Úrlausnir

Meðferð upplýsinga um mætingar í grunnskóla

21.8.2006

Hinn 14. ágúst sl. kvað Persónuvernd upp úrskurð um meðferð upplýsinga um mætingar í grunnskóla.

Kvartað var yfir notkun á upplýsingum um mætingar í Grunnskóla Grindavíkur í tengslum við hátíð fyrir unglinga sem haldin var á vegum Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, en B hafði ekki fengið miða á hátíðina þar sem hann hafði ekki sýnt ásættanlega skólamætingu.

Hinn 14. ágúst sl. kvað Persónuvernd upp úrskurð um meðferð upplýsinga um mætingar í grunnskóla.

Kvartað var yfir notkun á upplýsingum um mætingar í Grunnskóla Grindavíkur í tengslum við hátíð fyrir unglinga sem haldin var á vegum Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, en B hafði ekki fengið miða á hátíðina þar sem hann hafði ekki sýnt ásættanlega skólamætingu.

Skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur upplýsti um að tekinn hefði verið saman listi um þá nemendur sem hefðu sýnt óásættanlega skólasókn. Tilgangurinn með gerð listans var að nota hann í foreldraviðtölum og til að fylgjast með mætingum nemenda til þess að ná fram bættri skólasókn. Listinn var merktur sem trúnaðarmál og ekkert leyfi var veitt til að nota hann í öðrum tilgangi.

 

F, sem vann að félagsmálum á vegum Grindavíkurbæjar, kenndi jafnframt við skólann og fékk listann þannig í hendur. Þegar kom að því að útdeila miðlum á Samfés-hátíðina setti hún það skilyrði fyrir úthlutun að skólasókn yrði að vera í lagi og notaði listann síðan sem viðmið um það. Áður hafði hún ráðfært sig við aðra kennara skólans, en úthlutun miða á Samfés-hátíðina var ekki liður í starfi hennar fyrir grunnskólann, heldur fyrir félagsmiðstöðina.

 

Í niðurstöðu Persónuverndar kemur fram að notkun lista um mætingar nemenda í þeim tilgangi að nota í foreldraviðtölum og til að fylgjast með mætingum nemenda með tilliti til þess að ná fram bættri skólasókn sé lögmæt. Önnur notkun hans, þ.e. sú að nota hann til að meina tilteknum nemendum aðgangi að skemmtunum á vegum annarra aðila, sé það hins vegar ekki og teljist því ekki hafa verið lögmæt. Persónuvernd lagði því fyrir skólastjóra Grunnskóla Grindavíkur að bregðast við með viðhlítandi ráðstöfunum með það fyrir augum að draga úr hættu á að slíkt endurtaki sig og gera Persónuvernd grein fyrir þeim eigi síðar en 1. nóvember 2006.

 

Úrskurðurinn er birtur hér.





Var efnið hjálplegt? Nei