Úrlausnir

Upplýsingar um ökuleyfissviptingu færðar í skýrslu um umferðaróhapp

1.6.2006

Úrskurður
Hinn 16. desember 2005 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2005/390:

I.
Bréfaskipti

Tilefni máls þessa er kvörtun A, dags. 8. júlí 2005, yfir því að í lögregluskýrslu, sem gerð var vegna umferðaróhapps, sem hann lenti í hinn 12. maí 2005, hafi þess verið getið að hann hafi nokkrum árum áður verið sviptur ökuréttindum. Höfðu réttindin verið endurnýjuð þegar óhappið varð. Í skriflegri yfirlýsingu frá A, dags. 14. desember 2005, er tildrögum kvörtunarinnar nánar lýst, þ.e. að lögregluskýrslan hafi verið send tryggingarfélaginu B og hann fengið vitneskju um skráningu umræddra upplýsinga í kjölfar þess.


Í kvörtun A segir m.a.:

"Nú hef ég gert upp sakir mínar og fengið endurnýjuð ökuréttindi mín. Ég tel réttmætt að í slíkum tilvikum séu menn lausir allra mála. Þegar ég sá þetta leið mér eins og þegar ég var dæmdur – afar illa.


Ég sé enga ástæðu til að þetta komi fram á skýrslunni, sérstaklega þegar haft er í huga að slíkar skýrslur eru jafnan sendar ýmsum aðilum, s.s. tryggingafélögum, umferðarstofu – jafnvel fleirum.


Að mínu mati fer þetta gegn almennum grundvallarreglum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga."


Með bréfi Persónuverndar, dags. 13. júlí 2005, ítrekuðu með bréfi, dags. 15. ágúst s.á., var Lögreglunni í Reykjavík boðið að tjá sig um þetta erindi. Svarað var með bréfi, dags. 16. ágúst. Þar segir:

"Þann 13. júlí sl. barst bréf frá Persónuvernd er innihélt kvörtun frá [A], dagsett 8. júlí 2005 yfir því að í lögregluskýrslu um umferðaróhapp hefði birst, að ökuleyfissvipting hans hafi verið felld úr gildi fyrir nokkrum árum. Undirritaður hafði samband við skýrslugeranda, umræddrar lögregluskýrslu, til að kanna hvort hann hafi skráð þessar upplýsingar. Hann sagðist ekki hafa tekið eftir þessu þegar hann gerði skýrsluna og taldi að þetta hafi komið sjálfkrafa inn í skýrsluna úr ökuskírteinaskránni. Rætt var við fleiri lögreglumenn sem vinna við gerð svona lögregluskýrslna og kannast enginn við að hafa séð svona upplýsingar koma inn [í] lögregluskýrslu, ef ökumenn eru með fullgild ökuréttindi.


Í framhaldi af þessum upplýsingum var bréf, sem hjálagt fylgir, sent til umsjónarmanns lögreglukerfa hjá ríkislögreglustjóranum, en tölvukerfi lögreglunnar eru miðlæg, þar sem óskað var eftir skýringum á því hvers vegna umræddar upplýsingar hafi komið sjálfkrafa inn í lögregluskýrsluna.


Svarbréf, sem hjálagt fylgir, barst frá umsjónaraðila tölvukerfa lögreglunnar 27. júlí 2005 og er vísað í það bréf varðandi skýringar á því sem gerst hafi og varð þess valdandi að setningin, svipting felld úr gildi frá 11.10.2001 til 11.10.2001 kom inn í áðurnefnda skýrslu.


Embættið lítur svo á að mistök hafi átt sér stað þegar umræddar upplýsingar, sem kvartað er yfir, hafa verið skráðar í ökuskírteinakerfið og síðan ratað inn í umrædda skýrslu. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum."


 

Í bréfi Ríkislögreglustjóraembættisins, dags. 27. júlí 2005, sem vísað er til í framangreindu bréfi Lögreglunnar í Reykjavík, dags. 16. ágúst s.á., segir:

"Ég hef farið yfir allar skráningar varðandi umkvörtunarefni [A] til Persónuverndar þann 8. júlí 2005. Um er að ræða að textinn "Svipting felld úr gildi Frá: 11.10.2001 til 11.10.2001" birtist í svæðinu "Annað" í svokölluðu "Ökuskírteinabelti" í lögregluskýrslu vegna umferðaróhapps. Þessi athugasemd eða texti er sóttur í svokallað ökuskírteinakerfi, þar sem athugasemdin er skráð þegar ævilangri sviptingu lýkur, en í tilviki [A] var ekki um að ræða ævilanga sviptingu, heldur var hann sviptur ökuréttindum til þriggja ára.


Það skal tekið fram að í umræddu svæði í lögregluskýrslunni á ekkert annað að birtast en athugasemd um sviptingar í gildi. Engin önnur tilvik eru þekkt þess efnis að athugasemd um að svipting hafi verið felld úr gildi birtist í lögregluskýrslu. Sökum sumarleyfa hjá forriturum lögreglukerfisins hefur ekki náðst að fara yfir málið með þeim, en þetta verður tekið upp strax í byrjun ágústmánaðar og það fyrirbyggt að slíkar upplýsingar geti birst í lögregluskýrslum framvegis.


Hvað varðar skráningu þess að svipting hafi verið felld úr gildi þá á slík skráning í ökuskírteinakerfinu eingöngu við það þegar viðkomandi hefur hlotið ævilanga sviptingu og hefur sótt um endurveitingu ökuréttinda til lögreglustjóra til að öðlast ökurétt að nýju. Áður en nýtt ökuskírteini er gefið út að lokinni ævalangr[i] svipting[u] þarf að skrá athugasemdina "Svipting felld úr gildi" og frá hvaða degi hún gildir. Í tilviki [A] hefur umrædd athugasemd verið skráð í ökuskírteinakerfinu án þess að ástæða hafi verið til. Að lokinni þriggja ára sviptingu var [A] heimilt að undirgangast ökupróf að nýju og sækja um ökuskírteini, án þess að skrá þyrfti að svipting væri felld úr gildi."


 

Með bréfi Persónuverndar, dags. 18. ágúst 2005, var A boðið að tjá sig um bréf Lögreglunnar í Reykjavík til Persónuverndar, dags. 16. ágúst 2005, sem og framangreint bréf Ríkislögreglustjóraembættisins, dags. 27. júlí s.á. A svaraði með bréfi, dags. 8. september 2005. Þar segir:

"Til að gera grein fyrir viðhorfi mínu og afstöðu til efnisatriða í bréfum lögreglustjóraembættisins, verð ég að geta þess að áður en ég snéri mér til Persónuverndar með þetta mál, ræddi ég um efnisleg ágreiningsmál mín út af ofannefndri umferða[r]skýrslu, við [D], aðstoðaryfirlögregluþjón í síma. Hann vísaði mér niður í Borgartún 7. Þar færi fram skráning þessara upplýsinga og hefði hann ekkert með þær að segja. Ég fór í Borgartún 7 og ræddi við yfirmann skráningar, sem sagði sem var að þar væri fylgt fyrirmælum og reglum um þessa sem aðra skráningu og það væri ekki hægt að veita frekari úrlausn þar í þessu ágreiningsmáli, en yfirmaður verkefnisins væri [E]. Ég bað ekki um eintak af reglunum.


Ég fékk viðtal við [E] á skrifstofu hans og lagði fyrir ljósrit af skýrslunni um umferða[r]slysið og átaldi jafnframt það sem þar stóð skrifað í línu merkt "Annað" í upplýsingakafla skýrslunnar, en þar stendur: "Svipting felld úr gildi Frá: 11.10.2001 til: 11.10.2001". Þessi efnisatriði ættu ekki erindi inn í þessa skýrslu og í lögum um persónuvernd væru skýr fyrirmæli um það. [E] sagði að þetta væri lögregluskýrsla og lög um persónuvernd ættu ekki við í þeim tilvikum. Mér tókst ekki að fá formlega umræðu um þessi efnisatriði og hrökklaðist nánast út af skrifstofu [E] og hafði farið fullkomna erindisleysu.


Afrit af bréfum [F] yfirlögregluþjóns og [D] hef ég kynnt mér vel.

Í fyrsta lagi eru þau efnislega svo langt frá þeim upplýsingum sem ég fékk í viðtölum mínum við [E] og [D]aðstoðaryfirlögregluþjón, að ekki getur kallast að fjallað sé um sama efni.


Í öðru lagi: Með því að skrá í reitinn "Annað" í ökuskírteinaskrá: "Svipting felld úr gildi frá 11.10.2001 til: 11.10.2001", en samkvæmt því sem stendur í bréfi [D] [framangreint bréf Ríkislögreglustjóraembættisins, dags. 27. júlí 2005] til [F] þýðir þetta að ég hafi hlotið ævilangan dóm og sviptingu ökuréttinda, var brotið gegn lögum. Slíkan dóm hef ég aldrei hlotið. Hér er því ekki aðeins um að ræða heimildarlausa skráningu heldur og ranga.


Í þriðja lagi: Þetta er ekki látið nægja. Ég hef orð [E] fyrir því, á hans eigin skrifstofu, að þar sem þetta sé lögregluskýrsla sé þetta rétt eins og það er. Með örlítið öðrum orðum: [E] virðist geta látið skrá að hver sem er hafi ævilangan dóm á herðar og sviptingu ökuleyfis til sama tíma. Þessum upplýsingu[m] er síðan hægt að dreifa í lögregluskýrslur um viðkomandi hvort sem það á erindi þangað eða ekki.


Ég sé ekki fyrir endann á þessu máli. Upphaflega var að mínu mati um mistök að ræða sem hefði verið hægt að jafna með afsökunarbeiðni. Nú sit ég uppi með skráningu í lögreglubókum um ævilangan dóm fyrir ölvun við akstur, - væntanlega - og ökuleyfissviptingu væntanlega til jafnlengdar, en einhver huldumaður hefur fellt ökuleyfissviptinguna niður frá og með....


Hvað meira stendur um mig í bókum lögreglustjóraembættisins í Reykjavík og hjá embætti Ríkislögreglustjóra?

Ég fer fram á [að] lagt verði hald á afrit af skírteinaskrá lögreglustjóraembættisins eins og hún var á öryggisafriti 1. maí 2005 og dómaskrá eins og hún er á sama degi. Þær verði bornar saman, þannig að sé eitthvað skráð í svæðið "Annað" í skírteiniskafla skírteinaskrár, verði skoðað hvaða dómar séu skráðir þeirri skráningu til fulltingis.


Ég fer einnig fram á að dómaskrá verði skoðuð og gengið úr skugga um að samræmi sé í dómum og öllum færslum inn í svæðið "Annað" í skírteinaskrá."


 

Með bréfi Persónuverndar, dags. 19. september 2005, var Lögreglunni í Reykjavík boðið að tjá sig um þetta bréf A. Svarað var með bréfi, dags. 4. október 2005. Þar segir:

"Lögreglustjórinn hefur engu við fyrri svör að bæta, en vill þó leiðrétta tvennt í athugasemdum [A] til Persónuverndar, dags. 8. september sl.

Í fyrsta lagi er því haldið fram að starfsmenn í afgreiðslu lögreglustjórans í Reykjavík að Borgartúni 7 hafi tjáð bréfritara að undirritaður væri yfirmaður einhvers "verkefnis", sem virðist miða að því að skrá þær upplýsingar sem bréfritari gerir athugasemd við. Undirritaður kannast ekkert við slíkt verkefni, enda er þegar komið fram að þær upplýsingar sem birtust í lögregluskýrslu eru miðlægar og stafa ekki frá undirrituðum.


Í öðru lagi er því haldið fram að undirritaður hafi sagt bréfritara að lögregluskýrslur væru undanþegnar ákvæðum laga um persónuvernd. Þessu er mótmælt sem alröngu. Undirritaður tjáði bréfritara hins vegar að öll skráning persónuupplýsinga hjá lögreglunni væri í samræmi við heimildir laga og reglugerðar um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglunni og ekki væri annað vitað en að Persónuvernd hafi þegar annast úttekt á þeim skrám sem ríkislögreglustjóri heldur í samræmi við 2. gr. tilv. reglugerðar."
II.
Forsendur og niðurstaða
1.

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Af þessu leiðir að efni máls þessa lýtur að vinnslu persónuupplýsinga og þar með fellur umfjöllun um efni þess undir valdsvið Persónuverndar.

2.

Vinnsla persónuupplýsinga er heimil fullnægi hún einhverju af skilyrðum 8. gr. laga nr. 77/2000. Sé unnið með viðkvæmar persónuupplýsingar þarf auk þess að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 9. gr. sömu laga. Til viðkvæmra upplýsinga teljast m.a. upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna. Það atriði, sem hér er til úrlausnar, lýtur að því hvort lögmætt hafi verið að færa umræddar upplýsingar, þ.e. um ökuleyfissviptingu A, í skýrslu vegna umferðaróhapps sem hann lenti í hinn 12. maí 2005. Ekki liggur fyrir að umrædd færsla upplýsinganna í lögregluskýrslu hafi átt sér stoð í 8. gr. og 9. gr. laga nr. 77/2000.


Auk framangreinds reynir í málinu á 11. gr. laga nr. 77/2000 um öryggi persónuupplýsinga. Þar kemur fram, í 1. mgr., að gera skal viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir til að vernda persónuupplýsingar, m.a. gegn óleyfilegum aðgangi. Fyrir liggur að umræddar upplýsingar færðust í lögregluskýrsluna úr ökuskírteinaskrá með sjálfvirkum hætti – en það leiddi síðar til þess að þær bárust B. Samkvæmt því liggur ekki fyrir að umrædd vinnsla hafi uppfyllt skilyrði framangreinds ákvæðis.


Lögmæti þess að framangreint tryggingafélag fékk aðgang að umræddum upplýsingum ræðst af því hvort fullnægt hafi verið einhverju af skilyrðum 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu, sbr. 3. mgr. 45. gr. laga nr. 77/2000, 3. mgr. 19. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og i-lið 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Í framangreindu ákvæði reglugerðarinnar er mælt fyrir um að svo að miðla megi persónuupplýsingum frá lögreglu til einkaaðila verði að vera fullnægt einu eftirfarandi skilyrða: (a) hinn skráði hafi samþykkt miðlunina, (b) til miðlunarinnar standi lagaheimild, (c) Persónuvernd hafi heimilað miðlunina eða (d) miðlunin sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir alvarlega og aðsteðjandi hættu. Verður ekki séð að neinu þessara skilyrða hafi verið fullnægt.


Samkvæmt 3. og. 9. tölul. 4. gr. og 5. gr. reglugerðar nr. 431/1998, sbr. 2. mgr. 52. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, bera lögreglustjórar hver í sínu umdæmi ábyrgð á því að upplýsingar um ökuréttindi, þ. á m. um upphafs- og lokadag sviptingar ökuréttar, séu rétt færðar. Með vísun til framangreinds er það niðurstaða Persónuverndar að Lögreglunni í Reykjavík beri að bæta án tafar úr þeim ágöllum á upplýsingakerfi sem ollu því að upplýsingar um umrædda ökuleyfissviptingu færðust í skýrslu lögreglu um umrætt umferðaróhapp. Þá ber að breyta umræddri lögregluskýrslu þannig að ekkert komi fram í henni um að hann hafi eitt sinn verið sviptur ökuleyfi, sbr. og 25. gr. laga nr. 77/2000 um m.a. skyldu til eyðingar upplýsinga sem skráðar hafa verið án tilskilinnar heimildar og 12. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Þar er kveðið á um að ef skráðar hafa verið persónuupplýsingar sem eru rangar, villandi eða ófullkomnar, eða persónuupplýsingar hafa verið skráðar án tilskilinnar heimildar, skuli lögregla sjá til þess að upplýsingar verði leiðréttar, þeim eytt eða við þær aukið ef umræddur annmarki getur haft áhrif á hagsmuni hins skráða.


Þar eð mistök munu hafa valdið því að upplýsingar um ökuleyfissviptingu A færðust inn í umrædda lögregluskýrslu telur Persónuvernd málið ekki þannig vaxið að tilefni sé til að verða við þeirri kröfu hans að stofnunin leggi hald á afrit af skírteinaskrá lögreglustjóraembættisins og dómaskrá, þ.e. í því skyni að bera skrárnar saman til að athuga hvort of mikið af upplýsingum sé skráð og hvort samræmi sé í upplýsingaskráningu. Þá vekur stofnunin athygli á 8. gr. reglugerðar nr. 322/2001 þar sem kveðið er á um rétt einstaklinga til að fá frá lögreglu vitneskju um hvaða upplýsingar um þá er eða hefur verið unnið með, tilgang vinnslunnar og hver fær, hefur fengið eða mun fá upplýsingar um þá, sbr. þó 9. gr. reglugerðarinnar þar sem mælt er fyrir um tilteknar undantekningar frá þeim rétti.

Ú r sk u r ð a r o r ð:

Það að færa upplýsingar um að A hafi verið sviptur ökuleyfi í lögregluskýrslu um umferðaróhapp, sem hann varð fyrir síðar, átti sér ekki heimild í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Án tafar skal bætt úr þeim ágöllum á upplýsingaöryggi, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna, sem ollu því að þessar upplýsingar færðust inn í skýrsluna. Lögreglunni í Reykjavík ber að breyta umræddri lögregluskýrslu þannig að ekkert komi fram í henni um umrædda ökuleyfissviptingu.



Var efnið hjálplegt? Nei