Úrlausnir

Sending smáskilaboða frá innheimtufyrirtæki

8.4.2015

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að innheimtufyrirtæki hafi verið heimilt að senda kvartanda smáskilaboð til að minna á vanskil.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 26. mars 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2014/1183:

 

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

1.

Tildrög máls

Þann 4. september 2014 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefnd kvartandi), vegna sendingu smáskilaboða frá Motus ehf. vegna innheimtu. Í kvörtuninni segir m.a. að kvartandi sé ósátt við að Motus hafi sent áminningu til hennar um innheimtu í smáskilaboðum. Telur hún slíka sendingu „harkalega árás á einkalíf sitt“. Hún hafi verið búin að gera samkomulag við sinn viðskiptabanka og Motus um greiðslur og því hafi henni þótt sendingin ómakleg. Þá segir kvartandi að engin ákvæði laga styðji umrædda sendingu skilaboðanna.

 

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, 14. október 2014, var Motus ehf. boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svarbréf Motus ehf., dags. 28. október 2014, barst Persónuvernd þann 29. s.m. Þar segir m.a. að Motus ehf. hafi gert samkomulag við kvartanda um greiðslu skuldar við fyrirtækið þann [...]. Þegar að fyrsti gjalddagi samkomulagsins hafi ekki verið greiddur á gjalddaga hafi Motus sent henni smáskilaboð í farsímanúmer hennar þar sem minnt var á ógreiddan gjalddaga. Fyrirtækið telur að í skilaboðunum hafi eingöngu falist vinsamleg ábending um að vanskil hafi orðið og þau séu sett fram til að gefa viðtakanda kost á að koma samkomulaginu í skil, en ákvæði þess gefa heimild til gjaldfellingar. Gjaldfelling hefði leitt til þess að skuldin hefði verið afhent lögmanni til innheimtu, sem hefði leitt til aukins kostnaðar fyrir kvartanda.

Þá telur Motus að þó engin lagaákvæði sem beinlínis heimili sendinguna, geti hún ekki talist harkaleg árás á einkalíf kvartanda.

Með bréfi, 24. nóvember 2015, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar Motus ehf. til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var svarfrestur veittur til 8. desember 2014. Engin svör bárust. Var erindið ítrekað með bréfi, dags. 23. desember 2014, og svarfrestur veittur til 13. janúar 2015. Engin svör bárust.

Starfsmaður Persónuverndar hafði samband við lögmann Motus ehf. þann 17. mars 2015. Í símtalinu kom fram að fyrirtækið starfi í fullu samræmi við innheimtulög nr. 95/2008. Þá kom fram að hann teldi líklegast að upplýsingar um símanúmer kvartanda hefðu verið fengnar úr opinberum skrám.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst Motus ehf. vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.

Af framangreindu er ljóst að sending smáskilaboða frá Motus ehf. í farsímanúmer kvartanda fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

 

2.

Lögmæti vinnslu

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að samrýmast einhverri af kröfum 8. gr. laga nr. 77/2000. Þá verður vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, s.s. upplýsinga um heilsufar eða refsiverðan verknað, sbr. 8. tölul. 2. gr. sömu laga, að samrýmast einhverju af viðbótarskilyrðum 9. gr. laganna. Upplýsingar um fjárhagsmálefni einstaklinga teljast ekki til viðkvæmra persónuupplýsinga. Nægir því að vinnsla með þær uppfylli eitt af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laganna.

Í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 segir að vinnsla sé heimil sé hún nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda ber samkvæmt lögum vegi þyngra. Af hálfu Motus hefur komið fram að kvartanda hafi verið send smáskilaboð til að minna á að greiðsla væri komin í vanskil og að þau hafi verið send til að koma í veg fyrir gjaldfellingu skuldarinnar. Að mati Persónuverndar er sú aðgerð Motus ehf., að senda einstaklingi sem gert hefur samning við fyrirtækið um greiðsludreifingu áminningu með smáskilaboðum um ógreiddan gjalddaga, í samræmi við framangreint ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.

Að auki verður öll vinnsla persónuupplýsinga að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu.  Hvað varðar umrætt tilvik er það helst 1. tölul. framangreinds ákvæðis um að unnið skuli með persónuupplýsingar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti sem kemur til skoðunar. Í því felst m.a. að ábyrgðaraðili þarf að gæta að því að vinnsla upplýsinga um hinn skráða sé ekki meira íþyngjandi en þörf er á. Af hálfu Motus hefur komið fram að einungis hafi verið um vinsamlega ábendingu um að vanskil hafi orðið. Ekki verður talið að sú aðgerð að senda áminningu um greiðslu reiknings, með smáskilaboðum, í símanúmer kvartanda sem Motus er í samningssambandi við né ósanngjörn eða ómálefnaleg gagnvart kvartanda, enda til þess fallin að koma í veg fyrir frekari vanskil viðkomandi. 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Sending smáskilaboða frá Motus ehf. í farsímanúmer kvartanda var í samræmi við lög nr. 77/2000.



Var efnið hjálplegt? Nei