Úrlausnir

Listi yfir banaslys

1.6.2006

Á k v ö r ð u n


Hinn 19. janúar 2006 tók stjórn Persónuverndar svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2005/460:

I.
Bréfaskipti

Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta af tilefni birtingar lista á heimasíðu A, . . ., yfir banaslys á Íslandi. Koma þar fram nöfn þeirra sem látið hafa lífið í slíkum slysum, aldur þeirra og hvernig slysin atvikuðust. Með bréfi, dags. 5. september 2005, óskaði Persónuvernd þess að félagið greindi frá því í hvaða tilgangi listinn væri birtur, sem og við hvaða heimild birtingin styddist.


Svarað var með bréfi, dags. 27. september 2005. Þar segir:

"[A] hóf fljótlega eftir stofnun félagsins að taka saman fjölda sjóslysa á hverju ári og birta í árbók sinni. Upp úr 1940 fór félagið að taka saman öll banaslys og hefur gert það alla tíð síðan þá og birt í árbók sinni. Farið var að skrá í Slysaskrá Íslands árið 2002 en þessar upplýsingar er enn ekki hægt að sækja þar, þar sem aðeins hluti skráningaraðila er farinn að skrá í grunninn og meðan svo er hefur [A] ákveðið að taka saman þessar tölur.

2003 fór [A] að setja upplýsingar um skráð banaslys á heimasíðu sína. Þær upplýsingar sem koma þar fram, sem eru þær sömu og eru í árbók félagsins, eru fengnar úr Morgunblaðinu, Fréttablaðinu eða Blaðinu og á það jafnt við nafn, aldur, staðsetningu slyss, tildrög slyss, slysadag og aðstandendur þess látna."


Eftir að þetta bréf barst Persónuvernd sendi hún A nýtt bréf, dags. 4. október 2005. Þar er bent á að ekki er svarað fyrirspurn stofnunarinnar um tilganginn með birtingu umræddra upplýsinga. Fyrirspurn stofnunarinnar í framangreindu bréfi, dags. 5. september 2005, var því ítrekuð.


Félagið svaraði með bréfi, dags. 17. október 2005. Þar segir:

"Ástæða fyrir þessari skráningu hefur frá upphafi verið í forvarnarskyni. Að skapa umræðu um banaslys, orsök þeirra, staðsetningu og tíðni. Án umræðu er ekki unnið að slysavörnum og án vitneskju um hvaða slys verða helst er heldur ekki hægt að átta sig á hvar eigi að leggja áherslurnar. Vegna þessa hefur félagið lagt kapp á að skrá þessar upplýsingar hjá sér."


 

Einnig segir:

"Ef félagið er að brjóta lög með því að hafa þessar upplýsingar á heimasíðu sinni kemur félagið til með að taka þessar upplýsingar strax þaðan, en ekki síst í heimildarlegum tilgangi telur félagið mikilvægt að þessar upplýsingar birtist áfram í árbók félagsins."

II.
Ákvörðun Persónuverndar
1.

Tilefni þess að Persónuvernd tók mál þetta til athugunar er birting A á umræddum upplýsingum um banaslys á heimasíðu félagsins. Komið hefur fram að þessar upplýsingar hafa einnig verið birtar í árbók félagsins um langt skeið. Í ljósi þess hvernig málið var afmarkað í upphafi hefur stofnunin hins vegar ákveðið, eins og á stendur, að taka ekki afstöðu til þeirrar birtingar heldur einungis netbirtingarinnar.


2.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda lögin um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og einnig um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Með hugtakinu persónuupplýsingar er átt við ,,[s]érhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi," sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Þá merkir hugtakið vinnsla ,,[sérhverja] aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn." Með vinnslu er þannig t.d. átt við söfnun og skráningu og þar undir fellur m.a. flokkun, varðveisla, breyting, leit og miðlun.


Þegar litið er til framangreinds er ljóst – þrátt fyrir að þeir einstaklingar, sem um ræðir, séu látnir – að meðferð upplýsinga í umræddri skrá felur í sér vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir reglur laga nr. 77/2000 og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 37. gr. þeirra laga. Svo að þessi vinnsla sé heimil þarf, eins og ávallt við vinnslu persónuupplýsinga, að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 8. gr. sömu laga. Þar sem telja ber upplýsingar um dánarorsök til viðkvæmra persónuupplýsinga, þ.e. um heilsuhagi, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. laganna, þarf einnig, eins og ávallt við vinnslu slíkra upplýsinga, að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 9. gr. laganna.


Við túlkun á þessum skilyrðum ber að líta til markmiðsákvæðis 1. gr. þessara laga. Þar er kveðið á um að þeim sé ætlað að stuðla að því að farið sé með persónuupplýsingar í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs, sbr. og 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þegar litið er til þessara ákvæða telur Persónuvernd að tilgangurinn með því að veita upplýsingum um látna vernd samkvæmt lögum nr. 77/2000, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna, sé m.a. sá að tekið sé tillit til ættingja, einkum þegar um er að ræða málefni sem telja má geta verið viðkvæm, s.s. banaslys.


Persónuvernd telur, þegar litið er til þessara lagasjónarmiða, engu af skilyrðum 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 vera fullnægt um netbirtingu persónugreindra upplýsinga um banaslys í umræddri skrá. Er slík birting því ekki heimil. Aftur á móti skal tekið fram að telja ber heimilt að birta umrædda skrá að því gefnu að persónuauðkenni viðkomandi einstaklinga birtist ekki.


Á k v ö r ð u n a r o r ð:

Birting skráar með upplýsingum um banaslys og hvernig þau atvikuðust á heimasíðu A er heimil að því gefnu að ekki komi þar fram persónuauðkenni viðkomandi einstaklinga.



Var efnið hjálplegt? Nei