Úrlausnir

Útdráttur í máli Persónuverndar nr. 2015/1015

5.4.2017

Kvartað var yfir forsíðufrétt, blaðagrein og mynd af kvartanda sem áður höfðu birst í fjölmiðli en voru endurbirtar á vefnum Tímarit.is. Fór kvartandi fram á að Landsbókasafni – háskólabókasafni, sem hefur umsjón með vefnum Tímarit.is, yrði gert að fjarlægja umfjöllunina af vefnum. Þá fór kvartandi fram á að Persónuvernd endurskoðaði þá ákvörðun Google Inc. að hafna beiðni kvartanda um að leitarniðurstöður leitarvélarinnar Google, sem vísuðu á fyrrgreinda umfjöllun á Tímarit.is þegar leitað var eftir nafni kvartanda, yrðu fjarlægðar.

Undir rekstri málsins hjá Persónuvernd ákvað Google Inc. að endurskoða afstöðu sína til beiðni kvartanda og fjarlægja þær leitarniðurstöður sem kvörtunin tilgreindi. Persónuvernd tók því eingöngu til umfjöllunar þann hluta kvörtunarinnar sem sneri að vefnum Tímarit.is.

Í niðurstöðu Persónuverndar er vísað til 4. gr. laga nr. 142/2011, um Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, þar sem fjallað er um verkefni safnsins. Samkvæmt a-lið 4. gr. rækir safnið hlutverk sitt meðal annars með því að annast alhliða upplýsinga- og þekkingarmiðlun til almennings, fræðimanna og annarrar vísinda- og fræðslustarfsemi í landinu með leiðsögn og aðgengi að upplýsingalindum í hvaða formi sem er. Þá er vísað til 11. gr. reglugerðar nr. 170/2014, um Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, þar sem segir að bókasafnið skuli sjá notendum fyrir aðgengi að stafrænum gögnum eftir því sem tök eru á. Það skuli kosta kapps um að nýta nýjustu upplýsingatækni til að færa gögn safnsins á stafrænt form og gera þau þannig aðgengileg. Persónuvernd taldi birtingu efnis á vefnum Tímarit.is samrýmast framangreindu hlutverki Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns.

Í niðurstöðunni segir því næst að samkvæmt 5. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, megi víkja frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta að því marki sem það sé nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar. Þegar persónuupplýsingar séu einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi gildi aðeins nánar tiltekin ákvæði laganna. Í ljósi framangreinds hlutverks Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og þess að hér ræddi um efni sem birtist í fjölmiðli og varðaði opinbera umræðu taldi Persónuvernd að þau rök sem 5. gr. laganna byggist á ættu hér við. Í því fælist nánar tiltekið að með efnislegri úrlausn varðandi umrædda birtingu, þar á meðal úrlausn um það hvort umræddum blaðagreinum skyldi eytt af vefnum, yrði að taka afstöðu til þess hvor rétturinn vægi þyngra, tjáningarfrelsið, skv. 73. gr. stjórnarskrárinnar, eða friðhelgi einkalífs, skv. 71. gr. hennar. Þess var getið að í athugasemdum við 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. athugasemdir við 11. gr. frumvarps þess sem síðar varð að stjornskipunarlögum nr. 97/1995, kæmi fram að ganga mætti út frá því að réttur manna til að taka við tjáningu frá öðrum og miðla skoðunum þeirra áfram fælist í 2. mgr. ákvæðisins.

Vísað er til þess í niðurstöðunni að samkvæmt 37. gr. laga nr. 77/2000 hefur Persónuvernd það hlutverk að úrskurða í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga á Íslandi. Einnig segir hins vegar að ekki verði litið svo á að í þessu felist að stofnunin hafi vald til að taka bindandi ákvörðun um mörk réttinda samkvæmt framangreindum stjórnarskrárákvæðum, heldur verði slíkt talið heyra undir dómstóla. Eins og hér hátti til fæli efnisleg úrlausn Persónuvernd í sér niðurstöðu um mörk þessara réttinda. Kvörtuninni sé því vísað frá.



Var efnið hjálplegt? Nei