Miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá
Úrskurður
Hinn 29. maí 2015 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2014/789:
I.
Málavextir og bréfaskipti
Með bréfi, dags. 8. maí 2014, barst Persónuvernd kvörtun [A] (hér eftir nefndur „kvartandi“), yfir miðlun á upplýsingum um kílómetrastöðu bifreiðar hans frá Samgöngustofu til [tryggingafélags]. Kvartandi telur að upplýsingar um kílómetrastöðu bifreiða, sem skráðar séu við aðalskoðun í ökutækjaskrá, séu upplýsingar sem eigi ekki að vera tryggingarfélögum aðgengilegar. Um sé að ræða persónugreinanlegar upplýsingar sem sé óviðeigandi að séu aðgengilegar þriðja aðila án samþykkis hins skráða. Kvartandi hafi verið tjáð það í samskiptum sínum við tryggingarfélag hans að honum biðist aukinn afsláttur að tveimur bifreiðum hans vegna lítils akstur. Tryggingarfélagið hafi haft aðgang að þessum upplýsingum í tölvukerfi sínu.
Með bréfi, dags. 30. maí 2014, veitti Persónuvernd Samgöngustofu færi á að tjá sig um framangreinda kvörtun. Samgöngustofa svaraði með bréfi, dags. 11. ágúst 2014, þar sem fram kemur að Samgöngustofa annist skráningu í ökutækjaskrá, rekstur ökutækjaskrár og hafi umsókn með aðgengi að upplýsingum úr ökutækjaskrá, sbr. 112. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, 4. gr. reglugerðar nr. 751/2003 um skráningu ökutækja og 3. gr. reglugerðar nr. 79/1997 um starfshætti skráningarstofu. Stofnunin annist jafnframt, sem ábyrgðaraðili, miðlun á upplýsingum úr ökutækjaskrá til vinnsluaðila. Vinnsluaðferðir upplýsinga úr skránni séu ákveðnar af Samgöngustofu. Vinnsluaðilar séu þeir sem hafi gert samning við Samgöngustofu um vinnslu upplýsinga og miðlun þeirra áfram til notenda.
Að mati Samgöngustofu séu umræddar upplýsingar í ökutækjaskrá, þar sem fram komi kílómetrastaða bifreiðar, opinberar upplýsingar sem skoðunarstöð skrái við bifreiðaskoðun. Kílómetrastaða sé eitt þeirra atriða sem skoðunarmenn hafi ávallt skráð og fært inn í ökutækjaskrá. Samgöngustofa haldi utan um ökutækjaskrá og miðli umræddum upplýsingum ekki sérstaklega til tryggingafélaga heldur eigi félögin þess kost að kaupa aðgang að ökutækjaskrá og þar með umræddum upplýsingum. Aðilum sem kaupi aðgang að ökutækjaskrá, sé hins vegar óheimilt að miðla umræddum upplýsingum áfram en sé heimilt að nýta upplýsingar í eigin þágu, t.d. ef aldur bifreiðar hefur áhrif á viðskiptakjör hjá viðkomandi tryggingarfélagi. Þá bendir Samgöngustofa á að talið hafi verið nauðsynlegt að skrá kílómetrastöðu bifreiða til að eiga eins nákvæma og örugga skráningu yfir ástand og notkun bifreiða í landinu. Að auki sé slík skráning kílómetrastöðu í ökutækjaskrá og gott aðgengi að þeim upplýsingum mikilvægur liður í neytendavernd og til þess að sporna gegn því að átt sé við stöðu ökumælis (e. odometer fraud). Þá sé bent á að Samgöngustofa hafi sett sér starfsreglur um upplýsingamiðlun úr ökutækjaskrá og þar komi skýrt fram að aðgangur að umræddum upplýsingum sé ekki háður takmörkunum.
Með bréfi, dags. 9. september 2014, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar Samgöngustofu og var svarfrestur veittur til 25. september 2014 en engin svör bárust. Með bréfi, dags. 1. október 2014, var óskað eftir athugasemdum ítrekuð og svarfrestur veittur til 16. október 2014. Þá kom fram að hefðu engin svör borist fyrir þann tíma yrði erindið tekið til efnislegrar úrlausnar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Engin svör bárust frá kvartanda.
II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Gildissvið laga nr. 77/2000
Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.
Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.
Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst Samgöngustofa vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu þar sem stofnunin sér um skráningu, rekstur og aðgang að ökutækjaskrá.
Af framangreindu er ljóst að miðlun upplýsinga um kílómetrastöðu bifreiðar kvartanda frá Samgöngustofu til [tryggingarfélags] fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.
2.
Lögmæti vinnslu
Öll vinnsla persónuupplýsinga þarf að uppfylla eitthvert af skilyrðum 8. gr. laga nr. 77/2000 svo hún sé heimil. Í 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. segir að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil ef hún er nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila. Í a-lið 1. mgr. 112. gr umferðarlaga nr. 50/1987 kemur fram að hlutverk Umferðarstofu sé að annast skráningu og aðra umsýslu varðandi skráningu ökutækja, gerð þeirra og búnað. Lögum nr. 50/1987 var breytt með lögum nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála. Þar segir í 7. gr. að Samgöngustofa skuli m.a. annast skráningu ökutækja í ökutækjaskrá, annast eftirlit með ökutækjum, ástandi þeirra og skráningu, stærð og þyngd, hleðslu og frágangi farms. Þá segir í 4. gr. laganna að Samgöngustofa skuli setja reglur um gerð og búnað ökutækja, annast rekstur tölvu- og upplýsingakerfa er lúta að starfsemi stofnunarinnar og annast önnur verkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt ákvörðun ráðherra.
Um ökutækjaskrá segir í 4. gr. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, að Umferðarstofa (nú Samgöngustofa) haldi ökutækjaskrá og annist aðra umsýslu varðandi skráningu ökutækja, gerð þeirra og búnað. Þá kemur fram í 3. gr. reglugerðar nr. 79/1997, um starfshætti skráningarstofu ökutækja, að einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sé heimill aðgangur að upplýsingum um einstök ökutæki úr ökutækjaskrá eins og nánar sé kveðið á um í starfsreglum skráningarstofu (nú Samgöngustofu), sem staðfestar skuli af tölvunefnd (nú Persónuvernd). Skráningarstofa (nú Samgöngustofa) hafi umsjón með aðgengi að skránni. Miðlun upplýsinga um eigendur og umráðamenn ökutækja sé háð leyfi tölvunefndar (nú Persónuverndar).
Samgöngustofa hefur sett sér starfsreglur um upplýsingamiðlun úr ökutækjaskrá. Þar má finna töflu yfir mismunandi reglur sem gilda um aðgang að mismunandi tegundum upplýsinga sem færðar eru í ökutækjaskrá. Í töflunni má sjá að staða ökumælis er með opinn aðgang frá skoðunarstofu. Í því felst að aðgangur að slíkum upplýsingum er ótakmarkaður og opinn þeim aðilum sem kaupa aðgang að ökutækjaskrá. Af svörum Samgöngustofu verður ráðið að aðgengi að þessum upplýsingum sé nauðsynlegt til að eiga nákvæma og örugga skráningu yfir ástand og notkun bifreiða í landinu og til að sporna gegn því að átt sé við stöðu ökumæla.
Af framangreindu verður ráðið að miðlun Samgöngustofu á kílómetrastöðu bifreiða úr ökutækjaskrá byggist á lagaskyldu ábyrgðaraðila sem sé nánar útfært í reglugerðum um skráningu ökutækja og starfshætti skráningarstofu ökutækja og starfsreglum Samgöngustofu. Verður því talið að skilyrði 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. hafi verið uppfyllt.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Samgöngustofu var heimilt að miðla upplýsingum um kílómetrastöðu bifreiðar kvartanda til [tryggingarfélags].