Vinnsla upplýsinga um nauðungarsölubeiðni
Úrskurður
Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 24. febrúar 2016 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2015/1423:
I.
Bréfaskipti
1.
Almennt
Persónuvernd hefur borist kvörtun, dags. 30. september 2015, frá [A] (hér eftir nefndur „kvartandi“) yfir þeirri ráðagerð fjárhagsupplýsingastofunnar Creditinfo Lánstraust hf. að færa nafn hans og eiginkonu hans, [B], á skrá sem stofan heldur um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga. Skráning fór fram í tilefni af því að sýslumaður auglýsti beiðni Arion-banka hf. um nauðungarsölu á fasteign þeirra. Segir í kvörtun að um ræði umdeilda skuld og að færsla upplýsinga um hana á umrædda skrá sé því óheimil, sbr. 3. mgr. greinar 2.1 í leyfi, dags. 29. desember 2014 (mál nr. 2014/1640), til að halda fyrrnefnda skrá sem Persónuvernd veitti Creditinfo Lánstrausti hf. og var í gildi þegar kvörtunin barst (sbr. nú sama ákvæði í leyfi, dags. 28. desember 2015 (mál nr. 2015/1428)). Þá er í kvörtun vísað til úrskurðar Persónuverndar, dags. 25. ágúst 2015 (mál nr. 2015/138), varðandi miðlun Arion-banka hf. á upplýsingum um sömu kröfu til skráningar hjá Creditinfo Lánstrausti hf., en samkvæmt úrskurðinum var krafan umdeild og miðlunin því óheimil.
Nánar tiltekið er hér um að ræða kröfu á grundvelli veðskuldabréfs, dags. 2. september 2007, en samkvæmt 11. tölul. þess er heimilt að tilkynna vanskil, sem varað hafa lengur en 90 daga, til Creditinfo Lánstrausts hf. til slíkrar skráningar. Einnig segir í 9. tölul. að fasteign þá sem sett er að veði fyrir láninu megi, sé skuldin gjaldfallin, selja nauðungarsölu án dóms, sáttar eða fjárnáms, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þá segir að gera megi fjárnám til fullnustu skuldarinnar án undangengins dóms eða réttarsáttar, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Hefur veðskuldabréfið að geyma vottun fasteignasala í samræmi við það ákvæði. Auk þess kemur fram á bréfinu að það hafi verið móttekið til þinglýsingar hinn 21. september 2007.
2.
Nánar um kvörtun
Fram kemur í kvörtun að Creditinfo Lánstraust hf. greindi kvartanda og eiginkonu hans frá fyrirhugaðri skráningu með bréfum til hvors þeirra um sig, dags. 18. ágúst 2015, en samkvæmt bréfunum var tilefnið fyrirtaka á nauðungarsölubeiðni. Einnig kemur fram í kvörtun að kvartandi mótmælti skráningunni með bréfi, dags. 1. september 2015, en í því er meðal annars vísað til fyrrgreinds úrskurðar, dags. 25. ágúst s.á., sem og til þess að áður en úrskurður Persónuverndar var kveðinn upp féllst Creditinfo Lánstraust hf. á að um ræddi umdeilda skuld og fjarlægði því upplýsingar um hana af fyrrgreindri skrá. Var það gert eftir að fyrirtækinu barst afrit af bréfi lögmanns kvartanda og eiginkonu hans til Arion-banka hf., dags. 21. nóvember 2014, þar sem lögmæti skuldarinnar var mótmælt.
Að auki segir í bréfi kvartanda til Creditinfo Lánstrausts hf., dags. 1. september 2015:
„Ágreiningur okkar hjóna og Arionbanka hf. hefur ekki verið til lykta leiddur og því vekur það mikla undrun að Creditinfo Lánstraust hf. skuli með tveimur bréfum til okkar hjóna, dags. 18. ágúst 2015, hóta skráningu á vanskilaskrá að nýju vegna sömu kröfu. Það að málið sé nú komið í nauðungarsöluferli getur ekki skipt máli, enda krafan jafn umdeild og áður og mun ágreiningi verða skotið til dómstóla í samræmi við lög um nauðungarsölu.“
Með vísan til framangreinds krafðist kvartandi þess í bréfi sínu til Creditinfo Lánstrausts hf., dags. 1. september 2015, að þegar í stað yrði látið af áformum um skráningu á umrædda skrá. Eins og rakið er í kvörtun hafnaði fyrirtækið hins vegar þeirri kröfu með bréfi, dags. 9. s.m., enda fæli nauðungarsölubeiðnin í sér opinbera réttargjörð sem auglýst hefði verið í Lögbirtingablaðinu, en af því leiddi að skráning hennar væri heimil samkvæmt grein 2.1 í fyrrnefndu leyfi, dags. 29. desember 2014. Kemur fram af hálfu kvartanda að hér sé augljóslega um að ræða tilvísun til 1. mgr. þeirrar greinar sem heimilar vinnslu upplýsinga sem hafa verið löglega birtar í opinberum auglýsingum. Hins vegar horfi Creditinfo Lánstraust hf. framhjá fyrrnefndu ákvæði 3. mgr. sömu greinar sem bannar vinnslu upplýsingu um umdeildar skuldir nema þær hafi verið staðfestar með réttargjörð. Þá segir:
„Ljóst er að ákvörðun sýslumanns um að taka nauðungarsölubeiðni fyrir felur ekki í sér neina þá viðurkenningu á kröfunni (sbr. orðalagið „staðfest með réttargjörð“) sem framangreint ákvæði gerir ráð fyrir, en samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu er gert ráð fyrir að sýslumaður kanni á þessu stigi hvort beiðni sé í lögmætu formi, hvort augljósir efnislegar annmarkar séu á rétti gerðarbeiðanda o.s.frv. Lög um nauðungarsölu gera ráð fyrir því að ágreiningi varðandi slíkar fullnustugerðir megi skjóta til dómstóla, en sú leið er ekki í boði á því stigi sem mál okkar hjóna er á. Það að fyrirtakan sé auglýst í Lögbirtingablaðinu getur ekki haft þá þýðingu að krafan teljist ekki lengur umdeild, eins og augljóst má vera, og þrátt fyrir að ákvæði 1. mgr. greinar 2 í starfsleyfinu feli í sér að svigrúm Creditinfo Lánstrausts hf. sé rýmra til að skrá upplýsingar sem hafa verið löglega birtar í opinberum auglýsingum er ljóst af samhenginu að ákvæðið felur ekki í sér neina undantekningu frá banni við vinnslu upplýsinga um umdeildar skuldir.“
Einnig er í kvörtun vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga skal þess gætt við vinnslu slíkra upplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti (1. tölul.) og að þær skuli vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum (4. tölul.). Þá er vísað til þess að sömu meginreglur koma fram í 1. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust.
Með vísan til framangreinds er þess óskað í kvörtun að Persónuvernd grípi til aðgerða til að stöðva birtingu umræddra upplýsinga.
3.
Athugasemdir Creditinfo Lánstrausts hf.
Með bréfi, dags. 3. nóvember 2015, var Creditinfo Lánstrausti hf. veitt færi á að tjá sig um framkomna kvörtun. Fyrirtækið svaraði með bréfi, dags. 16. s.m. Þar er meðal annars vikið að túlkun á ákvæðinu um bann við skráningu upplýsinga um umdeildar skuldir í 3. mgr. greinar 2.1 í áðurnefndu leyfi, dags. 29. desember 2014. Um það segir:
„Félagið hefur litið svo á að 3. mgr. greinar 2.1 eigi við um þær skráningar sem berast frá áskrifendum um vanskil krafna en ekki um þær skráningar sem aflað er úr opinberum gögnum, þ. á m. auglýsingum sýslumanna um nauðungarsölur, enda tekur 2. mgr. greinarinnar á því að slíkar skráningar séu heimilar. Í 3. mgr. greinarinnar er talað um umdeildar skuldir sem ekki hafa verið staðfestar með réttargjörð. Þegar eign er seld nauðungarsölu er um það að ræða að kröfuhafi hefur undir höndum fjárnám í eign sem gert hefur verið á grundvelli aðfararhæfrar kröfu eða beina uppboðsheimild skv. ákvæðum veðskuldabréfs. Ekki er því um það að ræða að kröfuhafi þurfi að hefja innheimtuaðgerðir með birtingu stefnu og nýta dómstóla til að fá kröfu sína staðfesta. Lög um nauðungarsölu nr. 90/1991 heimila að krafist sé nauðungarsölu á þinglýstum samningi um veðrétt í eign fyrir tiltekinni peningakröfu án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms.“
Vísað er til þess í bréfinu að upplýsingar um fyrirtökur eru opinberar, þ.e. sýslumaður hefur tekið ákvörðun sem birt er opinberlega í Lögbirtingablaði, dagblaði eða á vef sýslumannsembættanna. Þá er vísað til þess í bréfinu að í fyrrnefndum úrskurði Persónuverndar, dags. 25. ágúst 2015, hafi verið höfð hliðsjón af norrænni framkvæmd. Í því sambandi segir að í leyfum norsku persónuverndarstofnunarinnar, Datatilsynet, til vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, sé á því byggt að upplýsingar úr opinberum auglýsingum, þ. á m. um nauðungarsölubeiðnir, megi birta. Ákvæði leyfanna um umdeildar skuldir eigi við um innheimtukröfur sem ekki eru aðfararhæfar. Þá segir meðal annars:
„Margir viðskiptavina Creditinfo Lánstrausts hf. nýta þjónustu félagsins til að fylgjast með opinberum gjörðum sem auglýstar hafa verið opinberlega, s.s. fyrirtökur nauðungarsölu, til þess meðal annars að geta gætt hagsmuna sinna. Óeðlilegt væri að upplýsingar sem birtar eru í opinberum auglýsingum beri að afmá af skrá fjárhagsupplýsingastofu sem miðlar og hefur heimild til að miðla upplýsingum um opinberar gerðir. Miðlun fjárhagsupplýsingastofu væri í þeim tilfellum röng, þar sem fyrirtakan eða gjörðin hefur verið auglýst og hefur eða mun fara fram. Ekki verður annað séð en að við slíka vinnslu séu virtar meginreglur persónuverndarlaga um að upplýsingar séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að persónuupplýsingar séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum.“
Segir með vísan til framangreinds að hér um ræði vinnslu sem nauðsynleg sé í þágu lögmætra hagsmuna og verði ekki séð að frelsi hins skráða til að fá upplýsingar afmáðar vegna afstöðu sinnar til réttmæti kröfu, gegn andmælum kröfuhafa, eigi að vega þyngra.
4.
Athugasemdir kvartanda
Með bréfi, dags. 24. nóvember 2015, var kvartanda veitt færi á að tjá sig um framangreint svar Creditinfo Lánstrausts hf. Hann svaraði með bréfi, dags. 18. desember s.á. Þar er því mótmælt að 3. mgr. greinar 2.1 í fyrrnefndu leyfi, þar sem lagt er bann við vinnslu upplýsinga um umdeildar skuldir, eigi ekki við um skráningar sem byggjast á opinberum gögnum. Segir að það standist ekki að halda því fram að engar takmarkanir gildi um öflun og miðlun persónuupplýsinga þó að þær teljist opinberar. Megi raunar halda því fram að einn tilgangurinn með lögum um persónuvernd sé einmitt sá að takmarka vinnslu á opinberum upplýsingum, enda hljóti auðvelt aðgengi að slíkum upplýsingum að auka hættu á misnotkun. Þá segir:
„Bent er á að staða ákvæðisins um bann við vinnslu upplýsinga um umdeildar skuldir staðfestir að ákvæðið á við um upplýsingar sem hafa birst í opinberum auglýsingum. Kemur bannið um umdeildar skuldir enda fram í 3. mgr. greinar 2.1 í starfsleyfinu í beinu framhaldi af 2. mgr., þar sem tekið er fram að heimil sé vinnsla upplýsinga sem birtar hafa verið í opinberum auglýsingum. Ljóst er að lög gera ráð fyrir því að nauðungarsölur eða fyrirtökur í slíkum málum séu auglýstar með ákveðnum hætti af sýslumanni, en sú staða veitir ekki sjálfkrafa leyfi til að safna upplýsingum og miðla þeim. Þá skiptir máli að enginn fyrirvari er gerður í 3. mgr. um að reglan eigi ekki við um opinberar upplýsingar og á bannið því við þær fullum fetum samkvæmt rökréttu samhengi.
Kjarni málsins er sá að svigrúm Creditinfo Lánstrausts hf. til að miðla upplýsingum úr opinberum auglýsingum er eðli málsins samkvæmt rýmra en ella. Það svigrúm takmarkast hins vegar m.a. af reglunni um umdeildar skuldir, enda augljós rök þar að baki.“
Einnig er lýst þeirri afstöðu að þegar auglýst er fyrirtaka á nauðungarsölubeiðni liggi ekki fyrir mat sýslumanns á áreiðanleika upplýsinga um kröfuna. Í því sambandi áréttar kvartandi það sem segir í kvörtun, dags. 30. september 2015, um efni 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/1991. Þá segir meðal annars:
„Í bréfi Creditinfo Lánstrausts hf. virðist því haldið fram að þarfir viðskiptavina fyrirtækisins réttlæti eitthvert meira svigrúm fyrir það til að miðla persónuupplýsingum úr opinberum auglýsingum. Hér virðist fyrirtækið ekki átta sig á því að í lögum um nauðungarsölur er gert ráð fyrir því að slíkar fullnustugerðir séu auglýstar með ákveðnum hætti, en hvergi kemur fram að þessar upplýsingar eigi að koma fram á svokallaðri „Vanskilaskrá“ fyrirtækisins Creditinfo Lánstrausts hf.“
Að auki er vikið að því sem fram kemur í bréfi Creditinfo Lánstrausts hf., dags. 16. nóvember 2015, um að vinnsla umræddra upplýsinga þjóni lögmætum hagsmunum sem vegi þyngra en frelsi hins skráða. Segir meðal annars að úr því megi lesa þá afstöðu fyrirtækisins að skráður einstaklingur eigi mjög takmarkaðan rétt á að persónuupplýsingum sé eytt ef kröfuhafi andmælir því. Þá segir að það virðist líta á sig sem eins konar opinbert vald sem þurfi lítið að taka tillit til einstaklinga og fyrirtækja sem lenda í þeirri aðstöðu að eiga undir högg að sækja þjóni það ekki hagsmunum kröfuhafa.
II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Gildissvið – Ábyrgðaraðili að vinnslu
Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. sömu greinar. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að hér ræðir um meðferð persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.
Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst Creditinfo Lánstraust hf. vera ábyrgaraðili að umræddri vinnslu.
2.
Lagaumhverfi
Svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil verður ávallt að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hefur verið litið svo á að vinnsla upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust geti meðal annars átt sér stoð í 7. tölul. 1. mgr. þeirrar greinar, þ.e. á þeim grundvelli að vinnsla sé nauðsynleg í þágu lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, sbr. 45. gr. laga nr. 77/2000, er söfnun og skráning slíkra upplýsinga um einstaklinga, í því skyni að miðla þeim til annarra, óheimil án leyfis Persónuverndar. Tekið er fram í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar að handhafa slíks leyfis, sem nefndur er fjárhagsupplýsingastofa, sé einungis heimilt að vinna með upplýsingar sem eðli sínu samkvæmt hafa afgerandi þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða.
Creditinfo Lánstraust hf. hefur haft með höndum vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli leyfa samkvæmt reglugerð nr. 246/2001, en þegar atvik máls þessa áttu sér stað í var í gildi slíkt leyfi til handa fyrirtækinu, dags. 29. desember 2014 (mál nr. 2014/1640). Samkvæmt 2. mgr. greinar 2.1 í leyfinu, sbr. sama ákvæði í gildandi leyfi, dags. 28. desember 2015 (mál nr. 2015/1428), var heimilt að vinna með upplýsingar sem höfðu verið löglega birtar í opinberum auglýsingum, en í máli þessu ræðir um slíkar upplýsingar, þ.e. um nauðungarsölubeiðni auglýsta af sýslumanni í samræmi við 19. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þá sagði meðal annars í 3. mgr. greinar 2.1 í leyfinu, sbr. og sama ákvæði í gildandi leyfi: „Óheimil er vinnsla upplýsinga um umdeildar skuldir. Það á við ef skuldari hefur andmælt skuld og hún ekki verið staðfest með réttargjörð.“
Framangreint ákvæði var fyrst fært inn í leyfi til Creditinfo Lánstrausts hf. árið 2012, sbr. 3. mgr. greinar 2.1 í leyfi fyrirtækisins, dags. 19. september þ.á. (mál nr. 2012/266). Var þar byggt á norrænum fyrirmyndum, þ. á m. stöðluðum skilmálum norsku persónuverndarstofnunarinnar fyrir fjárhagsupplýsingastofur, dags. 30. nóvember 2011. Segir þar, í grein 1.3.2, að innheimtuupplýsingar, sem tengist umdeildri kröfu, megi ekki nýta í starfsemi fjárhagsupplýsingastofu og skuli leggja huglæga afstöðu skuldara til grundvallar því hvort krafa teljist umdeild. Einnig segir að ekki sé lengur um umdeilda kröfu að ræða þegar fyrir liggi endanleg réttargjörð í málinu. Þá kemur meðal annars fram að krafa teljist ekki umdeild þegar fyrir liggi aðfararheimild samkvæmt grein 7-2 í þarlendum aðfararlögum (lov om tvangsfullbyrdelse, nr. 1992-06-26-86). Þó megi ekki nota upplýsingar um kröfu í starfsemi fjárhagsupplýsingastofu hafi verið stigin réttarleg skref (n. tatt rettslige skritt) til að hnekkja aðfararheimildinni.
Aðfararheimildir að íslenskum rétti eru taldar upp í 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Á meðal þeirra eru skuldabréf fyrir ákveðinni peningaupphæð, hvort sem veðréttindi hafa verið veitt fyrir skuldinni eða ekki, þar sem undirskrift skuldara er vottuð af lögbókanda, hæstaréttar- eða héraðsdómslögmanni, löggiltum fasteignasala eða tveimur vitundarvottum, ef berum orðum er tekið fram í ákvæðum skuldabréfsins að aðför megi gera til fullnustu skuldinni án undangengins dóms eða réttarsáttar, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna. Það skuldabréf, sem um hér um ræðir, fellur undir þessa skilgreiningu.
Um skilyrði nauðungarsölu er fjallað í 6. gr. laga nr. 90/1991. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. þeirrar greinar má nauðungarsala fara fram á grundvelli þinglýsts samnings um veðrétt í eigninni fyrir tiltekinni peningakröfu ef berum orðum er tekið fram í samningnum að nauðungarsala megi fara fram til fullnustu kröfunni án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Umrætt skuldabréf heyrir undir þetta ákvæði.
Í 13. gr. laga nr. 90/1991 er fjallað um meðferð sýslumanns á nauðungarsölubeiðni. Segir í 1. mgr. þeirrar greinar að hann hann kanni, eftir því sem við á, hvort beiðnin og sá grundvöllur, sem hún byggist á, séu í lögmætu formi, augljósir, efnislegir annmarkar séu á rétti gerðarbeiðanda, réttilega sé greint frá gerðarþola ef heimild yfir eigninni er þinglýst eða skráð með samsvarandi hætti, réttilega hafi verið staðið að áskorun til gerðarþola og beiðnin sé komin fram í réttu umdæmi. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að telji sýslumaður atvik vera fyrir hendi, sem valdi því að beiðni verði hafnað vegna ákvæða 1. mgr. eða af öðrum sambærilegum ástæðum, endursendi hann beiðnina þegar í stað ásamt stuttum rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Gerðarbeiðandi geti leitað úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns.
Frekari fyrirmæli um meðferð nauðungarsölubeiðna er að finna í 16. gr. laga nr. 90/1991. Segir í 1. mgr. þeirrar greinar að sýslumaður skuli, þegar staðreynt hefur verið að beiðni fullnægi skilyrðum 1. mgr. 13. gr. laganna, ákveða svo fljótt sem auðið er fyrirtöku hennar og senda gerðarþola afrit hennar í ábyrgðarbréfi eða með öðrum tryggum hætti, ásamt tilkynningu um hvar og hvenær hún verði tekin fyrir. Samkvæmt 19. gr. sömu laga skal sýslumaður, þegar tilkynnt hefur verið um nauðungarsölubeiðni í samræmi við framangreint, gefa út auglýsingu um nauðungarsölu.
Í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991 mælir fyrir um meðferð ágreinings, sem verður við fyrirtöku nauðungarsölubeiðni, um hvort salan fari fram eða hvernig að henni verði staðið. Segir meðal annars að mótmæli af hendi gerðarþola skuli að jafnaði ekki stöðva nauðungarsölu nema þau varði atriði sem sýslumanni ber að gæta af sjálfsdáðum eða sýslumaður telur þau annars valda því að óvíst sé að gerðarbeiðandi eigi rétt á að nauðungarsalan fari fram. Taki sýslumaður ekki til greina mótmæli gerðarþola stöðvi það ekki frekari aðgerðir að hlutaðeigandi lýsi því yfir að hann muni bera gildi nauðungarsölunnar undir héraðsdóm, sbr. ákvæði XIV. kafla laganna.
Samkvæmt athugasemdum við 2. mgr. 22. gr. í greinargerð með því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 90/1991, gefur orðalag ákvæðisins líkindi fyrir niðurstöðu gerðarbeiðanda í hag. Þá segir meðal annars að mótmæli gerðarþola gegn efnislegu réttmæti kröfu gerðarbeiðanda yrðu að vera studd verulega haldgóðum rökum til þess að sýslumanni væri rétt að stöðva frekari nauðungarsölu vegna þeirra.
3.
Niðurstaða
Eins og fyrr er rakið sendi kvartandi Creditinfo Lánstrausti hf. bréf, dags. 1. september 2015, að fengnum tilkynningum fyrirtækisins, dags. 18. ágúst s.á., um fyrirhugaða skráningu upplýsinga um nauðungarsölubeiðni Arion banka hf. á hendum honum og eiginkonu hans vegna vanefnda á tiltekinni kröfu. Í bréfinu mótmælti kvartandi skráningunni með vísan til þess að krafan væri umdeild. Þá liggur fyrir að fyrirtækinu hafði borist afrit af bréfi lögmanns kvartanda og eiginkonu hans til Arion-banka hf., dags. 21. nóvember 2014, þar sem lögmæti kröfunnar var mótmælt.
Til þess er hins vegar að líta að lög nr. 90/1991 um nauðungarsölu bera með sér þá afstöðu löggjafans að þegar sýslumaður auglýsir nauðungarsölu séu líkindi á, í ljósi þess ferlis sem þá hefur átt sér stað, að gerðarbeiðandi eigi þann rétt sem liggur til grundvallar beiðni um söluna. Verður þetta meðal annars ráðið af þeim takmörkuðu réttarúrræðum sem gerðarþoli hefur við nauðungarsölu, en ólíkt gerðarbeiðanda getur hann ekki stöðvað framkvæmd nauðungarsölu með því að bera ágreining undir héraðsdóm, sbr. þau ákvæði þar að lútandi sem fyrr eru rakin. Þegar litið er til þessa telur Persónuvernd að sú ákvörðun sýslumanns að auglýsa nauðungarsölu, sem tekin er eftir athugun hans samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/1991, feli í sér réttargerð sem staðfesti skuld í skilningi áðurnefnds ákvæðis 3. mgr. greinar 2.1 í leyfum Persónuverndar til handa Creditinfo Lánstrausti hf. til vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga í því skyni að miðla þeim til annarra. Jafnframt skal hins vegar tekið fram að fallist sýslumaður á mótmæli gerðarþola, t.d. á grundvelli þess að hann telji fyrirliggjandi réttarágreining eiga að hamla gerðinni, verður að líta svo á að ekki sé lengur í gildi réttargerð samkvæmt starfsleyfisákvæðinu. Af því leiðir þá jafnframt að hafi verið um að ræða umdeilda skuld, sem ekki mátti færa á skrá samkvæmt reglugerð nr. 246/2001 fram að birtingu auglýsingar um nauðungarsölubeiðni, ber að fjarlægja upplýsingar um beiðnina af skránni.
Með vísan til framangreinds er niðurstaða Persónuverndar sú að ákvæði 3. mgr. greinar 2.1 í leyfi Persónuverndar til handa Creditinfo Lánstrausti hf., dags. 29. desember 2014, hafi ekki átt við um upplýsingar um þá nauðungarsölubeiðni Arion-banka hf. sem varð tilefni bréfa fyrirtækisins um fyrirhugaða skráningu upplýsinganna, dags. 18. ágúst 2015. Ekki hafi því verið um að ræða upplýsingar um umdeilda kröfu í skilningi ákvæðisins, en af því hafi jafnframt leitt að færa hafi mátt upplýsingarnar á skrána með heimild í 2. mgr. umræddrar greinar leyfisins.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Creditinfo Lánstrausti hf. var heimilt að færa upplýsingar um beiðni um nauðungarsölu á fasteign [A] og [B] á skrá fyrirtækisins um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga.