Úrlausnir

Ákvörðun varðandi umsóknareyðublöð hjá Menntaskólanum Hraðbraut

Ákvörðun

Hinn 5. október 2007 tók stjórn Persónuverndar svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2007/514:

I.

Bréfaskipti

1.

Með bréfi, dags. 13. júlí 2007, ítrekuðu með bréfi, dags. 30. ágúst s.á., óskaði Persónuvernd skýringa varðandi öflun tiltekinna upplýsinga um umsækjendur um skólavist hjá Menntaskólanum Hraðbraut, þ.e. með umsóknareyðublaði þar sem segir m.a.:

„Umsækjendur eru beðnir um að svara neðangreindum spurningum

(athugið: Rangt svar við þessum spurningum getur varðað brottvísun úr skólanum)

Átt þú við lestrarerfiðleika að stríða? Svarið já eða nei: _________

Átt þú við ofvirkni, athyglisbrest eða hegðunarvandamál að stríða? Svarið já eða nei: _________

Átt þú við einhver líkamleg veikindi að stríða? Svarið já eða nei: _________

Hefur þú leitað læknisaðstoðar vegna sálrænna vandamála? Svarið já eða nei: _________

Hefur þú leitað aðstoðar vegna áfengis- eða vímuefnaneyslu? Svarið já eða nei: _________

Reykir þú? Svarið já eða nei: _________"

Þau atriði, sem Persónuvernd óskaði skýringa á, eru sem hér greinir:

Á hvaða heimild Menntaskólinn Hraðbraut telur umrædda upplýsingaöflun byggjast.

Hvernig hann telur meðferð umræddra upplýsinga horfa við 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, en þar er mælt fyrir um að persónuupplýsingar skulu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi.

Hvernig hann telur meðferð upplýsinganna horfa við 3. tölul. 1. mgr. 7. gr., en þar er mælt fyrir um að persónuupplýsingar skulu vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar.

Hvernig hann telur meðferð upplýsinganna horfa við reglum um sjálfræði, en gera má ráð fyrir að flestir umsækjenda séu enn ekki orðnir sjálfráða. Reynir þá á hvort þeir hafa sjálfir forræði til að veita allar framangreindar upplýsingar eða hvort samþykki foreldra þurfi til.

2.

Menntaskólinn Hraðbraut svaraði með bréfi, dags. 3. september 2007. Þar segir:

„Áður en ég tek mig til og svara spurningum þínum vil ég útskýra hvers vegna upplýsinganna er aflað sem óskað er eftir á umsóknareyðublaðinu.

Þegar skólinn tók til starfa haustið 2003 var stefnt að því að taka eingöngu inn nemendur (16 ára) sem koma beint úr grunnskóla. Strax kom þó í ljós mikill áhugi „eldra fólks" á að koma í skólann. Þannig sóttu stíft að komast í skólann nemendur sem höfðu guggnað á námi í öðrum skólum. Hópur slíkra nemenda var tekinn í skólann og flestir þeirra stóðu sig með mikilli prýði. Hluti hópsins heltist þó úr lestinni engu að síður. Það sem var óeðlilegt að okkar mati var hve stór hluti þessa hóps hætti, á sama tíma og nær enginn þeirra nemenda hætti sem kom beint úr grunnskóla. Samkvæmt reglum skólans, sem koma fram á umsóknareyðublaðinu, fá nemendur sem hætta námi ekki endurgreidd skólagjöld, en þau eru kr. 190.000. Þau eru innheimt áður en skólastarf hefst.

Við inntöku eru umsækjendur að taka fjárhagslega áhættu. Hið sama á einnig við skólann. Stuðningur ríkisins við skólann byggir á því að nemendur nái árangri og því afar mikilvægt að þeir hætti ekki námi. Þannig hefur skólinn af því beina hagsmuni að vel takist til við val nemenda. Einnig skiptir það miklu máli fyrir þá sem sækja um skólavist að þeim sé ekki hleypt inn í skólann og af þeim tekin skólagjöld ef fyrirsjáanlegt er að ekki eru forsendur fyrir umsækjandann til að ljúka námi. Reynslan hefur sýnt okkur að nemandi sem á við lestrarerfiðleika að stríða, ofvirkni, athyglisbrest, hegðunarvandamál, sum líkamleg veikindi, sálræn vandamál, áfengis- eða vímuefnavandamál er oft ekki líklegur til að fóta sig í því kröfuharða námi sem hér fer fram. Á því eru undantekningar og nemendur með öll þessi vandamál (ekki í einu þó) eru hér innandyra. Þegar umsækjandi svarar einhverri spurninganna játandi (að þeirri síðustu undantekinni) spyrjum við nánar út í þau atriði. Þannig reynum við að forðast eftir megni að taka inn umsækjendur sem ráða fyrirsjáanlega ekki við námið hér enda fylgir því mikil sálarangist og vanlíðan að missa fótanna í skóla. Teljum við að í vönduðu umsóknarferli fari hagsmunir umsækjanda og skólans saman. Þannig viljum við með tiltækum ráðum forðast að taka inn umsækjendur sem greiða hér kr. 190.000 í skólagjöld og eiga enga von um að ná árangri vegna atriða sem sjá má fyrirfram.

Þetta eru þau sjónarmið sem liggja að baki spurningunum á umsóknareyðublaðinu. Sérstök ástæða er til að vekja athygli á því að þetta umsóknareyðublað er ekki notað þegar um er að ræða umsækjendur sem koma beint úr grunnskóla (ólögráða), enda sækja þeir um í gegnum „Menntagátt" sem er rafrænt umsóknarkerfi sem var útbúið að tilhlutan menntamálaráðuneytisins og er í umsjón Skýrr/Innu.

Þú spyrð um á hvaða heimild við teljum upplýsingaöflunina byggjast. Því er til að svara að námsráðgjafi skólans, A, sendi lögfræðingi hjá Persónuvernd, B, fyrirspurn hinn 29. mars sl. og óskaði leiðbeininga varðandi spurningar sem settar voru á umsóknareyðublað skólans. Fyrirspurninni svaraði B síðan hinn 17. apríl. Samkvæmt málefnalegu svari B sýnist mér meginatriði við upplýsingaöflun sem þessa vera að „samþykkið sé upplýst og upplýsingaöflunin sé sanngjörn og málefnaleg." Í flestum tilvikum er farið yfir spurningarnar á umsóknareyðublaðinu með umsækjendum og þau sjónarmið kynnt sem rakin voru að framan. Með hliðsjón af þessu og því sem fram er komið, m.a. að um er að ræða einstaklinga sem eru sjálfráða, teljum við ekki að gengið sé fram með óeðlilegum eða ósanngjörnum hætti.

Upplýsinganna sem aflað er er gætt sem trúnaðarmáls. Einu aðilarnir sem hafa aðgang að upplýsingum eru skólastjóri, aðstoðarskólastjóri og námsráðgjafi. Kennarar skólans hafa ekki aðgang að upplýsingunum svo dæmi sé tekið.

Upplýsingarnar tel ég vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilganginn við upplýsingaöflunina. Þetta á þó ekki við um síðustu spurninguna, þ.e. þegar spurt er hvort viðkomandi reyki. Varðandi það atriði er því til að svara að „enginn tilgangur" er á bak við þá spurningu annar en forvitni. Stjórnendur skólans vildu gera sér grein fyrir hve stór hluti elsta nemendahópsins reykti. Ekkert hefur verið gert með þær upplýsingar og jákvætt svar við þeirri spurningu hefur ekki haft hin minnstu áhrif á gildi umsóknar og aldrei orðið tilefni sérstakra viðræðna á milli skólastjórnenda og umsækjenda.

Í þessum lið í bréfi þínu er gert ráð fyrir að flestir umsækjendur séu ekki orðnir sjálfráða. Það á þó ekki við þá sem fylla út umsóknareyðublað sem er tilefni fyrirspurnar þinnar. Eins og fram er komið eru þeir orðnir sjálfráða."

II.

Álit Persónuverndar

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

2.

Í c-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga kemur fram að upplýsingar um heilsuhagi, þ. á m. um lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, eru viðkvæmar persónuupplýsingar. Á umræddum umsóknareyðublöðum er beðið um upplýsingar sem beinlínis lúta að heilsufari, s.s. um líkamleg og sálræn veikindi, en einnig upplýsingar sem kunna að tengjast heilsufari, einkum um hegðunarvandamál. Svo að vinnsla upplýsinga um heilsufar sé heimil verður, eins og ávallt við vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 9. gr. laga nr. 77/2000 fyrir vinnslu slíkra upplýsinga. Þá verður ávallt að vera fullnægt einhverju hinna almennu skilyrða 8. gr. sömu laga sem gilda bæði um viðkvæmar og almennar persónuupplýsingar.

Við mat á því hvort heimild sé fyrir umræddri upplýsingaöflun í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 ber að líta til þeirra sérlaga og -reglugerða sem gilda um framhaldsskóla. Í 15. gr. laga nr. 80/2006 um framhaldsskóla er mælt fyrir um inntökuskilyrði í slíka skóla. Segir að allir sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun skuli eiga þess kost að hefja nám í framhaldsskóla. Þá segir m.a. að inntaka nemenda á einstakar námsbrautir ákvarðist af þeim kröfum sem gerðar séu í viðkomandi námi. Kveðið skuli á um lágmarkskröfur um námsárangur í einstökum greinum og greinaflokkum við lok grunnskóla og eftir atvikum starfsþjálfun, sbr. reglugerð nr. 98/2000 um innritun nemenda í framhaldsskóla. Í þeirri reglugerð er nánar vikið að kröfum í því efni, en ekki er að finna þar kröfur sem byggjast á öðru en námsárangri, enda er ekki að finna ákvæði í lögunum sem heimila setningu reglugerðarákvæða um slíkt.

Auk sérákvæða í lögum og reglugerðum um framhaldsskóla verður að líta til hinnar óskráðu lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Telja ber framhaldsskóla til þeirra opinberu stofnana, eða eftir atvikum hálfopinberra fyrirtækja, sem fara verða að þessari óskráðu meginreglu. Hún felur það í sér að stjórnvald má í störfum sínum aldrei fara út fyrir ramma þeirrar löggjafar sem um það gildir. Ekki verður því séð að við afgreiðslu umsókna um tiltekin réttindi, t.d. skólavist, megi setja skilyrði sem víkja frá lögbundnum skilyrðum eða viðbótarskilyrði sem hafa í för með sér takmörkun á lögbundnum réttindum.

Af umræddu umsóknareyðublaði verður ráðið að rétt svör við þeim spurningum, sem þar koma fram, séu í raun inntökuskilyrði, enda segir þar beinlínis að röng svör geti valdið brottvísun úr skóla. Í lögum um framhaldsskóla er hins vegar ekki mælt fyrir um heimild til að gera rétt svör við spurningum um heilsufarsatriði að skilyrði inngöngu í framhaldsskóla.

Þegar litið er til framangreinds telur Persónuvernd heimild skorta til umræddrar upplýsingaöflunar í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000. Hins vegar skal einnig tekið fram að öflun viðkvæmra persónuupplýsinga í tengslum við umsóknir um skólavist við framhaldsskóla verður þó ekki með öllu talin útilokuð. Telja ber upplýsingaöflunina heimila sé gætt að meðalhófssjónarmiðum, nemendur hafi frjálst val um hvort þeir veita viðkomandi upplýsingar og tilgangurinn sá sá að geta sinnt lögbundnum skyldum um þjónustu við t.d. fatlaða nemendur og lesblinda, sbr. 14. gr. laga um framhaldsskóla, en þar segir: „Nemendum í framhaldsskóla skal standa til boða ráðgjöf og leiðsögn um náms- og starfsval og persónuleg mál er snerta nám þeirra og skólavist. Slíka þjónustu veita námsráðgjafar, kennarar og annað starfsfólk eftir því sem við á."

Heimild til vinnslu í tilvikum sem þessum verður talin fólgin í 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um að vinna megi með persónuupplýsingar að fengnu samþykki hins skráða. Sé meðalhófs gætt og næg fræðsla veitt um tilgang vinnslunnar verður og m.a. talið fullnægt þeim grunnskilyrðum 1. mgr. 7. gr. laganna að við vinnslu persónuupplýsinga skal þess gætt að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi (2. tölul.) og að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.).

Ekki verður séð að öflun upplýsinga um reykingar umsækjenda samrýmist þessum kröfum, enda hefur komið fram af hálfu Menntaskólans Hraðbrautar að ekki sé neinn tilgangur með öflun þeirra upplýsinga. Þá er spurning um aðstoð vegna áfengis- eða vímuefnafíknar orðuð á þann hátt að óskað er svara jafnvel þótt viðkomandi umsækjandi hafi þegar sigrast á fíkninni. Hið sama gildir um spurningu um læknisaðstoð vegna sálrænna vandamála þar sem samkvæmt orðalagi er óskað svara þó svo að viðkomandi nemandi eigi ekki lengur við hin sálrænu vandamál að stríða. Þegar svo háttar til lúta upplýsingarnar að vandamálum sem ekki eru lengur til staðar. Öflun slíkra upplýsinga getur ekki talist fullnægja framangreindum kröfum.

Öflun annarra upplýsinga, sem óskað er eftir á umræddu umsóknareyðublaði, má telja geta samrýmst kröfum 7. gr. laga nr. 77/2000, enda má telja að þær hafi raunhæfa þýðingu við afgreiðslu umsókna um skólavist. Þá þarf umsækjendum hins vegar að vera frjálst að ákveða hvort þeir gefa um sig upplýsingar eða ekki, auk þess sem þeir þurfa að vita hvers vegna upplýsinganna er aflað. Þetta merkir að ekki má t.d. gera fyrirvara um hugsanlegan brottrekstur úr skóla séu upplýsingar ekki veittar, sem og að tilgangur upplýsingaöflunarinnar þarf að liggja fyrir. Í ljósi þessa má telja eðlilegast að upplýsinga sé aflað með þeim hætti að nemendur séu beðnir um að t.d. haka við tiltekna reiti á umsóknareyðublaði þar sem fram kemur hvort þeir óski sérstakrar þjónustu vegna lestrarerfiðleika, athyglisbrests eða veikinda, hvort sem þau eru líkamleg eða andleg.

 

 

 

 

Á k v ö r ð u n a r o r ð:

Menntaskólinn Hraðbraut skal breyta því eyðublaði, sem hann notar fyrir umsóknir um skólavist, í ljósi framangreindra sjónarmiða.

 

Reykjavík, 5. október 2007

 

 

Páll Hreinsson

stjórnarformaður

 

Valur Árnason                  Svana Helen Björnsdóttir

 

 

Haraldur Briem              Tryggvi Viggósson





Var efnið hjálplegt? Nei