Úrlausnir

Miðlun upplýsinga um skuldastöðu

28.9.2015

Persónuvernd hefur úrskurðað að miðlun félags á upplýsingum um skuldastöðu félagsmanns, til annarra félagsmanna, hafi ekki verið í samræmi við lög nr. 77/2000.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 22. september 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2015/908:

 

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

 

1.

Tildrög máls

Þann 14. júní 2015 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi), varðandi miðlun persónuupplýsinga um hann frá stjórn Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík til allra félagsmanna.

Í kvörtuninni segir m.a. að upplýsingum um skuldastöðu kvartanda hafi verið miðlað til allra 170 félagsmanna Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík í kjölfar aðalfundar félagsins árið 2015, nánar tiltekið með tölvupósti sendum þann [x. xxxx] 2015.

 

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 24. júní 2015, var Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík (hér eftir skammstafað MHFR) boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var þess einkum óskað að fram kæmi hver tilgangurinn með miðlun umræddra upplýsinga hafi verið. Var svarfrestur veittur til 9. júlí sl., en engin svör bárust. Var erindi Persónuverndar því ítrekað með bréfi, dags. 15. s.m., og svarfrestur veittur á ný til 10. ágúst sl. Þá var sá svarfrestur framlengdur til 31. ágúst sl., skv. beiðni frá formanni MHFR.

Svarbréf [X], hrl., f.h. MHFR, dags. 28. ágúst 2015, barst Persónuvernd þann sama dag. Í bréfinu segir meðal annars að MHFR sé almennt ófjárhagslegt félag myndhöggvara sem vinni að hagsmunagæslu félagsmanna sinna í víðu samhengi, sbr. 3. gr. laga félagsins. Aðild að félaginu eigi þeir myndhöggvarar sem meirihluti aðalfundar samþykkir. Þá greiði félagsmenn árgjald í samræmi við ákvörðun aðalfundar og einstakir félagsmenn sem standi ekki í skilum með árgjald sitt eða önnur gjöld, t.d. leigugjald af húsnæði félagsins, missi atkvæðisrétt sinn á fundum félagsins, sbr. 4. gr. laganna. Þá hafi lög félagsins, húsreglur og leigusamningar þess við einstaka félagsmenn að geyma frekari reglur um viðurlög við brotum félagsmanna gegn þeim samþykktum og samningum.

Um málavexti segir meðal annars í bréfinu:

„Kærandi var félagsmaður í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík þar til honum var vikið úr félaginu með samþykkt síðasta aðalfundar félagsins. Þá leigði kærandi vinnustofu af félaginu sem rift var vegna vanefnda kæranda. [...]

Í febrúar sl. var haldinn sérstakur fundur með félagsmönnum af þessu tilefni, en kærandi og annar fyrrverandi félagsmaður höfðu þá m.a. unnið skemmdir á húsnæði félagsins og skirrst við að færa húsnæðið aftur í eðlilegt horf þrátt fyrir áskoranir þar um. Þá hafði kærandi ekki greitt til félagsins þau gjöld sem honum bar að inna af hendi, sem félagsmaður og á grundvelli sérstaks húsaleigusamnings um vinnustofu, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir og sérstaka samninga um greiðsludreifingu þeirra skuldar. Í ljósi þessa alls, verulegra vanefnda hans á greiðslum til félagsins og framkomu hans í garð annarra félagsmanna og umgengni á sameiginlegum vinnustofum félagsins voru málefni kæranda rædd á vettvangi félagsins og það mun hafa verið á almannavitorði innan félagsins að kærandi stæði í skuld við félagið.

Á aðalfundi félagsins þann 30. maí sl. var borin upp fyrirspurn til gjaldkera, undir dagskrárliðnum ársskýrsla gjaldkera, um útistandandi skuldir vegna útleigu á vinnustofum félagsins. Upplýsti gjaldkeri þá að kærandi skuldaði leigu fyrir fimm mánuði sem árangurslaust hefði reynst að innheimta. Frá þessu var greint í fundargerð sem síðan var send félagsmönnum í samræmi við venju þar um.“

Um heimild til vinnslu segir meðal annars:

„Að mati félagsins var bæði rétt og eðlilegt að veita fyrrgreindar upplýsingar á þessum vettvangi. Myndhöggvarafélagið leigir húsnæði af Reykjavíkurborg að [...] undir vinnustofur sem framleigðar eru starfsmönnum. Félagsmönnum er því öllum kunnugt um þau leigukjör sem þar gilda og geta því auðveldlega getið sér til um hver vanskil einstakra leigenda eru með því einu að vera upplýstir um hversu margir mánuðir eru útistandandi. Þá hafa félagsmenn hagsmuna að gæta í þessu efnum þar sem að félagið ber sjálft ábyrgð á leigusamningi um húsnæðið gagnvart Reykjavíkurborg. Af þessum ástæðum telur félagið eðlilegt að upplýst hafi verið á aðalfundi félagsins um þá útistandandi kröfu sem félagið átti á hendur kæranda.“

 Þá telji félagið að vinnsla þeirra upplýsinga sem hér um ræði hafi verið heimil, m.a. á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, n.t.t að vinnslan hafi verið nauðsynleg til að efna samning sem hinn skráði hafi verið aðili að eða til að gera ráðstafanir að beiðni hins skráða áður en samningur hafi verið gerður. Telji félagið að hagsmunir annarra félagsmanna og félagsins sem slíks hafi staðið til þess og við þær aðstæður sem voru í félaginu, gengið framar hagsmunum kæranda af því að upplýsa ekki um skuldastöðu hans.

Með bréfi, dags. 31. ágúst 2015, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar lögmanns Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svarbréf kvartanda, dags. 9. september 2015, barst Persónuvernd þann 10. s.m. Þar segir meðal annars að einnig sé ágreiningur uppi milli félagsins og kvartanda um hvort að aðalfundur félagsins og boðun hans hafi verið lögleg og hafi hópur félagsmanna þegar sent kröfu til stjórnar MHFR þar sem farið sé fram á að allar samþykktir félagsins á þeim fundi verði ógildar og nýr fundur boðaður. Þá bendir kvartandi á að leigusamningi hans við félagið hafi ekki verið rift með lögmætum hætti.

Varðandi aðalfund félagsins bendir kvartandi á að rætt hafi verið um útistandandi skuldir hans gagnvart félaginu á fundinum, en að öðru leyti sé umfjöllun lögmanns MHFR ekki rétt. Hið rétta sé að gjaldkeri félagsins hafi tilkynnt á fundinum að samanlagðar útistandandi skuldir félagsmanna væru um það bil ein milljón króna, og að af þeirri upphæð væri skuld vegna vangreiddrar leigu á vinnustofu. Aðrar upplýsingar, á borð við hvort um væri að ræða einn aðila eða fleiri skuldara, nafn skuldara eða nákvæmar upphæðir skuldar, hafi ekki komið fram á þeim fundi. Af framangreindu leiði að sú fundargerð sem send hafi verið öllum félagsmönnum sé í engu samhengi við það sem fram hafi komið á fundinum, enda sé kvartandi nafngreindur í fundargerðinni, auk þess sem þar komi fram nákvæm upphæð á skuld hans við félagið.

Loks bendir kvartandi á að í gildi hafi verið löglegur leigusamningur milli hans og MHFR og að óþarfi hafi verið að blanda öllum félagsmönnum í deilu hans við félagið vegna hans. Einnig sé það rangt að það fari gegn lögum félagsins að félagsmaður standi ekki í skilum við það.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

 

1.

Afmörkun úrlausnarefnis

Það fellur ekki í hlut Persónuverndar að meta hvort löglega hafi verið boðað til aðalfundar MHFR, eða hvort þær ákvarðanir sem þar voru teknar hafi verið lögmætar. Aftur á móti fellur það í hlut stofnunarinnar að meta hvort sú vinnsla persónuupplýsinga sem átti sér stað í kjölfar fundarins, þ.e. miðlun persónuupplýsinga um kvartanda til allra félagsmanna MHFR, hafi verið heimil á grundvelli laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Verður tekið mið af framangreindu í eftirfarandi umfjöllun.

 

2.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Efnislegt gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og þar með valdsvið Persónuverndar, nær til vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna.

Af framangreindu er ljóst að sú aðgerð að senda upplýsingar um nafn kvartanda og skuldastöðu hans til allra félagsmanna í MHFR, fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna.

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd að MHFR sé ábyrgðaraðili að þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem hér um ræðir.

 

3.

Lögmæti vinnslu

Í því máli sem hér er til skoðunar er um að ræða upplýsingar um nafn kvartanda og upplýsingar um upphæð sem hann skuldaði MHFR vegna leigu á vinnustofu. Slíkar upplýsingar teljast ekki vera viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi b-liðar 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Samkvæmt lögum nr. 77/2000 verður vinnsla, þ.á m. miðlun, slíkra upplýsinga ávallt að falla undir einhverja af heimildum 8. gr. laganna. Í því tilviki sem hér um ræðir hefur MHFR vísað til þess að vinnslan hafi verið heimil á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 8. gr., þess efnis að vinnsla persónuupplýsinga er heimil sé hún nauðsynleg til að efna samning sem hinn skráði er aðili að eða til að gera ráðstafanir að beiðni hins skráða áður en samningur er gerður. Þá telur Persónuvernd einnig að til skoðunar komi ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna, þar sem segir að vinnsla sé heimil sé hún nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda ber samkvæmt lögum vegi þyngra.

Auk framangreinds verður öll vinnsla persónuupplýsinga að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu. Þar er mælt fyrir um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); og að þær skuli vera nægilegar og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.).

MHFR telur að því hafi verið heimilt og skylt að miðla umræddum upplýsingum um kvartanda til allra félagsmanna, enda hafi félagsmenn allir hagsmuni af því þar sem félagið ber ábyrgð á að greiða Reykjavíkurborg leigu vegna húsnæðis síns, þ.m.t. vegna vinnustofu félagsins sem það framleigir félagsmönnum sínum. Hafi því verið eðlilegt að upplýsa félagsmenn um útistandandi kröfu félagsins á hendur kvartanda. Þá hefur MHFR einnig bent á að allir félagsmenn viti hver leigukjör séu hjá félaginu auk þess sem vanefndir kvartanda á greiðslum til félagsins hafi verið á almannavitorði innan félagsins. Þá hafi verið nauðsynlegt fyrir félagsmenn að fá umræddar upplýsingar svo þeim mætti vera ljóst hvort kvartandi hefði farið gegn lögum félagsins eða ekki og þá hvort tilefni væri til að beita kvartanda þeim úrræðum sem lög félagsins bjóða vegna þess.

Með vísun til alls framangreinds er það mat Persónuverndar að 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. heimili ekki þá miðlun sem hér átti sér stað, enda liggur ljóst fyrir að ekki hafi verið nauðsynlegt að miðla umræddum upplýsingum til allra félagsmanna með tölvupósti á grundvelli ákvæðis í samningi – hvorki í leigusamningi milli kvartanda og MHFR né í lögum félagsins.

Aftur á móti kann það að samrýmast ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 að miðla upplýsingum af þessum toga til félagsmanna félags. Þá verður að meta hver hafi verið tilgangur umræddrar miðlunar og hvort hagsmunir viðtakenda, í þessu tilviki allra félagsmanna, vegi þyngra en grundvallarréttindi kvartanda, sbr. áðurnefnt ákvæði. Jafnframt verður að meta hvort miðlunin hafi verið í samræmi við grundvallarsjónarmið 7. gr. sömu laga, um meðalhóf og gæði upplýsinga.

Í því tilviki sem hér um ræðir hefur MHFR vísað til þess að tilgangur miðlunarinnar hafi verið sá að upplýsa félagsmenn um útistandandi kröfu félagsins á hendur kvartanda svo að þeir gætu gætt lögmætra hagsmuna sinna. Engu að síður liggur einnig ljóst fyrir að hver félagsmaður er ekki ábyrgur persónulega fyrir leigugreiðslum til Reykjavíkurborgar, heldur framleigir MHFR vinnustofur sínar til félagsmanna á grundvelli leigusamnings. Verði uppi ágreiningur um lögmæti slíks leigusamnings, greiðslur vegna hans eða úrsögn félagsmanna úr félagi á grundvelli ákvæðis í leigusamningi leiðir það engu að síður ekki sjálfkrafa til þess að allir félagsmenn hafi lögmæta hagsmuni af því að fá upplýsingar um þær deilur á meðan á þeim stendur, t.d. um nafn skuldara eða þá upphæð sem viðkomandi skuldar félaginu þann dag.

Þá hefur MHFR einnig vísað til þess að deilumál kvartanda við félagið hafi verið á almannavitorði innan félagsins. Enda þótt umræddar upplýsingar kunni að hafa verið á vitorði einhverra eða jafnvel allra félagsmanna MHFR hafa þær samt sem áður ekki verið birtar opinberlega og því verður að meta hverju sinni hvort heimild sé fyrir miðlun persónuupplýsinga á grundvelli 8. gr. laga nr. 77/2000, eins og áður segir. Í ljósi alls framangreinds fæst ekki séð að MHFR hafi sýnt fram á það að öllum félagsmönnum hafi verið nauðsynlegt að fá umræddar upplýsingar um kvartanda með tölvupósti, sbr. 3. tölul. 7. gr. laga nr. 77/2000. Því fæst ekki séð að hagsmunir þeirra hefðu átt að vega þyngra en grundvallarréttindi og hagsmunir kvartanda, sbr. ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík var óheimilt að miðla upplýsingum um nafn og fjárhæð skuldar [A] til allra félagsmanna í fundargerð sem send var með tölvupósti þann [x. xxxx] 2015.



Var efnið hjálplegt? Nei