Úrskurður Persónuverndar í máli nr. 2016/584
Úrskurður
Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 26. október 2016 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2016/584:
I.
Málsmeðferð
1.
Tildrög máls
Þann 18. mars 2016 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi) yfir miðlun persónuupplýsinga um hann frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu til barnaverndarnefndar Kópavogs. Í kvörtuninni kemur fram að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi miðlað til barnaverndarnefndarinnar lögregluskýrslu sem gerð hafi verið vegna ágreinings kvartanda við unnustu sína. Barn kvartanda, sem átti lögheimili hjá móður sinni, hafi ekki verið á heimilinu þegar atvikið sem skýrslan tók til átti sér stað, en það megi m.a. sjá á tilkynningu lögreglu til barnaverndarnefndarinnar. Lögreglu beri hins vegar einungis að tilkynna barnaverndaryfirvöldum um atvik þar sem börn séu gerendur eða þolendur.
Tilkynningu lögreglu til barnaverndarnefndar Kópavogs, sem fylgir kvörtuninni, fylgir yfirlit yfir bókanir lögreglu vegna ágreinings og ætlaðs heimilisofbeldis á heimili kvartanda þann [...].
2.
Bréfaskipti
Með bréfi, dags. 18. maí 2016, var Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 2. júní 2016, kemur fram að miðlun upplýsinga og gagna úr málinu, sem kvörtunin snúist um, hafi verið byggð á IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum 16, 17. og 18. gr. þeirra. Rannsóknir og fræði hafi sýnt að heimilisofbeldi á heimili foreldra barna, hvort heldur er lögheimili eða heimili þar sem börn koma í umgengni, hafi áhrif á þau. Áhrif slíks ástands kunni að hafa sömu eða sambærilegar afleiðingar á börn hvort sem þau séu sjálf beitt ofbeldi, verði vitni að ofbeldi eða búi við aðstæður þar sem slíkt ástand ríkir. Breyti þannig engu hvort barn sé statt á heimili eður ei, enda kunni heimilisofbeldi að hafa bein áhrif á börn og uppeldisaðstæður þeirra og því kunni barni að vera hætta búin, sbr. a-, b- og c-lið 1. mgr. 16. gr. laga nr. 80/2002. Kvartandi hafi verið handtekinn vegna ætlaðs heimilisofbeldis og því hafi barnaverndarnefnd Kópavogs, þar sem barn kvartanda eigi lögheimili, verið tilkynnt um atvikið.
Með bréfi, dags. 8. júlí 2016, ítrekuðu 16. ágúst og 12. september s.á., var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki bárust svör frá kvartanda.
II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Gildissvið laga nr. 77/2000
Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.
Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. sömu greinar.
Af framangreindu er ljóst að miðlun Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til barnaverndarnefndar Kópavogs á upplýsingum og gögnum um ætlað heimilisofbeldi á heimili kvartanda þann [...] fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.
Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vera ábyrgðaraðili umræddrar vinnslu.
2.
Lögmæti vinnslu
Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að samrýmast einhverri af kröfum 8. gr. laga nr. 77/2000. Þá verður vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, svo sem upplýsinga um að maður hafi verið grunaður um refsiverðan verknað, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. sömu laga, að samrýmast einhverju af viðbótarskilyrðum 9. gr. laganna.
Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 er vinnsla persónuupplýsinga heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila. Þá er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga heimil á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. sömu laga ef sérstök heimild stendur til vinnslunnar samkvæmt öðrum lögum.
Í a-c-lið 1. mgr. 16. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 kemur fram að öllum sé skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi, eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Þá kemur fram í 1. mgr. 18. gr. sömu laga að ef lögregla verði þess vör að barn búi við aðstæður eins og lýst er í 16. gr. skuli hún tilkynna barnaverndarnefnd um það.
Af hálfu lögreglu hefur þeirri afstöðu verið lýst að það hvort barn hafi verið viðstatt ætlað heimilisofbeldi þurfi ekki að skipta máli um hvort aðstæður á heimili séu þess eðlis að umrædd tilkynningarskylda eigi við. Persónuvernd telur það ekki falla í sinn hlut að endurskoða þetta mat lögreglu, enda mátti gera ráð fyrir að kvartandi nyti umgengni við barn sitt. Í ljósi þess telur Persónuvernd að miðlun upplýsinga og gagna um ætlað heimilisofbeldi á heimili kvartanda til barnaverndarnefndar í því sveitarfélagi, þar sem barn hans átti lögheimili, hafi mátt styðja við heimild í 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.
Öll vinnsla persónuupplýsinga verður jafnframt að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu. Þar er meðal annars mælt fyrir um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.), og að þær skuli vera nægilegar og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.).
Með vísan til framangreinds, m.a. þess sem fyrr segir um í hvaða mæli Persónuvernd endurskoði mat lögreglu á nauðsyn tilkynninga samkvæmt lögum nr. 80/2002, er niðurstaða stofnunarinnar sú að miðlun lögreglu á gögnum og upplýsingum til barnarverndarnefndar Kópavogs hafi ekki farið í bága við sanngirnisreglu 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 og meðalhófsreglu 3. tölul. sömu málsgreinar.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Miðlun Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á upplýsingum og gögnum um ætlað heimilisofbeldi á heimili kvartanda til barnaverndarnefndar Kópavogs samrýmdist lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.