Úrlausnir

Alþjóðafundur forstjóra í Montreal

10.10.2007

15. Alþjóðafundur forstjóra í Montreal

Á 29. alþjóðafundi forstjóra persónuverndarstofnana í Montreal voru samþykktar þrjár ályktanir sem verða kynntar á fundinum.

1. Ályktun um þróun alþjóðlegra staðla

1) Fundurinn lýsir yfir stuðningi við þróun skilvirkra og almennt viðurkenndra alþjóðastaðla sem tryggja einkalífsvernd og mun láta Alþjóðlegu staðlastofnuninni í té sérfræðiþekkingu til slíkrar þróunar

2) Fundurinn hvetur meðlimi sína til að taka virkari þátt í þróunarvinnu ISO í gegnum innlendar staðlastofnanir

3) Þar sem margir meðlimir búa við takmarkað fjármagn eru þeir hvattir til að taka til skoðunar hvernig best er að safna saman kunnáttu og sérfræðiþekkingu til þess að koma henni á framfæri ISO

4) Fundurinn hvetur meðlimi sína til þess að taka til skoðunar hvernig best er að samræma þá vinnu sem þeir leggja til staðlaþróunar til þess að ekki skapist ósamræmi

5) Fundurinn hvetur meðlimi sína til að taka til skoðunar hvaða leiðir eru færar til þess að koma á tengslum við ISO f.h. fundarins

6) Fundurinn hvetur meðlimi sína til að stuðla að þátttöku annarra aðila í þróunarvinnu ISO með virkum hætti (s.s. fræðimanna, frjálsra félagasamtaka og rannsóknarmiðstöðva) og hvetja þá til þátttöku í gengum innlendar staðlastofnanir.

 

2. Ályktun um alþjóðlega samvinnu

Forstjórar persónuverndarstofnana sem saman komu á 29. alþjóðafundinum:

1) Viðurkenna að ríki heims hafa farið ólíkar leiðir að því marki að vernda persónuupplýsingar og auka einkalífsvernd

2) Hvetja forstjóra persónuverndarstofnana til að vinna enn frekar að átaki til að styðja alþjóðlega samvinnu og vinna með alþjóðastofnunum til þess að styrkja persónuvernd á alþjóðagrundvelli

3) Fagna tilmælum OECD frá í júní 2007 um Samvinnu yfir landamæri til fullnustu einkalífslöggjafar og hvetja ríkisstjórnir sem eiga aðild að OECD til þess að koma tilmælunum í framkvæmd

4) Hvetja forstjóra til þess að halda áfram því verðmæta starfi sem felst í Lundúna-frumkvæðinu og styðja að stofnanir skiptist á upplýsingum um aðferði, regluverk og reynslu í því skyni að meta skilvirkni og árangur af starfsemi stofnana innalands og á alþjóðavettvangi.

 

3. Ályktun um brýna þörf á alþjóðlegum viðmiðum um vernd farþegaupplýsinga sem notaðar eru af ríkjum í þágu löggæslu og landamæraeftirlits

Fundurinn minnist

  • orðsendingar sem samþykkt var á 24. forstjórafundinum í Cardiff
  • ályktunar um flutning farþegaupplýsinga sem samþykkt var á 25. forstjórafundinum í Sydney
  • yfirlýsingar um vernd persónuupplýsinga og einkalífs í hnattvæddu umhverfi sem samþykkt var á 27. forstjórafundinum í Montreux

þar sem fram kemur að jafnvægi verði að ná í milli lögmætrar baráttu gegn hryðjuverkum og alþjóðlegum glæpum annars vegar og persónuverndar og einkalífsréttinda einstaklingsins hins vegar.

 

Fundurinn veitir því athygli að

  • ríki leita æ meira í farþegaupplýsingar í þágu baráttunnar gegn hryðjuverkum, ólöglegum innflytjendum og öðrum afbrotum án þess að taka nægilegt tillit til einkalífs- og mannréttinda farþeganna
  • af sumum farþegaupplýsingum er unnt að draga ályktanir um trúarskoðanir, uppruna og önnur viðkvæm málefni
  • ríkisstjórnir víða um heim fara í auknum mæli fram á meiri upplýsingar frá flugfélögum
  • flugfélög vinna persónuupplýsingar í viðskiptalegum tilgangi en eru bðin um að afhenda þær í þágu löggæslunnar
  • flugfélög þurfa í auknum mæli að mæta meiri og ólíkum kröfum um að afhenda upplýsingar og þurfa að haga afhendingunni í samræmi við mörg ólík kerfi, sem skapar óvissu hjá flugfélögum og farþegum um réttindi þeirra og skyldur, sem gerir farþegum erfitt að skilja hvernig upplýsingar um þá eru notaðar og skapar hættu á að flugfélög flytji upplýsingar í bága við reglur
  • þessar mörgu og ólíku kröfur og kerfi fela í sér kostnað fyrir bæði flugfélög og farþega
  • til þess að flugfélög geti mætt þessum kröfum þarf að gæta bæði lagalegs og tæknilegs samræmis
  • sum flugfélög upplýsa farþega sínna ekki enn með fullnægjandi hætti um notkun og miðlun upplýsinga um þá; og
  • aðrar hnattrænar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að auðvelda alþjóðlegar flugsamgöngur og það er brýn nauðsyn til þess að þróa hnattræna lausn sem auðveldar alþjóðsamgöngur en tekur jafnframt tillit til einkalífsréttinda farþega

 

Fundurinn áréttar að

  • persónuvernd og einkalífsréttindi, skv 12. gr. mannréttindayfirlýsingar SÞ og ákvæðum annarra mannréttindasamninga, vernda einstaklinga og persónuupplýsingar þeirra og verður að meta í samhengi við önnur réttindi þegar til skoðunar kemur að miðla og nota farþegaupplýsingar í þágu löggæslunnar
  • vinnsla persónuupplýsinga verður að fara fram innan ramma sem tekur mið af viðurkenndum meginreglum persónuverndar
  • allar fyrirætlanir ríkja um að nota farþegaupplýsinga ættu að
    • vera augljóslega nauðsynlegar til þess að taka á tilteknum vanda
    • vera augljóslega líklegar til þess að taka á þeim vanda
    • vera hóflegar sé tekið mið af öryggishagsmununum
    • ganga augljóslega skemur en aðrar leiðir sem skila sama árangir
  • þörfin á að tryggja einkalífsréttindi er mikilvægt verkefni, ekki einungis þeirra sem starfa innan hins alþjóðlega persónuverndarsamfélags, heldur einnig allra þeirra sem láta sig varða grundvallarréttindi og frelsi; og
  • ef ríki fara ekki leiðir sem taka tilhlýðilegt mið af persónuvernd og einkalífsréttindum, er raunveruleg hætta á að þau grafi undan þeim grundvallarréttindum sem þeim ber að tryggja

 

Í því skyni að sett verði alþjóðleg viðmið um vernd farþegaupplýsinga sem notaðar eru af ríkjum í þágu löggæslu og landamæraeftirlits hvetur fundurinn til þess að

·        alþjóðastofnanir (s.s. IATA og ICAO), stjórnvöld og flugfélög vinni með forstjórum persónuverndarstofnana að því að setja bindandi alþjóðleg viðmið þar sem tryggð er fullnægjandi vernd persónuupplýsinga

·        stjórnvöld meti hvort fyrirætlanir þeirra um notkun persónuupplýsinga 

    • eru augljóslega nauðsynlegar til þess að taka á tilteknum vanda
    • eru augljóslega líklegar til þess að taka á þeim vanda
    • eru hóflegar sé tekið mið af öryggishagsmununum
    • ganga augljóslega skemur en aðrar leiðir sem skila sama árangir
  • vinnslu persónuupplýsinga sé haldið í lágmarki þegar farþegaupplýsingar eru unnar í þessum tilgangi; skýrar takmarkanir séu settar á notkun þeirra, miðlun og varðveiðslu miðað við tilganginn; að tryggt sé að upplýsingarnar séu áreiðanlegar; að réttur til leiðréttingar og eyðingar sé tryggður; að vinnslan sé háð sjálfstæðu eftirliti;
  • að ávallt sé tekið mið af lagalegum, tæknilegum og fjárhagslegum álitaefnum, auk álitaefna um skilvirkni hjá bæði flugfélögum og stjórnvöldum
  • stjórnvöld tryggi gagnsæi um þann tilgang sem upplýsingarnar eru unnar í og tryggi að allir farþegar, óháð ríkisfangi þeirra eða upprunalandi, njóti upplýsingaréttar og hafi úrræði
  • flugfélög til að fræða farþega sína með fullnægjandi hætti um notkun og miðlun upplýsinga um þá til stjórnvalda og löggæslustofnana, um notkun svartra lista og annarra sértækra lista, og þær úrræði sem þeim eru fær varðandi notkun og áreiðanleika farþegaupplýsinga og tengdra persónuupplýsinga; og
  • forstjóra persónuverndarstofnana til að halda áfram samvinnu um að tryggja fullnægjandi vernd persónuupplýsinga og einkalífsréttindi og þrýsta á um að sett verði binandi alþjóðleg viðmið



 



Var efnið hjálplegt? Nei