Úrlausnir

Álit um Sjúkrasjóð Verslunarmannafélags Reykjavíkur

15.1.2009

Persónuvernd hefur svarað ósk um álit varðandi öflun Sjúkrasjóðs VR á heilsufarsupplýsingum við afgreiðslu umsókna um greiðslur úr sjóðnum.

Á l i t

Hinn 19. desember 2008 gaf stjórn Persónuverndar svohljóðandi álit í máli nr. 2008/711:

I.

Bréfaskipti

1.

Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta af tilefni erindis Heilbrigðisstofnunarinnar Hvammstanga, dags. 4. mars 2008, þar sem greint er frá samskiptum við Sjúkrasjóð Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR). Í bréfinu kemur fram að læknisvottorð, sem sent var sjóðnum svo að einstaklingur gæti fengið greiddar út bætur, var ekki talið fullnægjandi þar sem upplýsingar um sjúkdómsgreiningu og sjúkrasögu skorti. Þá segir að þegar viðkomandi einstaklingur hafi spurt um trúnaðarlækni sjóðsins hafi virst vera torsótt að fá samband við hann.

Með bréfi, dags. 7. apríl 2008, óskaði Persónuvernd tiltekinna skýringa frá VR af tilefni framangreinds erindis og vísaði í því sambandi til fyrri samskipta í tengslum við öflun VR á heilsufarsupplýsingum vegna greiðslna á bótum úr sjúkrasjóði. VR svaraði með bréfi, dags. 11. s.m., sem Heilbrigðisstofnuninni Hvammstanga var boðið að tjá sig um með bréfi Persónuverndar, dags. 14. maí 2008. Heilbrigðisstofnunin svaraði með bréfi, dags. 29. s.m.

[...]

2.

Í framangreindu bréfi VR til Persónuverndar, dags. 11. apríl 2008, sem og í bréfaskiptum við framangreindan lögmann, sem áttu sér stað í árslok 2005 og ársbyrjun 2006 (mál nr. 2005/570), hefur eftirfarandi komið fram um ástæður þess að óskað er læknisvottorða með frekari upplýsingum en um það eitt að viðkomandi einstaklingur hafi verið óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss:

Upplýsingar um sjúkdómsgreiningar og sjúkrasögu séu nauðsynlegar til að starfsmenn geti bent viðkomandi á réttindi sem hann kann að eiga, t.d. til að fá endurhæfingu (sbr. bréf frá lögmanninum til Persónuverndar, dags. 10. febrúar 2006).

Framangreindar upplýsingar séu nauðsynlegar þar sem styrkir miðist við tilteknar tegundir lækninga og annarrar aðstoðar, t.d. endurhæfingar, tannlækninga og sálfræðihjálpar (sbr. framangreint bréf lögmannsins).

Upplýsingar um tegund slyss séu nauðsynlegar til að leggja mat á hvort tjón vegna þess eigi að vera bætt úr ábyrgðartryggingu (sbr. framangreint bréf lögmannsins, sbr. og bréf VR til Persónuverndar, dags. 11. apríl 2008).

Með áðurnefndu bréfi Persónuverndar til VR, dags. 24. október 2008, óskaði stofnunin þess að félagið upplýsti hvort nægilegt geti talist, til að sjúkrasjóðurinn geti gegnt hlutverki sínu, að:

Einstaklingar, sem þangað sækja, veiti því aðeins upplýsingar um sjúkdómsgreiningar og sjúkrasögu að þeir óski þess sjálfir til að fá ráðgjöf um hvort þeir eigi rétt á sérstökum styrkjum vegna einstakra tegunda lækninga eða annarrar þjónustu. Að öðrum kosti komi upplýsingar um framangreinda þætti ekki fram í vottorði þeirra.

Upplýsingar um tegund slysa séu afmarkaðar á þann hátt að aðeins komi fram það sem nauðsynlegt er til að meta hvort bætur beri að greiða úr ábyrgðartryggingu. Væru umræddar upplýsingar þegar afmarkaður með slíkum hætti var þess óskað að fram kæmi hvernig það væri gert.

Eins og fyrr greinir svaraði VR með bréfi, dags. 29. október 2008. Þar segir:

„Eins og áður hefur komið fram í bréfaskiptum okkar á milli er Sjúkrasjóði VR nauðsynlegt að fá skýr læknisvottorð þar sem sjóðurinn greiðir sjúkra- og slysadagpeninga ef launatekjur falla niður sökum veikinda eða slysa en aðeins ef ekki komi dagpeningagreiðsla eða önnur greiðsla samkvæmt ábyrgðartryggingu fyrir sama tímabil frá öðrum aðila (TR eða tryggingafélagi). Reynslan hefur því miður sýnt að læknar hafa sent óskýr almenn læknisvottorð fyrir sjúklinga sem ekki áttu rétt á slysadagpeningum í sjúkrasjóði VR. Auk þess höfum við nú hafið aukna þjónustu við okkar skjólstæðinga með viðtölum og endurhæfingarúrræðum í því augnamiði að þeir komist fyrr aftur út á vinnumarkað og til að forða þeim frá örorkuskráningu ef einhver kostur er. Þessi vinna er unnin í samvinnu við Gunnar Kr. Guðmundsson endurhæfingarlækni og nýstofnaðan Endurhæfingarsjóð sem settur var á laggirnar í kjölfar síðustu kjarasamninga.

Þannig hefur nauðsyn á nákvæmum læknisvottorðum aukist ef eitthvað er. Okkur eru þó ljós sjónarmið Persónuverndar og viljum koma til móts við þau eins og við teljum okkur fært. Við viljum því svara spurningum ykkar með eftirfarandi tillögum að úrlausn:

Ef sjúklingur kýs svo, þarf Sjúkrasjóður VR ekki sjúkrasögu eða nákvæmar lýsingar á sjúkdómi heldur aðeins að sjúkdómskóði komi fram á vottorði, auk upplýsinga um hve lengi áætlað er að viðkomandi sé óvinnufær og hvort endurhæfing eða önnur úrræði Sjúkrasjóðs VR gætu komið honum að gagni.

Sjúkrasjóður VR getur sætt sig við þá tillögu Persónuverndar að upplýsingar um slys verði þannig afmarkaðar að aðeins komi fram það sem nauðsynlegt er til að meta hvort bætur beri að greiða úr ábyrgðartryggingu.

Varðandi framkvæmd þessa gætum við t.d. sett upp á heimasíðu VR eyðublað að læknisvottorði sem læknar gætu prentað út og fyllt út og stimplað fyrir sína sjúklinga ef sjúklingur kýs að skila ekki inn hefðbundnu sjúkradagpeningavottorði eins og óskað er eftir í dag. Ef Persónuvernd hefur tillögu að framkvæmd þá væri áhugavert að heyra það.

Vonandi getur þetta verið grunnur að sátt um þessi mál og viljum við leggja áherslu á það sjónarmið okkar að kröfur um upplýsingar eru eingöngu gerðar með hag og heilsu sjúklinganna í huga og hagsmuna eigenda sjóðsins sem eru allir félagsmenn VR."

II.

Niðurstaða

1.

Upplýsingar um heilsuhagi eru viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Svo að vinna megi með slíkar upplýsingar þarf að vera fullnægt einhverju af sérskilyrðum 9. gr. laganna fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Að auki þarf – sem endranær, þegar unnið er með persónuupplýsingar – að vera fullnægt einhverju hinna almennu skilyrða 8. gr. fyrir vinnslu slíkra upplýsinga.

Í 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna er mælt fyrir um að vinna megi með viðkvæmar persónuupplýsingar hjá samtökum sem ekki starfa í hagnaðarskyni, m.a. líknar- eða hugsjónasamtökum, enda sé vinnslan liður í lögmætri starfsemi samtakanna og taki aðeins til félagsmanna eða einstaklinga sem samkvæmt markmiðum samtakanna eru, eða hafa verið, í reglubundnum tengslum við þau; slíkum persónuupplýsingum megi þó ekki miðla áfram án samþykkis hins skráða. Þá segir í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna að vinna megi með persónuupplýsingar sé vinnslan nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna, enda vegi grundvallarréttindi og frelsi hins skráða ekki þyngra.

Auk þess má benda á 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. um heimild til vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli samþykkis. Sé um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar þarf ávallt að vera um að ræða samþykki í skilningi 7. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, þ.e. „sérstaka, ótvíræða yfirlýsingu sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv."

Ekki aðeins þarf vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga að vera heimil með stoð í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000. Einnig verður að vera fullnægt öllum grundvallarkröfum 1. mgr. 7. gr. Þar er m.a. mælt fyrir um að við vinnslu persónuupplýsinga skuli þess gætt að unnið sé með þær með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og á þann veg að öll meðferð þeirra samrýmist vönduðum vinnsluháttum persónuupplýsinga (1. tölul); að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og þær ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); og að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.).

Að auki verður að gæta að öryggi upplýsinganna, sbr. 11. gr. laga nr. 77/2000. Þar er m.a. mælt fyrir um að gera skuli viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir til að vernda persónuupplýsingar gegn ólöglegri eyðileggingu, gegn því að þær glatist eða breytist fyrir slysni og gegn óleyfilegum aðgangi (1. mgr.), sem og að beita skuli ráðstöfunum sem tryggja nægilegt öryggi miðað við áhættu af vinnslunni og eðli þeirra gagna sem verja á, með hliðsjón af nýjustu tækni og kostnaði við framkvæmd þeirra (2. mgr.).

Þegar um ræðir upplýsingar, sem stafa frá læknum, verður að líta til ákvæða 15. gr. læknalaga nr. 53/1988 um þagnarskyldu lækna. Í 1. mgr. 15. gr. segir að lækni beri að gæta fyllstu þagmælsku og hindra það að óviðkomandi fái upplýsingar um sjúkdóma eða önnur einkamál er hann kann að komast að sem læknir. Þagnarskyldan er ekki án undantekninga og má nefna að hún gildir ekki ef sjúklingur, sem orðinn er eldri en 16 ára, eða forráðamaður yngri sjúklings, hefur leyst lækni undan þagnarskyldunni, sbr. 3. mgr. 15. gr. læknalaga.

2.

Ef einstaklingur missir réttindi við það að veita ekki sjúkrasjóði stéttarfélags um sig tilteknar upplýsingar orkar það tvímælis að yfirlýsing hans um að veita megi upplýsingarnar feli í sér samþykki í skilningi framangreindra ákvæða laga nr. 77/2000 og læknalaga. Að því marki sem vinnsla upplýsinganna er nauðsynleg, sbr. framangreind ákvæði 7. gr. laga nr. 77/2000, til að sjúkrasjóður stéttarfélags geti gegnt hlutverki sínu má hins vegar telja vinnsluna heimila í ljósi framangreindra ákvæða 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. og 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna. Sé ekki unnið með frekari upplýsingar en nauðsyn krefur má og ætla að sjúkrasjóður stéttarfélagsins sé ekki óviðkomandi aðili í skilningi 1. mgr. 15. gr. læknalaga.

Fram hefur komið af hálfu VR, þ.e. í bréfi til Persónuverndar, dags. 29. október 2008, að félagið hyggst veita kost á að skila inn læknisvottorði þar sem ekki komi fram aðrar upplýsingar en númer sjúkdóms, auk upplýsinga um hve lengi viðkomandi sé óvinnufær og hvort endurhæfing eða önnur úrræði Sjúkrasjóðs VR geti komið honum að gagni. Þá hefur komið fram af hálfu VR að félagið hyggst afmarka ósk um upplýsingar um slys frekar en gert hefur verið þannig að tryggt sé að aðeins komi fram þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að meta hvort greiða skuli bætur úr ábyrgðartryggingu, en það hefði um leið í för með sér að réttur til greiðslna úr sjúkrasjóði VR félli niður. Telur VR unnt að gera þetta með þeim hætti að á heimasíðu félagsins megi finna eyðublað fyrir læknisvottorð sem læknar geti prentað út, fyllt út og stimplað fyrir sína sjúklinga kjósi þeir ekki að skila inn slíku vottorði sem nú er óskað eftir.

Samkvæmt gr. 2.1 í starfsreglum fyrir Sjúkrasjóð VR, sem að stofni til eru frá 24. september 1979 en hefur verið breytt alloft síðan, eru sjúkradagpeningar greiddir í að hámarki 810 daga. Segir að hvert samfellt greiðslutímabil sé 270 dagar á hverju tólf mánaða tímabili. Í gr. 2.3 segir að dagpeningar greiðist frá þeim tíma er samningsbundinni kaupgreiðslu ljúki frá vinnuveitanda, enda sé viðkomandi óvinnufær í a.m.k. tólf daga. Stafi sjúkdómur af ofneyslu áfengis eða vímuefna megi þó stytta þetta tímabil í tíu daga. Samkvæmt gr. 2.6 er heimilt að greiða hluta dagpeninga ef sjóðfélagi getur ekki vegna sjúkdóms eða slyss stundað fulla vinnu.

Í gr. 4.4 segir um slysabætur að þær greiðist ekki ef bætur komi annars staðar frá vegna lögbundinna ábyrgðartrygginga, sbr. XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987. Þá segir í gr. 4.5 að bætur greiðist ekki ef slys eða óvinnufærni megi rekja til ásetnings, ölvunar eða stórkostlegs gáleysis.

Mælt er fyrir um það í gr. 5.3 að heimilt sé að greiða styrk, sem svari til sjúkradagpeninga, í alls 120 daga vegna sjúkdóms sem stafar af ofneyslu áfengis eða annarra vímuefna. Þá segir í g. 5.4 að Sjúkrasjóður VR greiði styrk til félagsmanna vegna líf-, slysa- og sjúkdómsatrygginga, tannlækninga, sálfræðihjálpar, líkamsræktar og endurhæfingar og kostnað vegna hjálpartækja, s.s. gleraugna og heyrnartækja.

Þegar litið er til framangreindra ákvæðna starfsreglna fyrir Sjúkrasjóð VR má telja þær upplýsingar, sem VR telur nauðsynlegt að afla samkvæmt áðurnefndu bréfi, dags. 29. október 2008, geta fallið innan þeirra ákvæði 9. og 8. gr. laga nr. 77/2000 sem fyrr eru rakin. Þá má telja öflun upplýsinganna, í samræmi við það sem greinir í bréfinu, geta samrýmst ákvæðum 7. gr. sömu laga.

Persónuvernd gerir því ekki athugasemdir við öflun Sjúkrasjóðs VR á upplýsingum um þá sem sækja um greiðslur úr Sjúkrasjóði félagsins, enda sé við upplýsingaöflunina farið að því sem fram kemur í fyrrnefndu bréfi VR til stofnunarinnar. Þá eru ekki gerðar athugasemdir við það vinnulag, sem gerð er tillaga að í bréfinu, að á heimasíðu VR sé sett eyðublað að læknisvottorði sem læknar geti prentað út og fyllt út og stimplað fyrir sjúkling kjósi hann að skila ekki inn sjúkradagpeniningavottorði eins og því sem nú er óskað eftir.

Hins vegar er lögð áhersla á að veitt sé skýr fræðsla um hvaða upplýsingar nauðsynlegt sé að veita til að fá umsókn um styrk úr Sjúkrasjóði VR afgreidda að fullu. Það að þær upplýsingar séu alla jafna nægilegar, sem tilgreindar eru í bréfi VR, dags. 29. október 2008, ætti því að koma glögglega fram á umsóknareyðublaði um styrk eða með öðrum skýrum hætti gagnvart umsækjanda, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 20. gr. og 3. tölul. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 77/2000 um að fræða beri hinn skráða um atriði sem honum er nauðsynleg vitneskja um til að geta gætt hagsmuna sinna í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga.

Einnig verður að gæta að öryggi upplýsinganna, sbr. 11. gr. laga nr. 77/2000, eins og vikið er að í 1. kafla hér að framan. Í því felst m.a. að ekki eiga aðrir að hafa aðgang að upplýsingum en þess nauðsynlega þurfa, sbr. og fyrrgreind ákvæði 7. gr. laga nr. 77/2000. Í ljósi þess getur m.a. verið nauðsynlegt að aðgangur að tilteknum upplýsingum sé afmarkaður við trúnaðarlækni Sjúkrasjóðs VR. Slíkt kann að vera eðlilegt þegar um ræðir upplýsingar sem eru umfram það sem greinir í bréfi VR til Persónuverndar, dags. 29. október 2008.

Tekið skal fram að ekki ber að líta á bréf þetta sem endanlega niðurstöðu Persónuverndar um það hvort í einstökum tilvikum sá farið að lögum og reglum við öflun og aðra vinnslu Sjúkrasjóðs VR á upplýsingum um umsækjendur um styrki úr sjóðnum. Berist stofnuninni kvartanir vegna slíkrar upplýsingavinnslu verða þær því teknar til meðferðar með sjálfstæðum hætti.

3.

Samantekt

Á vottorðum, sem umsækjendur um greiðslur úr Sjúkrasjóðri VR afhenda sjóðnum, skulu ekki koma fram aðrar upplýsingar um sjúkdóma eða slys en nauðsynlegar eru. Persónuvernd gerir, eins og á stendur, ekki athugasemdir við að sjóðurinn biðji umsækjendur um greiðslur úr sjóðnum um vottorð þar sem fram komi sjúkdómskóði, auk upplýsinga um hve lengi áætlað sé að viðkomandi sé óvinnufær og hvort endurhæfing eða önnur úrræði sjóðsins geti komið honum að gagni. Þá gerir stofnunin ekki athugasemdir við það vinnulag að á heimasíðu VR sé sett eyðublað að læknisvottorði sem læknar geti prentað út og fyllt út og stimplað fyrir sjúkling. Lögð er áhersla á að veitt sé fræðsla um hvaða upplýsingar nauðsynlegt sé að veita í samræmi við 20. og 21. gr. laga nr. 77/2000. Þá er lögð áhersla á að gætt sé að öryggi persónuupplýsinga sem aflað er, sbr. 11. gr. laganna.






Í Persónuvernd, 19. desember 2008





Var efnið hjálplegt? Nei