Miðlun í skuldastöðukerfi
Persónuvernd hefur úrskurðað að fjármálastofnun hafi verið óheimilt að miðla upplýsingum um fyrndar kröfur í skuldastöðukerfi Creditinfo-Lánstrausts hf. Um var að ræða kröfur í bú sem tekið hafði verið til gjaldþrotaskipta.
Úrskurður
Hinn 2. febrúar 2015 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2014/753:
I.
Málavextir og bréfaskipti
Persónuvernd hefur borist kvörtun frá [A], dags. 30. apríl 2014, yfir að Íbúðalánasjóður hafi ekki fjarlægt úr lánayfirliti hjá Creditinfo Lánstrausti hf. tilteknar, fyrndar kröfur á hendur honum þrátt fyrir beiðni hans þar að lútandi. Fyrir liggur að kvartandi varð gjaldþrota árið [...], en samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. lög nr. 142/2010, fyrnast kröfur á tveimur árum frá því að gjaldþrotaskiptum lýkur. Þá liggur fyrir að um er að ræða upplýsingar sem Íbúðalánasjóður miðlaði í skuldastöðukerfi Lánstrausts hf., en slík miðlun á sér stað þegar fyrir liggur beiðni hins skráða þar að lútandi í tengslum við lánafyrirgreiðslu. Verða þá upplýsingar úr kerfinu, sem í það hefur verið miðlað samkvæmt beiðninni, aðgengilegar þeim sem sótt er um lánafyrirgreiðslu hjá.
Með bréfi, dags. 1. júlí 2014, var Íbúðalánasjóði veitt færi á að tjá sig um kvörtunina. Hann svaraði með bréfi, dags. 11. s.m. Þar kemur fram að um ræðir tvær kröfur. Þá segir:
„Í stuttu máli má segja að kvörtun [A] lúti að því, er varðar Íbúðalánasjóð, hvort sjóðnum sé heimilt að varðveita upplýsingar um ofangreindar kröfur og miðla þeim til þriðja aðila. Svar sjóðsins byggist á þeirri nálgun.
Fyrri krafan hefur verið tekin út úr kerfi Íbúðalánasjóðs þar sem hún var orðin fyrnd. Sjóðurinn telur seinni kröfuna ekki fyrnda þar sem hún stofnaðist ekki fyrr en eftir lok gjaldþrotaskipta. Gjaldþrotaskiptum var lokið þann [...] en krafa Íbúðalánasjóðs myndaðist við nauðungarsölu á fasteign [A] , sem átt sér stað [...]. Ekki fékkst að fullu upp í kröfu sjóðsins við hana.“
Með bréfi, dags. 21. október 2014, var kvartanda veitt færi á að tjá sig um framangreint svar Íbúðalánasjóðs. Í símtali hinn 18. nóvember 2014 gerði hann athugasemdir við skýringar sjóðsins. Sagði hann hann þá kröfu, sem krafist var fullnustu á við fyrrnefnda nauðungarsölu, hafa orðið til fyrir gjaldþrotaskiptin og hefði því átt að ljúka allri umsýslu vegna hennar í tengslum við þau. Af því leiddi jafnframt að hún ætti að vera fyrnd rétt eins og aðrar kröfur frá því fyrir skiptin.
Samdægurs ræddi starfsmaður Persónuverndar við starfsmann Íbúðalánasjóðs símleiðis. Í því símtali kom fram að fyrir mistök hefði tiltekin krafa á hendur kvartanda ekki verið afgreidd við skiptin og hefði því umrædd nauðungarsala farið fram að skiptunum loknum. Óskaði Persónuvernd nánari skýringa í þessu sambandi með bréfi til sjóðsins, dags. 7. janúar 2014. Svarað var með bréfi, dags. 10. janúar 2015. Þar segir:
„Málið hefur verið endurskoðað og sú ákvörðun tekin að afskrifa kröfuna. Afskrift á kröfunni í kerfum Íbúðalánasjóðs felur m.a. í sér að upplýsingum um kröfuna verður ekki miðlað til skuldastöðukerfis Creditinfo. Vinna við afskrift kröfunnar mun hefjast eftir helgi og ætti að vera lokið ekki seinna en við lok vikunnar.“
II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.
Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst Íbúðalánasjóður vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.
2.
Svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil verður ávallt að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Það ákvæði laganna, sem hér kemur einkum til álita, er 7. tölul. þeirrar málsgreinar, þess efnis að vinna má með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.
Í ljósi þessa ákvæðis má telja fjármálastofnunum heimilt að miðla upplýsingum í skuldastöðukerfi Creditinfo Lánstrausts hf. svo að þær megi gera aðgengilegar annarri fjármálastofnun sem hefur til meðferðar umsókn einstaklings um fyrirgreiðslu. Þeirri fjármálastofnun skal þó hafa borist beiðni viðkomandi einstaklings um uppflettingu, en auk þess verður miðlunin að samrýmast grunnreglum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, þ. á. m. 3. tölul. um að við vinnslu persónuupplýsinga skal þess gætt að upplýsingarnar séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar. Það ákvæði hefur í för með sér að fjármálastofnun, sem miðlar upplýsingum inn í umrætt kerfi, ber að gæta þess að um sé að ræða gildar kröfur, en upplýsingum um fyrndar kröfur á því ekki að miðla. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. lög nr. 142/2010, fyrnast kröfur á tveimur árum frá því að gjaldþrotaskiptum lýkur. Ljóst er að þegar kröfur eru fyrndar á grundvelli þessa ákvæðis stríðir miðlun þeirra í umrætt skuldastöðukerfi gegn fyrrgreindu ákvæði 7. gr. laga nr. 77/2000.
Fyrir liggur að við gjaldþrotaskipti á búi kvartanda lauk umsýslu vegna annarrar af fyrrnefndum kröfum við skiptin sjálf og er óumdeilt að hún var fyrnd við umrædda miðlun í skuldastöðukerfi Creditinfo Lánstrausts hf. Var miðlun upplýsinga um hana því óheimil. Umsýslu vegna hinnar kröfunnar lauk hins vegar ekki við skiptin og krafðist Íbúðalánasjóður fullnustu á henni við nauðungarsölu á fasteign kvartanda mánuði eftir skiptalok.
Í 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 er mælt fyrir um að allar kröfur á hendur þrotabúi falli sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er í 1. mgr. 118. gr. laganna mælt fyrir um þá meginreglu að krafa á hendur þrotabúi falli niður sé henni ekki lýst fyrir lok fyrningarfrests. Ákvæði XXII. kafla laganna um úthlutun og lok gjaldþrotaskipta fela í sér að með slíkum skiptum sé endanlega lokið umfjöllun um kröfur sem til urðu fyrir skiptin.
Samkvæmt framangreindu hafði kvartandi réttmætar væntingar til þess að öll umfjöllun vegna umræddrar kröfu Íbúðalánasjóðs yrði yfirstaðin við lok skipta og að fyrningu hennar yrði háttað með sama hætti og fyrningu á hinni kröfu sjóðsins. Af því leiddi jafnframt að hann hafði réttmætar væntingar til þess að kröfunni yrði ekki miðlað í skuldastöðukerfi Creditinfo Lánstrausts hf.
Það fellur utan valdsviðs Persónuverndar að taka afstöðu til þess hvort umræddar réttmætar væntingar hafi einar og sér þau réttaráhrif að krafa Íbúðalánasjóðs sé fyrnd. Óháð því telur Persónuvernd sjóðinn hins vegar þurfa að bera hallann af því í tengslum við umrædda miðlun að ekki hafi verið staðið rétt að umsýslu vegna kröfunnar í tengslum við gjaldþrotaskipti á búi kvartanda. Ber því að fara um hana með sama hætti og kröfur sem afgreiddar voru að fullu við skiptin. Í því felst að miðlun upplýsinga um hana var óheimil með sama hætti og fyrrgreind miðlun upplýsinga um hina kröfu sjóðsins á hendur kvartanda.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Íbúðalánasjóði var óheimilt að miðla upplýsingum um kröfur á hendur [A], sem til urðu fyrir gjaldþrotaskipti á búi hans, í skuldastöðukerfi Creditinfo Lánstrausts hf.