Úrlausnir

Birting niðurstöðu leitar á vefleitarvél Google

27.1.2016

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli af tilefni kvörtunar yfir að Google hafi neitað að fjarlægja niðurstöðu leitar á vefleitarvél sinni sem vísar á fréttir um dóm í sakamáli á hendur kvartanda. Var kvartandi þar dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar fyrir fjármunabrot í starfi sínu. Kemur fram í úrskurðinum að málið falli undir landfræðilegt gildissvið laga nr. 77/2000. Þá kemur fram að Google sé heimilt að veita aðgang að niðurstöðu leitar um umdræddan dóm.

1.

Um landfræðilegt gildissvið

Í úrskurði Persónuverndar er meðal annars fjallað um landfræðilegt gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Vísað er til þess að samkvæmt 6. gr. laganna, sem byggir á 4. gr. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB, gilda þau um vinnslu persónuupplýsinga á vegum ábyrgðaraðila sem hefur staðfestu hér á landi, enda fari vinnsla persónuupplýsinganna fram innan EES, í aðildarríki stofnsamnings EFTA eða í landi eða á stöðum sem Persónuvernd auglýsir í Stjórnartíðindum. Þá er vísað til þess að með ábyrgðaraðila í ákvæðinu er átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna, sbr. 4. tölul. 2. gr. laganna, sbr. og d-lið 2. gr. tilskipunarinnar. Kemur fram að Google Inc. teljist samkvæmt þessu ákvæði vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.

Við mat á því hvort Google Inc. hafi staðfestu hér á landi er litið til 19. liðar formálsorða tilskipunar 95/46/EB. Segir þar að með staðfestu sé átt við virka og raunverulega starfsemi með föstu fyrirkomulagi óháð rekstrarformi, t.d. hvort um sé að ræða útibú eða dótturfyrirtæki. Í ljósi þessa er í úrskurðinum vísað til þess að stofnað hefur verið íslenskt félag á vegum Google Inc., þ.e. félagið Google Iceland ehf., sem og að til þess félags hefur verið ráðinn einn starfsmaður. Segir með vísan til þess að Google Inc. teljist hafa staðfestu hér á landi í gegnum umrætt félag.

Tekið er fram í úrskurði Persónuverndar að kjarnastarfsemi Google snýr að umræddri leitarvél. Þá er litið til þess að með tilskipun 95/46/EB var leitast við að afmarka landfræðilegt gildissvið rúmt og koma þannig í veg að einstaklingar færu á mis við vernd persónuupplýsinga og að farið yrði fram hjá reglum tilskipunarinnar, sbr. meðal annars 18.–20. lið formálsorða hennar. Segir að því verði að leggja til grundvallar að vinnsla persónuupplýsinga, sem starfræksla leitarvélarinnar felur í sér, fari jafnframt fram í tengslum við starfsemi Google Iceland ehf.

Vísað er til þess að samkvæmt 6. gr. laga nr. 77/2000 þarf vinnsla persónuupplýsinga að fara fram í tilteknum löndum eða á ákveðnum stöðum til að falla undir landfræðilegt gildissvið laganna. Þá segir að í ljósi tæknilegrar uppbyggingar vefleitarvéla, sem krefst þess að til staðar sé nauðsynlegur samskiptabúnaður í hverju því landi sem þeim tengjast, telji Persónuvernd að vinnsla persónuupplýsinga í þágu þeirra fari fram í þeim öllum. Þar sem vefleitarvél Google sé aðgengileg hér á landi teljist því umræddu skilyrði 6. gr. laga nr. 77/2000 vera fullnægt.

Með vísan til framangreinds segir í úrskurðinum að umrædd vinnsla falli undir landfræðilegt gildissvið laga nr. 77/2000.

 

2.

Um veitingu aðgangs að niðurstöðu leitar

Í úrskurðinum er fjallað um það skilyrði að vinnsla persónuupplýsinga skuli ávallt fullnægja einhverri af kröfum 8. gr. laga nr. 77/2000, sem og 9. gr. sömu laga þegar um ræðir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, í þessu tilviki um refsiverða háttsemi, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna. Segir að af kröfum 8. gr. geti einkum átt við 7. tölul. 1. mgr., þess efnis að vinna má með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra. Aftur á móti verði ekki séð að einhver af kröfum 9. gr. laganna geti átt við umrædda vinnslu. Til þess sé hins vegar að líta að víkja má frá ákvæðum laga nr. 77/2000 í þágu meðal annars fjölmiðlunar að því marki sem það er nauðsynlegt til að samrýma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar.

Einnig segir að eins og hér hátti til reyni á tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en samkvæmt því ákvæði sáttmálans feli tjáningarfrelsið meðal annars í sér rétt til að taka við og skila áfram upplýsingum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Segir í þessu sambandi að vega verði og meta réttinn til tjáningarfrelsis andspænis réttinum til friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Reyni þar á hagsmunamat sem um leið hafi áhrif á beitingu laga nr. 77/2000.

Tekið er fram að Persónuvernd hafi ekki talið sig bæra til að taka ákvörðun um hvort tjáning hafi falið í sér misnotkun á réttinum til tjáningarfrelsis heldur heyri slíkt undir dómstóla. Hér reyni hins vegar ekki á hvort um hafi verið að ræða slíka tjáningu heldur hvort fréttaumfjöllun megi vera aðgengileg í niðurstöðu leitar á vefleitarvél. Telji Persónuvernd, í ljósi atvika í málinu og með hliðsjón af stjórnarskránni og mannréttindasáttmálanum, ekki hafa komið fram að samkvæmt lögum nr. 77/2000 hafi verið óheimilt að veita slíkt aðgengi að umræddri niðurstöðu leitar.

Með vísan til framangreinds segir í úrskurðarorði að Google Inc. sé heimilt að veita aðgengi um vefleitarvél sína að niðurstöðu leitar um fjölmiðlaumfjöllun um umræddan dóm.

Úrskurður Persónuverndar í máli nr. 2014/1713

 



Var efnið hjálplegt? Nei