Frávísun kvörtunar vegna birtingar á myndbandi af áhorfanda á knattspyrnuleik
Ákvörðun
Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 25. janúar 2016 var tekin svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2014/1357:
1.
Grundvöllur máls
Málavextir og bréfaskipti
1.
Þann 6. október 2014 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi), vegna birtingar á myndbandi af honum þar sem hann var áhorfandi á knattspyrnuleik [C]. Segir í kvörtuninni að [B] hafi tekið upp myndbandið og birt það á Facebook-síðu sinni, en í kjölfarið hafi það hlotið umfjöllun á vefsíðunum [Y] og [Z]. Þá segir að kvartandi telji upptökuna ekki hafa samrýmst lögum og að koma henni til fjölmiðla hafi einnig verið lögbrot.
2.
Með bréfi, dags. 5. janúar 2015, óskaði Persónuvernd eftir skýringum frá [B]. Óskaði stofnunin sérstaklega eftir upplýsingum um hvort hann hefði unnið með persónuupplýsingar um kvartanda, með því að taka upp myndskeið af honum, eða með öðrum aðferðum. Þá var óskað upplýsinga um í hvaða tilgangi slík vinnsla hefði farið fram og hvort hún hefði einvörðungu verið ætluð til persónulegra nota, sbr. 3. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá óskaði stofnunin eftir upplýsingum um hvort [B] hefði miðlað umræddu myndskeiði til þriðja aðila, t.d. fjölmiðla. Var svara óskað fyrir 20. janúar 2015. Engin svör bárust og ítrekaði Persónuvernd ósk sína um svör með bréfi, dags. 13. febrúar 2015. Lögmaður [B], [X] hrl., óskaði eftir fresti til að koma á framfæri skýringum til 10. mars 2015 og var sá frestur veittur.
Í svarbréfi áðurnefnds lögmanns, dags. 10. mars 2015, kemur fram að umbjóðandi hans, [B], hafi undanfarin ár flutt fréttir af knattspyrnuleikjum fyrir vefmiðilinn [Z]. Á þessum knattspyrnuleik hafi hann gegnt starfi fréttamanns f.h. [Z]. Kvartandi hafi vakið athygli viðstaddra á umræddum knattspyrnuleik með hegðun sinni. Umbjóðanda lögmannsins hafi þótt sú hegðun sem kvartandi hafi sýnt sem áhorfandi á þessum knattspyrnuleik vera fréttnæm og því beint upptökuvél sinni til hliðar og að kvartanda. Knattspyrnuleikir í [E-deild] séu nær allir teknir upp á myndband og ætti þeim sem heimsækja völlinn á [D] að vera það ljóst enda séu myndbandsupptökuvélar staðsettar efst í áhorfendastúku. Þá sé það óhjákvæmilegt að áhorfendur séu að einhverju leyti í mynd.
Þá kemur fram að umbjóðandi lögmannsins hafi hlaðið myndbandi þessu inn á Facebook-síðu sína og á myndbandasíðuna youtube.com. Í kjölfarið hafi myndbandið vakið mikla athygli og hafi [Z] ákveðið að skrifa frétt um hegðun þessa stuðningsmanns og birta á vef sínum. Kvartanda hafi mátt vera ljóst að upptökur væru í gangi og sjáist það glögglega á myndbandinu að upptökuvél sé í gangi rétt nokkra metra frá kvartanda.
Þá bendir lögmaðurinn á að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 77/2000 má víkja frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar. Segir að í umrætt sinn hafi umbjóðandi hans verið í hlutverki fjölmiðlamanns að flytja fréttir af knattspyrnuleik sem hafi átt sér stað á opinberum vettvangi og því í fullum rétti til að flytja fréttir af því sem fréttnæmt væri í tengslum við umræddan knattspyrnuleik. Ómögulegt hafi verið að miðla mynd- og hljóðefni af leiknum til fjölmiðla án þess að orðræða og háttsemi kvartanda rataði þar inn.
Þá lýsir lögmaðurinn þeirri afstöðu að friðhelgi einkalífs og persónuvernd kvartanda vegna hegðunar hans á opinberum vettvangi á knattspyrnuleik í viðurvist fjölda fólks geti ekki verið ríkari en hagur almennings af því að sagðar séu fréttir af knattspyrnuleiknum og því sem þar gerist og á meðal áhorfenda.
Persónuvernd óskaði nánari skýringa frá lögmanninum með tölvupósti, dags. 19. mars 2015. Sérstaklega var óskað skýringa á því hvort umrætt myndband hefði verið tekið upp á sjónvarpsmyndavél, þá sömu og fótboltaleikurinn sjálfur var tekinn upp á, eins og fyrri svör lögmannsins virtust bera með sér eða hvort annar búnaður hefði verið notaður, s.s. farsími. Þá var óskað eftir skýringum á því hvort umbjóðandi lögmannsins teldi umrædda vinnslu persónuupplýsinga samrýmast ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 þar sem kveðið er á um að öll vinnsla skal vera sanngjörn, málefnaleg og lögmæt.
Í svarbréfi lögmannsins, sem barst Persónuvernd með tölvupósti, dags. 19. mars 2015, segir að knattspyrnuleikir í [E-deild] séu stundum teknir upp af sjónvarpsstöðvunum og stundum ekki. Hins vegar taki flest félög upp alla leiki sína. Því efni sé oft miðlað til fjölmiðla, sé óskað eftir því, en oftast sé það eingöngu ætlað hverju og einu knattspyrnufélagi til eigin afnota. Hvað varði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, þá telji umbjóðandi lögmannsins að fréttaflutningur af hegðun einstaklinga á opinberum vettvangi sé málefnaleg og sanngjörn gagnvart almenningi og öðrum viðstöddum. Hvort hún hafi verið málefnanleg og sanngjörn í huga þess sem fréttin sé sögð af sé ómögulegt fyrir umbjóðanda lögmannsins að svara. Þá telji lögmaðurinn rétt að benda á að vinnslan hafi verið sanngjörn og málefnaleg gagnvart kvartanda að því leyti að hið birta myndskeið sýni ekki grófustu ummæli kvartanda eða verstu hegðun hans á umræddum knattspyrnuleik.
Með tölvupósti til lögmannsins, dags. 27. apríl 2015, ítrekaði Persónuvernd ósk um skýringar á þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem um ræðir og kvörtun þessi lýtur að. Nánar tiltekið óskaði Persónuvernd eftir því að fram kæmi hvers konar búnaður hefði verið notaður við upptöku umrædds myndskeiðs, svo sem upptökubúnaður íþróttafélags, farsími eða spjaldtölva, sem og hver teldist eigandi þess búnaðar. Þá óskaði Persónuvernd eftir staðfestingu á því að það myndband sem kvörtun þessi lýtur að mætti finna á vefslóð sem send var lögmanninum. Í svarbréfi lögmannsins, dags. 6. maí 2015, kemur fram að lögmaðurinn telji það sérstakt að Persónuvernd óski eftir upplýsingum frá umbjóðanda hans um hvaða myndband það sé sem kvörtun í málinu lýtur að. Réttast væri að kvartandi upplýsti um það. Sé efni kvörtunarinnar óljóst eigi Persónuvernd að sjálfsögðu að vísa henni frá. Auk þess segir að nú hafi það rutt sér til rúms á vegum margra stærstu íþróttafélaga heims að birta á vefsíðum sínum og á öðrum miðlum upptökur af áhorfendum. Þá sé það líka til siðs þegar sjónvarpsstöðvar sýni frá kappleikjum að beina upptökuvélum upp í stúku og taka þar myndir af áhorfendum. Allt slíkt verði í uppnámi ef niðurstaða málsins verði umbjóðanda lögmannsins í óhag.
Ekki kemur fram í svari lögmannsins hvers konar búnaður var notaður við upptöku umrædds myndskeiðs né heldur hver eigandi búnaðarins var, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir Persónuverndar um það.
3.
Með bréfi, dags. 12. mars 2015, var kvartanda veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við framkomnar skýringar lögmanns [B]. Þá var óskað staðfestingar á því að það myndband sem um ræðir mætti finna á tiltekinni vefslóð á myndbandasíðunni youtube.com. Athugasemdir kvartanda, dags. 5. ágúst 2015, bárust með bréfi þann 7. s.m. Þar er staðfest að það myndband sem kvörtun þessi lýtur að megi finna á framangreindri vefslóð. Þá segir að engin skilti eða merkingar hafi verið á því svæði þar sem umræddur kappleikur fór fram. Þrátt fyrir að kappleikir séu teknir upp eigi áhorfendur ekki að þurfa að gera ráð fyrir að upptökuvélum sé beint sérstaklega að þeim. Kvartandi hafi aldrei verið í sjónlínu upptökuvélar. Þá hefði verið hægt að styðjast við myndefni af leiknum án hljóðs og hefði rödd kvartanda þá ekki fylgt myndefninu. Kvartandi telji jafnframt að ef [B] hefði einungis stuðst við upptökur af knattspyrnuleiknum sjálfum þá hefði mögulega einungis heyrst í rödd kvartanda og ekki sést í andlit hans.
II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Afmörkun kvörtunar og gildissvið laga nr. 77/2000
Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.
Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. sömu greinar. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 77/2000 segir m.a. að með vinnslu sé t.d. átt við söfnun og skráningu og undir það falli m.a. rafræn vöktun, flokkun, varðveisla, leit, miðlun, samtenging eða hver sú aðferð sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar.
Persónuvernd hefur borist afrit af umræddri myndbandsupptöku og má rekja efni hennar til kvartanda. Er það því mat Persónuverndar að hér sé um að ræða vinnslu persónuupplýsinga um hann.
Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst [B] vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu persónuupplýsinga.
2.
Lögmæti vinnslu
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 77/2000 má víkja frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar. Þá kemur fram að þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi gilda einungis tiltekin ákvæði laganna. Á meðal þeirra ákvæða, sem gilda um slíka meðferð persónuupplýsinga, er hins vegar 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna, þess efnis að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga.
Af gögnum málsins má ráða að kvartandi hafi vakið athygli [B] og annarra áhorfenda með hegðun sinni á opinberum viðburði. Þá hafi kvartanda mátt vera ljóst að fjölmiðlar og fréttamenn væru viðstaddir framangreindan knattspyrnuleik sem myndu flytja fréttir af viðburðinum. [B] var á framangreindum leik sem fréttamaður og tók upp hegðun kvartanda þar sem hann taldi að um fréttnæmt efni væri að ræða af opinberum viðburði sem ætti erindi við almenning.
3.
Niðurstaða
Verkefnum Persónuverndar er lýst í 37. gr. laga nr. 77/2000. Þar segir meðal annars að Persónuvernd skuli úrskurða í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga á Íslandi. Að mati Persónuverndar verður ekki litið svo á að í þessu felist að stofnunin hafi vald til að taka bindandi ákvörðun um það hvort einhver hafi skapað sér ábyrgð að lögum með misnotkun á tjáningarfrelsi sínu samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar. Er þá sérstaklega litið til fyrrgreinds ákvæðis 5. gr. laga nr. 77/2000.
Efnisleg úrlausn um umrædda kvörtun lýtur að því hvort birting umrædds myndbands, sem tekið var á opinberum viðburði þar sem alla jafna má búast við upptökum, hafi farið út fyrir ramma áðurnefnds stjórnarskrárákvæðis. Í ljósi framangreinds og atvika málsins telur Persónuvernd því úrlausn máls þessa falla undir dómstóla og er málinu vísað frá.
Meðferð málsins hefur dregist vegna anna hjá stofnuninni.
Á k v ö r ð u n a r o r ð:
Máli af tilefni kvörtunar [A] frá 6. október 2014 er vísað frá.