Úrlausnir

Sjónvarpsvöktun á sambýli

29.9.2015

Persónuvernd hefur tekið ákvörðun um staðfestingu á fyrirmælum um stöðvun rafrænnar vöktunar með tilteknum fötluðum einstaklingi á sambýli, þar sem uppi hafi verið vafi um lögmæti hennar. Að mati Persónuverndar hefði vöktunin þurft að byggjast á undanþágu tiltekinnar nefndar. Var því mælt fyrir um stöðvun vöktunarinnar þar til niðurstaða nefndarinnar um lögmæti liggur fyrir.

Ákvörðun

 

Hinn 22. september 2015 tók stjórn Persónuverndar svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2015/647:

 

I.

Bréfaskipti

1.

Persónuvernd hefur borist kvörtun frá [A] og [B], dags. 10. apríl 2015, yfir að Sambýlið [X], Reykjavík, hafi sett upp eftirlitsmyndavél yfir rúmi sonar [A], [C], en [B] er bróðir hans og persónulegur talsmaður samkvæmt IV. kafla laga nr. 88/2011 um réttindagæslu fatlaðs fólks.

Fram kemur í kvörtun að [C] getur fengið lífshættulega krampa. Þá segir meðal annars:

„Yfir rúmi sonar míns er nú myndavél þar sem hægt er að fylgjast með honum í rúminu sínu í gegnum niðurplástraðar leiðslur sem enda í skjá sem staðsettur er í almenningsrými sambýlisins.

Með þessu telur sambýlið að það sé að tryggja öryggi hans og spara sér starfsfólk á vöktum.

Spurning mín til Persónuverndar er því nú: Telur stofnunin þetta vera í lagi?“

 

2.

Með bréfi, dags. 22. maí 2015, ítrekuðu með bréfi, dags. 7. júlí s.á., var Sambýlinu [X] veitt færi á að tjá sig um framangreinda kvörtun. Þjónustumiðstöð [Y] svaraði fyrir hönd sambýlisins með bréfi, dags. 8. júlí 2015.  Þar segir að [C] sé sjálfráða en geti ekki tjáð sig sjálfur. Þá er því lýst að í ljósi versnandi heilsufars hans hafi verið gerðar allnokkrar ráðstafanir, m.a. mótuð áætlun um viðbrögð við flogaköstum og hvenær hringt sé í neyðarnúmer, vaktafyrirkomulagi breytt og sett upp dýna sem skynjar flogaköst. Að auki segir:

„Á árinu 2014 var rætt um uppsetningu öryggismyndavélar í herbergi [C]til að gæta enn frekar að öryggi hans að næturlagi, þar sem hætta er á að hann fái flogaköst, sem reynst geta lífshættuleg. Samþykkti faðir [C] fyrirkomulagið, en móðir hans og bróðir, sem er persónulegur talsmaður [C], óskuðu fyrst og fremst eftir tvöföldun næturvakta, en sættust við öryggismyndavél.“

Fram kemur að auk þess sem uppsetningu myndavélarinnar hafi verið ætlað að auka öryggi hafi hún átt að draga úr kvíða aðstandenda. Hún hafi ekki verið sett upp til að mæta starfsmannaþörf eða í stað aukastarfsmanns á næturvöktum, enda sé það mat velferðarsviðs Reykjavíkurborgar að ekki sé þörf á tvöfaldri næturvakt á umræddu sambýli.

Fyrirkomulagi vöktunarinnar er í bréfi þjónustumiðstöðvarinnar lýst svo:

„Búnaðurinn samanstendur af öryggismyndavél, sem staðsett er yfir rúmi [C], router, sem gerir fjarvöktun mögulega og spjaldtölvu, sem tekur við boðum frá routernum og starfsmaður á næturvakt hefur hjá sér. Routerinn er ekki nettengdur og það þarf sérstakt lykilorð til þess að tengjast honum. Á hverju kvöldi er það [B], faðir [C], sem tengir routerinn og fer með spjaldtölvuna til starfsmanns. Á hverjum morgni, í lok næturvaktarinnar, er slökkt á routernum. Engin upptaka á sér stað eða geymsla á gögnum. Sendingin næst um allt húsið og því getur starfsmaðurinn tekið spjaldtölvuna með sér þegar hann sinnir hinum ýmsu verkefnum sem næturvaktarstarfsmanni ber að sinna. Sending myndefnis í gegnum routerinn á sér einungis stað á næturvöktum og er spjaldtölvan ætíð í vörslu næturvaktarstarfsmanns. Spjaldtölvan er eina móttökutækið, sem tengist routernum og því er enginn skjár, sem nemur myndefni frá honum í almenningsrými. Engin vinnsla persónuupplýsinga skv. lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, fer fram. Eini tilgangurinn með öryggismyndavélinni er að fylgjast með því hvort [C]fái flogakast að nóttu. Um er að ræða öryggistæki fyrir [C] og ástæða uppsetningar hennar því málefnaleg að mati stjórnenda heimilisins.“

Í niðurlagi bréfs þjónustumiðstöðvarinnar segir að í samræmi við ákvæði V. kafla laga nr. 88/2001 um réttindagæslu fatlaðs fólks verði sótt um undanþágu fyrir umrædda myndavél frá banni samkvæmt þeim lögum við beitingu fjarvöktunar.

 

3.

Með bréfi, dags. 15. júlí 2015, veitti Persónuvernd [A] færi á að tjá sig um framangreint bréf Þjónustumiðstöðvar [Y]. [B] svaraði fyrir hönd kvartenda með bréfi, dags. 30. júlí 2015. Þar segir að ekki hafi að honum vitanlega verið lögð fram nein haldbær áætlun til að bregðast við fyrrnefndum flogaköstum. Auk þess hafi engin breyting orðið á vaktafyrirkomulagi til að bregðast við þeim. Þá segir að faðir [C] hafi, rétt eins og kvartendur, óskað eftir tvöldun næturvakta og telji hann að þó svo að myndavélin auki að einhverju leyti öryggi að næturlagi sé hún langt frá því að vera góður kostur. Um samskipti sambýlisins við föðurinn segir:

„Hér er gott að rifja upp hvernig staðið var að „leyfi“ aðstandenda fyrir að setja upp umrædda myndavél. Í framhaldi af miklum veikindum [C]árið 2014 og sjúkrahúslegu á LSH var föður [C]tjáð af nýráðinni forstöðukonu sambýlisins við [X], að ekki væri hægt að auka við næturvaktir þótt að [C] væri enn talsvert lasinn þegar hann kom heim, það eina sem hægt væri að gera til að auka á öryggi [C] miðað við þáverandi heilsufar hans að hennar sögn, væri að setja upp myndavél yfir rúmið hans. Við þessar aðstæður samþykkti faðir [C]uppsetningu á myndavélinni – enda um tvo afarkosti að ræða – að horfa á hann í gegnum myndavél, eða að ekki væri hægt að fylgjast með honum að öðrum kosti. Þarna var foreldri sett upp við vegg við mjög erfiðar aðstæður og gert að samþykkja þetta. Hvorki móðir hans né ég (persónulegur talsmaður [C]) voru spurð eða upplýst um gang mála.“

Einnig segir að umrædd myndavél skapi hættu á fölsku öryggi og kvíði aðstandenda skipti hér engu heldur öryggi og lífsgæði [C]. Ástæða þess að faðir hans kveiki á myndavélinni sé sú að hann telji það öruggara þar sem ekki sé hægt að tryggja að starfsmenn geri það eða kunni vegna tíðra starfsmannabreytinga. Þá hafi það gerst nokkuð oft að starfsmenn hafi ekki kunnað á krampadýnu sem á að nema reglubundinn titring eða krampa, en þeim hafi ekki verið kennt á dýnuna og hafi hún því ekki skapað það öryggi sem sóst var eftir. Megi því rökræða hvort uppsetning myndavélarinnar þjóni tilgangi sínum.

Að auki segir að á fundi kvartenda með framkvæmdastjóra Þjónustumiðstöðvar [Y] hafi verið fullyrt að aflað hefði verið leyfis til fjarvöktunar samkvæmt V. kafla laga nr. 88/2001. Þegar beðið hafi verið um að sjá leyfið hafi hins vegar komið í ljós að það hafi ekki verið til.

 

4.

Með bréfi til Þjónustumiðstöðvar [Y] og Sambýlisins [X], dags. 31. júlí 2015, vísaði Persónuvernd til þess sem fyrr greinir um að ekki lægi fyrir undanþága frá banni við fjarvöktun samkvæmt V. kafla laga nr. 88/2011. Nánar tiltekið er þar átt við leyfi sem nefnd um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar veitir samkvæmt 1. mgr. 10. gr. og 12. gr. laganna. Í ljósi þessa taldi Persónuvernd vafa leika á um lögmæti umræddrar vöktunar. Með vísan til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga mælti stofnunin því fyrir um að umrædd myndavél skyldi tekin niður og vöktun ekki fram haldið fyrr en og ef úrlausn viðeigandi stjórnvalds um lögmæti vöktunar lægi fyrir. Með bréfi þjónustumiðstöðvarinnar, dags. 6. ágúst 2015, var Persónuvernd greint frá því að myndavélin hefði verið tekin niður.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. og 1.–3. tölul. 2. gr. sömu laga, gilda þau um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Þá kemur fram í 6. tölul. 2. gr. laganna að með rafrænni vöktun sé átt við vöktun sem sé viðvarandi eða endurtekin reglulega, feli í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkjum búnaði og fari fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fari um að jafnaði. Auk þess segir í ákvæðinu að hugtakið taki til vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga, sem og sjónvarpsvöktunar sem fram fer með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla eða annars samsvarandi búnaðar, án þess að fram fari söfnun myndefnis eða aðrar aðgerðir sem jafngilda vinnslu persónuupplýsinga.

Hér telst vera um sjónvarpsvöktun að ræða sem ekki felur í sér vinnslu persónuupplýsinga. Til þess er hins vegar að líta að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 77/2000 gilda viss ákvæði þeirra laga engu að síður um slíka vöktun. Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laganna um úrskurðarvald Persónuverndar er ekki þar á meðal. Hins vegar gildir 1. mgr. 40. gr. laganna þar sem meðal annars kemur fram að Persónuvernd getur mælt fyrir um ráðstafanir sem ábyrgðaraðila ber að viðhafa til að tryggja lögmæti vinnslu. Þegar um ræðir sjónvarpsvöktun verður að túlka ákvæðið svo að með vinnslu sé þar átt við slíka vöktun.

Þegar litið er til framangreinds telst mál þetta falla undir valdsvið Persónuverndar, nánar tiltekið til að taka ákvarðanir á grundvelli 1. mgr. 40. gr. laga nr. 77/2000. Með ábyrgðaraðila í því ákvæði er átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga – í þessu tilviki þó sjónvarpsvöktunar – þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna, sbr. 4. tölul. 2. gr. laganna. Þjónustumiðstöð [Y] hefur svarað fyrir hönd Sambýlisins [X]. Fyrir liggur hins vegar að sambýlið er rekið sem sérstök eining á vegum Reykjavíkurborgar, eins og meðal annars má sjá af því að það hefur sérstaka kennitölu og er sjálfstæður skattaðili. Þá verður ráðið af þeim skýringum sem borist hafa frá þjónustumiðstöðinni að sambýlið hafi sjálft staðið að uppsetningu umræddrar eftirlitsmyndavélar og því farið með ákvörðunarvald í tengslum við hana. Telur Persónuvernd með vísan til þessa að sambýlið teljist ábyrgðaraðili að umræddri vöktun.

 

2.

Á meðal þeirra ákvæða sem gilda um sjónvarpsvöktun samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 77/2000 er 7. gr., en í 1. tölul. 1. mgr. þeirrar greinar er meðal annars mælt fyrir um að þess skuli gætt að vinnsla persónuupplýsinga – í þessu tilviki þó sjónvarpsvöktun – sé sanngjörn, málefnaleg og lögmæt. Til að svo geti verið má hún ekki fara í bága við sett lagaákvæði. Eins og hér háttar til ber þá að líta til ákvæða í lögum nr. 88/2011 um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. þeirra laga er fjarvöktun á heimilum fatlaðs fólks bönnuð nema veitt hafi verið undanþága á grundvelli 12. gr. laganna. Nánar tiltekið er með fjarvöktun átt við vöktun með myndavél eða hljóðnema, sbr. 3. mgr. 11. gr. laganna, en hvað vöktun með myndavélum varðar verður að telja þessa skilgreiningu falla saman við áðurnefnda skilgreiningu laga nr. 77/2000 á rafrænni vöktun, þ. á m. sjónvarpsvöktun.

Undanþága samkvæmt framangreindu ákvæði 12. gr. laga nr. 88/2011 til að viðhafa fjarvöktun er veitt af nefnd um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar, sbr. 15. gr. laganna. Fyrir liggur að sú nefnd hefur ekki veitt slíka undanþágu vegna umræddrar vöktunar. Þegar af þeirri ástæðu fór vöktunin í bága við fyrrnefnt ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000. Eins og rakið hefur verið hefur verið látið af vöktuninni, þ.e. í kjölfar fyrirmæla Persónuverndar hinn 31. júlí 2015, þess efnis að myndavélin skyldi tekin niður í ljósi þess vafa sem undir rekstri málsins var talinn leika á um lögmæti hennar. Þá voru veitt fyrirmæli um að vöktun skyldi ekki fram haldið fyrr en og ef úrlausn viðeigandi stjórnvalds um lögmæti hennar lægi fyrir, en þar er nánar tiltekið átt við undanþágu framangreindrar nefndar. Fyrir liggur að látið var af vöktuninni í ljósi áðurnefndra fyrirmæla. Með vísan til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 77/2000 áréttar Persónuvernd þau hins vegar og staðfestir áframhaldandi gildi þeirra að genginni ákvörðun þessari.

 

Á k v ö r ð u n a r o r ð:

Staðfest eru fyrirmæli Persónuverndar frá 31. júlí 2015 um að ekki skuli viðhöfð rafræn vöktun með [C] á heimili hans að Sambýlinu [X] án heimildar viðeigandi stjórnvalds.

 



Var efnið hjálplegt? Nei