einnig á leyfum Persónuverndar. Í því tilviki sem hér sé til skoðunar hafi umrædd rannsókn, þ.e. öflun lífsýna í samanburðarhóp fyrir rannsóknir fyrirtækisins á sviði mannerfðafræði, hafi vinnslan hins vegar verið tilkynnt til Persónuverndar enda hafi hún ekki verið leyfisskyld. Þá segir að um þessar rannsóknir og aðrar vísindarannsóknir á heilbrigðissviði gildi margvísleg lög og reglugerðir, m.a. lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, lög nr. 110/2000, um lífsýnasöfn, lög nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, og reglur nr. 170/2001 um það hvernig skuli afla upplýsts samþykkis fyrir vinnslu persónuupplýsinga í vísindarannsókn á heilbrigðissviði. Enn fremur sé það mat ÍE að fullyrðingar kvartanda um að sú aðferð sem hafi verið viðhöfð við framkvæmd rannsóknarinnar beri keim af ofsóknum, séu dylgjur sem vísað sé á bug.

Þá segir í bréfi ÍE að rannsóknin hafi verið framkvæmd í samræmi við lög og reglur og samþykkt af Vísindasiðanefnd, sem hafi það hlutverk að gæta þess að rannsóknir á heilbrigðissviði séu framkvæmdar í samræmi við siðfræðileg viðmið. Enn fremur hafi hverjum og einum verið frjálst að hafna því að taka þátt í rannsókninni. Það gildi um kvartanda eins og aðra.

Að lokum segir í bréfi ÍE að texti og uppsetning samþykkisyfirlýsingar hafi verið í samræmi við leyfi og fyrirmæli Vísindasiðanefndar, þ.m.t. sá hluti hennar sem geri ráð fyrir að forráðamaður ólögráða einstaklings geti samþykkt þátttöku fyrir hans hönd. Sá hluti yfirlýsingarinnar sé þannig úr garði gerður til að gæta hagsmuna slíkra einstaklinga í samræmi við alþjóðleg og siðferðisleg viðmið.

Með vísan til framangreinds telur ÍE því að framkvæmd rannsóknarinnar hafi verið í samræmi við leyfi, lög og reglur sem settar hafi verið af opinberum aðilum.

Með bréfi, 31. júlí 2014, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar ÍE til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svarbréf kvartanda, dags. 12. ágúst 2014, barst Persónuvernd þann 13. s.m.

Kvartandi telur að ÍE hafi borið að taka tillit til upphaflegrar neitunar sinnar þegar hann neitaði þátttöku í gagnagrunni á heilbrigðissviði. Telur hann það fela í sér ofsóknir að ekki sé tekið mark á neitun á þátttöku í lífsýnabanka einkafyrirtækisins.

Þá segir í athugasemdum kvartanda varðandi samþykki forráðamanns fyrir hönd ólögráða einstaklings:

„Ég hefði talið það eðlilegt að hafi maður einu sinni sagt nei við þátttöku í svona lífsýna banka gildi sú neitun um aldur og ævi. Ekki að ef slíkur einstaklingur verður sviptur lögræði þá geti forráðamaður hans skrifað undir þátttöku fyrir hans hönd.

Ég krefst þess að höfnun mín á þátttöku í rannsóknum ÍE gildi um aldur og ævi eða þangað ég sjálfur ákveð annað og fyrirtækið hætti að gera tilraunir til að fá sýni frá mér í lífsýnabanka sinn.“

Með tölvupósti til kvartanda þann 14. nóvember 2014 óskaði Persónuvernd eftir staðfestingu þess efnis að kvartandi væri lögráða og hvort það væri rétt skilið að hann væri ekki að kvarta fyrir hönd ólögráða einstaklings sem hann hefði forræði á. Þann 16. nóvember 2014 staðfesti kvartandi þann skilning Persónuverndar að hann væri sjálfur lögráða og væri ekki að kvarta fyrir hönd ólögráða einstaklings. Hins vegar gætu allir orðið fyrir því að verða ólögráða eftir að þeir kæmust á fullorðinsaldur.

 

II.

 

 

Forsendur og niðurstaða

1.

 

 

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Af framangreindu er ljóst að boð til kvartanda um þátttöku í rannsókn ÍE fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

 

2.

 

 

Lögmæti vinnslu

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að eiga sér stoð í lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar er greint á milli almennra persónuupplýsinga og viðkvæmra. Talsvert strangari kröfur eru gerðar til lögmætis vinnslu persónuupplýsinga sem teljast viðkvæmar í skilningi laga nr. 77/2000 en til vinnslu annarra persónuupplýsinga. Svo að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil þarf hún að uppfylla eitthvert skilyrða 1. mgr. 8. gr. sem og eitthvert skilyrða 1. mgr. 9. gr. laganna.

Í máli því sem hér er til úrlausnar liggur fyrir að vinnsla persónuupplýsinga um einstaklinga grundvallast á upplýstu samþykki þeirra. Kvartandi veitti ekki samþykki sitt fyrir þátttöku í rannsókn ÍE og lýtur kvörtun hans ekki að heimild ÍE til vinnslu persónuupplýsinga um hann. Af þessum sökum þarf ekki að meta lögmæti vinnslunnar í ljósi 8. og 9. gr. laganna.

 

3.

 

 

Aðferð ÍE við öflun lífsýna

Í kvörtuninni kemur fram að aðferðir ÍE við að safna lífsýnum í lífsýnabanka sinn beri keim af ofsóknum. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 44/2014, um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, er hlutverk Vísindasiðanefndar að meta vísindarannsóknir á heilbrigðissviði í þeim tilgangi að tryggja að þær samrýmist vísindalegum og siðfræðilegum sjónarmiðum. Á hinn bóginn hefur Persónuvernd eftirlit með því samkvæmt ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga hvernig framkvæmd er háttað við öflun lífsýna og upplýsts samþykkis fyrir vinnslu persónuupplýsinga vegna vísindarannsókna og hvort rannsakendur fylgi þeim skilyrðum sem stofnunin setur, s.s. um dulkóðun persónuauðkenna og öðrum sem hún metur nauðsynleg hverju sinni, sbr.  35. gr. laga nr. 77/2000. Það fellur ekki innan valdssviðs stofnunarinnar að meta hvort framkvæmd rannsóknar sé í samræmi við siðfræðileg sjónarmið, heldur er það mat Vísindasiðanefndar eins og áður sagði.

 

4.

 

 

Úrsögn úr gagnagrunni á heilbrigðissviði

Þá kom fram af hálfu kvartanda að ÍE hafi borið að virða úrsögn hans úr gagnagrunni á heilbrigðissviði þegar honum var boðin þátttaka í lífsýnasöfnun ÍE.

 

Í því sambandi er tekið fram að ákvæði um gagnagrunn á heilbrigðissviði er að finna í lögum nr. 139/1998 en með gagnagrunni á heilbrigðissviði er átt við safn gagna er hefur að geyma heilsufarsupplýsingar sem skráðar eru á samræmdan kerfisbundinn hátt í einn miðlægan gagnagrunn sem ætlaður er til úrvinnslu og upplýsingamiðlunar, sbr. 1. tölul. 3. gr. laganna. Þau lög komust aldrei að fullu til framkvæmda og hefur sá gagnagrunnur, sem þar er fjallað um, aldrei orðið til, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr.151/2003. Gert er ráð fyrir að lögin falli úr gildi með gildistöku laga nr. 44/2014, um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði þann 1. janúar 2015. Í 8. gr. laganna segir:


„Sjúklingur getur hvenær sem er óskað eftir því að upplýsingar um hann verði ekki fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði. Beiðni sjúklings getur varðað allar upplýsingar sem þegar liggja fyrir um hann í sjúkraskrám eða kunna að verða skráðar eða nánar tilteknar upplýsingar. Skylt er að verða við slíkri beiðni. Sjúklingur skal tilkynna landlækni um ósk sína. Landlæknir skal annast gerð eyðublaða fyrir slíkar tilkynningar og sjá til þess að þau liggi frammi á heilbrigðisstofnunum og hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum. Landlæknir skal sjá til þess að dulkóðuð skrá yfir viðkomandi sjúklinga sé ávallt aðgengileg þeim sem annast flutning upplýsinga í gagnagrunn á heilbrigðissviði.


Landlæknir skal sjá til þess að upplýsingar um gagnagrunn á heilbrigðissviði og um rétt sjúklings skv. 1. mgr. séu aðgengilegar almenningi. Heilbrigðisstofnanir og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn skulu hafa þessar upplýsingar aðgengilegar sjúklingum í húsakynnum sínum.“

Eins og sjá má af framangreindu ákvæði er þar aðeins fjallað um úrsagnir úr þeim tiltekna gagnagrunni sem mælt er fyrir um í lögum nr. 139/1998. Með öðrum orðum, þá er ekki um að ræða andmæli sem taka til allra vísindarannsókna á heilbrigðissviði og söfnunar lífsýna í þágu slíkra rannsókna. Að mati Persónuverndar grundvallast sú lífsýnasöfnun sem hér er kvartað yfir ekki á því að áður hafi verið unnið með upplýsingar um viðkomandi einstaklinga í vísindarannsókn á vegum ÍE.

Með vísan til framangreinds er það mat Persónuverndar að ÍE hafi ekki borið að bera saman úrsagnarskrá úr gagnagrunni á heilbrigðissviði við nafnalista þann sem notaður var við söfnun lífsýna þessarar rannsóknar.

 

5.

 

 

Samþykki forráðamanns ólögráða einstaklings

Í erindi kvartanda kemur fram að hann telji að ÍE beri að taka mið af upphaflegri neitun einstaklings, jafnvel þótt síðar meir kunni hann að verða ólögráða, t.d. vegna sjúkdóms Af erindi hans verður ekki annað ráðið en að hann sé sjálfur lögráða. Um aðild að málum hjá Persónuvernd fer samkvæmt almennum aðildarreglum stjórnsýsluréttarins. Samkvæmt þeim getur sá átt aðild að máli sem á beinna, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þess.

Er það því niðurstaða Persónuverndar að í ljósi þess að kvartandi er lögráða hafi hann ekki lögmæta hagsmuni af úrlausn málsins eins og það hefur verið lagt fyrir stofnunina. Er því þessum hluta kvörtunar hans vísað frá.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Íslenskri erfðagreiningu ehf. bar ekki skylda til að bera nafnalista vegna öflunar lífsýna í samanburðarhóp fyrir rannsóknir fyrirtækisins á sviði mannerfðafræði við úrsagnarskrá vegna gagnagrunns á heilbrigðissviði.



Var efnið hjálplegt? Nei